Leiðsöguhundur veitir frelsi – Viðtal við Lilju Sveinsdóttur í Morgunblaðinu

Lilja Sveinsdóttir, formaður leiðsöguhundadeildar Blindrafélagsins, var í viðtali við Morgunblaðið þann 5. janúar síðastliðinn. Þar ræðir hún mikilvægi leiðsöguhunda, lýsir því hvernig leiðsöguhundar vinna og segir frá hundinum sínum honum Oliver.

Hér má sjá mynd af greininni og þar fyrir neðan er textinn í heild sinni.


 Leiðsöguhundur veitir frelsi
• Fimm leiðsöguhundar eru starfandi hér á landi

„Að vera með leiðsöguhund er frelsi,“ segir Lilja Sveinsdóttir, formaður leiðsöguhundadeildar Blindrafélagsins. Lilja fékk sinn fyrsta leiðsöguhund, tíkina Asitu, árið 2008 en fyrir þremur árum settist Asita í helgan stein og þá fékk Lilja rakkann Oliver. Hún segir hundana hafa breytt lífi sínu.
„Það fylgir mikið frelsi því að vera með leiðsöguhund. Frelsi til að geta farið í strætó og ferðast um eða að fara ein út í búð. Ég geng líka hraðar með hund en bara með staf og þá fæ ég almennilega hreyfingu,“ segir Lilja. „Ég þarf að treysta á hundinn. Þegar ég fer út að labba hverfa oft kennileitin og ég sé ekkert í myrkri en hundurinn stoppar alltaf á gatnamótum. Maður þarf samt alltaf að hafa bæði stafinn og hundinn, þeir tveir vinna vel saman. Núna þegar það er snjór yfir hverfa allar gangstéttabrúnir en Oliver stoppar við kanta og gætir þess að ég gangi ekki út af. Ef það er skurður eða einhverjar breytingar á umhverfinu, t.d trjágreinar sem slúta yfir göngustíginn, þá taka hundarnir sveig framhjá greininni eða öðru sem er á gönguleiðinni. Leiðsöguhundar eru þjálfaðir til að vera 2 metrar á hæð og 1,5 m á breidd, að það sé pláss fyrir þá og manneskju við hlið þeirra. Hundurinn er alltaf vinstra megin við mig og ég held í beislið á ákveðinn máta og líka með tauminn á milli fingranna.“

Smullu saman
Fimm leiðsöguhundar eru nú hér á landi, þrír þeirra eru fæddir og þjálfaðir á Íslandi en tveir, m.a. Oliver, komu frá Svíþjóð fyrir þremur árum síðan. Leiðsöguhundarnir hafa mest verið sjö hér á landi, langflestir Labradorar en líka Golden retriever. Lilja segir Schaefer-hunda og Kónga-poodle einnig hafa verið þjálfaða sem leiðsöguhunda erlendis. „Það geta ekki allir hundar orðið leiðsöguhundar. Það er byrjað að þjálfa þá sem hvolpa og kannski af tíu hunda hópi enda aðeins þrír sem leiðsöguhundar. Það er stundum talað um að leiðsöguhundar séu rjóminn af rjómanum því ef þeir standast ekki leiðsöguhundaprófið þá fara þeir til björgunarsveitanna eða lögreglunnar, a.m.k erlendis.“
Lilja segir góða leiðsöguhunda þurfa að vera með gott innsæi. Þá séu hundar valdir með það í huga að skapgerð þeirra og manneskjunnar passi saman. „Ég var skoðuð fyrst og hundurinn valinn í kjölfarið og það small í bæði skiptin hjá mér.“

MÁ EKKI TRUFLA LEIÐSÖGUHUND Í VINNUNNI
„Hann er augun mín“

Lilja segir skemmtilegast við Oliver hvað hann er fjörugur. „Þegar leiðsöguhundur er í vinnubeislinu er hann í vinnunni og má hvorki klappa honum né trufla á annan hátt. Þegar beislið er tekið af honum er hann eins og hver annar hundur,“ segir Lilja og það er eins og Oliver viti að verið er að tala um hann því hann sperrir sig allan og dillar rófunni. Lilja tekur af honum beislið og þá breytist
ásjóna hans strax, hann fer úr því að vera yfirvegaður og hljóður við hlið eiganda síns í að heilsa upp á fólk.
Lilju hefur einu sinni verið vikið út af veitingastað með leiðsöguhund. „Ég fór þá á annan og spurði hvort ég mætti koma inn með hundinn og þá sagði starfsmaðurinn; „Ekki fer ég að taka af þér hjólastólinn“. Ég hafði aldrei litið á hann í því samhengi, því að sjálfsögðu er hann hjólastóllinn minn, hann er augun mín.“

Myndatexti: Félagar – Lilja Sveinsdóttir segir Oliver vera mikilvægan hluta af lífi sínu, hann veiti henni frelsi til að ferðast og þá sé hann líka skemmtilegur félagsskapur. Lilja er formaður leiðsöguhundadeildar Blindrafélagsins.
Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is

Hér er líka tengill á útdrátt úr viðtalinu sem birtist á mbl.is: Leiðsöguhundur veitir frelsi – mbl.is