Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
18. janúar 2008

Flash síður og Dolphin vörur

Ég var að skoða Flash-heimasíðu J.K. Rowling, höfundar Harry Potter bókanna, http://www.jkrowling.com Heimasíðan er öll smíðuð með Flash-viðmóti þar sem aðgengi hefur verið haft að leiðarljósi. Ég lenti strax í vandræðum með HAL vegna þess að í hvert skipti sem síðan uppfærðist; mynd hreyfðist til á skjánum, þá byrjaði HAL aftur að tala. Þar sem ég gat ekki í fljótu bragði fundið á heimasíðu Dolphin hvernig ætti að ferðast um Flash-heimasíður ákvað ég að taka saman nokkrar upplýsingar.

Þegar við rekumst á Flash-hnapp á heimasíðu sem HAL greinir, en það er nú því miður ekki alltaf þannig að HAL greini þetta á þennan hátt, þá segir skjálesarinn: "Embedded Flash Object". Til að virkja þennan hnapp og þannig kalla fram upplýsingarnar þá styðjum við á: "Bilslánna". Ef við tökum sem dæmi You Tube myndbönd sem eru fléttuð inn í heimasíður, þá getum við spilað myndbandið með því að styðja á bilslánna.

En þegar við komum að heimasíðum sem eru byggðar upp í Flash, þó ekki sé nema einhver hluti síðunnar, þá þurfum við að geta ferðast milli möguleika/lína í Flash-viðmótinu. Það gerum við með því að styðja á Dolphin-lykilinn og F. Sjálfgefin stilling í HAL og Supernova er að Dolphin-lykillinn sé: "CAPS LOCK". Þannig að við myndum sem sagt styðja á "CAPS LOCK" og F, til að geta síðan notað örvalyklana til að ferðast milli möguleika/lína inni í Flash-viðmótinu.

Síðast en ekki síst er það Anti-stutter eiginleikinn í HAL og Supernova. Anti-stutter gerir það að verkum að HAL og Supernova hætta að fylgjast með uppfærslum/breytingum á viðmótinu á heimasíðunni. Það hafa vafalítið einhverjir lent í því að vera á heimasíðu eins og mbl.is og skjálesarinn byrjar í sífellu að lesa upp sömu auglýsinguna aftur og aftur og ekki virðist vera mögulegt að halda áfram að lesa venjulegan fréttatexta. Þetta er líklega vegna þess að það er Flash-auglýsing á síðunni sem er í lúppu, þ.e. byrjar alltaf að spila aftur og aftur sama myndbandið. Skjálesarinn reynir að láta okkur vita af þessum upplýsingum, en það verður á kostnað textans sem við erum nú þegar að lesa. Í slíkum tilvikum getur verið hagkvæmt að hafa á bak við eyrað að við getum slökkt á þessum eilífu tilkynningum um að nýjar upplýsingar hafi birst á skjánum með því að virkja/afvirkja þennan anti-stutter eiginleika. Þetta er auðveldast að gera með flýtilykli: "Vinstri Control og 6". Skjálesarinn segir þá: "Kveikt/slökkt á anti-stutter".

Það er rétt að taka það fram að heimasíðan sem ég nefndi hér í upphafi, síða J.K. Rowling, býður líka upp á svokölluð Accessibility Tools, en það er tengill á síðunni. Þar inni er hægt að slökkva á ýmsum eiginleikum síðunnar svo em auka hljóðum og hreyfingu yfir síðuna sem gætu truflað suma notendur.

Hlynur Már Hreinsson, ráðgjafi

Til baka