Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
4. febrúar 2009

Sjónskerðing og blinda

Sjónskerðing og blinda

Hvað veldur og hvað er til ráða?

Sjónin er það sem menn meta einna mest af gjöfum guðs enda er erfitt að lifa án hennar. Það að sjá hefur ef til vill aldrei skipt manninn meira máli en einmitt nú á dögum. Nægir í því sambandi að nefna bækur, blöð, tímarit, tölvur og akstur. Eins og allir vita er sjónin misgóð hjá fólki. Sumir hafa arnarsjón og sjá allt að því helmingi betur en gerist og gengur meðan aðrir eru sjónskertir og sumir jafnvel alblindir.

Margþætt og flókin

Sjón er flókin skynjun. Sjónskerpan er það sem flestum dettur í hug þegar sjón er nefnd enda veigamikill hluti sjónarinnar. Hún er sérlega gagnleg í sambandi við lestur og aðra fíngerða vinnu. Skerpan er oftast ákvörðuð með því að mæla hversu smáa stafi menn geta lesið á ákveðnu færi á þar til gerðum sjónprófunartöflum. En sjón er meira en það. Hliðarsjón er ekki síður mikilvæg. Hún gerir mönnum kleift að komast um og skynja hreyfingar útundan sér. Þá má nefna ljósnæmi og rökkuraðlögun. Náttblinda er vel þekkt einkenni vissra augnsjúkdóma og getur háð mönnum verulega. Að lokum má geta litaskynjunar, sem fáir vildu vera án, enda eykur hún notagildi og gæði sjónarinnar.

Skert sjón

Sjónskerðing getur verið af mismunandi toga og lýst sér á ýmsan hátt. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að algengustu sjónvandamál fólks, eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja, flokkast ekki sem sjónskerðing enda sér það fólk yfirleitt vel með gleraugum. Sama á við um aldursfjarsýni, sem allir finna fyrir upp úr miðjum aldri. Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu eru þeir einir sjónskertir sem sjá minna en 6/18 (30%) á betra auga með besta gleri eða hafa sjónsvið þrengra en 20°. Þegar þannig er ástatt eiga menn orðið í erfiðleikum með lestur þrátt fyrir bestu gleraugu og mega til dæmis ekki stjórna bifreið. Samkvæmt sömu skilmerkjum eru þeir blindir sem sjá minna en 3/60 (5%) á betra auga með besta gleri eða hafa sjónvídd minni en 10°. Þeir eiga erfitt með að fara um einir á ókunnugum stað, þrátt fyrir bestu sjónhjálpartæki. Eins og gefur að skilja skiptir miklu máli hvenær ævinnar og hvernig menn missa sjón. Því skyndilegar og fyrr sem menn missa sjón þeim mun alvarlegra. Verst af öllu er að fæðast blindur, enda þurfa þau börn að læra allt án þessa mikilvæga skilningarvits. Um 5-6 sjónskert börn fæðast á ári hverju hér á landi, þar af oftast eitt til tvö blind.

Sjónstöð Íslands

Fyrir 12 árum var að frumkvæði prófessors Guðmundar Björnssonar, augnlæknis og Blindrafélagsins stigið heilladrjúgt skref til hagsbóta fyrir sjónskerta er komið var á fót alhliða þjónustu- og endurhæfingarstöð fyrir blinda og sjónskerta. Hún hlaut nafnið Sjónstöð Íslands. Hún er ríkisstofnun undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins. Þar eiga sjónskertir kost á þjónustu þegar sjón er komin niður fyrir sjónskerðingarmörk (6/18). Augnlæknar vísa fólki á stöðina þegar þeim mörkum er náð eða þegar þörf kalla á. Sjónstöðin er til húsa að Hamrahlíð 17, í húsi Blindrafélagsins. Um áramótin 2007/2008 voru um 1.408 manns skráðir sjónskertir eða um hálft prósent þjóðarinnar. Á ári hverju bætast 160-200 manns í hópinn. Af þessum 1.408 voru um 1 085 sjónskertir (77%) og 323 (23%) blindir. Rúmlega 2/3 eru eldri en 70 ára.

Orsakir blindu og sjónskerðingar

Aldurstengd hrörnun í lespunkti

Langalgengasta orsök sjónskerðingar á Íslandi nú er svo kölluð aldurstengd hrörnun í sjónu (lespunkti), sem í mæltu máli er oft nefnd kölkun í augnbotni. Á skrá Sjónstöðvar eru 801 einstaklingur sjónskertur af hennar völdum eða 57% allra. Öll líffæri okkar eldast frá vöggu til grafar og hvert og eitt á sinn sérstaka hátt og eru augun þar engin undantekning. Veigamikill hluti öldrunar augna er einmitt aldurstengd hrörnun í lespunkti. Fyrsta einkenni hennar er yfirleitt versnandi lestrarsjón en einnig lendir fólk í erfiðleikum með að sjá texta á sjónvarpi og þekkja andlit fólks á förnum vegi. Algengi þessa kvilla eykst mjög með aldrinum. Er til dæmis aðeins 2,3% í aldurshópnum 60-65 ára, 27% í hópnum 75-80 ára og yfir 50% hjá þeim sem eldri eru en 80 ára. Fátt vitað um orsakir aldurshrörnunar annað en þessi nánu tengsl við aldur og lækning er af skornum skammti. Í vissum tilvikum er þó hægt að tefja framgang sjúkdómsins með ákveðnum aðgerðum, sem framkvæmdar eru á augndeild Landspítalans. Þar hefur einnig fram fram leit að erfðavísum sjúkdómsins. Sem betur fer leiðir þessi hrörnun aldrei til alblindu. Menn halda ratsjóninni.

RP (arfgengur æðukyrkingur)

Í öðru sæti blinduorsaka er arfgengur æðukyrkingur eða Retinitis Pigmentosa. Fyrstu einkenni hans eru oftast náttblinda og vaxandi sjónsviðsskerðing. Þetta er gífurlega alvarlegur sjúkdómur  þar sem hann herjar á ungt fólk og leiðir í mörgum tilvikum til alblindu með tímanum. Lækning hefur enn ekki fundist en mikið er unnið að rannsóknum á orsökum hans. Með þennan sjúkdóm eru 84 eða 6,0% allra sjónskertra.

Gláka

Í þriða sæti kemur svo hægfaragláka sem orsök sjónskerðingar meðal Íslendinga. Með hana sem frumorsök blindu eða sjónskerðingar eru þó aðeins 55 manns eða 3,4% allra. Glákan er mjög lúmsk, og sá sjúkdómur sem blindað hefur flesta Íslendinga gegnum tíðina. Hún er einkenna lítil í byrjun, þar sem hún ræðst fyrst á hliðarsjónina, þannig að fólk getur oft lesið þrátt fyrir langt gengin sjúkdóm. Um síðir verður fólk þó alblint af hennar völdum ef ekkert er að gert. Árangursrík meðferð er til við gláku og því aðal atriðið að finna sjúkdóminn í tæka tíð áður en hann er búinn að valda alltof miklum skaða. Mikið hefur áunnist í glákuvörnum hérlendis hin síðari ár ekki síst vegna markvissrar glákuleitar augnlækna um land allt og vel skipulagðrar og nýtískulegrar glákumeðferðar á augndeild Landspítalans.

Aðrar blinduorsakir eru margar en fágætari, segja má að nánast hvaða sjúkdómur sem er geti valdið sjónskerðingu. Má þar sem dæmi nefna matta hornhimnu; ský á augasteini; blæðingu í glerhlaupi; bólgur í augum, æðastíflur í augnbotni, blæðingar eða los á sjónhimnu; bólgu eða rýrnun á sjóntaugum; æðastíflur í sjóntaugum, rýrnun eða æxli í miðtaugakerfi og augnslys. Þá er sykursýki vaxandi örsök sjónskerðingar í nágrannalöndum okkar, þótt hún sé ekki verulegt vandamál hjá okkur vegna góðs eftirlits og meðferðar sjúkdómsins. Af þessari upptalningu er ljóst að margbreytni sjónskerðingar er mikil. Suma skortir lestrarsjón meðan aðra skortir ratsjón. Flestir þurfa aukið ljósmagn en aðrir sjá þó best í rökkri og svo mætti lengi telja.

Aðstoð Sjónstöðvar

Liðveisla Sjónstöðvar við sjónskerta er víðtæk. Hún er meðal annars fólgin í því að útvega sjónhjálpartæki og þjálfa fólk í notkun þeirra. Af hjálpartækjum má nefna sérútbúin sterk lesgleraugu, kíkisgleraugu, ljóssíunargleraugu og stækkunargler. Þeim sem verst eru settir með sjón og í þeim tilvikum þar sem venjuleg sjónhjálpartæki duga ekki lengur er fólki útveguð svokölluð lestæki. Með þeim má stækka mynd á tölvuskjá af því sem skoða þarf. Þá fer þar einnig fram sjónörvun sjónskertra barna. Á síðustu árum hafa tölvur og tölvutengd hjálpartæki rutt sér æ meira til rúms. Má þar nefna stóra tölvuskjái, stækkunarforrit í tölvur og talgervil. Talgervill er forrit sem les í heyranda hljóði það sem í tölvunni er. Nú er að koma á markaðinn ný íslensk útgáfa talgervils, sem fer mun betur með íslenska tungu. Einnig má fá blindraleturstölvur þar sem blindir geta lesið á punktaletri það sem í tölvunni er. Þannig má segja að blindir séu sem óðast að netvæðast. Geta þeir nú nálgast allt það efni sem tiltækt er á tölvutæku formi. Má þar sem dæmi nefna Morgunblaðið, símaskrána, tölvupóst og heimabanka. Tölvuvæðingin er ein besta viðbót við hjálpartæki fyrir sjónskerta sem komið hefur fram lengi. Sjónstöðin veitir fólki einnig kennslu í notkun hjálpartækja og ýmsar ráðleggingar varðandi vinnuaðstöðu og lýsingu á heimili, vinnustað eða skóla. Þeim sem verst eru settir með sjón fá kennslu í athöfnum hins daglega lífs og umferli bæði á námsskeiðum sem og einstaklingsbundna kennslu. Umferli er mikilvægt til að auka sjálfstæði blindra utandyra sem innan. Aðal hjálpartækið við umferli er hvíti stafurinn, en hann er einnig tákn blindra. Nú er verið að leggja lokahönd á þjálfun fyrstu blindrahundanna hér á landi, sem væntanlega munu nýtast blindum vel við umferli. Þá býður Sjónstöðin upp á andlega aðhlynningu og ýmsa félagslega aðstoð.

Lokaorð

Vissulega er mikið áfall að missa sjón en fullyrða má þó að sjóndaprir geta lifað sjálfum sér og öðrum til ánægju eins og dæmin sanna. Segja má að hlutskipti hins sjónskerta sé nú betra en það hefur nokkru sinni áður verið hér á landi og er það ekki síst vegna 70 ára stöðugs brautryðjandastarfs Blindrafélagsins.

Gert í janúar 2008

Guðmundur Viggósson augnlæknir
yfirlæknir Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar

Til baka