Nú er kominn út námskeiðvísir fyrir árið 2010 frá NVC Danmark, (áður NUD).  NVC Danmark er dótturstofnun Nordens Velfærdscenter og hlutverk þess er að vinna að menntunarmálum starfsfólks sem vinnur með einstaklingum með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu (daufblindu) á Norðurlöndunum. Nordens  Velfærdsenter er ein af stofnunum norrænu ráðherranefndarinnar.

Öll námskeið á NUD eru túlkuð á íslensku og hefur norræna ráðherranefndin að undanförnu veitt ferðastyrki sem nægt hafa fyrir öllu frá Keflavík til Álaborgar.  NUD sér einnig um að koma þátttakendum á áfangastað í Dronninglund Slot rétt fyrir utan Álaborg.  Allt fæði og gisting er innifalin í námskeiðsgjöldum. 

Eldra fólk með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu
PO Edberg frá Svíþjóð leiðir námskeið um eldra fólk með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu. Hann, ásamt Ole E Mortensen frá dönsku Þekkingarmiðstöðinni fyrir síðdaufblindu, munu fjalla um það sem helst er að gerast á þessum vettvangi. 

Markhópur: ráðgjafar í öldrunarþjónustu, þeir sem stjórna og skipuleggja starf í sveitarfélögum og starfsfólk í starfi með einstaklingum með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu.

Markmið námskeiðsins eru meðal annars að skoða:

  • hvernig hópurinn er skilgreindur
  • hver er fjöldi einstaklinganna
  • hverjar eru sértækar þarfir þessa hóps
  • leiðir til að koma auga á skerðinguna
  • hver er líðan fólks
  • hvernig er hægt að koma til móts við þarfir einstaklinganna.

Heildaráhrif á lífið;  það að lifa og starfa með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu með áherslu á síðdaufblindu

Þessu námskeiði stýrir Tove Geert Larsen, sem starfaði áður sem sálfræðingur á Miðstöð fyrir heyrnarlausa, og hefur langa reynslu af starfi með einstaklingum með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu.

Markhópur: starfmenn í beinni þjónustu við einstaklinga með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu.

Markmið námskeiðsins er að fjalla um hugmyndafræði í þjónustu með einstaklingum með samsetta sjón- og heyrnarskerðingu þar sem aðaláherslan er lögð á heildarsýn á einstaklinginn, þarfir hans og óskir. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á sálræn, félagsleg og uppeldisleg sjónarmið sem þarf að hafa í huga í starfi með einstaklingum með daufblindu. Ræddar verða aðferðir sem eru einkennandi fyrir góða hæfingu og endurhæfingu.
Námskeiðið inniheldur:
 

  • Lífsaðlögunarferlið og endurhæfing – fræðilegt sjónarhorn (þar er átt við þá stöðugu aðlögun sem einstaklingar með daufblindu þurfa að venjast vegna breytinga sem verða á sjón og/eða heyrn. Þetta kallar á reglubundna endurskoðun á lífi fólk, tækifærum og þörfum fyrir aðstoð og hjálpartæki).
  • Persónuleg framtíðarskipulagning – Þar sem gerðar eru langtímaáætlanir varðandi menntun, vinnu og iðju.
  • Samskiptaleiðir sem byggja á snertingu.
  • Persónuleg reynsla fólks af því að lifa með samsetta sjón-og heyrnarskerðingu.
  • Sálrænar afleiðingar af því að hafa samsetta sjón- og heyrnarskerðingu.
  • Daufblinda og streita.
  • Tölvutækni og hjálpartæki.

Önnur námskeið á vorönn eru um ögrandi athafnir með einstaklingum með meðfædda daufblindu og námskeið um snertisamskiptaleiðir.

Unnt er að lesa meira um námskeiðin á NVCs kursuskatalog og skrá sig á heimasíðu NVC

Allar nánari upplýsingar gefur Guðný Einarsdóttir starfsmaður á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskert og daufblinda. Netfang: gudny@midstod.is