Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
16. febrúar 2010

ATIA Pistill 2010

Komið þið sæl. 

Í þessari viku munum við fara yfir helstu fréttir, slúður og tækniundur sem finna mátti á Atia-sýningunni í Orlando í lok janúarmánaðar. Pistillinn er unnin úr viðtölum Serotek og Blind Bargains manna við ýmsa framleiðendur og fulltrúa fyrirtækja á sýningunni, þar sem við höfðum ekki tök á að fara sjálfir. 

Atia stendur fyrir Assistive Technology Industry Association en þetta eru samtök margvíslegra fyrirtækja í aðstoðartæknigeiranum. Heimasíðu samtakana má finna á slóðinni www.atia.org 

Þetta er fyrsta stórsýning ársins og tilkynningarnar létu ekki á sér standa.

Helstu þema sýningarinnar í ár voru annars vegar lausnir til að skanna inn texta, bæði með notkun myndavéla, fartölvu og borðtölvu, og hins vegar skjálesaralausnir fyrir farsíma.

Í skannageiranum, eða OCR-geiranum (Optical Character Recognition) var fjöldi lausna á boðstólnum. Sumar eru nýjar en aðrar eru uppfærslur gamalgróinna forrita.

Fyrst ber að nefna lausn sem heitir Visionary frá Guerilla Technologies, sem notar stafræna 5 eða 10 megapixla myndavél. Lausnin samanstendur af standi sem skjali og myndavél er komið fyrir á, myndavélinni sjálfri og forritslausn. Hægt er að kaupa forritið uppsett á Dell nettölvu (netbook) og er þetta þá heildarlausn. Einnig verður hægt að kaupa forritið, myndavélina og standinn og setja lausnina upp á eigin borð- eða fartölvu.

Þegar skannað er, er skjali komið fyrir á standinum, myndavél sett í sinn stand og smellt er á takka til að taka mynd af síðunni, svo er flett og mynd tekin af næstu síðu o.s.frv. 

Lausnin kemur til með að kosta um 1.500 dollara og á að koma á markað um miðjan marsmánuð, að sögn fulltrúa fyrirtækisins. Þessi lausn virðist tiltölulega ódýr og þægileg, þar eð standurinn sjálfur vegur um eitt kíló og auðvelt er að brjóta hann saman, myndavélin er pínulítil og tengist við tölvu með USB kapli. Því ætti að vera auðvelt og fljótlegt að skanna inn skjöl og bækur hvar sem er.

Þó tekur höfundur þessarar greinar þessari lausn með nokkrum efasemdum þar sem Guerilla Technologies er tiltölulega nýtt fyrirtæki og heimasíða þess mætti vera mun aðgengilegri, sem telst vægast sagt undarlegt fyrir aðila í þessum bransa. En þeir sem vilja skoða bæði síðuna og lausnina betur geta gert það á síðunni www.guerillatechnologies.com

Önnur lausn sem byggir á svipuðum hugmyndum kemur frá Evas, sem hefur verið í bransanum síðan á miðjum áttunda áratugnum. Kallast hún MIS (Multi-purpose Information System) og kemur með standi, myndavél og tæki sem heldur utan um forrit og textann. Ekki virðist vera hægt að setja forrit beint upp á ferðatölvu, a.m.k. ekki miðað við lýsingu fulltrúa fyrirtækisins. Hins vegar sýndi hann fram á að einungis tekur 6 sekúndur frá því mynd af texta er tekin þangað til tækið fer að lesa textann sjálfan og telst það mjög góður hraði. Annar eiginleiki kerfisins er sá að hægt er að beina myndavélinni að hlutum í allt að 10 metra fjarlægð og nota tækið sem stækkunarbúnað og gagnast það því sjónskertum notendum í skólastofu sem vilja geta lesið af töflu. Hægt er að vista skannaðan texta sem textaskjal eða Word-skjal og senda hann í tölvupósti eða vista á USB-disk.

Þeir sem vilja lesa sér til um Mis geta farið á síðuna www.evas.com

Þessar lausnir virðast keppa beint við Intel Reader tækið sem kom á markað nýlega og hefur fengið fremur dræmar undirtektir, þó vissulega sé ánægjulegt að sjá stórfyrirtæki eins og Intel sýna áhuga á tækni sem nýtist blindum og sjónskertum. Hægt er að hlusta á upptöku þar sem Intel Reader vélin er tekin úr kassa og farið er í gegnum notkunarmöguleika á henni, skráin er nokkuð stór og tekur um 40 mínútur í spilun. http://www.blindbargains.com/audio.php?m=4928

Sem dæmi um önnur forrit og uppfærslur í þessum geira má nefna IRead frá Handytech sem hægt er að sækja sér á síðunni www.handytech.de undir "downloads" en þar er 30 daga reynsluútgáfa til staðar. Einnig er að koma á markað uppfærsla af Openbook-forritinu frá Freedom Scientific o.s.frv. Þessi forrit er hægt að setja upp á venjulegum tölvum og notast með skanna en ekki myndavél svo segja má að þau séu nokkuð hefðbundnari en þær nýju lausnir sem notast við stafrænar myndavélar.

Að lokum má benda á lausnir eins og K-NFB Reader sem keyra á farsímum með 5 megapixla myndavél s.b. Nokia N82, Nokia N97, Nokia N86 og fleirum. Hægt er að nota símann til að skanna inn skjöl og lesa. Vonandi tekst höfundi að ná sér í sýnieintak og mun þá gera betri grein fyrir hvernig þetta forrit reynist en enn og aftur má vísa í hljóðskrá frá Blind Bargains mönnum þar sem þessi lausn er borin saman við Intel Reader tækið (og kemur betur út), en hljóðskrána má sækja á síðuna: http://www.blindbargains.com/audio.php?m=4929

Greinilegt er að skannalausnir eru í mikilli tísku þessa daganna og verður forvitnilegt að fylgjast með hvort notendafjöldi sé til staðar til að styðja allar þessar lausnir eða hvort einhverjar lausnanna heltist úr lestinni á næstu mánuðum og árum. 

Ekki er um eins margar lausnir að ræða þegar kemur að skjálesurum sem keyra á farsímum en þó komu nýjar uppfærslur bæði frá Code Factory (Mobilespeak 4) og Nuance (Talks 4.5). Nú styður Code Factory íslensku opinberlega með Snorra röddinni og mér skilst að íslenskir notendur geti fengið uppfærslu af Mobilespeak gegn gjaldi (ef áhugi er fyrir hendi munum við leita svara hjá Örtækni). Helstu uppfærslur í MobileSpeak eru þær að nú er hægt að nota sama forrit á bæði Symbian og Windows Mobile símum og hægt er að binda notendaleyfi við símanúmer í stað þess að binda það við símtæki svo notandi getur fært forritið sjálfur milli símtækja svo lengi sem símanúmer hans breytist ekki. Önnur nýung í bæði MobileSpeak og Talks er stuðningur við síma með snertiskjáum, sb. Nokia 5580 og fleirum. Þarna taka CodeFactory og Nuance mismunandi nálgun á aðgengilega lausn og væri forvitnilegt að bera þessar lausnir saman við tækifæri. Einnig væri forvitnilegt að bera þessar lausnir saman við Voiceover sem Apple býður upp á í iPhone símum sínum og lausnir fyrir Blackberry-síma og Android-símanna frá Google, en þeir síðastnefndu eiga að vera tiltölulega aðgengilegir nú þegar, sérstaklega G1 síminn. Verður þessum málum gerð betri skil í síðari tæknimolum.

Í þessu sambandi má nefna að loksins, loksins er hinn langþráði skjálesari fyrir Blackberry síma frá Humanware kominn á markaðinn. Kallast hann ekki lengur Orator eins og auglýst var heldur Oratio. Ekki er hægt að segja að forritinu hafi hingað til verið tekið með fögnuði, enda virkar það einungis á eina gerð Blackberry-síma (notendur höfðu þegar margir hverjir keypt síma sem áttu að virka með forritinu en sitja nú uppi með ónothæf símtæki, a.m.k. í bili). Forritið er einnig ófullkomið í samanburði við önnur skjálestrarforrit eins og t.d. MobileSpeak. Til þess að hægt sé að lesa tölvupóst þarf að slökkva á HTML-ham og einungis lesa pósta sem hreinan texta. Einnig er ekki hægt að fara á netið með þessari fyrstu útgáfu af forritinu. Þó benda Humanware-menn á þá staðreynd, sem sönn er, að Mobilespeak og önnur forrit voru lítið betri þegar þau komu fyrst út og Oratio er fyrsta skjálestrarforritið sem byggt er á Java stýrikerfi. Að sögn Humanware þurfti að hanna ýmsa þætti forritsins alveg frá grunni þar eð Java lausnir virka allt öðru vísi en önnur stýrikerfi. Fulltrúi fyrirtækisins lofaði miklum umbótum á komandi árum og að fólk geti búist við að nota fleiri gerðir síma á mun yfirgripsmeiri hátt en nú er hægt í náinni framtíð, og vonum við svo sannarlega að af því verði, þó maður spyrji sjálfan sig hvort menn þurfi að bíða í áratugi eftir slíkum umbótum, miðað við hvernig gengið hefur hingað til. 

Hægt er að lesa sér til um Mobilespeak 4 á síðunni http://codefactory.es/en/products.asp?id=318

og um Oratio á síðunni http://www.humanware.com/en-usa/products/blindness/oratio_for_blackberry_smartphones/_details/id_131/oratio_for_blackberry_smartphones.html

Þó skannalausnir og símlestrarforrit hafi verið í aðalhlutverki á Atia í þetta skiptið mátti finna ýmislegt annað og spennandi og fylgir hér á eftir ágrip af því helsta sem okkur þótti frásagnarvert.

Book Port Plus er Daisy/.mp3 spilari frá American Printinghouse for the Blind (APH). Hann kemur á markað í næsta mánuði og mun keppa við Booksense frá GW Micro, Victor Reader Stream frá Humanware og Plextalk Pocket frá Plextor. Spilarinn er framleiddur af sama fyrirtæki og framleiðir Plextalk-spilarana en APH hafa gert margar breytingar og úrbætur á Book Port spilaranum, enda var upprunalegi Book Port spilarinn þeirra í raun fyrsti Daisy-spilarinn sem bauð upp á svipaða kosti og hinir sívinsælu Victor Reader Stream spilarar.

Vissulega er ansi margt líkt með þessum spilurum og þeir gera að mörgu leyti nákvæmlega sömu hlutina. Þó eru nokkur lykilatriði sem gætu vakið áhuga kaupanda á Book Port Plus umfram aðra:

Ekki þarf að skipta um ham eftir því hvaða efni er verið að lesa og þarf því ekki að geyma Daisy bækur, lög og skjöl í mismunandi möppum líkt og þarf á hinum spilurunum.

Book port Plus Tækið er alltaf í gangi, líkt og farsími en fer í svefnham ef ekkert hefur verið gert í tvær mínútur. Batterí endist í 8 tíma spilun og allt að 28 daga svefnham (standby mode).

Hægt er að setja bókamerki inn í upptökur bæði á meðan á upptöku stendur og einnig eftir á og einnig er hægt að bæta við og eyða úr upptökum á tækinu sjálfu.

Hægt er að nota tækið með Daisy 2,x, Daisy 3,x og auk þess les það HTML skjöl, Word skjöl (þó ekki ennþá .docx skjöl úr Word 2007), textaskjöl o.s.frv (það sama gildir reyndar um alla hina spilarana á markaðnum, nema hvað Booksense les .docx skjöl og hugsanlegt er að VR Stream geri það einnig með nýjustu firmware-uppfærslu).

Það sniðugasta sem tækið mun geta gert í framtíðinni, hugsanlega ekki strax í fyrstu útgáfu en þeir lofa það muni koma síðar, er svokallað "thumb braille" eða þumalpunktaletur. Þá er vinstri hlið símaborðsins þ.e.a.s. takkar 1, 4 og 7 notaðir sem punktur 1, 2 og 3, hægri hliðin - þ.e.a.s. takkar 3, 6 og 9 fyrir punkta 4, 5 og 6 en í miðjunni er takki 2 punktar 1 og 3, 5 takkinn er punktar 1 2 og 3, 8 takkinn býr til punkta 4 og 6  og 0 takkinn eru punktar 4, 5 og 6.

Hugmyndin er sú að hægt verði að nota einungis þumalputtana til að slá inn texta á punktaletri,  s.s. glósur og fleira. Tækið mun koma á markað um miðjan mars og vonandi verður það til sýnis á CSUN-sýningunni sem við munum heimsækja í eigin persónu svo við getum lýst tækinu betur

Fyrir sjónskerta áhugamenn sem hefur dreymt um að vera með tölvugleraugu er að koma á markað lausn sem kallast evSpecs frá ESight Corporation.

Gleraugun koma til með að vega um 100 grömm, verða með einni hágæðamyndavél og hvort auga virkar eins og tölvuskjár. Gleraugun lita út alveg eins og sólgleraugu en tengjast lítilli tölvu sem notandi verður með á mjöðm eða í vasa. Tölvan er á stærð við farsíma. Hægt er að setja upp mismunandi stillingar sem nýtast mismunandi tegund sjónskerðingar sem best og því þarf notandi að fá svona gleraugu í gegnum sérfræðing sem hefur fengið viðeigandi þjálfun. Með þessum búnaði er hægt að stækka myndir, stilla kontrast, vista mynd til nánari skoðunar síðar og í raun gera flest sem skjástækkunarforrit geta gert. Í framtíðinni búast ESightmenn við að geta t.d. fundið út "blind spots" og notað þennan búnað til að fylla upp í sjónsviðið þar sem auga viðkomandi nær ekki að sjá hluti.

Búnaðurinn mun koma á markað undir lok árs og mun kosta um 4.000 dollara til að byrja með. Hins vegar má búast við verulegri verðlækkun ef vel tekst til, þar eð notendahópurinn getur verið einstaklega stór. Sjónfræðingar Miðstöðvarinnar munu hafa auga með hvernig til tekst með þetta tæki sem önnur en svipuð tæki hafa ekki reynst vel hingað til. Tækninni fleygir hins vegar mjög hratt fram svo það er vel hugsanlegt að svona undralausnir séu að vera veruleiki frekar en vísindaskáldskapur.

Ef notendur vilja lesa sér betur til má benda á heimasíðu fyrirtækisins: http://www.esightcorp.com

Loks glittir í að Blio-rafbókaspilarinn frá Kurzweil lýti dagsins ljós en hann var kynntur á ráðstefnunni í fyrsta sinn. Þar notaði fulltrúi Kurzweil Bleo-forritið bæði á fartölvu með Jaws og á iPhone síma. Það sem er eina mest spennandi við þetta forrit er ekki endilega forritið sjálft, þó það komi til með að vera mjög aðgengilegt bæði með og án skjálestrarforrita, heldur sá fjöldi bóka sem lofað er að komi með því en allt að milljón titlar eiga að líta dagsins ljós þegar forritið kemur á markað, sumir ókeypis en aðra er hægt að fá í aðgengilegu formi gegn gjaldi. Til samanburðar má nefna að Blindrabókasafn Íslands hefur um 20.000 titla og NLS, sem er bandaríska hljóðbókasafnið hefur innan við 100.000 titla til útláns, því gæti hér verið um miklar úrbætur að ræða í aðgangi blindra notenda að enskum bókmenntum. Þó hafa ýmis vandamál komið upp t.d. við Kindle tækið frá Amazon og útgefendur verið tregir til að dreifa bókum sínum á rafrænu formi. Þegar forritið kemur á markað munum við grandskoða það og skrifa upp pistil um afraksturinn.

Síðasta tækið sem minnst verður á hér kallast LimeLighter frá Dancing Dots sem, eins og menn vita kannski, er fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð Jaws-skripta og annars hugbúnaðar fyrir blinda tónlistarmenn og músíkanta. Hingað til eru þeir hvað þekktastir fyrir að búa til Jaws skript fyrir Cakewalk Sonar forritið sem hægt er að nota til upptöku, afspilunar og nótnagerðar. Einnig er leiðarvísirinn með því forriti skrifaður út frá sjónarhóli blinds notanda og er mikið snilldarverk. En nú hafa þeir sem sagt fært sig inn á markaðinn fyrir sjónskerta listamenn og LimeLighter er fyrsti búnaðurinn sem sérhannaður er fyrir þá. Búnaðurinn samanstendur af 18 tommu snertiskjá með fótstigi. Fótstigið er notað til að fara yfir í næstu lotu af tónlist á skjánum og fólk getur notað sérstakan penna til að skrifa á skjáinn ef breyta þarf nótunum. Einnig er hægt að spila tónlistina í gegnum Midi á skjánum ef viðkomandi vill heyra hvernig tónverkið á að hljóma. Tækið er byggt á Lime-forritinu sem er forrit fyrir tónlistarhöfunda og námsmenn. Áhugasamir sjónskertir tónlistarsnillingar (og allir aðrir) geta lesið sér til um forritið á heimasíðu framleiðandans www.dancingdots.com

Að lokum er vert að minnast á tvennar minni háttar tilkynningar sem gætu skipt notendur miklu máli í komandi framtíð:

Ýmsir framleiðendur punktaletursskjáa hafa tekið saman höndum undir stjórn Handytech fyrirtækisins og eru að vinna með Microsoft að því að búa til staðla fyrir punktaletursskjái þannig að næsta útgáfa af Windows viti hvað gera skal þegar punktaletursskjár er tengdur í USB-rauf. Þá ætti að vera hægt að setja nýjan skjá í samband án þess að þurfa að setja hann upp sérstaklega í gegnum skjálestrarforrit og Windows getur sett hann upp alveg eins og nú er hægt að setja upp prentara eða önnur jaðartæki. Þarna eru á ferð margir framleiðendur, sem dæmi Handytech, Optilec, Eurobraille, Humanware og Baum ásamt stuðningi frá GW Micro og Microsoft. Freedom Scientific fyrirtækið hefur neitað að taka þátt í þessu samstarfi að svo stöddu en menn vonast til það geti breyst. Framtakið kallast Open Braille Initiative en enn sem komið er virðist ekki vera til heimasíða þar sem hægt er að lesa sér til um það, enda er þetta á byrjunarstigi.

Að lokum má geta þess að Dean Blazie fékk sérstaka viðurkenningu á sýningunni sem frumkvöðull í tæknimálum blindra og sjónskertra en hann framleiddi einmitt fyrsta "notetaker" tækið sem kallaðist Braille&Speak í lok níunda áratugarins. Fyrirtæki hans "Blazie Engineering" er nú hluti af Freedom Scientific en Dean sjálfur dró sig í hlé eftir að hafa selt það. Hins vegar er hann mættur aftur á sviðið og er nú, ásamt hópi annarra undir stjórn American Printinghouse for the Blind, að vinna að mun ódýrari "notetaker" tæki en tíðkast hefur og að punktaletursskjá sem sýnt getur fleiri en eina línu í einu. Dean Blazie hefur áorkað ótrúlegustu hlutum í fortíðinni og því eru ástæður til þess að vera bjartsýn um að eitthvað nýtt og byltingarkennt komi frá honum og samstarfsmönnum hans á næstu árum.

Og hér með lýkur umfjöllun um Atia-sýninguna. Viðameiri og nánari umfjöllun verður um CSUN sýninguna sem haldin verður í lok marsmánaðar og við drengirnir fáum að mæta á í eigin persónu. Hins vegar höfum við margt spennandi í pokahorninu sem líta mun dagsins ljós áður en að því kemur, svo haldið áfram að fylgjast með, eða byrjið að fylgjast með ef þetta er fyrsti pistillinn sem þið gluggið í.

Við vonum, nú sem endranær, að þið hafið gaman af þessu og við fullvissum ykkur um að fátt nýtt kemur á markaðinn án þess að við verðum með nefið ofan í því. Þó þiggjum við alltaf ábendingar og hikið því ekki við að hafa samband á annaðhvort birkir@midstod.is eða hlynur@midstod.is.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka