Alþjóðlegur dagur leiðsöguhunda er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag 28. apríl. Á síðastliðnum árum hefur leiðsöguhundum fjölgað jafnt og þétt og má búast við að enn bætist í þennan fjölbreytta og frábæra hóp á næstu árum. Í dag eru níu leiðsöguhundar starfandi á Íslandi,  en það eru þeir Óliver, Skuggi, Zören, Sebastían, Gaur, Lubbi, Vísir, Sansa og Nova. Þau eru öll af tegundinni Labrador Retriver fyrir utan Sebastían sem er stór og ljúfur Golden Retriver sem býr með notanda sínum út á landi. Þau hjálpa öll notendum sínum í daglegu lífi við að komast á milli staða og eyða svo frítíma sínum í að fá knús, klapp og leiki frá fólkinu sínu. 

Okkur langar að nota þennan dag til að varpa ljósi á umgengni við leiðsöguhunda. 

Allir leiðsöguhundar elska að fá að fara í beislið sitt og vinna við hlið notenda sinna. Hundur og maður eru þá teymi sem vinna saman að því að leysa verkefnið sem liggur fyrir. Leiðsöguhundar eru valdir í þetta verkefni vegna eiginleika þeirra. Eiginleikar góðra leiðsöguhunda eru gott vinnueðli, aðlögunarhæfni og stöðugleiki í skapgerð. Þeir eru í eðli sínu ljúfir og mannelskir sem er einn af þeirra stærstu kostum en getur stundum verið þeim fjötur um fót. 

Flestir vita að ekki má skipta sér af leiðsöguhundi þegar hann er í vinnubeislinu sínu. Þá er hann í vinnu og þarf að einbeita sér að verkefninu sem fyrir hann er lagt. Mikilvægt er að takmarka allt samband við leiðsöguhund þegar hann er í beislinu. Bros, að rétta út hendi, krjúpa og að tala til leiðsöguhunds getur orðið til þess að hann missi einbeitingu sína og haldi að það séu boð um að nálgast viðkomandi. Notendur leiðsöguhunda hafa ekki tækifæri til að sjá fyrir hvort vegfarendur eiga í samskiptum við hundanna þeirra. Það er því afar mikilvægt að fólk sýni leiðsöguhundum og notendum tillitsemi í umgengni við þá í daglegu lífi. 

Ef mæta þarf leiðsöguhundi með annan hund þarf að gæta sérstakrar nærgætni. 

Leiðsöguhundar eru þjálfaðir til að halda sig vinstra megin á gangstéttum, stígum og vegköntum þegar þeir aðstoða notendur sína og því er mikilvægt að gefa þeim tækifæri til þess. Mikilvægt er að gefa leiðsöguhundi og aðkomandi hundi rými til að mætast án þess að þeir trufli hvor annan.  Hundar ættu að vera í taumi eða undir fullri stjórn eiganda sinna innanbæjar og eingöngu lausir á svæðum þar sem slíkt er leyfilegt.  

Þegar hundar mæta leiðsöguhundi er æskilegt að það sé gert með því að stytta í taumnum og láta hundana mætast á „fjarhliðum“ þ.e. með eigendurna á milli sín.  Svokallaðir flexitaumar gefa hundunum oft tækifæri til að ganga í töluverðri fjarlægð frá eiganda sínum og ekki undir stjórn og erfitt getur reynst að vita hvað er handan við næsta horn eða næstu beygju. Vinsamlegast hafið það í huga.

Ef þú sérð að leiðsöguhundur er að missa einbeitingu sína vegna viðveru ykkar eða vegna þess að aðstæður bjóða ekki upp á að halda fjarlægð þá er gott að láta notanda leiðsöguhunds vita að þú sért með hund og reyna um leið að auka fjarlægðina ykkar á milli ef það er möguleiki. 

Aldrei má sleppa hundi til að heilsa leiðsöguhundi þegar hann er að vinna. Slíkt getur skapað hættu fyrir notanda leiðsöguhunds og fyrir hundana sjálfa. 

Ef leiðsöguhundur er ekki með beisli og þið eruð að velta því fyrir ykkur hvort hundurinn þinn megi heilsa honum er sjálfsagt að spyrja notandann hvort það megi. 

Að stjórna hundi án þess að hafa fulla sjón er krefjandi og því er sjálfsagt að sýna tillitsemi og kurteisi. Setjið ykkur í spor þeirra sem eru blindir eða með sjónskerðingu og nota leiðsöguhunda til að komast um í sínu umhverfi. Það er auðvelt að gera sér í hugalund hversu erfitt það getur verið fyrir bæði notanda og leiðsöguhund að mæta öðrum hundum ef ekki er gætt að ofantöldum þáttum.