Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
5. apríl 2010

CSUN 2010 - Apple iPhone og iPod touch: Ný tegund af aðgengismöguleikum.

Apple framleiðandinn var ekki með sýningarbás á CSUN 2010, en þrátt fyrir það var Apple-vörumerkið nokkuð áberandi. Ekki sökum auglýsinga, bæklinga eða þess háttar heldur einfaldlega vegna þess hversu áberandi Apple vörur voru á svæðinu. Mikill meirihluti fyrirlesara á ráðstefnunni var með Apple tölvur, sumir þessara fyrirlesara nýttu sér skjástækkunareiginleika Apple tölva, aðrir Voice Over skjálesarann og enn aðrir þurftu ekki á slíkum lausnum að halda. Ofan á það bættist svo að meirihluti sýningargesta virtist vera með iPhone eða iPod Touch.

Við á Miðstöðinni höfum undanfarin ár verið að þjónusta notendur sem vinna á Apple tölvum og þess vegna þótti okkur forvitnilegt að fara á þá fyrirlestra sem Apple var með á CSUN 2010.

Árið 2007 kynnti Apple til sögunnar Apple iPhone og vildi fyrirtækið meina að nú væri kominn á markað sími sem byði notendum upp fjölmarga kosti í einu tæki.

Líklega eru fáir sem andmæla þeirri staðhæfingu, þegar tekið er tillit til hinna fjölmörgu forrita sem síminn inniheldur, til viðbótar við myndavélina og síðast en ekki síst: hnappalaust viðmót. Með öðrum orðum, það eru engir hnappar framan á símanum þar sem við erum vön að hafa okkar týpíska talnaborð. Á hliðum símans eru slökkva/kveikja hnappur, hnappur til að hljóðdeyfa hringingu og tónstyrkshnappur en eins og áður sagði eru engir hnappar framan á símanum sjálfum. Í iPhone var síminn með snertiskjá. Þetta þýðir að myndir af tölunum/hnöppunum birtast á skjánum og notandi styður síðan á þann stað á snertiskjánum.

Eins og gefur að skilja er þetta náttúrulega fullkomlega óaðgengilegt blindum.

Þetta þýddi að Apple varð að hugsa málið upp á nýtt og bjóða upp á nýja aðgengislausn fyrir blinda notendur. Ég mun nú reyna, í eins stuttu máli og ég tel mig komast upp með, reyna að útskýra hvernig þetta virkar.

Í fyrsta lagi þá var 2007 útgáfan af iPhone ekki búin neinum aðgengismöguleikum fyrir blinda og sjónskerta. Það var ekki fyrir en svokölluð 3rd Generation útgáfa af iPhone kom út að aðgengismöguleikar voru komnir inn í símann. Rétt er að bæta því inn hér, að 32GB og 64GB iPod Touch er búinn sömu aðgengiskostum og 3rd Generation iPhone er.

Við skulum byrja á aðgengismöguleikum fyrir sjónskerta. Innbyggt í iPhone 3rd Gen er x5 skjástækkun sem og valkostir um litaviðmót, sem þýðir að notandi getur valið hvort hann sé með svarthvítt viðmót eður ei. Skjástækkunin er mjög einföld í notkun, þú einfaldlega tvísmellir með þremur fingrum, hvar sem er á skjáinn, og þá virkjast skjástækkun um 200%. Hér er ætlast til þess að vísifingur, langatöng og baugfingur séu notaðir. Til að draga úr stækkun eða auka við – alveg upp í 500%, þá ýtir notandi þremur fingrum upp á við á skjánum til að auka stækkunina meira eða dregur þá niður skjáinn til að draga úr henni. Þar með er það upptalið! Engir flýtilyklar, ekkert meira að læra. Skjástækkunin virkar í öllum forritum símans, meira að segja í myndböndum.

Voice Over, en það er nafnið á skjálestrarforriti Apple, er líka innbyggt í iPhone, sem gerir símann aðgengilegan blindum notendum. Núna fer þetta að verða virkilega áhugavert; hvernig getur blindur notandi nýtt sér hnappalausan snertiskjá? Apple þróaði aðgengislausn sem mætti kalla flick navigation, gróflega þýtt væri það líkt og að „blaða“ í gegnum bók/tímarit/spjaldskrá. Í fyrsta lagi þá les Voice Over það sem er undir fingrinum. Sem þýðir þá að ef þú snertir skjáinn þá les hann hvaða íkon þú studdir á. Til að færa sig á næsta íkon strjúkum við fingrinum til hægri og er þá næsta íkon lesið. Sem sagt, til að færa fókusinn milli íkona þá strjúkum við fingrinum til hægri til að fara á næsta íkon og til vinstri til að fara á fyrra íkon. Þegar við erum komin á það íkon sem við vildum opna, til dæmis tengiliði, þá tvísmellum við á skjáinn. Einhver kann þá að spyrja sig: „Þarf þá ekki að hitta akkúrat á íkonið sem á að opna?“ En svarið er nei. Voice Over man nefnilega það íkon sem var lesið upp síðast og þess vegna þarf aðeins að tvísmella hvar sem er á skjánum til að opna það íkon. Engir örvalyklar, enginn færslulykill, þú bara tvísmellir hvar sem er á skjánum. Ef við nú yfirfærum þessa vitneskju yfir á forritin í símanum, til dæmis tengiliði eða dagbókina, þá virkar þetta alls staðar eins. Þú bara dregur fingurinn til hægri eða vinstri og tvísmellir hvar sem er á skjáinn til að virkja hnappinn sem þú ert staðsettur á. Það er rétt að taka fram að iPhone skjálesarinn er afar snöggur að taka við sér og eftir stutta notkun er maður fljótur að vinna með símann.

Í iPhone eru engir flýtilyklar notaðir, þannig að þegar við ætlum til dæmis að lesa SMS skilaboð úr Innhólfinu okkar þá setjum við tvo fingur á skjáinn og drögum þá niður. Þar með virkjast sjálfvirkur lestur. Til að stöðva lestur þá smellum við einu sinni á skjáinn með tveimur fingrum.

iPhone er einnig með 3GS netstuðning og Safari vafrann. Hér virkar Voice Over skjálesarinn líka, með einni viðbót þó. Ef við værum í venjulegri tölvu að lesa vefsíðu þá væri nokkuð seinlegt að nota aðeins örvalykil niður til að lesa vefsíðu. Við erum vön því að geta fært okkur beint á tengla og fyrirsagnir á vefsíðum. Þetta er gert á eftirfarandi hátt í iPhone. Ef við ímyndum okkur að við ætlum að snúa hnappi á útvarpi eða eldavél þá nota líklega flestir þumalfingur og vísifingur til þess arna. Þegar við erum stödd á vefsíðu í iPhone og viljum færa okkur milli tengla eða fyrirsagna þá styðjum við þumal og vísifingri á skjáinn á sama hátt og ef við ætluðum að snúa hnappi. Við síðan snúum fingrunum á skjánum, til hægri eða vinstri, og þá segir skjálesarinn: tenglar, fyrirsagnir osfrv. Þetta kalla Apple menn „Rotor“. Rétt er að benda á að iPhone er ekki ennþá kominn með íslenskt viðmót, en vonandi er það eitthvað sem breytist með tíð og tíma. Nú, þegar við höfum valið hvað vill, þá drögum við einn fingur niður – endurtekið – til að flakka yfir á næstu fyrirsögn, tengil eða það sem var valið. Til að hefja lestur frá þeim stað sem var valinn, þá drögum við tvo fingur niður á skjánum. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að svona sáraeinfalt viðmót á farsíma skuli vera mögulegt. Það eru þó nokkur Apple forrit sem fylgja með iPhone og eru þau öll fullkomlega aðgengileg með Voice Over skjálesaranum, þar með talið GPS forrit.

Það er óhætt að segja að við á Miðstöðinni höfum mikinn áhuga á að kynna okkur iPhone símann betur og kanna hvernig hann reynist í týpískri notkun.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka