Dagana 18-20. maí síðastliðinn fóru 4 einstaklingar á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar til Noregs til að fylgjast með námskeiði í punktaletursnótum. Tilgangur ferðarinnar var til að kynna sér nánar punktaletursnótur, gerð námsefnis á punktaletursnótum, kennsluaðferðir o.fl.

Hugmyndin að ferðinni kom til eftir að Hlynur Þór Agnarsson, nemandi við tónlistarskóla F.Í.H. gerði rannsókn á tónlistarkennslu fyrir blinda og sjónskerta á Íslandi. Þar kom fram að notkun á punktaletursnótum hérlendis var engin sem og sérþekking á efninu. Hins vegar var mikill áhugi til staðar meðal fólks að læra að nýta sér punktaletursnótur og var því stefnt að því að auka þekkingu á þessu efni hérlendis.

Þeir sem fóru í þessa ferð voru þeir Eyþór Þrastarson og Hlynur Þór Agnarsson auk Ásdísar Þórðardóttur og Ingunnar Hallgrímsdóttur frá Miðstöðinni. Náðu þau öll að auka við þekkingu sína á efninu og munu Eyþór og Hlynur vinna að því í sumar að skipuleggja námskeið í punktaletursnótum, bæði fyrir nemendur og kennara.