Þjónustu-  og  þekkingarmiðstöð  fyrir  blinda,  sjónskerta  og  daufblinda  einstaklinga  mun  úthluta  leiðsöguhundi  á  komandi  hausti. Leiðsöguhundar aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt og er leiðsöguhundur skilgreindur sem hjálpartæki.

Miðstöðin hefur það hlutverk að úthluta leiðsöguhundum samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja.  Miðstöðin hefur sett af stað verkefni til að kaupa og þjálfa leiðsöguhunda á Íslandi og ráðinn hefur verið hundaþjálfari til verkefnisins.

Samkvæmt reglugerðinni um úthlutanir hjálpartækja, auglýsir Miðstöðin úthlutun leiðsöguhunda fyrir hvert ár í senn. Þá fylla umsækjendur út eyðublað sem fer til nefndar sem metur hvort viðkomandi uppfylli öll skilyrði til að sækja námskeið um leiðsöguhunda og fara í formlegt mat á hæfni og pörun við hund.

Áður en umsækjandi er paraður saman við hund er farið í gegnum umfangsmikið mats- og kynningarferli þar sem þarfir einstaklingsins eru betur skilgreindar og endanlegt mat er lagt á getu hans til að fullnýta leiðsöguhund og mæta þörfum hundsins. Í þessu ferli kynnist umsækjandinn líka betur hvað felst í því að halda og nýta leiðsöguhund. Endanleg ákvörðun um það hvort einstaklingur fái, eða vilji þiggja, leiðsöguhund er því ekki tekin fyrr en mats- og kynningarferli lýkur. Þegar sótt er um leiðsöguhund þarf notandinn ekki endilega að vera búinn að taka lokaákvörðun um hvort hann vilji fá leiðsöguhund. Með umsókn er einfaldlega verið að opna fyrir möguleikann á því að fara í umfangsmikið könnunar- og kynningarferli. Á þessu stigi sækja umsækjendur kynningarnámskeið með hundaþjálfara með fullri viðveru í u.þ.b. eina viku. Komi í ljós að umsækjandi hafi vilja og getu til að nýta sér leiðsöguhund er næsta skref að para saman mann og hund.

Eiginleikar, þarfir og skapgerð leiðsöguhunda er ólík á milli hunda, rétt eins og eiginleikar fólksins sem notar þá eru ólíkir. Áður en hundur er valinn og formleg þjálfun með notanda og leiðsöguhundi hefst er mikilvægt að para saman hund og mann. Til þess að geta valið rétta hundinn fyrir hvern og einn umsækjanda er mikilvægt að hundaþjálfarar kynnist væntanlegum notendum vel, hvað varðar meðal annars líkamsstyrk, gönguhraða, skapgerð og heimilisaðstæður. Í framhaldi af því hefst svo þjálfun með hundinum á heimagrundu notandans. Sú þjálfun á sér stað með hundaþjálfaranum og er í fyrstu töluvert umfangsmikil. Að henni lokinni fer notandinn að nýta leiðsögn hundsins í umferli daglegs lífs. Hundaþjálfari heimsækir notendur síðan einu sinni til tvisvar á ári til að meta árangur og veita frekari leiðsögn og endurþjálfun eftir þörfum.

Finna  má  nánari  upplýsingar  um  umsóknarferli  og  umsóknareyðublöð  á  skrifstofu  Miðstöðvarinnar  í  Hamrahlíð  17  og  á  heimasíðunni  www.midstod.is
Úthlutun  leiðsöguhunda  fer  fram  samkvæmt  reglugerð  um  hjálpartæki  sem  má  finna  á  www.midstod.is. Einnig  veita  starfsmenn  Miðstöðvarinnar  aðstoð  og  upplýsingar  um  umsóknarferli  og  aðstoð  við  útfyllingu  umsóknareyðublaða,  sé  þess  óskað. 

Umsókn  um  leiðsöguhund  skal  berast  til  Miðstöðvarinnar  fyrir  10.  september  2012. 

Umsóknir  skulu  merktar  Miðstöðinni,  Hamrahlíð  17,  105  Reykjavík  eða  sendar  með  tölvupósti  á  ragnar@midstod.is 

null