Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
5. febrúar 2009

Viðtal við Baldur Gylfason ráðgjafa

Nú á haustmánuðum tóku fjórir nýir umferlis og ADL kennarar til starfa hjá Sjónstöð Íslands. Öll fjögur munu nota megnið af vetrinum 2007/2008 við nám í Dublin á Írlandi, þar sem þau sérhæfa sig í umferlis og ADL kennslu. Einn þeirra, Baldur Gylfason sálfræðingur, segir okkur aðeins frá náminu og hvert starf ADL og umferliskennara er.

Hvað er ADL?

Skammstöfunin ADL stendur fyrir athafnir daglegs lífs. Það má segja að allir foreldrar og allir kennarar barna séu einskonar ADL kennarar, þar sem lokamarkmið í öllu uppeldi er að gera börnin okkar sjálfstæð og óháð fullorðnum. En þegar talað er um markvissa ADL kennslu er það yfirleitt í tengslum við að stuðla að auknu sjálfstæði þeirra sem eiga við einhverskonar fötlun að glíma.

Hverjir stunda ADL-kennslu?

ADL kennsla á sér stað innan hinna ýmsu heilbrigðis- og menntastofnanna sem veita hæfingu og endurhæfingu á fjölbreyttum sviðum. Algengt er að unnið sé með ADL þjálfun meðal aldraðra eða þeirra sem hafa skerta hreyfigetu eftir slys eða sjúkdóma. Einnig er ADL þjálfun að finna í sérdeildum skóla fyrir börn með ýmiskonar þroskafrávik.
Það er erfitt að segja til um hversu margir ADL kennarar eru starfandi á Íslandi í dag. Oft er ADL kennsla hluti af námi og þjálfun starfsstétta sem bera annað heiti en ADL kennari. Iðjuþjálfar og sérkennarar stunda til dæmis mikla ADL kennslu.

Hversvegna þarf blint og sjónskert fólk á ADL-kennslu að halda?

Fyrir fólk með fulla sjón er sjónin það skilningarvit sem við treystum mest á. Við notum sjónina ekki bara til þess að sjá, heldur líka til þess að staðfesta upplýsingarnar sem berast frá öðrum skilningarvitum. Ef við heyrum bíl nálgast staðsetjum við bílinn með heyrninni, en með sjóninni fullvissum við okkur um að bíllinn sé þar sem við teljum hann vera. Þegar við heyrum vatnið í pottinum sjóða lyftum við lokinu til þess að vera viss um að suðan sé komin upp. Við notum sjónina fyrst og fremst þegar við hellum mjólk í glas, eða heitu vatni í bolla. Vegna þess að við treystum svo mikið á sjónina tökum við hana stundum sem sjálfsagðan hlut. Það er ekki fyrr en að sjónin fer að skerðast að við áttum okkur á því hversu mikilvæg hún er í öllu okkar daglega starfi. Með hrakandi sjón hætta margir að takast á við verkefni sem áður voru sjálfsögð og auðleyst. Með ráðgjöf og leiðsögn er hinsvegar hægt að finna lausnir við nánast hverju sem er. ADL kennsla gengur einmitt út á það: að finna lausnir og endurheimta þannig frelsi og sjálfstæði.

Hversu margir ADL-kennarar starfa með blindu og sjónskertu fólki?

Á Sjónstöð Íslands starfa nú sex ADL kennarar. Undanfarin ár hafa tveir sérhæfðir kennarar reynt að svara eftirspurninni, en ljóst var að auka þurfti þessa þjónustu verulega og var því ákveðið að þjálfa og mennta fjóra kennara til viðbótar. Kennararnir sex sem starfa á Sjónstöðinni eru bæði þjálfaðir í ADL kennslu og umferliskennslu. Umferliskennsla hefur að gera með það að ferðast um og ná áttum í umhverfinu, bæði inni og úti. Vissulega er hreyfigeta og hæfileikinn til að ferðast um lykilþáttur í því að lifa sjálfstæðu lífi. Í sumum löndum og í námi margra skóla er ekki skilið á milli umferlis- og ADL kennslu. Þá er litið á umferliskennslu sem hluta af ADL þjálfuninni. En hjá okkur er annarsvegar talað um umferlisþjálfun og hinsvegar um ADL kennslu. Munurinn liggur í því að umferlisþjálfun tengist hreyfingu og því að komast á milli staða, t.d. með því að nota hvíta stafinn, en ADL á við um allt annað sem einstaklingurinn kann að þurfa að takast á við. Og það kann að vera býsna yfirgripsmikið.

Hver eru helstu verkefni ADL kennara?

Viðfangsefnið fer að öllu leyti eftir þörfum einstaklingsins. Aldur skiptir náttúrulega miklu máli og eins er þetta alltaf spurning um áhugasvið.
Eitt af því sem blint og sjónskert fólk saknar er lestur og er það því stór liður í ADL kennslu að gera lesefni aðgengilegt. Þá er gjarnan notast við mismunandi stækkunargler eða ýmiskonar stækkunarbúnað í tölvum. Einnig eru til forrit með svokallaðan talgervil, sem les upphátt það sem stendur á skjánum. Hlutverk ADL kennara er að aðstoða fólk við að nota tæknina og hjálpa fólki að njóta samskipta með ýmiskonar upplýsingatækni og búnaði.
Algengt er að fólk þiggi ADL kennslu í tengslum við eldhúsið og undirbúning á mat. Meðhöndlun hnífa og eldavéla eða annarra heitra hluta er nokkuð sem fólk með sjónskerðingu kann að óttast. Nauðsynlegt er að temja sér ákveðnar aðferðir til að tryggja öryggi í tengslum við matargerð.
ADL kennari aðstoðar fólk við að skipuleggja umhverfi heimilisins og temja sér aðferðir til þess að geta sinnt hinum ýmsu störfum og þörfum á heimilinu. Eðlilegast er því að veita ADL kennsluna á heimili viðkomandi og er það yfirleitt gert. Einnig fer kennsla fram í sérútbúnu æfingasvæði á Sjónstöð Íslands.

Fyrir þá sem hafa skerta sjón, en sjá þó eitthvað, er mjög mikilvægt að nýta alla þá sjón sem er til staðar. ADL kennsla felur einnig í sér þjálfun í því að nýta sjónina eftir fremstu getu, hversu skert sem hún kann að vera. Þá er mikilvægt að huga að lýsingu og birtustigi eða lit á hinum ýmsu áhöldum sem notuð eru. Einnig er gagnlegt að huga að stækkun og mögnun svo sem með notkun stækkunarglerja og sjónauka. Hluti af ADL kennslu felur í sér að kynna hin ýmsu hjálpartæki sem kunna að aðstoða fólk við athafnir daglegs lífs. Til eru sérhæfð hjálpartæki sem hönnuð hafa verið sérstaklega fyrir blinda, eins og til dæmis talandi úr, örbylgjuofnar, vogir, hitamælar, málbönd og litamælar, svo eitthvað sé nefnt. Þessi tæki geta verið mjög gagnleg og er því mikilvægt fyrir fólk með litla eða enga sjón að kynna sér hvað er í boði. Hinsvegar er líka mikilvægt að reyna að finna einfaldari lausnir með því að nota hjálpartæki sem ekki eru sérhæfð. Er þá átt við hluti sem fást í flestum verslunum og eru notuð af almenningi. Litaval á diskum, skálum og skurðbrettum getur til dæmis skipt miklu máli. Við viljum líka hjálpa fólki að vera ekki háð sérhæfðum tækjum þegar aðrir kostir eru mögulegir. Hjálpartækin eru gagnleg, en þau þurfa ekki alltaf að vera mjög flókin eða sérhæfð.

Hvernig er námi í ADL kennslu háttað?

Við erum fjögur frá Íslandi sem höfum í vetur verið að stunda nám í umferlis- og ADL þjálfun í Dublin á Írlandi. Námið hjá okkur er bland af bóklegu og verklegu námi. Við skrifum mikið af ritgerðum og þurfum að rannsaka hitt og þetta sem við skrifum um en megnið af tímanum í skólanum fer í verklegt nám. Þá æfum við okkur með því að læra ákveðna tækni og kenna hvert öðru. Í náminu erum við því ýmist í kennara- eða nemendahlutverki. Sem nemandi þarf maður að hafa bundið fyrir augun eða nota þar til gerð gleraugu sem skerða sjónina svo að hún líkist því sem gerist með hina ýmsu augnsjúkdóma. Þannig erum við “tilraunadýr” hvort fyrir annað í kennslunni. Fyrir verðandi kennara er líka mikils virði að reyna að setja sig inn í aðstæður þess sem er blindur eða sjónskertur. Auðvitað getur manneskja með eðlilega sjón aldrei upplifað fullkomlega hvernig það er að vera blindur eða sjónskertur. En til þess að læra að kenna ákveðna tækni er gott að hafa þurft að læra að nota hana sjálfur. Við erum til dæmis öll orðin nokkuð góð í því að ferðast um borgina með hvítan staf í mikilli umferð og mannfjölda. Eins höfum við verið að elda og hella sjóðandi heitu vatni á milli íláta með bundið fyrir augun og lært á algeng rafmagnstæki án þess að nota sjónina.

Hversvegna valdir þú að gerast umferlis- og ADL kennari?

Það er kannski svolítið erfitt að svara þeirri spurningu í fáum orðum. Stutta svarið er að mig langaði einfaldlega til að breyta svolítið til. Ég hef starfað sem sálfræðingur í rúm tíu ár og þá aðallega í tengslum við geðdeildir og spítala. Ég fann að áhugi minn var að færast meira og meira frá því að vinna með sjúkleika og sjúkdóma í áttina að því að vinna við endurhæfingu. Í starfinu mínu sem sálfræðingur hef ég oftast lagt áherslu á það að hjálpa fólki að öðlast aukna trú á sjálft sig og getu til þess að framkvæma breytingar, yfirstíga ótta og upplifa sigra. Stundum hef ég farið frekar óhefðbundnar leiðir í sálfræðistarfinu. Ég hef til dæmis verið óhræddur við að fara útfyrir skrifstofuna eða viðtalsherbergið. Oft geta bestu samtölin átt sér stað á göngu undir berum himni, eða við það að gera eitthvað ótengt “vandamálinu” sem verið er að fjalla um, og á það jafnt við um börn sem fullorðna.
Enn sem komið er ég mjög sáttur við að hafa valið mér þetta nýja starf. Það er svo gaman að átta sig á því hversu mikils virði litlir sigrar geta verið. Fyrir manneskju sem er búin að vera að ganga í gegnum ákveðið sorgarferli yfir því að tapa sjóninni getur það verið óendanlega mikils virði að lesa póstinn sinn á ný, eða að geta gengið út í búð. Það tiltölulega einfalda verk að rista og smyrja brauð getur gefið viðkomandi trú á aukið sjálfstæði. Mig hefur aldrei dreymt um að gerast einhvers konar einka-matreiðslukennari eða faglegur heimilishjálpari. Verkefnin sjálf eru ekki það sem skiptir mestu máli. Það er það sem þau framkalla sem er aðalatriðið. Aukin færni felur í sér aukið sjálfsmat og meiri jákvæðni. Það er gaman að fá að taka þátt í þessum uppgötvunum með fólkinu sem við erum að vinna með.

Birtist í Blindrasýn, 1. tbl. 18. árg. 2008

Efst á síðu

 

Til baka