Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
30. mars 2010

CSUN - ferðalýsing

CSUN – ferðalýsing.

Ég er nú nýkominn frá San Diego borg í Kaliforníu þar sem ég ásamt Hlyni, tæknifélaga mínum og Huld Magnúsdóttur, forstjóra Miðstöðarinnar, sátum fyrirlestra, skoðuðum tæki og töluðum við fólk. Ekki má gleyma Hartmanni frá Örtækni, en hann var með okkur í för ásamt Mörtu konu sinni, þó þau hafi ekki verið á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar. CSUN hefur verið ein helsta samkoma fyrirtækja í aðstoðartæknigeiranum um árabil (þetta var í 25. sinn sem sýningin er haldin).

En ekki eru bara tæki til sýnis í einum sal heldur er líka viðamikið og stíft fyrirlestraprógramm frá 8 til 5 alla dagana með mörgum fyrirlestrum í gangi í einu svo af nógu er að taka, bæði hvað varðar tæki og tól annars vegar og þekkingu hins vegar. Í þessu sambandi langar mig að segja að þegar ég var á mínum yngri árum fussaði ég yfirleitt og sveiaði yfir fólki sem fór erlendis á ráðstefnur. Mér fannst þetta oft vera tækifæri fyrir fólk til að fá aðra til að borga fyrir sig ferðir út í heim, borða fínt og skemmta sér án þess að neitt kæmi svo út úr því fyrir fólkið sem borgaði brúsann. Ég er viss um slíkt fyrirfinnst nú víða og í  mörgum greinum en mér finnst því æ mikilvægara að ég falli ekki í þennan hóp og einnig að fólki, sem finnst það standa að baki förinni, sé gerð ítarleg grein fyrir því sem gert var og hver ávinningur af því að senda fulltrúa á svona sýningar er. Það er ekkert sjálfsagt mál að senda þrjá aðila til Kaliforníu á þessum síðustu og verstu tímum og mér finnst eðlilegt að fólk spyrji sig til hvers.

Ég get þó fullvissað ykkur um að við slökuðum ekkert á í þessari ferð, sátum fyrirlestra allan daginn, eyddum tímum í sýningarsölunum og í að ræða við fólk frá fyrirtækjum og hagsmunasamtökum og þessi ferð var hörkuvinna, enda vildi ég ekki hafa þetta öðruvísi. Við komum til baka uppfull af hugmyndum og að sligast undir kynningarbæklingum og nafnspjöldum, samstarfsverkefnum og fleiru í þeim dúr.

Við Hlynur munum skiptast á að skrifa greinar um einstök tæki, atriði eða fyrirlestra og setja á netið og einnig mun ég setja greinarnar á Blindlist. Ég hugsa við skrifum flestar greinarnar í vikunni þó þær komi á netið á næstu mánuðum, ásamt því sem við reynum að fylgja eftir fundum og halda áfram viðræðum við það merkisfólk sem við hittum. En mig langaði að nota þennan fyrsta póst til þess að reyna að lýsa sýningunni svolítið fyrir þeim sem aldrei hafa farið á slíkan viðburð.

Flugið þangað gekk svona upp og niður, eins og við mátti búast, og vorum við öll komin til San Diego á þriðjudagseftirmiðdegi. Borgin er í syðsta hluta Kaliforníu enda er nær sama veðrið þar allt um kring, hitastigið milli 12 og 25 gráður og litlar árstíðasveiflur, enda var veðrið hið yndislegasta. Huld hafði búið í nágrenni borgarinnar í mörg ár og kunni því vel á svæðið svo ekkert mál var að finna hlutina, en það sem ég tók strax eftir var að flugvöllurinn er næstum í miðri borginni og það tekur ekki nema 5 mínútur að vera komin niður á hótelin í miðbænum. Ráðstefnan var haldin á Manchester Grand Hyatt hótelinu sem er risabygging og flott, en okkur fannst mikill óþarfi að borga næstum 20.000 kr. fyrir nóttina þar, svo við fundum okkur hótel í nágrenninu sem var mun íburðarminna en þægilegt og fínt, nema hvað við fengum herbergi á annarri hæð og getum borið vitni um að íbúar San Diego skemmta sér og hafa mikil læti langt fram á nætur, en það var svo sem allt í góðu fyrir þá sem hafa vanist því að búa í háskólaþorpum.

Við vorum mætt á sýninguna kl hálfsjö á miðvikudagsmorguninn, skráðum okkur inn og fengum okkur kaffi meðan við skoðuðum fyrirlestraáætlun dagsins og aðstæður á svæðinu. Við reyndum að skipta liði svo við gætum farið á sem flestar kynningarnar, en oft voru þær áhugaverðustu allar á sama tíma.

Það var svo sem alveg greinilegt að hótelið var ekki hannað með blinda þátttakendur í huga. Fundarherbergin voru dreifð yfir tvær hæðir með þröngum göngum þar sem lampar og annað dót skagaði fram úr veggjum. Herbergin sjálf hétu hinum ýmsu nöfnum en var ekki raðað í neins konar stafrófsröð þannig að maður þurfti stöðugt að spyrja sjálfan sig og aðra hvort herbergi X væri á annarri eða þriðju hæð. Sem betur fer var mikið um starfsmenn sýningarinnar sem veittu upplýsingar og aðstoð þegar á þurfti að halda. Einnig var nokkuð merkilegt að inni í herbergjunum var stólum raðað upp einsog í bíó og ekki voru borð undir fartölvur eða tæki né innstungur til svo maður varð að vera passasamur með batteríin og glósa einungis þegar manni fannst efnið sérstaklega áhugavert. Einnig fannst okkur allmerkilegt að ekki var veittur netaðgangur fyrir ráðstefnugesti, þó svo sýningin eigi að heita tæknisýning. Úr því var reyndar bætt síðasta daginn. Þrátt fyrir þessar aðfinnslur var sýningin svo sem öll hin glæsilegasta og sumir fyrirlestranna frábærir. Sýningarsalurinn sjálfur var opnaður í lok miðvikudagsins og voru þar fulltrúar flestra helstu fyrirtækja í bransanum að kynna gömul tæki og ný. Við tókum þó eftir því að kreppan og tilkoma annarra sýninga er verulega farin að setja strik í reikninginn og hefur sýningarbásum fækkað um yfir helming síðan Hlynur fór á þessa sýningu árið 2007.

Ráðstefnudagarnir sem eftir fylgdu voru allir mjög svipaðir og svo sem engin ástæða til að rekja þá. Við fórum á fyrirlestra, kíktum á sýningarsalinn, mæltum okkur mót við fólk sem okkur langaði að ræða betur við og héldum svo fund yfir kvöldmatnum þar sem við bárum saman bækur okkar (eða nafnspjöld) og yfirleitt var farið fremur snemma í bælið, enda menn orðnir þreyttir eftir langa daga.

Á sýningunni fundum við margt spennandi. Það er mikill kraftur í "Open Source" forritum þ.e.a.s. ókeypis forritum eins og Linux og Windows skjálesurum, og okkur finnst þessi forrit komin á það stig að við þurfum að setjast niður og prófa hugbúnaðinn með það fyrir augum að dreifa honum til þeirra sem gætu nýtt sér hann.

Það sem okkur fannst einna merkilegast við sýninguna og rauði þráðurinn í mörgum kynningum og verkefnum sem tengjast henni er mikil viðhorfsbreyting meðal blindra og sjónskertra í heiminum í dag. Þeim finnst ekki lengur sjálfsagt að borga stórar fjárhæðir til þess að geta notað sömu tæki og tól og sjáandi fólk, því finnst frekar sjálfsagt að slíkt sé innbyggt eða a.m.k. kosti það ekki mikið meira. Ég held við eigum Apple fyrirtækinu mikið að þakka í þessum efnum og einnig NVDA og fleiri "Open Source" forritum og hugbúnaði. Á sýningunni var t.d. talandi sjónvarpsstýritæki og DVD-spilari sem kostaði nær 120.000 kr. (um 1000 dollara) og ekki hitti ég nokkurn mann sem datt í hug að kaupa svona tæki meðan hægt er að kaupa heila tölvu með öllum talandi hugbúnaði og slíku á helmingi þessa verðs. Vissulega er samt spennandi að sjá að aðgengileg tækni og tal er að dreifast út frá tölvunni og til annarra heimilistækja.

Open Source tæknin er að ryðja sér æ meir til rúms og mörg rannsóknarverkefni eru í gangi í þeim geira. Sem dæmi má nefna sífellt auknar vinsældir NVDA skjálesarans fyrir Windows, stórbætt aðgengi Open Office pakkans, forrit sem breyta Word skjölum sem skrifuð eru í Open Office í Daisy hljóðbók. Ókeypis talþjónn sem styður 27 tungumál þ.á.m. íslensku, þó röddin hljómi einna helst eins og drukkinn Norðmaður í augnablikinu (þó vil ég benda á að hönnuður Espeak sótti íslenskureglurnar á Wikipedia síðuna og setti þær inn, hann hefur aldrei unnið með Íslendingi eða heyrt íslensku og þessa rödd má stórbæta með mjög lítilli fyrirhöfn), Gnome aðgengisforritin fyrir Linuxkerfi (með skjálesaranum Orca og skjástækkun) o.s.frv. Adobe fyrirtækið hafði marga fulltrúa á sýningunni og aðgengi að PDF skjölum og Flash veftækni var í miklu fyrirrúmi. Apple höfðu einnig dágóðan hóp og nokkrar kynningar og erum við félagarnir stórhrifnir af því sem Apple hefur verið að gera í aðgengismálum. bæði VoiceOver skjálesarinn fyrir Makka og iPhone síminn (3GS útgáfan) hafa nýjar og byltingakenndar lausnir fyrir skjálesaranotendur og hefur þróunin verið einstaklega hröð á síðasta ári. Einnig hefur GPS tækni rutt sér enn meir til rúms og okkur finnst full ástæða til þess að taka hana til alvarlegrar skoðunar fyrir notendur á Íslandi og erum þegar komin í samskipti til að fá a.m.k. kostnaðaráætlun um aðgengileg GPS kort af landinu, munum við láta ykkur vita hvernig gengur, þó þetta verkefni komi til með að taka talsverðan tíma.

Meðal annarra tækja sem við sáum á sýningunni má nefna Daisy spilara sem kemst á netið þráðlaust, kareokitæki með punktaletri, þráðlausa hanska með hreyfiskynjurum sem gerir mönnum kleift að nota hvaða borðflöt sem er sem punktaleturslyklaborð, forrit sem breytir Nokia-símum í stækkunartæki og fleira. Við munum skrifa um þetta allt saman í komandi tæknimolum og haldið því áfram að lesa þá.

Okkur langar að taka meiri þátt í Open Source verkefnum og skoða Apple tæki og sjá hvort þessi tæki og forrit bjóði okkur upp á möguleika til að veita okkar notendum jafngóða eða betri þjónustu og tæknilausnir fyrir mun minni kostnað en við erum að borga í dag. Það er jú aðalástæðan fyrir því að fara á ráðstefnur sem þessa.

Við munum að sjálfsögðu gera ítarlegar prófanir sjálfir þar sem okkar notendur eiga aðeins það besta skilið og okkur dettur ekki í hug að henda upp Linux-hugbúnaði sem enginn getur notað til þess að spara stofnuninni pening. En ég held að þarna séu margvísilegir og stórkostlegir möguleikar til framtíðar og þið munið vonandi sjá afraksturinn af þessari sýningu og áframhaldandi samskiptum okkar við vini og félaga sem við hittum þarna ekki bara á næstu mánuðum heldur á komandi árum.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Til baka