Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
12. október 2009

SEnior-bæklingar til þjálfunar, kennslu og upplýsingar

SEnior er norrænt verkefni leitt af Svíunum Krister Inde sjónþjálfa og Jörgen Gustavsson sjónfræðingi undir stjórn Háskólans í Kalmar í Svíþjóð. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru fagaðilar frá öllum norrænu ríkjunum. Verkefnið er styrkt af blindrafélögum allra landanna ásamt Nordiskt utvecklingscenter för Handikapphjälpmedel, NUH og fleiri sjálfstæðum félögum. Verkefnið felst í að finna aðferðir til að milda afleiðingar af öldrunarbreytingum í augnbotnum og auka getuna hjá þessum hóp til að nýta takmarkaða sjón.

Bent hefur verið á að um það bil þriðji hver maður 70 ára og eldri greinist með þessar breytingar í öðru eða báðum augum og fer þessi hópur stækkandi. Sjúkdómurinn er tvíþættur; annars vegar eru hægfara, þurrar breytingar en um 85% þeirra sem fá sjúkdóminn fá þetta afbrigði. Hins vegar er vota, eða blæðandi, formið sem um 10-15% fá.

Senior-hópurinn hefur unnið að nýjum starfsaðferðum og safnað heimildum og upplýsingum sem hægt er að dreifa til sjónskertra í sambandi við komur þeirra til fagaðila. Þar er komið inn á hvaða upplýsingar ber að veita og hvernig hægt er að nýta sjóngetuna eins vel og unnt er.

Leitast er við að svara spurningum á borð við:

  • Af hverju hef ég fengið þennan sjúkdóm?
  • Hvað þýðir macula degeneration - verð ég blind/blindur?
  • Hvað get ég gert til að nýta sem best þá sjón sem ég hef?
  • Hvaða hjálpartæki nýtast mér best á mismunandi stigum sjúkdómsins?
  • Hvernig á ég að beita augunum til að sjá eins vel og hægt er?
  • Hvernig á ég að halda á lesefninu til að nýta besta svæðið í sjónhimnunni. 
     

Efnið er mjög áhugavert fyrir augnlækna og sjónfræðinga og mun einnig nýtast til að upplýsa þá sem vinna að hæfingu og endurhæfingu sjónskertra ásamt þeim sem vinna við heimaþjónustu og á stofnunum fyrir aldraðra.

SEnior-efnið samanstendur af eftirfarandi:


KOMDU NÆR - hvernig held ég textanum?
Venjulega heldur fólk lesefni í 30-40 cm fjarlægð. Þegar sjónin skerðist þarf að stækka textann í sjónhimnunni með því að halda textanum nær sér og lesa með sterkum gleraugum eða stækkunargleri. Þetta kallar á breyttar aðferðir við lestur sem þarf að æfa og í þessu hefti eru leiðbeiningar varðandi styrkleika og lesfjarlægð. Heftið er aðallega ætlað við kennslu og þjálfun í því að færa sig nær.

LESTU MEIRA - textar, próf og æfingar
Í heftinu eru textar með breytilegri leturstærð sem notaðir eru til að finna út hvaða leturstærð er hægt er að lesa með mismunandi styrkleika og stækkun. Einnig er að finna sýnishorn af algengum textum úr daglega lífinu og útskýringar á lestri sjónskertra í samanburði við þá sem hafa fulla sjón. Heftið hentar fagfólki sem hjálpartæki til að meta lesgetu. 
 
ALLT MÖGULEGT - ekkert er ómögulegt
Þegar sjónin skerðist hefur það áhrif á nánast allt sem viðkomandi þarf að gera, t.d. að horfa á sjónvarp, fara út í búð að versla og fylla út eyðublöð svo eitthvað sé nefnt. Í þessu hefti er að finna lausnir á mörgum þessara vandamála. Allt mögulegt er hægt að leysa með breyttu hugarfari og nýjum aðferðum ef vilji og líkamleg og andleg geta er fyrir hendi.

Alla bæklingana er hægt að nálgast á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og við hvetjum alla sem áhuga hafa á að kynna sér efni þeirra að hafa samband í síma 545 5800 eða senda okkur tölvupóst á midstod@midstod.is

Efst á síðu

Til baka