Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
1. febrúar 2010

Átta stærstu viðburðir ársins 2009.

Þó janúarmánuður sé nær að baki er ekki úr vegi að skoða helstu atburði og tækninýungar liðins árs í heimi aðgengismála fyrir blinda og sjónskerta. Listinn er stytt útgáfa lista sem félagar okkar í Bandaríkjunum tóku saman. Þeir eru J. J. Menog frá BlindBargains síðunni ásamt Michael MacCarthy frá síðunni fred´s Head Companion, Rick Hamon frá  Blind Geek Zone og Jamie Pauls frá ACB Radio. Allir eiga þessir herramenn það sameiginlegt að skrifa fréttabréf, blog eða búa til útvarpsþætti um tæknimál. Listinn inniheldur sumt gott og annað miður gott, en allt þetta gæti snert okkur heilmikið á komandi árum: 

8. Aðgengilegar vefráðstefnur / Accessible Event

Sífellt færist í aukanna að fólk haldi fundi í gegnum netið. Oft eru þessi forrit ekki sérlega aðgengileg þar eð þau sameina tal, sýnikennslu og spjall í gegnum textaskilaboð. Í rauninni má segja að þarna komi saman MSN, Skype og sýnikennsluforrit. Með Accessible Event hefur Serotek tekist nokkuð vel að búa til aðgengilegt forrit sem hægt er að nota til að halda fundi, sýna glærur og vefsíður til allra þátttakenda ásamt tali og textaskilaboðum á einfaldan og aðgengilegan hátt.

Ef fólk skráir sig fyrir 31. janúar er hægt að halda fundi fyrir allt að þrjá aðila ókeypis en stærri fundi þarf að borga fyrir, þó þetta sé vissulega ekki dýr þjónusta.

Þeir sem vilja kynna sér þetta vefráðstefnuumhverfi nánar geta farið á síðuna: http://accessibleevent.com/

7. Stærstu vonbrigði ársins 2009, endalausa biðin eftir Orator

Þegar útgáfa nýrra forrita er auglýst má telja nær öruggt að framleiðendur séu aðeins of bjartsýnir. Stundum líða vikur og jafnvel mánuðir frá því að hugbúnaður á að líta dagsins ljós þar til fólk getur keypt hann. Er fólk því ýmsu vant í þessum efnum en þó verða svartsýnustu menn að viðurkenna að tæplega tveggja ára bið sé ekki eðlileg.

Slík er raunin með skjálestrarforritið Orator sem gera á Blackberry-símana vinsælu aðgengilega blindum notendum. Framleiðandi forritsins, Humanware, sem oft hefur staðið sig vel og framleitt margt þarft og sniðugt, auglýsti Orator fyrst í september 2007 og átti forritið að koma á markað snemma árs 2008. Á ráðstefnu bandarísku Blindrasamtakana í júlí 2008 lofaði Gilles Pepin forstjóri Humanware að Orator kæmi á markað um haustið. Loks í mars 2009 kom tilkynning frá Humanware í samvinnu við Code Factory (sem framleiðir MobileSpeak símlesarann) um að Orator væri tilbúið. Jafnframt var happdrætti hleypt af stokkunum þar sem hægt var að vinna Blackberry síma með forritinu.

Forritið, eða sýniútgáfur af því, var kynnt í júlímánuði 2009 og aftur kom opinber tilkynning um að nú styttist í að hægt væri að kaupa forritið frá Humanware.

Til að gera langa sögu stutta (eða amk. styttri) varð ekkert af happdrættinu og ný auglýsing birtist í október 2009 um að nú sé Orator hreint alveg að koma. Síðan hefur ekkert gerst og þegar þetta er ritað (mánudaginn 25. janúar) er heimasíða Orator enn óbreytt frá því í fyrrahaust og hin margfrægu og hvimleiðu orð "coming soon" birtast enn á síðunni. Maður spyr sig hvort þetta forrit muni nokkurn tímann líta dagsins ljós og hefur þessi frammistaða Hunanware manna valdið miklum vonbrigðum meðal þeirra sem fylgjast með þessum málum.

Ef fólk hefur gaman af að sjá hin vinsæla frasa, "Coming Soon" getur það skoðað opinbera heimasíðu Orator

http://www.humanware.com/en-usa/products/blindness/orator_for_blackberry_smartphones/_details/id_131/orator_for_blackberry_smartphones.html

6. Windows 7, er það virkilega betra en Vista?

Það þótti ansi fréttnæmt þegar Windows Vista stýrikerfið kom út að skjálestrarforrit virkuðu með því frá fyrsta degi. Margir framleiðendur höfðu uppfærslur tilbúnar og Microsoft sýndi mikinn vilja til þess að tryggja að blindir og sjónskertir notendur gætu farið beint í það nýjasta og besta. Því miður reyndist Vista flestum stór vonbrigði og segja menn að það sé eitt versta stýrikerfi Microsoft frá upphafi (þetta er þá væntanlega fólk sem man ekki eftir Windows 3,11 eða Windows ME, en það er nú önnur saga). Microsoft gerði enn betur á árinu og komu uppfærslur hugbúnaðar fyrir Windows 7 út áður en stýrikerfið sjálft kom út, í sumum tilfellum. Þeir blindu notendur sem eru hvað mest tæknilega sinnaðir sóttu sér prufuútgáfur af stýrikerfinu og gekk ágætlega að nota þær með skjálestrarhugbúnaði sínum. Einnig á Windows 7 hrós skilið fyrir að hafa innbyggðan skjástækkunarbúnað (þó hann sé kannski ekki jafngóður og hugbúnaður sem hægt er að kaupa) og stýrikerfið sjálft er mun betra í vinnslu og viðmóti en Vista var. Þar sem "speech recognition" kom í Vista og skjástækkunarbúnaður í Windows 7, þá velta sumir fyrir sér hvort Microsoft komi með sitt eigið skjálestrarforrit sem hluta af næstu útgáfu Windows. Apple hafa þegar gert þetta með VoiceOver og þótt skoðanir séu skiptar um ágæti þess, eru flestir sammála um að þetta sé meira en bara sýndarframtak. Við verðum bara að bíða spennt en ekki á búast við næstu útgáfu af Windows fyrr enn 2012 eða 2013.

Einnig má geta þess hér að Windows Server 2010 stýrikerfið er vel aðgengilegt.

5. Kindle, bylting eða vonbrigði?

Rafrænar bækur og lesarar eru að ryðja sér æ meir til rúms á almennum markaði. Þetta eru tæki sem blanda lestri hefðbundinnar bókar og eiginleika tölvu og Internetsins saman og með sanni má segja að Kindle tækið frá Amazon hafi slegið í gegn. Var þetta mest selda jólagjöfin árið 2009. Vinsældir Kindle valda því að nær allar bækur koma út á rafrænu formi sem hægt er að lesa á Kindle sama dag og gamla góða pappírsútgáfan kemur á markað. Tilraunir voru gerðar með að bæta tali á Kindle tækið en þá stóðu útgefendur og höfundarréttarmenn upp á afturlappirnar og kvörtuðu hástöfum um að þetta gæti valdið hruni og ólöglegri dreifingu bókanna svo Amazon hætti tilraunum með talsetningu tækisins. Síðan þá hafa sterk mótmæli blindrasamtaka, háskóla og fleiri stofnanna verið tekin til greina og Amazon hefur lofað því að tækið sjálft verði a.m.k. aðgengilegt í næstu útgáfu, að valmyndir tækisins verði talsettar og hægt sé að stjórna því án þess að sjá á skjáinn. Hitt verður svo að líta dagsins ljós hvort samkomulag náist við útgefendur um að einhvers konar aðgengi fáist á efnið sjálft. Það er tæknilega hægt, þar eð um texta er að ræða sem tækið skilur, svo vonandi finnst lausn á þessu. Ef ásættanleg lausn finnst þýðir það í rauninni að hljóðbók komi út samtímis prentaðri útgáfu, og jafnvel gott betur ef hægt verður að tengja tækið t.d. við punktaletursskjái. Þetta gæti orðið ein mesta bylting í aðgengi blindra og sjónskertra að bókum síðan talgervilinn var fundinn upp, svo nú verðum við að bíða þolinmóð og sjá hvað setur.

Við á Miðstöðinni munum að sjálfsögðu fylgjast spennt með og tilkynna um leið og eitthvað hefur verið ákveðið í þessum efnum.

4. Endalok dýrra hugbúnaðaruppfærslna?

Mikið er rætt um Serotek fyrirtækið í Bandaríkjunum um þessar mundir og hugbúnað þeirra þ.á m. System Access skjálesarann. Hafa Serotek-menn sjálfir ýtt undir þessa umfjöllun með auglýsingaherferð og haft uppi stór orð um þær breytingar sem System Access mun knýja fram. Ein stærsta yfirlýsing þeirra kom á síðasta ári þegar þeir lofuðu því að notendur sem kaupa System Access hugbúnaðinn muni aldrei þurfa að borga fyrir uppfærslu. Dolphin, Freedom Scientific og aðrir framleiðendur rukka milli 20 og 50000 kr. fyrir hverja uppfærslu á sínum hugbúnaði sem er, í flestum tilfellum, meira en greiða þarf fyrir System Access. Að sumu leyti er ástæðan fyrir því einfaldlega sú að fólk er að fá öflugri hugbúnað í hendurnar en hluti ástæðunnar er líka ný heimspeki sem Serotek-menn eru að reyna þ.e.a.s. að stilla verðinu í hóf og selja fleiri eintök til notenda. Eins og kom fram í fyrri grein okkar kom System Access hreint ágætlega út í prófunum, sérstaklega miðað við hversu stutt forritið hefur verið á markaðnum og munum við fylgjast áfram með hvernig þeim vegnar.

Nýjasta tilkynning Serotek er að fólk getur gerst áskrifendur að System Access forritinu fyrir 10 dollara (eða um 1300 kr.) á mánuði með 25 dollara greiðslu í byrjun, og getur það hætt hvenær sem er. En einnig getur fólk keypt forritið sjálft fyrir um 300 dollara eða 40000 kr. og á þá að fá uppfærslur ókeypis. Þetta eru stór orð og vill höfundur benda á að þau eru eilítið misvísandi þar sem hluti hugbúnaðarins sem t.d. gerir fólki kleift að keyra forritið á einni tölvu en nota það frá annarri tölvu í gegnum netið, þarfnast áskriftargjalds að vefþjónustu Serotek og kostar hún um 15.000 kr. árlega. Því munum við fremur mæla með að fólk bíði átekta og sjái hverju fram vindur en taka þessu sem nýju neti. En vissulega er ánægjulegt að sjá nýjar hugsjónir og neytendavænni verðlagningu í þessum bransa.

Þeir sem vilja kynna sér forritið nánar er bent á heimasíðu Serotek: http://www.serotek.com

Einnig getur það keyrt Serotek ókeypis í gegnum Internet Explorer af síðunni http://www.satogo.com

 3. Okur Freedom Scientific á stuðningi við punktaletursskjái frá og með Jaws 11

Síðla sumars tilkynnti Freedom Scientific, framleiðandi Jaws að frá og með Jaws 11 áskyldi það sér rétt til að neita stuðningi við punktaletursskjái frá framleiðendum sem ekki greiddu fyrir uppáskrift sína. Punktaletursskjáir fá allar sínar upplýsingar frá skjálestrarforritinu og einnig er hægt að senda skipanir frá skjánum sjálfum til forritsins t.d. að kalla á músabendil, fara milli glugga o.s.frv. Freedom Scientific segja að til þess að auka öryggi notenda þurfi þeir nú að skoða alla drivera eða sérhugbúnað fyrir slík jaðartæki sem hægt er að keyra með Jaws skjálesaranum og skrifa upp á að engir vírusar leynist í þessum forritum. Það sem fer fyrir brjóstið á mönnum er að til þess að fá slíka þjónustu þurfa framleiðendur jaðarbúnaðar að greiða Freedom Scientific 9000 dollara, eða rúmlega 1.100.000 krónur í upphafi og svo 5000 dollara eða um 650.000 kr. á ári, á meðan slík þjónusta frá Microsoft kostar um 30.000 kr. í hvert skipti sem ný útgáfa hugbúnaðar kemur út. Þar sem Freedom Scientific framleiðir sína eigin skjái, sem kallast Focus, telur fólk þetta almennt fjárkúgun og brot á samkeppnislögum, þó okkur sé ekki kunnugt um að fyrirtæki hafi farið í mál við Freedom Scientific út af þessu enn sem komið er. Vitað er að Papenmeier og Optilec hafa greitt þessar fjárhæðir en flest önnur fyrirtæki virðast vilja fara í hart með þetta mál, og hugsanlegt er að vinsældir Jaws fari nú dvínandi á meðal punktaletursnotenda ef ekki verður fallist á sanngjarnari lausn. Því má svo bæta við til gamans að Freedom Scientific sjálfir hafa ekki greitt fyrir vottun Microsoft fyrir forritið, a.m.k. höfðu þeir ekki gert það í nóvember 2009 þegar umræður stóðu hvað hæst, og er Jaws sjálft því ekki endilega talið öruggt forrit. En menn leiða líkur að því að með aukinni samkeppni í skjálesarageiranum falli Freedom Scientific annaðhvort frá þessum kröfum sínum eða markaðshlutdeild Jaws forritsins fari minnkandi á árinu og komandi árum. Nýjustu tilkynningar í þessu máli benda til þess að Freedom Scientific séu að gefa eitthvað eftir þar eð þeir gáfu út sýna eigin drivera fyrir Brailliant skjái sem framleiddir eru af Humanware þrátt fyrir að hafa ekki fengið fjárhæðir frá Humanware vegna þessa.

2. Aukin samkeppni í Daisy-spilara geiranum

Svo sannarlega má segja að Humanware hafi slegið í gegn með Victor Reader Stream spilaranum sem kom á markað árið 2008. Þarna var á ferð tiltölulega ódýr spilari sem hægt var að nota til að hlusta á Daisy bækur, tónlist og meira að segja gat lesið textaskrár með innbyggðum talþjóni. Ekki þurfti lengur að nota diska heldur var hægt að setja efnið beint á spilarann af tölvu. VR Stream bauð meira að segja upp á að notandi geti tekið upp fyrirlestra og annað inn á tækið. Að lokum má nefna það sem kost að notuð eru SD minniskort sem eru lítil, ódýr og fáanleg í öllum betri raftækjaverslunum heimsins.

En nú hafa fleiri framleiðendur bæst í hópinn með sína spilara og má þar nefna Booksense spilarann frá GW Micro, sem er minni, býður upp á stuðning við fleiri skráarsnið, upptöku beint í mp3 format, fm útvarp, Bluetooth stuðning og fleira ásamt Plextalk Pocket spilaranum frá Plextor sem býður upp á svipaða möguleika. Næstu helgi verður svo Bookport Plus spilarinn frá AFP kynntur og er búist við allmörgum nýungum. Þessi aukna samkeppni kemur notendum til góða þar eð nú eru allir framleiðendur að keppast við að uppfæra hugbúnað þessara tækja sem gera þau öflugri og hentugri í notkun. Sumir segja reyndar að þessi tæki muni ekki endast þar eð iPod Touch eða álíka spilarar eða lófatölvur geti gert allt sem þau bjóða upp á og margt fleira ef rétt forrit líta dagsins ljós, en enn sem komið er höfum við ekki séð þess merki að vinsældir Daisy-spilarana minnki.

Við munum hafa umfjöllun um alla þessa spilara í Tæknimolagrein á næstu vikum.

Og þá er komið að stærsta viðburðinum, á árinu 2009.

1. Innbyggður skjálesari fyrir iPhone og iPod Touch frá Apple

Sjálfsagt vita margir að hægt er að kveikja á skjálesaranum VoiceOver í nýjustu kynslóð (3G) iPhone símanna frá Apple og í 32 og 64 gígabæta útgáfum iPod Touch lófatölvunar. Einnig er hægt að ná tiltölulega fínu aðgengi að iPod nano spilurunum með iTunes forritinu, útgáfu 9 eða nýrri. Er þetta í fyrsta skiptið sem hægt er að kaupa lófatölvur eða síma með innbyggðu skjálestrarforriti beint frá framleiðanda og á Apple mikinn heiður skilinn fyrir viðleitnina. Gæði skjálesarans eru afar umdeild og sitt sýnist hverjum. Tiltölulega langan tíma tekur að skrifa textaskilaboð og venjast innslætti á snertiskjá og þessi útgáfa býður ekki upp á stuðning við punktaletursskjái, ekki einu sinni þá sem nota Bluetooth, þó VoiceOver forritið á tölvunum sjálfum styðji punktaletursskjái mjög vel. Því miður höfum við hjá Miðstöðinni ekki fengið tækifæri til að kynna okkur hvernig er að nota iPod Touch eða iPhone með VoiceOver ennþá og vonumst við til þess að breyting verði á því á þessu ári. Einnig langar okkur að prófa að nota fartölvu eða borðtölvu með Apple Snowleopard stýrikerfinu og VoiceOver skjálesaranum í sumar og bera virkni hans saman við það sem notendur okkar eru vanir í Windows. Að lokum má þess geta að ekki er hægt að styðja íslenskan talþjón á þessum tækjum eins og staðan er í dag þar eð Snorri styður ekki 64 bita keyrslu og meiriháttar uppfærslu þarf til þess að bæta úr því. Okkur er mikið í mun að Íslendingar dragist ekki aftur úr í þessum málum og munum við því hvetja til þess að lausn finnist á þessum málum, vonandi fyrir árslok 2010.

Birkir Rúnar Gunnarsson, ráðgjafi

Til baka