Alþjóðlegur dagur leiðsöguhunda er haldinn hátíðlegur síðasta miðvikudag í apríl ár hvert og er ætlað að vekja athygli á leiðsöguhundum um allan heim og þeirri stórkostlegu vinnu sem þeir sinna. Í ár ber alþjóðlegan dag leiðsöguhunda upp þann 29. apríl og er sá dagur haldinn hátíðlegur af stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum sem vinna með, sinna og nota leiðsöguhunda í sínu daglega lífi.

Leiðsöguhundar eru í dag skilgreindir sem hjálpartæki, rétt eins og hvíti stafurinn og eru best þekktir fyrir að aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Leiðsöguhundur veitir notanda sínum aukið frelsi til að komast um í umhverfi sínu, jafnt innandyra sem utan og leiðir notanda sinn fram hjá hindrunum sem á vegi þeirra verða. Auk þess eru leiðsöguhundar góðir félagar og mörg dæmi eru um að þeir hafi rofið félagslega einangrun notenda sinna og stuðlað að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu.

Saga leiðsöguhunda er rakin allt aftur til 16. aldar en fyrsti skólinn ætlaður þjónustuhundum var stofnaður í fyrri heimstyrjöldinni af Þjóðverjum til að aðstoða hermenn sem höfðu misst sjón vegna stríðsins. Allar götur síðan hafa verið starfandi skólar út um allan heim sem þjálfa leiðsöguhunda og vaxandi fjöldi blindra og sjónskertra sem nýtir sér leiðsöguhunda til að komast leiðar sinnar.

Saga leiðsöguhunda á Íslandi er heldur styttri. Fyrsti starfandi leiðsöguhundur á Íslandi kom til landsins árið 1957 frá Danmörku. Langur tími leið svo þar til gerðar voru frekari tilraunir til að þjálfa og nota leiðsöguhunda á Íslandi en árið 2006 var þó kominn grundvöllur til að leggja aukinn kraft í verkefnið í þeirri von að fjölga leiðsöguhundum á Íslandi.

Frá 1957 hafa 14 hundar starfað sem leiðsöguhundar á Íslandi. Starfandi leiðsöguhundar í dag eru 7 og von er á að sú tala eigi einungis eftir að hækka. Það er ánægjulegt að greina frá því að veruleg aukning hefur orðið á eftirspurn eftir leiðsöguhundum að undanförnu. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu hefur í samstarfi við Blindrafélagið unnið að því að svara þeirri eftirspurn og því má búast við að æ algengara verði að sjá þessa fjórfættu vini okkar leiða notendur sína með stolti og gleði.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starfið frekar eða hafa áhuga á að nýta sér þjónustu leiðsöguhunds er bent á að hafa samband við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu í síma 5455800 eða koma fyrirspurn til leiðsöguhundaþjálfara bjork@midstod.is. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð heldur reglulega kynningar og námskeið er varða leiðsöguhunda þar sem farið er ítarlega yfir hlutverk, þjálfun og notkun þeirra ásamt því að þar gefst tækifæri til að fá að prófa að ganga með leiðsöguhund.