Kynna punktaletur í grunnskólum borgarinnar

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð hefur staðið fyrir kynningum á punktaletri í grunnskólum í Reykjavík undanfarnar vikur. Hver skóli fær afhent eintak af bókinni Bé tveir eftir Sigrúnu Eldjárn á punktaletri en bókin var notuð í verkefnið með góðfúslegu leyfi höfundarins. Þá hefur skólum verið boðið að fulltrúar frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð komi í heimsókn og haldi kynningu í einum bekk, yfirleitt hjá nemendum í þriðja eða fjórða bekk.

Nú þegar hafa nokkrir skólar verið heimsóttir og er áætlað að skólar utan borgarinnar verið heimsóttir síðar, að sögn Oddbergs Eiríkssonar, sérfræðings í gerð lesefnis hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð. Tilgangurinn með verkefninu er að kynna punktaletur og fræða börnin um blindu og sjónskerðingu.  

 „Við útskýrum hvernig punktaletur er uppbyggt og afhendum bókina Bé tveir á punktaletri. Þá fá krakkarnir að skrifa nafnið sitt með punktaletursritvél og eiga,“ segir Oddbergur. Hann segir krakkana hafa tekið þeim vel og þau séu áhugasöm og yfirleitt fljót að læra að nota punktaletursritvélina. Sum þeirra vita töluvert um blindu og sjónskerðingu, einhver þeirra hafa séð fólk á förnum vegi með leiðsöguhunda og önnur hafa séð punktaletur á ýmsum stöðum eins og í lyftum og á lyfjaglösum.

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og þau spyrja flottra spurninga. Krakkarnir spá til dæmis mikið í hvernig blindir og sjónskertir gera hlutina og umræðurnar verða yfirleitt mjög góðar,“ segir Oddbergur að lokum.