Nýskipaður félagsmálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, heimsækir Þjónustu- og þekkingar-miðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga í dag, 4. febrúar, og opnar nýja og glæsilega heimasíðu miðstöðvarinnar, www.midstod.is. Þar má finna allar upplýsingar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er til húsa að Hamrahlíð 17, í húsnæði Blindrafélags Íslands.
Þann 18. desember síðastliðinn samþykkti Alþingi Íslands lög um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, sem heyrir undir félags- og tryggingamálaráðuneytið, og tóku þau gildi 1. janúar 2009. Starfsemi Sjónstöðvar Íslands færðist  til nýju miðstöðvarinnar og um leið breyttust áherslur í hugmyndafræði, þjónustu og verklagi. Á miðstöðinni starfa sérfræðingar á ýmsum sviðum til þess að veita blindum, sjónskertum og daufblindum einstaklingum margvíslega þjónustu.
Undirbúningur vegna þessa hefur staðið yfir undanfarið ár og er ýmislegt sem tengist þessum breytingum þegar komið til framkvæmda, eins og fjölgun starfsmanna og þróun hugmyndafræði og verklags. Markmið starfseminnar er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku.