Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
20. janúar 2010

Samanburður á fimm skjálesurum

Við hér á Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni erum nokkuð tæknilega sinnuð. Við fórum að velta fyrir okkur hver munurinn væri á helstu skjálesurum sem eru á markaðnum í dag. Við vissum að á þeim væri verðmunur og gæðamunur, sumir þeirra rótgrónir en aðrir nýlega komnir til sögunar.

Upp úr þessum hugleiðingum spratt sú hugmynd að við myndum taka helstu skjálestrarforritin og prófa þau á eins uppsettum tölvum og nota þau eins og flestir notendur Miðstöðvarinnar myndu gera og kanna hvernig þeim vegnaði í samanburði. Hugmyndin væri svo að gera slíkar prufur á sex til tólf mánaða fresti og þannig ganga úr skugga um að Ísland vissi af því besta og nýjasta í þessari tækni, því öll vitum við að Íslendingar vilja aðeins það besta.

Við ákváðum, í þetta skiptið að prófa fimm skjálestrarforrit sem hafa hvað mesta útbreiðslu. Það eru kunnugleg nöfn þarna innanborðs, eins og Jaws- og Hal-forritin, en einnig prófuðum við Window Eyes frá GW Micro-fyrirtækinu. Þessi skjálesari hefur öðlast miklar vinsældir í Bandaríkjunum og er þar mun vinsælli en t.d. Hal. Einnig prófuðum við System Access frá Serotek. Þetta er léttari og ódýrari skjálesari en hinir fyrstu þrír og hægt er að keyra hann ókeypis beint af netinu með því að fara á síðuna www.satogo.com. Helsti kosturinn við þennan lesara er að hægt er að keyra hann af hvaða tölvu sem er með Windows, hljóðkort og nettengingu og hann virkar furðuvel, en meira um það á eftir. Að lokum prófuðum við forrit sem heitir NVDA eða Non Visual Desktop Access. Þetta er skjálesari sem er "Open Source" eins og það kallast á ensku. Hann er mest þróaður í Ástralíu af NVAccess-fyrirtækinu með styrk frá Mozilla-stofnuninni, sem stendur m.a. á bak við Firefox-vafrann, en NVDA virkar einmitt best með honum, og það betur en allir aðrir skjálesarar eins og þýsk samanburðarrannsókn sýndi fram á. Hægt er að sækja sér eintak af þessu forriti á síðunni
www.nvda-project.org.

Lesa má um FireFox og skjálesaraprufunina á ensku á vefsíðunni http://www.marcozehe.de/2009/07/01/the-wai-aria-windows-screen-reader-shootout/

Hafið þó í huga að prófanir voru gerðar í júní 2009 og hefur t.d. Dolphin-stuðningur við Firefox lagast heilmikið síðan könnunin var gerð.

Við skiptum prófununum, gróft talið, í 4 flokka:

  • Eiginleika skjálesarans sjálfs og hvernig hann vinnur með Windows-stýrikerfinu
  • Hvernig skjálesarinn virkar á netinu með Internet Explorer
  • Hversu vel skjálesarinn virkar í Office og tölvupósti (notuðum Outlook Express)
  • Hversu vel skjálesarinn vinnur með öðrum vinsælum forritum eins og Msn, Skype o.fl.

Munum við nú útlista í stuttu máli hvernig skjálesararnir stóðu sig á hverju svæði fyrir sig.

Áður en við hefjum leikinn viljum við benda á að við tókum þá ákvörðun að nota Windows XP stýrikerfið, nýjustu uppfærslu (Service Pack 3) frekar en Vista, þar sem Windows XP er mun útbreiddara meðal notenda skjálesara. Við notuðum nýjustu útgáfur af skjálestrarforritunum sem til voru á þeim tíma (þ.e.a.s. 21.október 2009). Síðan þá hefur Jaws 11, Window Eyes 7,11 og Hal 11,04 komið út og meiriháttar uppfærslur átt sér stað á NVDA-forritinu, en þar sem dreifing þess er ókeypis og einungis í gegnum netið eru gerðar uppfærslur og breytingar á því nær daglega. Við reiknum því með að prófa þessi forrit og vonandi önnur eins og t.d. Apple Voiceover lesarann og hugsanlega Orca eða annað skjálestrarforrit á Linux-stýrikerfinu, í vor eða snemma næsta sumar, enda má búast við að Windows 7 stýrikerfið verði þá komið á vélar margra notenda hér á landi.

Skjálesaravirkni og virkni með Windows

Í þessum þætti prófananna athuguðum við hvort hægt væri að nota Röggu talgervilinn með skjálesaranum, hversu vel skjálesarinn styður punktaletursskjái, hvort hægt sé að nota skjálesarann til að finna skrár í Windows-umhverfinu, lesa klukkuna, skipta um notanda, bæta við eða eyða forritum og fleira af svipuðum toga.

Jaws stóð sig best í þessum þætti, en við gerðum engar athugasemdir við frammistöðu forritsins.

Hal-skjálesarinn stóð sig einnig vel en okkur fannst óheppilegt að Hal les allt sem birtist sjáandi notendum á skjánum, en ekki endilega það sem notandi skjálesara þarf að heyra. Stundum á HAL það til að lesa úr skjáborða sem er við hliðina á atriðinu sem hann ætti að lesa og teljum við þetta ruglandi fyrir hinn almenna notanda.

Window Eyes stóð sig ágætlega en þó fannst okkur hann frekar óþjáll og hrundi forritið ansi oft og erfitt var að koma því aftur í gang, sem er að sjálfsögðu neikvætt.

Bæði System Access og NVDA komu vel út úr þessari prófun.

Jaws, Hal og Window Eyes styðja flesta punktaletursskjái en sama gildir ekki um System Access eða NVDA. System Access styður einungis þrjár gerðir skjáa eins og er; Handytech, Alva og Brailliant. NVDA styður aðeins Alva-skjáina, en aukinn stuðningur við punktaletursskjái er á stefnuskrá bæði Serotek- og NVDA-manna. Hægt var að setja upp Röggu talgervilinn á öllum skjálesurum án erfiðleika. Út frá þeirri stigagjöf sem við notuðum í okkar prófunum voru niðurstöðurnar eftirfarandi: Jaws, um það bil 10 stig, Hal um 9 stig, Window Eyes um 7,5 stig og hinir lesararnir um 7 stig þar eð þeir styðja ekki punktaletursskjái.

Internet Explorer

Hér verður strax að taka fram að NVDA skjálesarinn fær nærri núlli í stigagjöf í notkun með Internet Explorer. Vegna þess að hann sækir upplýsingar sínar beint frá vafranum styður hann Internet Explorer afar illa. Í tilkynningu NV Access um uppfærslu hugbúnaðarins sem kom um 10 dögum eftir prófunina var bættur stuðningur við Internet Explorer auglýstur og munum við því búast við jákvæðari niðurstöðum í næstu prófunum. Hinir fjórir lesararnir stóðu sig allir ámóta vel. Allir bjóða þeir upp á flýtihnappa eins og að fara milli á ramma, hnappa og innsláttarsvæða, fá alla hlekki á síðunni í eitt listbox og að velja gildi úr svokölluðum listboxum (sem eru oft notuð t.d. fyrir vöruflokka eða lönd o.s.frv.). System Access klikkaði þó á þessu vali þegar Flash-forrit var að keyra á síðunni og fær smávægilegan mínus fyrir það en annars má segja að forritin fjögur standi sig álíka vel hvað þetta varðar.

Office

Í prófunum okkar á Microsoft Office hugbúnaðinum notuðum við MS Office 2007.
Allir skjálesararnir lesa Office-borðann svokallaða mjög vel. Hins vegar stendur System Access sig einna best bæði hvað varðar það að nota Spell Checker/villupúkann (sem Hal t.d. gerir mjög illa) í Word og að tilkynna þegar texti hefur sérstaka áherslu sb. feitletrun eða undirstrikun, eitthvað sem Jaws gerir engan veginn. Það eina sem System Access og NVDA-forritin virðast ekki gera vel er að tilkynna þegar texti í Word-skjali er hlekkur þannig að hægt sé að smella á hann. Jaws og System Access fá báðir fimm stig af sex mögulegum, Hal fær fjögur stig, Window Eyes þrjú stig og NVDA rekur lestina með einungis tvö stig fyrir Word.

Þegar kemur að Excel er mikill munur á Jaws, Hal og Window Eyes annars vegar og hinum ódýru og nýju System Access og NVDA hins vegar. Við prófuðum hluti eins og t.d. hvort hægt væri að lesa formúlur, athugasemdir í sellum, hvort takkar og myndir á síðu séu sjáanlegar o.fl. Jaws og Hal stóðu sig vel með sjö stig af sjö mögulegum, Window Eyes er stuttu á eftir með sex stig en bæði System Access og Window Eyes fá einungis tvö stig af sjö mögulegum.

Þetta þýðir ekki að ekki sé hægt að slá inn formúlur og gera grundvallarútreikninga í Excel, öll forritin gera það nokkuð vel, en munurinn kemur í ljós um leið og flóknari hlutir eru til staðar eins og t.d. hnappur sem þarf að smella á til þess að framkvæma sérstaka útreikninga eða gagnaflutninga. Þar er greinilegt að JAWS, HAL og Window Eyes forritin hafa mikið forskot.

Næst var Outlook Express prófað sem póstforrit. Það er ekki hluti af Office pakkanum sem slíkum en við töldum flesta notendur hér á landi nota Outlook Express til tölvupóstskrifa og væri það því ákjósanlegri kostur til prófanna. Skjálesararnir stóðu sig misvel í þessu sambandi. Hvorki Jaws né System Access tilgreindu þegar pósti hafði verið svarað og NVDA-forritið las ekkert nema sendanda og subject póstsins. Hal las allar upplýsingar sem leitað var að þ.e.a.s. hvort póstur hafi verið lesin, hvort honum hafi verið svarað, hvort mikilvægi póstsins væri hærra en annarra og hvort pósturinn kæmi með viðhengi. Hægt var að senda pósta með viðhengi og skoða subject, sendanda og nota netfangabókina þegar póstur var opnaður eða nýr póstur búinn til. Það eina sem við viljum minnast á hér er að Window Eyes forritið styður ekki notkun TAB-lykilsins til að fara í gegnum reitina í nýjum pósti þ.e.a.s. sendanda, dagsetningu, subject o.s.frv. sem okkur finnst óeðlilegt þar eð þetta er Windows-aðgerð. Í stað þess þarf að nota alt hnappinn og tölustafina til að skoða innihald þessara reita, t.d. Alt-1 fyrir sendanda o.s.frv. Sérsniðnar lausnir af þessum toga geta aldrei talist jákvæðar, mun heppilegra er að notendur tileinki sér aðferðafræði sem er þegar í notkun í stýrikerfinu og að skjálesarinn lesi þær aðgerðir. Með þessari nálgun er einfaldlega verið að bæta við listann af flýtilyklum sem hinn almenni notandi þarf að hafa á hreinu.

Að lokum athuguðum við hvort hægt væri að fara í gegnum glærur í Powerpoint og lesa innihald þeirra. Þar stóð Window Eyes sig best en þar er nóg að nota Page Up og Page Down takkana til að fara milli glæra og svo TAB-lykilinn til að lesa efni hverrar glæru fyrir sig. Jaws og Hal buðu upp á meiri krókaleiðir og System Access og NVDA hreinlega buðu ekki upp á þetta.

Önnur forrit

Við prófuðum skjálesarana með nokkrum öðrum forritum. Jaws og Hal stóðu sig ágætlega í nýjustu útgáfu af Skype, hægt var að skrá sig inn og lesa tengiliðalistann en ekkert hinna forritanna komst svo langt. Öll forritin nema NVDA stóðu sig ágætlega í MSN Messenger, þó ekkert þeirra hafi virkað mikið betra en hin. Við höfðum einungis einn dag til prófana og komumst því ekki yfir að skoða .pdf skjöl og iTunes 9, sem er jú vinsælt forrit iPod-eigenda en við vitum að System Access auglýsir sig sem fyrsta fyrirtækið til að gera iTunes 9 aðgengilegt og Jaws, Hal og Window Eyes hafa auglýst að forritið sé aðgengilegt með sínum hugbúnaði. Þetta er eitthvað sem klárlega verður tekið fyrir í næstu prófunum.

Að lokum má minnast á nokkur atriði sem við tókum eftir við prufur og okkur fannst vert að geta sérstaklega. NVDA-forritið hefur hljóðbylgju sem heyrist þegar músin er hreyfð og hækkar tíðnin eða lækkar eftir því hvar á skjánum músabendillinn er staðsettur. Hal er eina forritið sem hefur lítinn ferning á skjánum sem auðkennir staðsetningu depilsins/fókusins. Þetta gerir það að verkum að sjáandi einstaklingur áttar sig betur á hvar notandi er staðsettur. Þar sem skjálestrarforrit lesa vefsíður ekki endilega í sömu röð og sjáandi notandi myndi búast við er þetta jákvæður eiginleiki þegar tekið er tillit til kennara. Þetta er þó ekki nauðsynlegur þáttur í sjálfu sér því bæði JAWS og HAL bjóða upp á að birta efst á skjánum lítinn glugga þar sem kemur fram hvað punktaletursskjár myndi birta. Þetta þýðir að ef sjáandi notandi aðstoðar einstakling sem notar JAWS-forritið þá þarf hann ekki að velkjast í vafa um hvar notandi er raunverulega staðsettur á skjánum. Í JAWS heitir þessi eiginleiki Braille Viewer en í HAL er þetta kallað Show Braille on Screen.

Window Eyes forritið notaði músabendilinn mjög mikið og þótti okkur það miður. Þetta þýðir að notandi Window Eyes er í raun að framkvæma aðgerðir sem stýra músarbendlinum. Jaws stóð sig best af forritunum á heildina litið og er sérstaklega öflugt í Office-forritunum og hefur ýmsa hentuga eiginleika. Sem dæmi um þetta má nefna Insert-F10 flýtilykilinn, en hann opnar glugga sem inniheldur  lista yfir alla glugga sem opnir eru í Windows.

Á heildina litið vorum við mjög sáttir og okkur fannst sérstaklega gaman að sjá hversu langt á leið ódýrari hugbúnaðurinn er kominn en hann gæti senn orðið raunverulegur valkostur notenda.

Í framtíðinni vonumst við til að gera prófanirnar viðameiri, læra betur á öll forritin (báðir þekktum við Jaws og Hal einna best og áttum einfaldast með að kanna eiginleika þeirra forrita, þó eyddum við góðum tíma í að kynna okkur hin forritin og leita á netinu ef við vissum ekki eitthvað). Okkur myndi einnig langa að prófa Linux með skjálesara eins og Orca og Apple-tölvu til samanburðar þar sem báðar lausnir eru æ meira áberandi. Við vonumst til að geta gert slíkan samanburð strax í byrjun sumars á 64 bita Windows 7 vélum, en uppfærsla í slíkan hugbúnað og vélbúnað boðar miklar breytingar og það verður gaman að sjá hversu vel hugbúnaðarframleiðendur standa sig í þeim efnum.

Niðurstaðan er því sú að JAWS-skjálesarinn kemur best út úr þessum prófunum í dag, en þar sem JAWS er ekki í boði með íslensku viðmóti þá er einfaldlega ekki hægt að mæla með honum í öllum aðstæðum. Það er betra fyrir unga notendur að vinna með íslensku viðmóti í valmyndum fremur en erlendu. Af þessum sökum getum við ekki sagt að JAWS-skjálesarinn sé besti valkosturinn í öllum tilvikum.

Birkir Rúnar Gunnarsson, ráðgjafi
Hlynur Már Hreinsson, ráðgjafi


 

Til baka