Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
31. janúar 2008

Hvernig við bætum netfangi í nafnaskrálistann í Outlook Express með skjálesara

Ég ákvað að taka saman eitthvað af þeim leiðarvísum sem ég hef skrifað og skella þeim hérna inn. Í eftirfarandi tilviki er miðað við eftirfarandi uppsetningu: Windows XP með íslensku viðmóti, skjálesara og venjulegt 101 lyklaborð.

Í dag ætlum við að kanna hvernig við bætum netfangi inn í nafnaskrálistann í Outlook Express póstforritinu.Til þess munum við nota eftirfarandi lykla: Við byrjum á að staðsetja okkur á lyklaborðinu með rétta fingrasetningu, vinstri vísifingur á F lyklinum og hægri vísifingur á J lyklinum.

Fyrst er það B lykillinn, eins og í Bjarni, en þann lykil finnum við með því að færa vinstri vísifingurinn niður um eina röð og þá erum við á V lyklinum. Næsti lykill til hægri við V er B lykillinn.

Þá finnum við "vinstri Control, en hann er neðst í vinstra horni lyklaborðsins.Vinstri Shift er beint fyrir ofan vinstri Control. Dálklykillinn er tveimur lyklum fyrir ofan vinstri Shift. Auðveldast er að finna hann á eftirfarandi hátt: Ef við finnum vinstri Shift, förum upp um eina röð og þá erum við á hástafaláslyklinum. Síðan upp um eina röð í viðbót og þá erum við á dálklyklinum.

Vinstri alt lykilinn finnum við með því að láta vinstri þumalfingur vera á bilstönginni, færa hann síðan til vinstri og fyrsti lykillinn vinstra megin við bilstöngina er vinstri alt lykillinn.

Líklega er óþarft að fara nánar út í staðsetningu á örvalyklum.

Hægri alt lykillinn finnum við með því að láta hægri þumalfingur vera á bilstönginni og færa hann síðan til hægri. Fyrsti lykillinn hægra megin við bilstöngina er einmitt hægri alt lykillinn.

Q lykilllnn finnum við með því færa vinstri litlafingur upp um eina röð, þá erum við staðsett á Q lyklinum.

Einnig munum við nota færslulykilinn.Við byrjum á að opna Outlook Express. Þegar það er opið þá finnum við B lykilinn með vinstri vísifingri. Við styðjum ekki á hann strax. Því næst færum við hægri höndina undir vinstri höndina og finnum vinstri Control á vinstri Shift. Við styðjum á þá báða og höldum þeim niðri og um leið styðjum við á B lykilinn. Þar með opnast gluggi sem heitir: Nafnaskrá Main Identity. Skjálesarinn segir nú: Nafnaskrá Main Identity auð lína ritvinnslusvæði.Í þessarri nafnaskrá er hægt að vista nöfn og netföng. Skjálesarinn segir: "auð lína ritvinnslusvæði", vegna þess að við erum sjálfkrafa staðsett í leitarreit eða reit þar sem við getum skrifað nafn og látið leita að því í nafnaskránni. Við ætlum ekki að gera það núna.
Fyrst þurfum við að bæta við nýju netfangi. Til að gera það þurfum við að fara í Skrá fellivalmyndina. Við færum okkar á hana með því að styðja einu sinni á vinstri alt lykilinn. Þá segir skjálesarinn: "skrá valmyndarein".

Þar sem þetta er fellivalmynd þá þurfum við að fella hana niður, en það gerum við með því að styðja einu sinni á örvalykil niður. Um leið og við gerum það segir skjálesarinn: "Ör niður, skrá valmynd, Nýr tengiliður... Ctrl+N". Þar með erum við kominn á réttan stað til að bæta við nýjum tengilið. Við styðjum því á færslulykilinn núna. Um leið og við gerum það opnast nýr gluggi sem heitir: Eiginleikar.

Skjálesarinn segir nú: "Eiginleikar, heiti eiginleikablað, færa skal inn nafn og póstupplýsingar um þennan tengilið hér, Fornafn, auð lína ritvinnslusvæði".

Við erum sem sagt búin að opna gluggann til að skapa nýjan tengilið og við erum staðsett í glugga sem heitir eiginleikar, flipa sem heitir: Heiti og erum í ritvinnslusvæði sem heitir: Fornafn:.

Núna eigum við að skrifa fornafn viðkomandi. Um leið og við erum búin að því þurfum við að slá á dálklykilinn.Þar með færumst við í Millinafn möguleikann. Ef ekkert millinafn er skráð þá má slá aftur á dálklykilinn. Svona er haldið áfram og reitir fylltir út með viðeigandi upplýsingum þar til komið er í: "Netföng", ritvinnslusvæðið. Hér á að skrifa netfang viðkomandi. Það er skrifað á samskonar hátt og fyrri reitir. Ef við ætluðum til dæmis að setja inn netfangið einhver@einhverjum.is þá myndum við byrja á að skrifa: "einhver", en hafa skal í huga að í netföngum er ekki hægt að nota hástafi eða séríslenska stafi.Þegar við erum búin að skrifa "einhver" þá þurfum við að skrifa @ merkið.Við gerum það með því að finna hægri alt lykilinn, halda honum niðri, og styðja síðan á Q lykilinn. Að endingu skrifum við síðan: einhverjum.is. Þannig að netfangið er skrifað í belg og biðu, sem sagt án nokkurra bila milli orða, án allra séríslenskra stafa og bara með lágstöfum.Eftir að við höfum skrifað netfangið þá styðjum við á færslulykilinn. Þar með bætist netfangið við upplýsingar um þann notanda sem við sköpuðum.Það skal tekið fram að skjálesarinn segir bara: færslulykill þegar þetta er gert, en tölvan setur samt netfangið inn. Að endingu þurfum við bara að styðja á færslulykilinn til að vista þær breytingar sem við gerðum og loka þessum glugga um leið.

Hlynur Már Hreinsson, ráðgjafi

Til baka