Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
4. mars 2010

Borga lítið, nota mikið, listi yfir nokkur ókeypis eða mjög ódýr forrit fyrir Windows.

Þar sem við erum í smá ládeyðu milli sýninga og tækninýunga (búumst við fréttaflóði í kringum CSUN sýninguna sem haldin verður 22. til 27. mars) fannst okkur ekki úr vegi að benda notendum á nokkur forrit sem gætu hugsanlega nýst þeim vel án þess að snerta budduna. Byggjum við á vali Gizmo síðunnar en beinn hlekkur á allan listann er: http://www.techsupportalert.com/content/top-freeware-picks-category-editors.htm?utm_source=feedburner&utm_medium=feed&utm_campaign=Feed%3A+gizmosbest+%28Gizmo%27s+Best-ever+Freeware%29

Við munum einungis nefna nokkur þeirra forrita sem minnst er á. Ekki er hægt að tryggja að öll þessi forrit séu aðgengileg en munum við þó benda á þau sem við vitum að séu það. Áður en við byrjum má einnig benda á síðuna: http://www.filehippo.com sem er samansafn ókeypis og reynsluhugbúnaðar af þessu tagi.

Vírusvarnarforrit

Athugið að ekki skal keyra fleiri en eitt slíkt forrit í einu, annað getur valdið truflunum og hægt verulega á tölvunni. Besta antivírusforritið, bæði að sögn Gizmo-manna og reynslu undirritaðs er án efa Avira Anti-Vir Personal Edition. Hægt er að sækja sér það hér: http://www.free-av.com/en/download/1/avira_antivir_personal__free_antivirus.html

Forritið keyrir í bakgrunni og truflar notendur lítið nema eitthvað sé að. Forritið er tiltölulega aðgengilegt, svo framarlega sem fólk veit að til þess að hefja vírusskimun þarf að styðja á F6-hnappinn þegar búið er að velja tegund skimunar. Það er gert með því að styðja á alt-hnappinn, velja "View" og svo "Local Protection" með örvalyklinum. Þar er hægt að velja hvort skanna eigi allar skrár og diska eða bara hluta þeirra en stutt er á F6 til að hefja skönnunina sjálfa. Avira mun einnig birta aðvörun ef verið er að niðurhala skrá sem það telur líklega vírus og getur notandi valið hvað gera eigi við hana með því að nota Tab-lykilinn og bilslánna til þess að merkja "checkbox" við viðkomandi aðgerð. Þetta forrit hefur reynst vel og er jafngott eða betra en mörg vírusforrit sem notendur þurfa að greiða fyrir. Hægt er að fá um 3.000 kr. útgáfu af forritinu sem hefur nokkra kosti umfram ókeypis útgáfuna og að sjálfsögðu er alltaf gott að leggja smá pening í vöru sem notandi hefur mikið gagn af, en þó hefur ókeypis útgáfan verið við líði í mörg ár og er notkun hennar útbreidd. Mælum við því eindregið með þessu forriti til vírusvarnar.

Einnig mælum við með AVG Personal Edition vírsvarnarforritinu þó það sé ekki á lista Gizmo-manna. Hefur það reynst notendum vel á Íslandi og teljum við enga ástæðu til þess að þeir skipti um vírusvörn.

Að lokum mæla Gizmo menn bæði með Microsoft Security Essentials og Avast! Free Anti-Virus en við vitum lítið um aðgengi þessara forrita.

Hægt er að fara á Gizmo-síðuna sjálfa ef notendur hafa áhuga á að niðurhala og setja upp eitthvert þessara forrita.

Malware protection.

Því miður er oftast ekki nóg að hafa bara vírusvarnarforrit því ógrynnin öll af forritum eru á sveimi á vefnum. Sum þeirra valda ekki beint skaða heldur setjast að á tölvu notanda og birta auglýsingar, senda upplýsingar um hvaða heimasíður notandi skoðar, upplýsingar um kreditkort og jafnvel breyta millifærslum notandans í heimabanka þannig að peningarnir enda á erlendum bankareikningi. Einnig er mjög vinsæl tegund forrita sem birta vírusvarnarskilaboð á skjá notanda og benda honum á að kaupa hreinsiforrit með kreditkorti. Slíkt forrit er hins vegar bara annað vírusforrit eða gerir ekki nokkurn skapaðan hlut. Því þarf fólk að passa sig þegar um vírusvarnarauglýsingar er að ræða, sérstaklega ef þær birtast óvænt á tölvunni þegar fólk er að vafra um á netinu.

Til þess að losa sig við þessa tegund forrita eru til ýmsar lausnir, en Gizmo-menn mæla einkum með þremur hreinsiforritum:

Super Anti Spyware sem hægt er að sækja sér hérna: http://www.superantispyware.com/download.html

Malwarebytes anti Malware:

http://www.malwarebytes.org/mbam.php

og A-Squared Free

http://www.emsisoft.com/en/software/free/

A-Squared er best í að finna svokölluð "Trojan" forrit en þó ætti að vera meira en nóg að hafa eitt þessara forrita uppsett og nota það daglega eða amk á nokkra daga fresti.

Undirritaður notar Super Anti Spyware oft og er það einstaklega þægilegt í notkun. Hægt er að framkvæma skimun með Tab og færslu lyklunum einum, niðurstöðuskýrsla birtist í Notepad sem textaskjal og forritið er afar einfalt og þægilegt. Þegar um ókeypis útgáfu er að ræða þarf notandi sjálfur bæði að sækja sér nýjustu skrár, með því að smella á "Update" hnappinn í forritinu og einnig að keyra forritið handvirkt. Ef leyfi er keypt fyrir um 3.000 krónur getur forritið séð um þessa hluti sjálft.

Malwarebytes Anti Malware er einnig tiltölulega aðgengilegt, þó notandi þurfi að nota "virtual cursor" eða músabendilinn til þess að finna "update" hnappinn til að uppfæra forritið. Hnappurinn er ofarlega á skjánum og ekki er hægt að komast í hann með lyklaborðinu. Þetta forrit tekur styttri tíma að keyra og stundum finnur það hluti sem Super Anti Spyware finnur ekki (og öfugt) en ég myndi segja í 99% tilfella sé nóg að hafa annaðhvort. A-Squared er forrit sem við höfum ekki prófað og getum ekki sagt á þessu stigi hversu aðgengilegt það er.

Fyrir þá sem skoða margvíslegar vefsíður um allan vefinn er gott að tryggja að þeir hafi vírusvarnarforrit ásamt einu af ofangreindum Malware forritum uppsett á tölvunni ef þeir skyldu rata inn á síðu sem reynir að lauma hugbúnaði inn á tölvuna. Þeir sem nota netið einungis til þess að skoða póst og íslensku dagblöðin eða Facebook síðuna sína eru í langflestum tilfellum óhultir fyrir slíkum tilraunum og þurfa litlar áhyggjur að hafa af slíkum hugbúnaði.

Hreinsi og stilliforrit

Hafið í huga að þessi forrit þarf að nota varlega þar eð þau geta hugsanlega eytt hlutum sem ekki á að eyða, þó það sé ekki líklegt.

Ef tölvan keyrir óeðlilega hægt er möguleiki að á henni leynist hugbúnaður og stillingar sem óþarfi er að hafa. Því er stundum gott að nota forrit til að fara í gegnum hið svokallaða "registry" og minnið og hreinsa út það sem telst "rusl" í tölvunni og virkar það oft vel til þess að hún fari að keyra aftur almennilega. Að sögn Gizmo-manna er langbesta forritið í þessum geira Ashampoo WinOptimizer 2010, sem hægt er að sækja hér http://download.cnet.com/Ashampoo-WinOptimizer-2010-Advanced/3000-18512_4-75021499.html

Við vitum ekki um aðgengi en Gizmo menn hrósa einfaldleika forritsins.

Stundum getur ástæðan verið sú að harði diskurinn er nær fullur og gögn eru skrifuð út um allt á honum. Hægt er að nota hugbúnað til þess að "hreinsa" diskinn, skrifa gögnin þéttar og þar með minnka þann tíma sem það tekur tölvuna að lesa af disknum. Einnig getur verið hentugt að skipta hörðum disk upp í nokkur mismunandi drif t.d. fyrir tónlist og myndir annars vegar og hugbúnað hins vegar. Windows hefur nokkur tól til þess arna undir System í Control panel, en einnig eru til góð forrit sem eiga að virka betur og keyra hraðar. Í þessum geir mæla Gizmo menn með Auslogic Disk Defrag forritinu sem hægt er að sækja sér hér: http://auslogics.com/en/software/disk-defrag

Við vitum ekki hversu aðgengilegt það er, en það á að keyra hratt og vel og vera einfalt í notkun.

Ef fólki er mikið í mun að eyða skrá þannig að ekki sé hægt að finna hana aftur er hægt að nota hugbúnað sem kallast Eraser og hægt er að finna hér: http://eraser.heidi.ie/index.php

Þegar skrá er eytt í Windows er hún í rauninni enn á disknum og í mörgum tilfellum er hægt að finna hana aftur og opna. Eraser skrifar yfir svæðið þar sem skráin var og framleiðendur þess fullyrða að ekki sé hægt að endurheimta skrána sem eytt var með notkun forritsins.

Að lokum má benda á nokkuð sniðugt forrit sem hjálpar notendum að eyða út leifum af forritum sem ekki tókst að taka alveg út áf tölvunni. Mörg forrit koma ekki með góðri sjálfseyðingu, eða "uninstall" eins og það kallast á ensku og þegar þau eru tekin út leynast oft skrár og annað tengt þeim enn í tölvunni. Til þess að eyða slíku lveg út má nota forritið Revo Uninstaller: http://www.revouninstaller.com/

Yfirleitt dugir að nota Add Remove Programs í Windows en ef það klikkar kemur Revo notanda til bjargar. Þó er þetta eitt af þeim mörgu forritum sem við vitum ekki um hvað varðar aðgengismál.

Það sama gildir um þau forrit sem mælt er með til tónlistar- og myndbandsspilunar og diskaskrifa en þau eru Burn Aware Free: http://www.burnaware.com/downloads.html

fyrir þá sem þurfa að skrifa geisladiska og dvd diska og AIMP2: http://www.aimp.ru/index.php fyrir tónlistarafspilun.

Við mælum þó helst með því að notendur haldi sig við Windows Media Player og Winamp þar sem aðgengi er tiltölulega gott, a.m.k. þangað til okkur gefst tækifæri á að skoða þessi nýmóðins forrit nánar.

Siðast en ekki endilega síst: Fyrir þá sem þurfa að afrita tónlistardiska og annað yfir á tölvuna sína í mp3 skrár eða svipað mæla Gizmo menn með forritinu Exact Audio Copy http://www.exactaudiocopy.de/en/index.php/resources/download/

Hér munum við láta staðar numið í bili en á síðu Gizmo-manna er margt fleira að finna og þeir sem þora að setja upp alls konar forrit hjá sér geta skoðað þessar síður betur. Ef fólk prófar eitthvert þessara forrita eða annarra sem vinsæl eru er viðkomandi vinsamlegast beðinn að láta okkur Tæknimolamenn vita hvernig til tókst.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

 

Til baka