Hlaut styrk úr sjóðnum „Gefum blindum augum sjón“

Dýrleif Pétursdóttir, doktorsnemi í augnlækningum við Uppsalaháskóla hlaut á dögunum styrk úr sjóðnum „Gefum blindum augum sjón“ en þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Sjóðurinn „Gefum blindum augum sjón“ er til minningar um Jón Finn Kjartansson, sem fæddist árið 1973 og lést aðeins 18 ára að aldri árið 1991. Stofnandi sjóðsins er dánarbú Kjartans Magnússonar, sem var faðir Jóns Finns. Markmið sjóðsins er að stuðla að framþróun og nýjungum í augnlækningum með því að veita læknum og vísindamönnum styrk úr sjóðnum sem leita sér formlegs framhaldsnáms í augnlækningum erlendis eða leggja stund á vísindarannsóknir á því sviði.

Rannsakar augnvandamál hjá fyrirburum á fullorðinsárum
Rannsóknarverkefni Dýrleifar ber nafnið 25 ára eftirfylgd augnvandamála hjá einstaklingum sem fæddir voru fyrir tímann eða Twenty-five-year-old ophthalmological follow-up in prematurely born individuals.

Í rannsókninni gangast fyrirburar sem fæddust á árunum 1988-90 og vógu ≤1500 grömm, undir umfangsmikla augnlæknisfræðilega skoðun og er gerður samanburður á þeim og einstaklingum á sama aldri sem fæddust eftir eðlilega meðgöngulengd. Augnvandamál einstaklinga sem fæddir eru fyrir tímann hafa verið könnuð en fáar rannsóknir eru til á fullorðnum fyrirburum og þeim vandamálum tengdum sjóninni sem þeir glíma við.

Verkefnið er unnið samhliða klínísku starfi Dýrleifar á Augndeild Akademiska sjúkrahússins í Uppsölum. Hluti rannsóknanna er í höndum rannsóknarhjúkrunarfræðings og starfsmanna á deild klínískrar lífeðlisfræði við sjúkrahúsið. Sálfræðingur aðstoðar við úrvinnslu prófsins á sjónskynjun. Leiðbeinendur eru dr. Eva Larsson og prófessor Gerd Holmström.

Dýrleif lauk læknanámi frá Háskóla Íslands árið 2008 en hóf sérnám í augnlækningum í Uppsala í Svíþjóð 2011 eftir að hafa starfað meðal annars á augndeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Hún stundar nú doktorsnám við Uppsalaháskóla.
Umsjón með sjóðnum hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Í stjórn sjóðsins sitja Guðmundur Viggósson, augnlæknir sem er formaður sjóðsins, Magnús Karl Magnússon, forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Huld Magnúsdóttir, forstjóri Miðstöðvarinnar.