Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
14. apríl 2016

Heimasíða Teach CVI í loftið 

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð hefur hleypt af stokkunum nýrri heimasíðu Evrópuverkefnisins Teach CVI, en á henni má finna ýmis konar upplýsingar um heilatengda sjónskerðingu (CVI) hjá börnum, bæði fyrir fagfólk og almenning. Teach CVI er samvinnuverkefni fagfólks frá nokkrum Evrópulöndum sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöð stýrir. Verkefnið miðar að því að fagfólk með sérþekkingu á heilatengdri sjónskerðingu hjá börnum, vinni saman að þróun fræðslu- og kennsluefnis og matstækja.

Á heimasíðunni má finna allar helstu upplýsingar um verkefnið og framvindu þess, en einnig eru þar ýmsar greinar um heilatengda sjónskerðingu hjá börnum m.a. á sviði læknisfræði og kennslufræða. Síðuna smíðuðu þær Helga Björg Ragnarsdóttir, sérfræðingur í gerð lesefnis á Miðstöð og Bryndís Sveinsdóttir sálfræðingur á Miðstöð.  

Fagfólk frá nokkrum Evrópulöndum

Hér á landi koma tvær stofnanir að verkefninu, Miðstöðin og Greiningar- og ráðgjafamiðstöð ríkisins. Elfa Hermannsdóttir, þjónustustjóri Miðstöðvar og Dr. Roxana Cziker, sérfræðingur í greiningu sjónskerðingar hjá börnum, eru fulltrúar Miðstöðvar í verkefninu og leiða verkefnið og Solveig Sigurðardóttir barnalæknir tekur þátt fyrir hönd Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins.

Erlendir samstarfsaðilar eru: Háskólinn í Leuven í Belgíu, Positive Eye sem er breskt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjálfun fagfólks sem starfar með blindum og sjónskertum börnum, Blindvision sem er írskur skóli fyrir blind og sjónskert börn, Konunglegi blindraskólinn í Edinborg í Skotlandi og sænsk ríkisstofnun, Specialpedagogiska skolmyndigheten, sem sinnir börnum með fötlun.  

Samstarf fagstétta mikilvægt  

Helsta markmiðið með verkefninu er að búa til matstæki fyrir fagfólk til greiningar á heilatengdri sjónskerðingu hjá börnum, og fræðslu- og kennsluefni fyrir kennara, að sögn Elfu. Mikilvægt sé að samstarf sé á milli heilbrigðisstarfsfólks og kennara svo barn með heilatenda sjónskerðingu nái að þroska sjón og sjónúrvinnslu eins vel og mögulegt er.

Heilatengd sjónskerðing er nú ein helsta orsökin fyrir sjónskerðingu hjá börnum á Vesturlöndum, að sögn Elfu. Heilatengd sjónskerðing (e. cortical/cerebral visual impairment), er sjónskerðing sem orsakast af skemmdum á sjónbraut og/eða sjónúrvinnslustöðvum í heilanum. Útlit augna er yfirleitt eðlilegt en stundum má sjá leitandi augnhreyfingar eða rangstöðu augna.


Hér er linkur á heimasíðu Teach CVITil baka