Norræn keppni um sjálfstætt líf er á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar og fimm Norrænna höfuðborga, Reykjavíkur, Oslóar, Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Helsinki. Leitað er að samstarfsaðila til að koma á nýrri tegund samstarfs og skipulagningu er varðar lausnir í velferðarþjónustu.  

Markmið keppninnar er að þróa nýjar tæknilausnir sem geta hjálpað öldruðu og fötluðu fólki til þess að lifa sjálfstæðu lífi, þannig að það sé síður háð kostnaðarsamri opinberri þjónustu.

Reykjavíkurborg leitar eftir samstarfi við einkafyrirtæki, sprotafyrirtæki, rannsóknastofnanir, námsmenn, heilbrigðisstarfsmenn innan sveitarfélaga sem utan og við áhugasama einstaklinga. Markmiðið er að veita brautargengi hugmyndum sem byggja á nýsköpun í þjónustu  við aldraða og fatlað fólk og tæknin geti á eigin forsendum veitt þeim betri lífsgæði.

 

Markmið að auka lífsgæði fatlaðs fólks og aldraðra

Íbúar Norðurlandanna eru að eldast og eftirspurn eftir lausnum fyrir aldraða og fatlað fólk er að aukast.  Keppninni er ætlað að auka lífsgæði fatlaðs fólks og aldraðra á sama tíma og umönnun ættingja og fagaðila verður einfaldari. Keppnin endurspeglar norræn gildi og saman vinna borgirnar að því að leita lausna sem auka jafnræði meðal íbúa.

Keppnin er liður í því að þróa lausnir sem gagnast Norræna velferðarkerfinu en hún er jafnframt tækifæri til þverfaglegrar vinnu milli frumkvöðla á Norðurlöndunum.
 
Fyrstu verðlaun er 1 milljón norska króna eða tæplega 17 milljónir íslenskra króna.  Auk aðalverðlauna verða veitt sérstök verðlaun fyrir þverfaglega norræna samvinnu og námsmannaviðurkenning.
 
Hægt er að senda inn hugmyndir til 15. mars, á http://www.realchallenge.info/
 
Kynntu þér keppnina nánar á heimasíðu Reykjavíkurborgar,  http://reykjavik.is/norraen-verdlaunasamkeppni-um-sjalfstaett-lif.