6. norræna ráðstefnan í sjónráðgjöf var haldin í Lundi í Svíþjóð dagana 13.-15. maí 2009. Rannveig Traustadóttir og Guðbjörg Árnadóttir frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga tóku þátt í ráðstefnunni fyrir Íslands hönd með styrk frá Blindrafélaginu. Ráðstefnuna sóttu ráðgjafar barna og fullorðinna frá Norðurlöndunum, alls 173 ráðgjafar.

Markmið með þátttöku í ráðstefnunni var að viðhalda og bæta þekkingu á starfssviði stofnunarinnar, treysta samstarf og byggja upp og viðhalda tengslum við sérfræðinga á annars staðar á Norðurlöndunum.

Fjölmargir fyrirlestrar voru haldnir auk þess sem vinnusmiðjur voru starfræktar og hjálpartæki kynnt.
Fjallað var um stöðu blindra og sjónskertra í skólum og á vinnumarkaði og voru nokkrir blindir og sjónskertir einstaklingar meðal fyrirlesara. Norðurlöndin standa vel að vígi í sambandi við hæfingu og endurhæfingu og stöðugt er unnið að áhugaverðum þróunarverkefnum í öllum löndunum. Nokkur þeirra voru kynnt á ráðstefnunni. Sagt var frá SEnior-verkefninu sem verið er að þýða yfir á íslensku með þátttöku Blindrafélagsins, Blindravinafélagsins og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.

Mynd af nýrri útgáfu af stækkunartæki með færanlegum armi

Ný útgáfa af stækkunartæki með færanlegum armi