Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
25. mars 2010

CSUN ráðstefnan - Adobe Reader

Við á Miðstöðinni erum nú staddir á CSUN-ráðstefnunni í Bandaríkjunum, í annað sinn. CSUN Conference, eins og þetta er jafnan kallað stendur fyrir California State University, Northridge. Ráðstefnan sjálf heitir svo Center on Disabilities Conference. Í ár er hún haldin í San Diego í Kaliforníu, en síðast þegar við fórum þá var hún í Los Angeles.

Við fórum fyrst á þessa sýningu 2007 og höfum fylgst náið með henni síðan. Þetta er stærsta sýning á hjálpatækjum, s.s. tölvutengdum hjálpatækjum, fyrir blinda og sjónskerta í heiminum. Það eru aðrar sýningar til af svipuðum toga, en engin þeirra er eins viðamikil. Fyrir utan sjálfa sýninguna eru fyrirlestrar frá morgni til kvölds á hótelinu þar sem sýningin er. Fyrirlestrasalirnir eru frá annarri til fjórðu hæðar á hótelinu. Þetta eru fyrirlestrar frá framleiðendum hugbúnaðar, vélbúnaðar, rannsakendum úr hinum ýmsu háskólum og frá notendum sem hafa kynnt sér tiltekið málefni meira en gengur og gerist. Það eru að jafnaði 5 fyrirlestrar á sama tíma, s.s. á hverjum klukkutíma. Þetta þýðir að við þurfum að skipta okkur niður, til að reyna að innbyrða eins mikið af efni og hægt er. Þess vegna höfum við í fæstum tilvikum farið á sama fyrirlesturinn. Þegar búið er að hlýða á fyrirlestra er farið á sýninguna, sem er á neðstu hæð hótelsins, og þar er farið milli bása og kannað hvað það er sem framleiðendur bjóða upp á. Við munum á næstu dögum taka saman okkar upplifun af þessari sýningu, hvað okkur fannst standa upp úr og koma vel út. Við höfðum ekki hugsað okkur að eyða miklum tíma í minni spámenn, ef svo má að orði komast.

Ég ætla að byrja á að tala um fyrirlestur sem fjallaði um aðgengi að .pdf skrám og var haldinn af forsvarsmönnum Adobe Acrobat. Adobe-menn hafa í nokkuð mörg ár unnið að því að gera .pdf skrárnar sínar aðgengilegar, mörg okkar hafa nú samt sem áður upplifað óaðgengileg .pdf skjöl m.t.t. skjálesara.

Í dag er það orðið þannig að .pdf skrár þurfa ekki að vera óaðgengilegar, þetta er bara spurning um að matreiða þær rétt í tölvurnar okkar, s.s. útbúa þær rétt frá grunni. Til að mæta þeim gríðarlega mörgu möguleikum sem völ er á, við framleiðslu á .pdf-skjali hafa Adobe-menn gert ýmislegt til að tryggja aðgengi. Í fyrsta lagi sér Adobe til þess að framleiðendur á skjálesurum (s.s. JAWS og Dolphin menn) fái alltaf beta útgáfur af komandi Adobe Reader útgáfum tímanlega, til að þeir geti komið með sínar athugasemdir. Í öðru lagi hefur Adobe gert nokkrar breytingar á MSAA support hjá sér (Microsoft Active Accessibility) en þær dugðu einfaldlega ekki til. Með tilkomu Dynamic Forms, sem og margra fleiri þátta í þróun .pdf skráa, ákvað Adobe að endurhanna MSAA support, byrja frá grunni og koma með sína lausn á þessum vanda.

Niðurstaðan var IPDDom-lausnin, sem er hugbúnaðarpakki sem tekur við hlutverki MSAA.

IPDDom greinir síðuna mun betur en MSAA gerði, m.t.t. skjálesara: hægt er að lesa nánar um þetta hér: http://www.adobe.com/devnet/acrobat/pdfs/access_v9.pdf

Adobe er einnig þátttakandi í hinum ýmsu aðgengisvinnuhópum. Þar kemur fólk úr ýmsum áttum saman til að stuðla að þróun aðgengismála hvað varðar .pdf skrár. Sem dæmi um vinnuhópa má nefna:

Linux IAccessible2 working group: http://www.linuxfoundation.org/collaborate/workgroups/accessibility/iaccessible2

Accessibility Interoperability Alliance (AIA, ATIA): http://www.atia.org/i4a/pages/index.cfm?pageid=3743

Að lokum má geta þess að fram að þessum tíma, þá höfum við alltaf viljað keyra .pdf skjöl í Adobe Reader forritinu sjálfu, en ekki lesa þau í gegnum vefsíður. Þegar við förum á vefsíðu þar sem .pdf skrá hefur verið sett inn, þá er sjálfgefin stilling sú að Internet Explorer reynir að opna .pdf skjalið í vafranum sjálfum. Þessu breytum við jafnan, þannig að .pdf skjalið opnist í Adobe Reader forritinu, þá getum við reitt okkur á að skjálesaranum okkar gengur betur að lesa skjalið.

En núna, með tilkomu nýjustu útgáfa af Adobe Reader, þá eru Adobe menn hættir að mæla með þessu. Þeir segja hreint út að þetta sé ekki nauðsynlegt lengur, best sé að lesa .pdf skjalið í gegnum vafrann. Ég vil nú slá ákveðna varnagla við þessu, og segi því: Eigum við ekki að bíða eftir næstu útgáfu af Adobe Reader og skjálesaranum okkur, áður en við förum að prófa þetta. Ég tel að það væri heppilegra, því oft á tíðum eru framleiðendur nokkuð duglegir á svona sýningum að fjalla um eigið ágæti og áreiðanleika og falla þá í þá gildru að lofa aðeins of miklu aðeins of snemma.

En lengra förum við ekki að þessu sinni, á morgun munum við fara yfir fleiri spennandi þætti frá ráðstefnunni hér í San Diego.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafiTil baka