Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
18. mars 2010

Er NVDA skjálesarinn dæmi um það sem koma skal?

Við hér á Miðstöðinni höfum fylgst með þróun skjálesarahugbúnaðar og höfum haft fullt í fangi með það á síðustu mánuðum. Svo virðist sem margt sé að breytast í heimi skjálesara og þar sé margt spennandi að gerast.

Hér langar okkur að taka NVDA eða Non Visual Desktop Access skjálesarann fyrir og ræða þá möguleika sem hann býður upp á og af hverju okkur finnst hann svo spennandi. Hægt er að sækja skjálesarann á síðuna http://www.nvda-project.org

Næsta útgáfa kallast 2010-1 og reiknað er með hún komi í apríl.

Skjálesarinn NVDA er það sem kallast "Open Source". Það þýðir að hægt er að sækja sér forritið og nota það án endurgjalds auk þess sem notendur geta sótt sér forritunarkóðann sjálfan og breytt honum. Einnig er hægt að taka þátt í forrituninni á beinan eða óbeinan hátt með ábendingum og frjálsum framlögum. Ekki hafa öll "Open Source" verkefni farið vel vegna þess að oft er um hugsjón eins eða fárra einstaklinga að ræða og svo hafa þeir ekki tíma til að uppfæra forritin og þau hverfa smám saman, en NVDA hefur menn í fullu starfi og tugþúsundir notenda og fer notendum ört fjölgandi.

Saga og þróun NVDA

NV Access, sem er áströlsk góðgerðastofnun (non profit organization) var sett á laggirnar í mars 2007 með það að leiðarljósi að blindir einstaklingar fengju aðgang að tölvum án þess að þurfa að greiða meira en sjáandi notendur. Mikilvægasti þáttur í slíku verkefni var þróun skjálestrarhugbúnaðar fyrir Windows og var það verkefni strax sett á oddinn, enda hefur þetta verið eina verkefni NV Access til þessa.

Fyrsta útgáfa NVDA var þróuð og kynnt sumarið 2007 og fékk þó nokkra athygli. Þróunin tók verulegan kipp þegar Mozilla-stofnunin, sem stendur á bak við FireFox-vafrann, veitti NV Access styrk til þess að ráða forritara í fullt starf. Árið 2008 voru tveir forritarar ráðnir í fullt starf og önnur fyrirtæki eins og Adobe og Microsoft veittu styrki til hugbúnaðarþróunar. Nú hefur Yahoo bæst í hópinn og má því segja að öll stærstu hugbúnaðarfyrirtæki heims hafi veitt NVDA athygli og fjárhagslegan stuðning.

NVDA hefur fengið margvísleg verðlaun t.d. verðlaun ástralska öryrkjabandalagsins árið 2007 og ástralska blindrafélagsins árið 2009. Öll bókasöfn á Nýja-Sjálandi hafa NVDA uppsett á öllum tölvum svo blindir og sjónskertir notendur geti komið inn og notfært sér tölvuþjónustu hvar sem er á safninu. Einnig er NVDA mikið notað í Bretlandi og þróunarlöndunum og útbreiðsla hjá notendum sem hafa annan skjálesara uppsettan hjá sér hefur stóraukist. Sem dæmi má nefna að skv. bandarískri könnun höfðu einungis 8% notenda sett upp hjá sér NVDA-skjálesarann árið 2008 en það hlutfall hafði aukist í um 25% notenda ári síðar.

Helstu kostir og virkni NVDA

Hversu nothæft er NVDA forritið fyrir hinn almenna notanda?

NVDA byggir eingöngu á opnum stöðlum og viðurkenndri tækni og er yfirleitt fyrstur skjálesara til þess að innleiða staðla og viðmót. Þar má nefna ARIA-tæknina sem mikið er notuð á vefum í hinum svokölluðu "Web 2.0" síðum, UIA frá Microsoft sem kemur í stað MSAA staðalsins og er ætlað að veita upplýsingar frá forritum til skjálesara, IAccessible 2 viðmótsins og fleira.

Hingað til hafa skjálesarar byggt á því að "stela" eða afrita gögn frá skjáreklum Windows-stýrikerfisins sem er ekki viðurkennd lausn og getur, í sumum tilfellum, valdið hruni á stýrikerfinu sjálfu. Þetta var eina leiðin til þess að koma upplýsingum til notanda áður fyrr og er ennþá eina leiðin í sumum tilfellum. Hins vegar hefur Microsoft verið að breyta tækninni sem notuð er til að birta upplýsingar á tölvuskjám með Windows Vista og nú með Windows 7 svo þessi leið er æ torveldari en á móti kemur að mikil vinna hefur farið í að gera þessar upplýsingar aðgengilegar á annan hátt. Einn kostur þess að NVDA notar ekki skjáreklana er sú að hægt er að keyra upp skjálesarann af USB-lykli án þess að setja neitt upp á vélinni sjálfri og ekki þarf "administrator/kerfisstjóra" réttindi á vélina til þess að geta notað skjálesarann.

Ef notandi vill keyra upp Jaws eða Hal skjálesarana af minnislykli þarf hann samt að setja upp forrit á vélina sjálfa sem sér um að afla upplýsinga úr skjáreklum vélarinnar og er alltaf smámöguleiki á að það geti valdið hugbúnaðarvandamálum.

Menn hjá NVDA eru þó enn að skoða möguleika á að nota skjáreklatæknina í þeim tilfellum sem ómögulegt er að fá upplýsingar á annan hátt og er möguleiki að einhver hluti NVDA byggi á þessari tækni í framtíðinni, þó þróun og vonir séu frekar í þá átt að bæta aðrar lausnir og leita annarra leiða.

NVDA er klárlega einn besti skjálestrarhugbúnaðurinn þegar kemur að því að nota FireFox vafrann á netinu og stendur hann sig betur en aðrir skjálesarar þar.

Einnig hefur stuðningur við Internet Explorer 7 og 8 stórbatnað á síðustu mánuðum eftir framlag Microsoft og einnig styður NVDA helstu póstforrit (þó ekki alla hluti í Outlook), grunnvinnslu í Office-forritunum og helstu spjall og afþreyingarforritin eins og Skype auk þess sem NVDA virkar vel með Adobe Reader og .pdf skjölum.

NVDA kemur með ESpeak-talþjóninum sem styður yfir 20 tungumál, þ.á m. íslensku og hægt er að nota punktaletursskjái í gegnum BRLTTY-tengingu (sjá nánar hér á eftir). Það er hins vegar ekkert mál að setja upp íslensku talþjónaraddirnar og höfum við prófað NVDA með Snorra, og gekk það vel.

Þegar við prófuðum NVDA í október í fyrra fannst okkur sniðugt hvernig NVDA notar hljóðbylgjur til að sýna hvernig verið er að hreyfa músabendilinn á skánum. Einnig er lítið hugbúnaðartól í NVDA sem kallast "Speech Viewer" og er ætlað þeim sem búa til heimasíður og forrit og sýnir hvernig NVDA myndi lesa slíkt fyrir notanda. Þetta gerir NVDA mjög nothæft forrit fyrir þá sem vilja prófa aðgengi skjálesara að sínum heimasíðum og forritum án þess að sækja sér reynsluútgáfu eða borga háar upphæðir fyrir eitthvert hinna forritana, því teljum við að NVDA geti stuðlað verulega að bættu aðgengi að hugbúnaði.

Helstu gallar NVDA, hvað þarf að gera betur?

Þeir sem eru að gera flókna hluti í Excel, eru að forrita eða taka upp tónlist munu ekki geta reitt sig eingöngu á NVDA-skjálesarann, þeir eiga langt í langt með sértækan stuðning við flókin forrit og við forrit sem nota sérhannað viðmót frekar en Windows-viðmótið. Þetta er eitthvað sem er í skoðun hjá NV Access stofnunni og þeir búast við að stuðningur við slík forrit fari vaxandi á næstu árum, en eins og staðan er í dag er NVDA klárlega ekki í stakk búið að takast á við slík forrit. Þó íslenskt tal sé fyrir hendi með ESpeak er langt í land með að röddin sé ásættanleg, enda var íslenskan búin til með upplýsingum frá Wikipedia-síðunni og án framlags íslendings. Hins vegar er aðalforritari ESpeak mjög spenntur fyrir að fá tíma og aðstoð íslenskumælandi manna til þess að bæta röddina til muna og munum við líklega fjalla um það síðar. Vegna þess hvernig röddin er forrituð mun hún aldrei hljóma eins vel og Ragga eða Snorri eða það sem kemur í framtíðinni, ekki er notast við alvörumannsrödd heldur tölvutalgervil eingöngu. Hins vegar er mjög gott að hafa aðgang að skýrri og greinargóðri íslenskri talgervilsrödd og vonandi finnst tími til þess að aðstoða ESpeak kappann við betrumbætur í framtíðinni.

Punktaletursstuðningur NVDA er einnig ekki upp á marga fiska enn sem komið er. Ástæðan er í raun sú að þeir sem framleiða punktaletursskjái hafa allir sinn háttinn á hvað varðar samskipti skjásins við Windows. Handytech-fyrirtækið hefur veitt NVDA allar nauðsynlegar upplýsingar og er stuðningurinn við skjáina þeirra hvað bestur en einnig er hægt að tengja flesta skjái við NVDA með "Open Source" forriti sem kallast BRLTTY. Þó er einungis hægt að nota skjáinn til lesturs og í sumum tilfellum er hægt að nota músabendilstakkana. Nú eru punktaletursskjáaframleiðendur að koma sér saman um sameiginlegan staðal sem kallast "Open Braille Initiative" og vonandi mun sú vinna skila sér í bættum punktaletursstuðningi í framtíðinni. Þó er þetta verkefni enn á byrjunarstigi svo við reiknum ekki með að sjá afraksturinn fyrr enn eftir 2 til 3 ár í fyrsta lagi. Því er alveg ljóst að punktaletursstuðningur NVDA mun ekki jafnast á við stuðning Jaws, Hal eða annarra forrita alveg á næstunni.

Niðurstaða

Við höfum fullan hug á að skoða NVDA aftur í júní og þá útgáfu 2010-a.

Ef stuðningur við Internet Explorer og .pdf skjöl er jafngóður og af er látið (svo var ekki í síðustu tilraun okkar en það eru tvær útgáfur síðan), munum við skoða möguleika á að íslenska viðmót NVDA og jafnvel setja það upp hjá notendum, annaðhvort sem aðalforrit eða sem aukahugbúnað. Stundum virkar NVDA á síðum þar sem Hal eða Jaws ganga ekki svo þeir sem hafa gaman af að fikta og skoða mega endilega sækja sér NVDA sjálfir.

Við erum einnig afar ánægðir með að sjá hugbúnað með þúsundum notenda, stuðningi helstu hugbúnaðarfyrirtækja heims og með afar hæfa forritara á bak við sig veita gamalgrónum fyrirtækjum samkeppni og sprauta smá lífi í skjálesaramarkaðinn. Við munum hiklaust stuðla að framþróun svona forrita þar sem hægt er og við teljum þau henta íslenskum aðstæðum. Þið megið sem sagt búast við annarri umfjöllun um NVDA í sumar.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

 

Til baka