Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
26. janúar 2010

Fyrstu skrefin á Internetinu með Supernova/Hal skjálesaranum

Kynning

Þessi grein er að miklu leyti þýðing á leiðarvísi sem birtist á vefsíðu Dolphin Computer Access: „Getting started on the Internet“ (Dolphin Computer Access, 2008). Ég fékk leyfi fyrirtækisins til að breyta efni í leiðarvísinum og bæta við eftir því sem mér fannst ástæða til. Ég vildi gera reyna að gera leiðarvísinn eins aðgengilegan nýjum notendum og hægt var en jafnframt sóttist ég eftir því að reyndari notendur gætu fundið efni við sitt hæfi. Stundum fannst mér ekki nægjanlegar upplýsingar koma fram í upphaflega efninu og stundum helst til of mikið. Þessu breytti ég eftir því sem mér fannst passa hverju sinni.  

Inngangur

Veraldarvefurinn er frábær uppspretta af upplýsingum. Hvort sem verið er að kanna nýjustu fréttir, rannsaka efni sem við höfum mikinn áhuga á, hlusta á útvarp eða borga reikninga í  bankanum er yfirleitt hægt að finna flest það sem við leitum eftir. Þessar vefsíður sem veraldarvefurinn samanstendur af eru oft á tíðum fullar af spennandi efni sem sett hefur verið fram á skemmtilegan máta. Fullt af hreyfimyndum í öllum stærðum og gerðum, stórum og litlum kyrrmyndum og svo auðvitað texta. Það sem tengir saman allar þessar mismunandi vefsíður eru svokallaðir tenglar. Tenglar, stundum kallaðir „linkar“, gera okkur kleift að færa okkur milli vefsíðna á einfaldan og þægilegan máta. Við virkjum tenglana, eða „smellum“ á þá og við erum um leið flutt yfir á aðra síðu án þess að þurfa að muna hver slóðin nákvæmlega er. Slóð er íslenskun á skammstöfuninni: URL: „Uniform Resource Locator“ (http://gbiv.com, 2005).

Við þurfum að fá upplýsingar um allt efni á síðunni en það skiptir líka máli hvernig þetta efni er borið á borð og hvernig við ferðumst milli svæða á heimasíðunni. Hérna kemur skjálesarinn inn í myndina, viðmót hans og viðmót vefsíðunnar. Hvernig gengur okkur að vinna með vefsíðuna með Hal-hugbúnaðinum? Hér á eftir munum við fara yfir nokkur af helstu atriðunum til að hafa í huga þegar unnið er með Hal-skjálesarann á Internetinu. Áður en við formlega byrjum okkar ferðalag um leyndardóma Internetsins, þá þurfum við að leggja á minnið tvær aðgerðir; hvernig við virkjum tengla og hnappa á Internetinu. Við ræddum aðeins hlutverk tengils áðan. Hann býður okkur upp á að smella á ákveðinn stað á vefsíðunni til að færa okkur yfir á aðra vefsíðu í stað þess að þurfa að leggja á minnið “slóðina“. Oft eru tenglar búnir til á orði í samfelldum texta. „Hnappar“ eru svipað fyrirbæri og tenglar, búinn hefur verið til staður á heimsíðunni fyrir lesendur til að smella á. Þessi hnappur er í raun alveg eins og tengill, því ef við „smellum“ á hann þá erum við flutt á aðra heimasíðu án þess að þurfa að muna slóðina.

Þegar við ræðum þetta á þennan hátt, þá hljómar það svolítið ruglingslega. En við skulum prófa að fara yfir þetta svolítið nánar. Heimasíða hefur tiltekna „slóð“. Ef við viljum fara á heimsíðu þá þurfum við að slá inn „slóð“ hennar í addressurein Internet Explorer forritsins og styðja síðan á færslulykilinn/Enter. Hinn möguleikinn til að komast á nákvæmlega sama stað er að „smella“ á tengil. Ef við erum á heimasíðu sem heitir www.tolvupuki.is og viljum fara á heimasíðu sem heitir www.pukakaffi.is höfum við nokkra kosti í stöðunni. Við getum munað slóðina, slóðin í þessu tilviki væri www.pukakaffi.is, eða þá við getum smellt á hugsanlegan tengil á heimsíðunni www.tolvpuki.is. Það er mjög algengt á heimasíðum að þær séu með mikið af tenglum, og einmitt á þessari Tölvupúka heimasíðu er tengill yfir á uppáhaldskaffihúsið hans, Púkakaffi. Tölvupúkinn hefur því sett inn á sína heimasíðu tengil yfir á Púkakaffi heimasíðuna, þetta gerir það að verkum að við þurfum ekkert að muna réttu slóðina, heldur „smellum“ við bara á tengilinn Púkakaffi.is og þar með erum við flutt á réttan stað. Þessi tengill getur verið settur upp á þann máta sem ég hef gert hér, sem hluti af orði, en líka á annan hátt til dæmis sem mynd eða jafnvel „hnappur“. Það er nokkuð algengt að „hnappar“ séu notaðir á heimasíðum, en þeir draga nafn sitt af venjulegum hnöppum sem hægt er að styðja á, til dæmis dyrabjölluhnöppum. Við myndum sem sagt þurfa að „færa okkur“ á viðeigandi „hnapp“ eða „tengil“ á heimasíðunni og „smella“ á hann. Við förum hér á eftir yfir hvernig við „færum okkur“, en fyrst skulum við kanna hvaða lykla við notum til að virkja þessa hnappa og tengla.

Tenglar og hnappar – flýtilyklar

Virkja tengil (smella á tengil): Enter/Færslulykillinn eða Insert/setja inn lykillinn.

Virkja/smella á hnapp: Bilslá.  

Fyrsta skrefið í átt að skilningi á því hvernig við ferðumst um og lesum HTML-heimasíður er að átta sig á hvernig „Sýndardepillinn“ virkar í HTML-viðmóti.

Sýndardepillinn - Dolphin-bendillinn

Sá staður sem er í fókus hverju sinni í forritinu sem við erum að vinna í, til dæmis blikkandi bendill á stað á vefsíðu þar sem hægt er að skrifa (Edit-svæði eða gagnvirk svæði), litbrigði á valmyndinni sem við erum staðsett í, eða punktuð lína á hnappi á vefsíðu, allt eru þetta dæmi um staðsetningu fókuss, segir okkur hvar á skjánum okkar aðgerðir munu hafa áhrif. Þessi dæmi um staðsetningu fókuss eru mikilvæg, því að Hal-skjálesarinn eltir uppi þessar fókusstaðsetningar með sínum innbyggða sýndardepli, sem einnig er kallaður Dolphin-bendill. Við erum því núna komin með nokkur ný orð/hugtök:

Sýndardepill, núverandi staðsetning/fókus

Núverandi staðsetning fókuss þýðir einfaldlega: „Hvar er bendillinn staddur núna á þessari heimasíðu? Ef ég skrifa staf núna, kemur hann þá fram í Edit-svæðinu?" Til að geta svarað þessari spurningu verð ég að vita hver núverandi staðsetning fókussins er. Heimasíður eru ekki byggðar upp þannig að við getum ferðast um þær með lyklaborðinu eins og í Microsoft Word skjali. Þá kemur í ljós af hverju sýndardepillinn er svona mikilvægur. Hann eltir nefnilega núverandi fókus og gerir okkur kleift að vinna með vefsíður á lyklaborðinu á meðan aðrir nota mús.

Eins og gefur að skilja þurfum við að læra á nokkra flýtilykla þannig að þetta gangi sem best en til að byrja strax að vinna með vefsíður þurfum við ekki annað en örvalyklana og færslulykilinn. Sýndardepillinn gerir okkur kleift að ferðast um staði á heimasíðunni sem við alla jafna getum ekki ferðast um nema þá með músinni, en við þurfum að sjálfsögðu að geta gert það sama á heimasíðunni og músarnotandi. Af því að Internet Explorer hugbúnaðurinn gerir sér ekki grein fyrir því að þessi sérstaki fókus/depill hefur verið skapaður af Hal-forritinu til að gera það mögulegt fyrir okkur að ferðast um alla staði heimasíðunnar, þá er hann kallaður sýndardepill (e. „Virtual Focus“), en skýringin á nafngiftinni er sú að hugbúnaðurinn sem við erum að vinna með gerir sér ekki grein fyrir að við séum að nota öðruvísi fókus/depil, það sér ekki fókusinn sem við erum að nota. Besta dæmið til að sýna fram á hentugleika sýndardepilsins er þegar lesnar eru HTML-heimasíður. Þegar ferðast er um glugga með HTML-efni, eins og margar heimasíður eru uppbyggðar, rekumst við strax á að það er enginn bendill þannig að ekki er hægt að notast við „lifandi depil“ eða lifandi fókus eins og margir kjósa að kalla það. Þegar við vinnum í ritvinnsluhugbúnaði er alltaf bendill sem við getum fært upp og niður síðuna. Þessi bendill er í „lifandi fókus“. HTML-heimasíða er sem sagt ekki þannig uppbyggð, þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að notast við þennan svokallaða „sýndardepil“. Við getum lesið allar textalínur á heimasíðunni, við getum látið HAL lesa fyrir okkur einstök orð, stafa orð og þar fram eftir götunum. Við getum líka flutt okkur milli þeirra hluta sem hafa verið settir inn á heimasíðuna til viðbótar við textann, til dæmis mynda og hnappa, og jafnvel framkvæmt leit á síðunni að tilteknu orði!

Sýndardepilsviðmótið er afar öflug leið til að lesa heimasíður því hún býður okkur upp á svo marga möguleika. Hugtakið „sjálfvirkur Sýndardepill“ þýðir að það kviknar sjálfkrafa á sýndardeplinum þegar við förum inn á HTML-heimasíðu, en aftur á móti ef að við erum að ferðast um heimasíðuna og lendum á reit þar sem hægt er að skrifa í þá mun fókusinn sjálfkrafa breytast yfir í lifandi, eða venjulegan, fókus til að getum byrjað að skrifa. En hér er gengið út frá því að við höfum upphaflega verið í „lifandi fókus“. Aftur á móti, ef við opnum Internet Explorer til að lesa heimasíðu, ferðumst um heimasíðuna og á ákveðnum tímapunkti lendum á svæði þar sem hægt er að skrifa, þá þurfum við samt sem áður að virkja eiginleikann „að geta skrifað“ með því að styðja á Enter/færslulykilinn. Af hverju þarf að „virkja“ þennan eiginleika? Það er nokkuð sem við komum að síðar í þessari grein.

Tenglar og hnappar – flýtilyklar.

Kveikja/slökkva á sýndardepil: Vinstri Control og 4.

Færa sig til vinstri um einn staf þegar við erum staðsett í textalínu:  Ör til vinstri.

Færa sig til hægri um einn staf þegar við erum staðsett í textalínu: Ör til hægri.

Færa sig til vinstri um eitt orð: Vinstri Control og ör til vinstri.

Færa sig til hægri um eitt orð: Vinstri Control og ör til hægri.

Færa fókus upp um eina línu: Ör upp.

Færa fókus niður um eina línu: Ör niður.

Færa fókus til byrjun línu: Heim.

Færa fókus til enda línu: Endir.

Færa fókus efst á heimasíðuna sjálfa: Vinstri Control og Heim.

Færa fókus neðst á heimasíðuna sjálfa: Vinstri Control og Endir.

Færa fókus á næsta tengil á heimasíðunni: TAB.

Færa fókus á fyrri tengil: Vinstri Shift og TAB.

Texti, dálkar og töflur

Dolphin-fyrirtækið hefur lagt mikla vinnu í að sníða til það viðmót sem við vinnum með á Internetinu, sem og þegar við lesum dálka og töflur. Að lesa texta sem er staðsettur inni í töflu á að ganga jafn vel fyrir sig og að lesa allan annan texta. Við byrjum yfirleitt að lesa í þeim dálki sem er staðsettur lengst til vinstri og færumst svo sjálfkrafa yfir í næsta dálk hægra megin þegar við erum búin með fyrsta dálkinn. Þetta gerist mikið til sjálfvirkt og alls ekki víst að allir notendur yfir höfuð átti sig á því að þeir séu staddir í töflu. En ef við erum á annað borð meðvituð um að við séum nú staðsett í töflu þá eru nokkrir flýtilyklar sem við getum nýtt okkur til að ferðast skjótt um töfluna. Þeir eru í samantekt hér að neðan. Einn af mjög handhægum eiginleikum í Dolphin HAL hugbúnaðinum er leitareiginleikinn, við getum leitað að orði á heimasíðunni og fært fókusinn beint á orðið með því að notfæra okkur flýtilykla. Það sem við gerum er að við styðjum á flýtilykilinn, sem er F3, og skrifum inn orðið sem við leitum eftir. Að endingu sláum við á Enter/Færslulykilinn. Ef að orðið finnst á síðunni mun skjálesarinn lesa línuna sem orðið er staðsett í.

Ef við viljum síðan halda áfram að lesa frá þeim punkti þá styðjum við á ör niður og höldum áfram þannig að fókusinn flyst sumsé á orðið sem leitað er eftir. Með því að styðja á F2 eða F4 leitum við eftir fyrri stöðum í skjalinu þar sem orðið hefur komið fyrir og næsta stað þar sem orðið kemur fyrir. Leitarorðið er vistað inni í HAL, þannig að ef við erum á heimasíðunni: www.abcdef.is og leitum eftir orðinu: „Kaffi“ þá mun orðið „Kaffi“ verða áfram í minni HAL. Setjum sem svo að við förum því næst á heimasíðuna: www.12345.is. Þá þurfum við ekki annað að gera en að styðja á F4 til að leita eftir næsta stað á síðunni þar sem orðið: „Kaffi“ kemur fyrir. Ef við viljum framkvæma nýja leit, þá styðjum við á F3 og skrifum inn ný leitarskilyrði.

Tenglar og hnappar – flýtilyklar

Kveikja á leita eiginleikanum: F3.

Finna næsta stað á síðunni þar sem orðið kemur fyrir: F4.

Finna fyrri stað á síðunni þar sem orðið kemur fyrir: F2.

Finna næstu töflu á síðunni: Dolphin lykill(CAPSLOCK) og Endir.

Finna fyrri töflu á síðunni: Dolphin lykill (CAPSLOCK) og Heim.

Færa sig niður í næstu röð í töflunni: Ör niður.

Færa upp um röð í töflunni: Ör upp.

Færa sig milli dálka í töflunni: Dolphin lykill (CAPSLOCK) og Ör upp/niður.

Það skal tekið fram að hér er miðað við að notandi sé með lyklaborðstillingar fyrir borðtölvu en ekki fartölvu.  Ef við erum að keyra fartölvustillingar þá eru leitarhnapparnir:

Finna orð á síðu: Vinstri Control og F3.

Finna fyrra orð á síðu: Vinstri Control og F2.

Finna næsta orð á síðu: Vinstri Control og F4.

Velja texta, afrita og líma

Þegar lesinn er texti á Internetinu gæti komið upp sá möguleiki að við vildum afrita eitthvað af textanum og líma inn í textaskjal. Til dæmis myndum við kannski vilja afrita tiltekna tilvitnun eða netfang, jafnvel heila setningu. Til að framkvæma þessa aðgerð með lyklaborðinu og HAL þarf að framkvæma þrjár aðgerðir. Þær eru: að velja textann, afrita textann og svo að lokum að líma textann inn í textaskjalið okkar. Þetta er gert á eftirfarandi hátt:

Við staðsetjum fókusinn fyrir framan fyrsta stafinn í fyrsta orðinu í þeim texta sem við viljum afrita.

Við styðjum núna á: Hægri Control og Heim lykilinn, til að tilgreina að héðan eigi að byrja að afrita.

Við færum fókusinn fyrir aftan síðasta stafinn í textanum sem við viljum afrita. Þetta gerum við bara með örvalyklunum.

Við styðjum núna á: Hægri Control og Endir lykilinn. Þar með erum við búin að merkja textann sem skal afrita.

Við afritum nú textann með því að styðja á: Vinstri Control og C.

Næst opnum við textaforritið sem við viljum nota, til dæmis Microsoft Word. Við límum núna textann inn í skjalið með því að styðja á: Vinstri Control og V.

Þar með er ferlinu lokið, núna hafa þær upplýsingar sem afritaðar voru verið límdar inn í skjalið. Ef þú vilt geta farið yfir hvaða texta þú varst að afrita, lesa hann yfir áður en að þú límir hann inn í skjalið, þá er það hægt á einfaldan máta með því að nýta sér: „Selection virtual focus mode“. Þessi hamur hindrar að sýndardepillinn fari annað á síðunni nema til þess staðar þar sem textinn var afritaður. Til að virkja þetta viðmót styðjum við á: vinstri Control, vinstri Shift og mínus hnappinn á númeríska lyklaborðinu/talnaborðinu. Fyrir þá sem nota fartölvu án númerísk lyklaborðs og vinna með „Function“ lyklaborðsuppskipuninni, þá er flýtilykillinn: Vinstri Control, Vinstri Shift og F4. Til að hætta síðan í þessu viðmóti styðjum við á: Mínus á númeríska lyklaborðinu, eða: F4, ef við erum að nota „Function“ lyklaborðsuppskipunina.

Það er líka rétt að benda á, að ef við viljum einfaldlega fá allan texta sem stendur á heimasíðunni afritaðan og límdan inn í sérskjal, þá er einfaldast að nota flýtilykilinn Vinstri Control og A. Þegar stutt er á þessa lyklasamsetningu verður allur texti á heimasíðunni valinn, þá er bara eftir að afrita hann með því að styðja á Control og C og svo líma hann inn í skjalið með því að styðja á Control og V.

Flýtilyklar fyrir vinnu með texta á vefsíðum

Tilgreina upphafsreit afritunartöku: Hægri Control og Heim.

Tilgreina endareit afritunartöku: Hægri Control og Endir.

Afrita texta: Vinstri Control og C.

Líma texta í textaskjal: Vinstri Control og V.

Merkingar á myndum á vefsíðum

ALT er skammstöfun fyrir orðið: Alternate, sem þýðir: að koma í staðinn fyrir, eða: í stað einhvers. ALT-merkingar eru stundum notaðar þegar myndir eru settar inn á vefsíður. Tilgangurinn með þeim er að koma með lýsingu á því hvað er á myndinni sem hefur verið sett inn á síðuna. Þetta þýðir að þegar við erum með fókusinn á myndinni, og hún hefur ALT-merkingu, þá mun skjálesarinn lesa fyrir okkur þessa lýsingu. Sem dæmi, við förum inn á vefsíðu og þar eru nokkrar myndir af vörum sem eru til sölu.

Fyrsta varan er forláta leðurstóll. Ef það er ekki lýsandi texti undir myndinni, eins og til dæmis: „Forláta leðurstóll, sérlæga þægilegur“, þá vitum við ekki hvað er í raun verið að bjóða okkur upp á.

Með því að setja svohljóðandi ALT-merkingu inn á myndina af stólnum : „Mynd: Brúnn leðurstóll“, eða bara:“Brúnn leðurstóll“ þá leikur enginn vafi á því hvað er verið að fjalla um. Það er líklegt að þið eigið eftir að koma inn á heimasíðu þar sem texti, svipaður eftirfarandi dæmi, á að segja allt sem segja þarf: „Eins og sést á þessari mynd voru menn hissa þegar þessi maður kom á fundinn“. Svo, þegar við færum fókusinn á myndina, þá segir skjálesarinn: „IMG344321.JPG“.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu ergilegt getur verið að lesa svona heimasíður. Fyrirtæki í dag, alltént einhver þeirra, eru orðin meðvitaðri um mikilvægi þess að hafa lýsandi texta, annaðhvort undir sínum myndum eða þá notfæra sér ALT-merkingar á myndum sínum. Í dæminu hérna áðan þá hefði verið hægt að setja inn ALT-merkingu á myndina, til dæmis svohljóðandi: „Mynd: Jón Jónsson“.

Annað algengt dæmi er þegar myndir eru notaðar sem tenglar. Það er til dæmis sett inn mynd á heimasíðu, myndin er af texta þar sem stendur: „smella hér“. Þar sem skjálesarinn getur ekki lesið myndir, og textinn á myndinni er ekki hrár texti heldur aðeins mynd af texta, þá les hann bara slóðina sem tengillinn vísar á. Þannig að við heyrum ekki: „smella hér“, heldur: http://www.fyrirtaeki-x.is/starfsmenn/deildarstjorar/jonjonsson.html. Þetta er að sjálfsögðu mjög svekkjandi en samt sem áður staðreynd. Ein stærsta hindrunin hjá nýjum notendum talgervla sem ætla sér að skoða Internetið er einmitt þetta gríðarlega magn af upplýsingum sem virðist ekki vera í neinu samhengi við þeirra væntingar af upplifuninni við að skoða netið.

Þegar þú heyrir ekkert annað en: http:www og svo framvegis, á síðu eftir síðu án lýsandi texta þá getur verið erfitt að vera þolinmóður. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar við förum að lesa heimasíður að við séum meðvituð um hve mikill munur getur verið á aðgengileika þeirra. Ekki bara með tilliti til hversu mikið af upplýsingum skjálesarinn les fyrir okkur, heldur líka hversu skiljanlegar þessar upplýsingar eru í raun og veru.

Form útfyllt á Internetinu

Fyrir utan texta, myndir og tengla, þá geta vefsíður líka innihaldið svokölluð form, líka kallað stýringar. Orðið form, í þessu samhengi, er notað yfir svæði á vefsíðunni þar sem við getum átt gagnvirk áhrif.

Sem dæmi um þau svæði sem um ræðir eru svæði þar sem við getum skrifað texta á vefsíðunni, til dæmis í leitarvélum og í svokölluð Checkbox, þar sem við getum sett hak fyrir framan textalínu til að tilgreina val okkar á einum möguleika af þeim þrem sem gætu verið í boði. Önnur dæmi eru til dæmis útvarpshnappar. Hvað í ósköpunum er útvarpshnappur? Jú, það er nú rökrétt skýring á þessari nafngift.  Hún er sú að á gömlu viðtækjunum voru einvörðungu hnappar sem hægt var að styðja inn og ef stutt var á einn hnapp þá hrökk annar út. Sem sagt ekki hægt að vera með báða hnappana inni samtímis. Útvarpshnappar á Internetinu virka eins, þú átt að tilgreina val þitt á einhverju einu og ekki er hægt að velja um fleiri en eitt atriði, öfugt við „Checkbox“ útfærsluna. Þar getum við sett hak við mörg atriði, til dæmis ef við værum að svara spurningalista um áhugasvið okkar, þá myndum við jafnvel velja fleiri en einn möguleika til að tilgreina okkar áhugasvið, kannski tölvur, tónlist og hreyfing. „Checkbox“ formið býður okkur upp á þetta. En ef að útvarpshnappar væru notaðir í sama dæmi, þá gætum við bara valið eitt af þessum atriðum.

Þegar við síðan vinnum með form af þessu tagi þá notum við jafnan bilslána. Það er að segja, þegar fókusinn er á þeim möguleika sem við viljum velja, sem sagt setja hak við, þá styðjum við á bilslánna. Svæði þar sem við getum skrifað inn texta, eins og í leitarvélum, virka aðeins öðruvísi. Í stað þess að styðja á bilslána til að virkja svæðið, þá þurfum við að nota annan lykil til að gera okkur kleift að geta byrjað að skrifa en það er Enter/færslulykillinn. Um leið og við styðjum á Enter segir skjálesarinn: „sjálfvirkur gagnvirkur hamur, auð lína ritvinnslusvæði.“ Hann getur líka sagt: „Lögunarhamur – ritvinnslusvæði“. Þetta fer eftir því hvaða útgáfu af Supernova eða HAL við notum. Stundum segir hann líka nafnið á svæðinu, eins og til dæmis: „leita“ ef að leitarvélarreitnum sem við erum að vinna með hefur verið gefið það nafn.

Ef við tökum sem dæmi aðgengi að heimabönkum þurfum við þar að gefa upp notendanafn og lykilorð til að geta komist inn í bankann okkar. Þá er ekki óalgengt að reiturinn sem við eigum að skrifa notendanafnið okkar í hafi beinlínis verið gefið nafnið: „Notendanafn“. Slíkar nafngiftir auðvelda alla vinnslu með formið þar sem að það er skiljanlegra að heyra: „sjálfvirkur gagnvirkur hamur, notendanafn, auð lína ritvinnslusvæði“. Þetta eru líklega algengustu formin sem við þurfum við að vinna með á Internetinu í dag. En það eru náttúrulega til fleiri gerðir eins og gefur að skilja.

Macromedia Flash efni

Þegar við rekumst á Flash-hnapp á heimasíðu sem HAL greinir, en það er nú því miður ekki alltaf þannig að HAL greini þetta á þennan hátt, þá segir skjálesarinn: "Ívafið leifturstýring", eða „Embedded Flash object“ eftir því hvort við séum með íslenskt eða enskt viðmót. Til að virkja, sem sagt smella, á þennan hnapp og þannig kalla fram upplýsingarnar þá styðjum við á bilslána. Ef við tökum sem dæmi YouTube myndbönd sem stundum eru fléttuð inn í heimasíður, þá getum við spilað myndbandið með því að styðja á bilslána. En þegar við komum að heimasíðum sem eru byggðar upp í Flash, þó ekki sé nema einhver hluti síðunnar smíðaður á þennan hátt, þá þurfum við að geta ferðast milli möguleika/lína í Flash-viðmótinu. Það gerum við með því að styðja á Dolphin lykilinn og F. Sjálfgefin stilling í HAL og Supernova er að Dolphin lykillinn sé: "CAPSLOCK". Við myndum sem sagt styðja á CAPSLOCK og F, til að geta síðan notað örvalyklana til að ferðast milli möguleika/lína inni í Flash viðmótinu.

Síðast en ekki síst er það Anti-stutter eiginleikinn í HAL. Anti-stutter gerir það að verkum að HAL og Supernova hætta að fylgjast með uppfærslum/breytingum á viðmótinu á heimasíðunni. Það hafa vafalítið einhverjir lent í því að vera á heimasíðu eins og www.mbl.is og skjálesarinn byrjar í sífellu að lesa upp sömu auglýsinguna aftur og aftur og ekki virðist vera mögulegt að halda áfram að lesa venjulegan fréttatexta. Þetta er líklega vegna þess að það er Flash auglýsing á síðunni, kannski frá einhverjum bankanum, sem er í lúppu/endurtekningu, byrjar alltaf að spila aftur og aftur sama myndbandið. Skjálesarinn reynir að láta okkur vita af þessum upplýsingum, en það verður á kostnað textans sem við erum nú þegar að lesa. Í slíkum tilvikum getur verið hagkvæmt að hafa á bak við eyrað að við getum slökkt á þessum eilífu tilkynningum um að nýjar upplýsingar hafi birst á skjánum með því að virkja/afvirkja þennan Anti-stutter eiginleika. Þetta er hagkvæmast að gera með flýtilykli: "Vinstri Control og 6". Skjálesarinn segir þá: "Kveikt/slökkt á Anti-stutter".

Þetta eru helstu atriðin sem þarf að hafa í huga þegar unnið er með Flash viðmóti á vefsíðum með Dolphin vörum.

Flýtilyklar vegna Flash-viðmóts á vefsíðum

Fara í Flash-viðmót: Dolphin-lykill og F.

Kveikja/Slökkva á Anti-stutter eiginleika: Vinstri Control og 6.

Ferðast milli Flash-svæða: Örvalyklar.

Sérsniðnir flýtilyklar fyrir sýndardepilinn á vefsíðum

Hér fyrir ofan hafa komið fram upplýsingar um hina ýmsu flýtilykla til dæmis að TAB lykillinn flytji þig milli tengla eða forma en sleppi öllum hráum texta þar á milli, hvort sem þú ert staddur í lifandi fókus eða sýndarfókus. En einnig eru til sérsniðnir flýtilyklar fyrir HTML viðmótið á vefsíðum. Hugmyndin með þessum lyklum er að bjóða okkur upp á þann möguleika að vafra í gegnum vefsíðuna á sem hagkvæmastan hátt, það er að segja - gera okkur kleift að fara beint yfir í tiltekinn hluta síðunnar á sem skemmstum tíma í stað þess að þurfa að vafra í gegnum hana alla með örvalyklunum.

Eitt er þó rétt að hafa í huga þegar neðangreindar upplýsingar eru lesnar. Þegar við lesum vefsíðu í fyrsta skipti þá er skynsamlegast að lesa hana einvörðungu með örvalyklunum. Ástæðan fyrir þessu er sú að ef við ætlum okkur í framtíðinni að geta unnið með þessa síðu þá þurfum við að þekkja hana. Það þarf ekki annað en að styðja á ranga lykla og þar með getum við verið komin á svæði á heimasíðunni sem við könnumst ekkert við. Þess vegna verðum við að skilja uppbyggingu síðunnar. Fyrir þá sem eru að leiðbeina öðrum í notkun á skjálesara á Internetinu er þetta ennþá mikilvægara, því nokkuð algengt er að leiðbeinendur verði hrifnir af flýtilyklum, sjá fljótt kostina í að geta fært fókusinn yfir á tiltekinn stað, því þangað var nú förinni heitið á annað borð. Ef þeir fara síðan að kenna þessi vinnubrögð áður en notandi hefur öðlast fullan skilning á því hvernig vefsíðan er uppbyggð þá getur þessi aðferð skapað meiri vandræði en hún leysir.

Því ber, að mínu mati, að líta á þetta svona: Ef hugmyndin er aðeins að leita eftir tilteknum upplýsingum á heimasíðunni, til dæmis athuga hvort að ákveðið orð kemur fyrir eða eitthvað í þá veru, þá er að sjálfsögðu eðlilegt að notfæra sér flýtilykla til þess arna. En aftur á móti ef þú ætlar þér að lesa síðuna reglulega, eins og til dæmis vef www.mbl.is, þá er skynsamlegast að lesa hana minnst einu sinni yfir með örvalyklunum til að átta sig uppbyggingunni áður en við förum að notfæra okkur flýtileiðir. Ég árétta að ég á ekki við allan vefinn í þessu sambandi, eins og vef www.mbl.is, heldur aðeins tiltekna síðu, eins og kannski forsíðu www.mbl.is. Á þessu er klár munur eins og gefur að skilja. En snúum okkur nú að flýtilyklunum.

Sérsniðnir flýtilyklar fyrir sýndardepilinn

Færa sig í fyrsta ritvinnslusvæði á vefsíðunni: E lykillinn. Líka er hægt að nota Vinstri Control, vinstri Shift og Heim.

Færa sig í fyrri hnapp á vefsíðu: Vinstri Control og Page Up.

Færa sig á næsta hnapp á vefsíðu: Vinstri Control og Page Down.

Færa sig á fyrri texta á vefsíðu (sleppir tenglum): Vinstri Control, Vinstri Shift og ör til vinstri.

Færa sig á næsta texta á vefsíðu (sleppir tenglum): N lykillinn. Líka er hægt að nota: Vinstri Control, Vinstri Shift og ör til hægri.

Færa sig á fyrri tengil: Shift og TAB. Líka er hægt að nota:  Vinstri Control, Vinstri Shift og ör upp.

Færa sig á næsta tengil: TAB. Líka er hægt að nota:  Vinstri Control, Vinstri Shift og ör niður.

Færa sig í fyrri ramma: Vinstri Control, Vinstri Shift og Page Up.

Færa sig í næsta ramma: Vinstri Control, Vinstri Shift og Page Down.

Í langflestum tilvikum förum við ekki að notfæra okkur þessa lykla fyrr en við skiljum hvernig síðan sem við erum að lesa er uppbyggð. En þegar við höfum kynnt okkur uppbyggingu síðunnar koma þessir lyklar að mjög góðum notum þar sem þeir flýta fyrir okkur í allri vinnslu með síðunna. Að finna efni, færa okkur milli tengla og texta og svo framvegis.

Dolphin-listavalmyndin - Líka kallað hlutaleitari

Hingað til höfum við einbeitt okkur að hinum ýmsu möguleikum til að stýra og vinna með stjórnun á sýndardeplinum. Það er eitt verkfæri í viðbót sem er vert að skoða í þessu sambandi, en það er listavalmynd Dolphin, hún heitir í nýrri útgáfum Dolphin-hlutaleitarinn. Þegar við lesum HTML-efni gerir þessi listavalmynd okkur kleift að kalla fram tengla, fyrirsagnir, ramma og töflur í þar til gerðan lista. Listinn er settur upp í nýjum glugga sem að birtist á skjánum og öllu því efni (tenglum, fyrirsögnum og svo framvegis) sem við höfum kosið að kalla fram er raðað upp lóðrétt í þennan glugga.

Við notum síðan örvalykla upp og niður til að velja úr þeim möguleikum sem að birtast lóðrétt í glugganum. Þetta er einstaklega þægilegt þegar unnið er með vefsíður sem að við þekkjum vel. Tökum sem æmi, við erum á vefsíðu þar sem við vitum að við þurfum að styðja á TAB lykilinn 14 sinnum til að komast á tengilinn sem við viljum virkja. Í stað þess að gera það, þá styðjum við á flýtilykil til að kalla fram listavalmyndina. Styðjum á fyrsta stafinn í nafni tengilsins sem við erum að leita eftir og þar með erum við flutt beint á þann tengil. Þegar við erum svo staðsett á þeim tengli þá styðjum við á Enter til að virkja tengilinn og loka þessum listavalmyndaglugga samtímis. Þarna er um klára hagræðingu að ræða, en einungis ef við þekkjum síðuna. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að tenglunum er sjálfkrafa raðað upp í TAB röð í listavalmyndinni. Þegar sagt er TAB röð, þá er átt við að tenglunum er raðað upp í sömu röð og við myndum ferðast framhjá þeim með TAB lyklinum á heimasíðunni. Þess vegna er engin hagræðing í að nota listavalmyndina ef þú ætlar síðan að nota örvalykilinn til að velja þann tengil sem á að virkja. Hagræðingin kemur í því formi að þú þekkir hvað tengillinn heitir og getir stutt á fyrsta stafinn í nafni hans. Þar með ertu fluttur beint á hann.

Við skulum nú renna yfir hverjir þessir flýtilyklar eru. Þegar talað er um Dolphin lykilinn hér fyrir neðan, þá er alltaf átt við CAPSLOCK lykilinn. Ástæðan fyrir því að hann er kallaður Dolphin lykill er sú að Dolphin vill með því árétta að hægt er að breyta því hvaða lykill er nýttur sem Dolphin lykillinn, það þarf ekki að vera CAPSLOCK. En svo má líka bæta því við að fáir sjá ástæðu til að breyta þessari lyklauppsetningu. En hvað um það, snúum okkur að lyklunum. 

Flýtilyklar fyrir Dolphin listavalmyndina

Kalla fram lista af tenglum: Dolphin lykill og 1.

Kalla fram lista af fyrirsögnum: Dolphin lykill og 2.

Kalla fram lista af römmum: Dolphin lykill og 3.

Kalla fram lista af töflum á heimasíðunni: Dolphin lykill og 5.

Kalla fram lista af stýringum/ritvinnslusvæðum á heimasíðunni: Dolphin lykill og 6.

ATH. Þessi listi er miðaður við útgáfu 11.04 af Supernova/HAL. Í fyrri útgáfum var listi stýringa á vefsíðunni Dolphin lykill og 5.

Þessi eiginleiki er sérlega þægilegur þegar til dæmis er verið skrá sig inn með notendanafni og lykilorði inn á vefsíðu, kannski inn í bankann þinn. Með því að styðja á þessa lyklasamsetningu þá færðu öll svæðin á vefsíðunni sem hægt er að skrifa í, þú velur það sem við á og styður á Enter. Þar með eru kominn á réttan stað og getur byrjað að skrifa þegar stutt hefur verið á Enter á svæðinu þannig að skjálesarinn segi: „sjálfvirkur gagnvirkur hamur“.

Að síðustu notum við síðan Escape lykilinn til að loka listavalmynd sem er opin en við höfum ákveðið að nota ekki.

Hvaða vafra notum við á Internetinu?

Dolphin Computer Access mælir með Internet Explorer þegar lesnar eru vefsíður þar sem sá vafri býður upp á ágætis aðgengismöguleika.

Útgáfa 11 af Dolphin hugbúnaði styður líka Mozilla Firefox, en ekki er langt síðan þeim stuðningi var bætt við.

Nokkur hagkvæm atriði varðandi Internet Explorer

Fyrst er það stöðureinin, Status Bar. Þessa rein er hægt hylja og sýna með því að fara í Skoða/View valmyndina í vafranum. Þegar hún er höfð sýnileg getum látið skjálesarann lesa upplýsingar af henni fyrir okkur. Til dæmis, ef okkur finnst sem að vefsíða sé óvenjulengi að hlaða niður öllum upplýsingunum sem á henni eiga að birtast, þá getum við látið lesa fyrir okkur af stöðureininni hversu mörg atriði eiga í raun eftir að niðurhalast. Hönnuðir vefsíðna geta einnig látið ákveðnar upplýsingar birtast á stöðureininni. Á heildina litið getur verið hagkvæmt að kunna á því skil að lesa stöðureinina. Þetta gerum við með flýtilykli, sem er: 2 á númeríska lyklaborðinu, en Vinstri Shift og F12, ef við notum fartölvuviðmót. Hér fyrir neðan eru síðan nokkrir hagkvæmir flýtilyklar sem gott er að hafa á bak við eyrað þegar við vinnum með Internet Explorer vafrann.

Flýtilyklar fyrir Internet Explorer

Færa sig á fyrri síðu sem var skoðuð: Vinstri Alt og ör til vinstri.

Færa sig á næstu síðu sem var skoðuð (þá gefum við okkur að þú hafir fyrst farið til baka og viljir síðan aftur fara áfram á þá síðu sem þú varst staddur): Vinstri Alt og ör til hægri.

Endurhlaða síðunni: F5.

Hætta að niðurhala efni á síðuna: Escape.

Fara á aðra síðu, kalla fram opna gluggann: Vinstri Control og O.

Hér má bæta við að mörgum þykir þægilegra að færa fókusinn beint addressureinina í stað þess að kalla fram nýjan glugga. Við getum fært okkur beint í addressureinina, þar sem slóðin á vefsíðunni kemur fram, með því að styðja á: Vinstri ALT og D. Um leið og þetta er gert verður allur texti í reininni merktur, eða valinn. Þess vegna þurfum við ekkert að þurrka út, við byrjum bara strax að skrifa slóðina að þeirri vefsíðu sem við viljum heimsækja og styðjum síðan á Enter.

Færa þig á þína upphafssíðu: Vinstri Alt og Heim lykillinn.

HTML flýtilykla samantekt

Hér fyrir neðan er samantekt á þeim flýtilyklum sem hefur verið fjallað um hér að ofan. Þessar upplýsingar eru kaflaskiptar eftir efni.

Flýtilyklar til að virkja þætti vefsíðu

Virkja tengil í sýndardepil: Insert lykill eða Enter.

Virkja hnapp í sýndardepil: Bilslá.

Sýndardepils flýtilyklar

Kveikja/slökkva á sjálfvirkum sýndardepil: Vinstri Control og 4.

Færa sig til vinstri um einn staf: Ör til vinstri.

Færa sig til hægri um einn staf: Ör til hægri.

Færa sig til vinstri um eitt orð: Vinstri Control og ör til vinstri.

Færa sig til hægri um eitt orð: Vinstri Control og ör til hægri.

Fara í fyrri línu: Ör upp.

Fara í næstu línu: Ör niður.

Fara í byrjun línu: Heim lykillinn.

Fara í enda línu: Endir lykillinn.

Fara efst á síðu: Vinstri Control og Heim.

Fara neðst á síðu: Vinstri Control og Endir.

Færa sig á næsta tengil: TAB lykillinn.

Færa sig á fyrri tengil: Vinstri Shift og TAB lykillinn.

Fyrirsagnir og flýtilyklar

Fara á fyrri fyrirsögn: Dolphin lykill og Insert lykillinn.

Fara á næstu fyrirsögn: H lykillinn, eða Dolphin lykill og Delete lykillinn.

Finna og töflu flýtilyklar

Finna í sýndardepil: F3.

Finna, fyrri staður: F2.

Finna, næsti staður: F4.

Fyrri tafla: Dolphin lykill og Heim.

Næsta tafla: Dolphin lykill og Endir.

Ferðast um raðir í töflum: Ör upp eða niður.

Ferðast um dálka í töflum: Dolphin lykill og ör upp eða niður.

Velja texta á vefsíðum til afritunar

Velja stað þar sem afritun skal hefjast: Hægri Control og Heim.

Velja stað þar sem afritun skal ljúka: Hægri Control og Endir.

Afrita texta: Vinstri Control og C.

Líma texta í textaskjal: Vinstri Control og V.

Form og flýtilyklar

Velja, setja hak í formið eða útvarpshnappinn: Bilslá.

Fara í gagnvirkan ham: Enter.

Hætta í gagnvirkum ham: Mínus á númeríska lyklaborðinu.

Hætta í gagnvirkum ham á þessum stað í forminu og fara yfir í næsta form hluta: TAB lykillinn.

Flash efni á vefsíðum

Skipta yfir í sýndardepil viðmót til að hægt sé að vafra um Flash efni á vefsíðu: Dolphin lykill og F.

Sérsniðnir flýtilyklar fyrir sýndardepilinn

Færa sig á fyrsta svæði á vefsíðunni þar sem hægt er að skrifa, til dæmis í leitarvél: E lykillinn, eða Vinstri Control, Vinstri Shift og Heim.

Færa sig á fyrra svæði: Vinstri Control og Page Up.

Færa sig á næsta svæði: Vinstri Control og Page Down.

Færa sig á fyrri texta hluta (sleppa tenglum): Vinstri Control, Vinstri Shift og ör til vinstri.

Færa sig á næsta texta hluta (sleppa tenglum): N lykillinn, eða

Vinstri Control, Vinstri Shift og ör til hægri.

Færa sig á fyrri tengil: Vinstri Control, Vinstri Shift og ör upp.

Færa sig á næsta tengil: TAB lykillinn, eða

Vinstri Control, Vinstri Shift og ör niður.

Færa sig á fyrri ramma: Vinstri Control, Vinstri Shift og Page Up.

Færa sig á næsta ramma: Vinstri Control, Vinstri Shift og Page Down.

Listavalmynd Dolphin, flýtilyklar

Listi yfir tengla: Dolphin lykill og 1.

Listi yfir fyrirsagnir: Dolphin lykill og 2.

Listi yfir ramma: Dolphin lykill og 3.

Listi yfir töflur á vefsíðu: Dolphin lykill og 5.

Listi yfir ritsvæði á vefsíðu: Dolphin lykill og 6.

Internet Explorer flýtilyklar

Fara á fyrri síðu: Vinstri Alt og ör til vinstri.

Fara á næstu síðu: Vinstri Alt og ör til hægri.

Endurhlaða efni á síðu: F5.

Hætta niðurhali á efni á síðu: Escape (lausnarlykillinn).

Færa fókusinn í addressulínuna: Vinstri ALT og D.

Kalla fram opna gluggann: Vinstri Control og O.

Fara í þína upphafssíðu: Vinstri Alt og Heim.

Heimildir

Berners-Lee, Tim – Fielding, Roy T. – Masinter, Larry (janúar 2005): „Uniform Resource Identifier (URI): Generic Syntax“http://gbiv.com/protocols/uri/rfc/rfc3986.html  Dolphin Computer Access (2008): „Getting started on the Internet“: A „how to“ guide. http://www.yourdolphin.com/online_tutorials.asp?id=2

Hlynur Már Hreinsson, ráðgjafi

Til baka