Dagana 31. maí til 3. júní komu hingað til lands fulltrúar frá danska fyrirtækinu Robobraille. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu punktaleturs í gegnum tölvupóst og var íslensku bætt við þjónustu þeirra á meðan á heimsókninni stóð. Þar eru þegar fyrir enska, danska, norska, þýska, portúgalska, gríska, pólska, og ítalska en franska, spænska og arabíska eru á leiðinni.

Robobraille er fyrirtæki sem vakið hefur mikla athygli og fengið fjölmargar viðurkenningar víða um heim, nú síðast bresku BETT-verðlaunin sem veitt eru fyrir bestu nýung í stafrænum lausnum fyrir menntageirann. Hægt er að lesa meira um verðlaunin á síðunni http://www.bettawards.com en þetta eru einungis þau nýjustu af fjölmörgum verðlaunum sem fyrirtækið hefur hlotið.

Aðalþjónusta fyrirtækisins gengur í raun út á að skjal sem prenta þarf á punktaletri er sent sem viðhengi við tölvupóst á netfangið IceBraille6@robobraille.org

Í subject-línu póstsins er skrifað pef, pappírshæð og breidd, og stafurinn p ef blaðsíðutal skal vera á prentun og d ef prenta á báðum megin á síðu. T.d. myndi pef2929pd prenta báðum megin með blaðsíðutali á IndexBraille-prentara.

Hjá Robobraille er skjalið sett í gegnum sjálfvirkt ferli sem breytir því í .pef-skjal. Pef stendur fyrir Portable Embosser Format og er eins konar pdf-skjal fyrir punktaletur, þ.e.a.s. hægt er að prenta það út á hvaða prentara sem er án tillits til á hvaða tungumál hann er stilltur.

Skjalið er svo sent til baka til notandans, yfirleitt innan mínútu, og svo er hægt að prenta skjalið út með pínulitlu forriti sem opnast þegar smellt er á skjalið (að sjálfsögðu þarf að setja forritið upp í fyrsta skipti og stilla 4 hluti þ.e.a.s. pappírsstærð, prentara, character set á prentara og hvar hann er staðsettur).

Eftir fyrsta skiptið er þetta hins vegar þannig að smellt er á .pef-skrána og hún prentuð.

Því geta nemendur og kennarar með aðgang að prentara nú sjálfir séð um að prenta út skjöl og annað en þurfa ekki að setjast yfir flóknar leiðbeiningar eða senda skjalið til Miðstöðvarinnar til prentunar og því getur nemandi fengið efnið nær samstundis í hendur.

Þjónustan er ókeypis þeim sem ekki eru að framleiða bækur til sölu og fellur vel að markmiðum okkar að auka sjálfstæði og möguleika nemenda og annarra punktaletursnotenda.

Robobraille býður einnig upp á svipað fyrirkomulag hvað hljóðskrár varðar, þ.e.a.s. hægt er að senda inn póst með viðhengdu skjali til lestrar. Skjalið er svo lesið af talþjónum Robobraille og til baka er sendur hlekkur á hljóðskrána sem notandi getur svo náð í þegar honum hentar.

Hins vegar verður þetta ekki hægt fyrir íslensku fyrr enn nýr talþjónn með betri gæðum kemst í gagnið en við vonumst til að slíkt gerist bráðlega.

Robobraille-menn kynntu einnig lausnir sem smíðaðar hafa verið fyrir prentun flóknara efnis, til dæmis námsbóka, stærðfræðihefta og annarra verka sem krefjast mikillar uppsetningarvinnu og nákvæmni. Þær byggjast allar á því að skjöl séu geymd sem Daisy-skjöl en þá er hægt að smíða punktaletursprentun, hljóðbók, stækkun og annað úr sama skjalinu.

T.d. gæti Daisy-skjal nýst lesblindum með hljóðlestri ásamt því að svæðið sem verið er að lesa lýsist upp á tölvuskjánum.

Við munum leggjast í að skoða hversu vel þessi lausn hentar íslenskum aðstæðum en nágrannaþjóðir okkar eru farnar að vinna nær allt sitt námsefni á þennan hátt með góðum árangri og við sjáum marga nýja möguleika í að taka upp þessa leið.

Nánari leiðbeiningar um notkun Robobraille má finna á heimasíðu okkar í náinni framtíð.

Lesa má allt um Robobraille á síðunni http://www.robobraille.org