Snillinganámskeið

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir Snillinganámskeið hér á Miðstöðinni og þriðjudaginn 5. desember var haldið upp á útskrift Snillinganna með pizzaveislu og afhendingu viðurkenningarskjala.

Snillinganámskeiðið er upprunalega búið til af starfsmönnum Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar og er hugsað sem þjálfun í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli barna með ADHD. Áhersla er lögð á að auka færni barna í félagslegum samskiptum, tilfinningastjórn, sjálfsstjórn og að bæta athyglisgetu þeirra og skipulagsfærni. Þær Kristjana Ólafsdóttir og María Hildiþórsdóttir, kennsluráðgjafar hjá Miðstöðinni, hafa aðlagað bæði námskeiðið og námsefnið til að það henti sjónskertum börnum og var þetta fyrsta Snillinganámskeiðið sem haldið er á Miðstöðinni.

Bæði þátttakendurnir og foreldrar þeirra voru ánægðir með námskeiðið og telja foreldrarnir að börnin hafi öðlast aukna færni, meira sjálfstraust og kynnst nýjum hugmyndum.

Hér fyrir neðan er mynd af Snillingunum og þjálfurunum þeirra.