Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
14. apríl 2010

GPS tækni í þágu blindra, hvar erum við stödd og hvenær kemur að Íslandi?

GPS tækni í þágu blindra, hvar erum við stödd og hvenær kemur að Íslandi?

Hvenær getum við sjóndapra fólkið ekki bara sungið "Ég held ég gangi heim" heldur líka fylgt því eftir? Með GPS tækni og þjálfun getum við ekki bara rölt heim nær hvaðan sem er, heldur líka stoppað og fengið okkur kaffi á leiðinni. Þessi mál voru mikið til umræðu á CSUN-sýningunni, en við höfum verið að skoða þessi mál síðustu mánuði. Það er engin töfralausn alveg í sjónmáli en hér á eftir gerum við grein fyrir stöðunni eins og hún er í dag og tilraunum okkar til að koma Íslandi á (GPS) kortið, í orðsins fyllstu merkingu.

 

GPS-tæknin hefur verið að ryðja sér æ meir til rúms meðal ökuþóra í hinum vestræna heimi. Tækin eru yfirleitt lítil, á stærð við gamaldags GSM-síma eða jafnvel minni. Þau er hægt að nota í ýmsum tilgangi, t.d. til að finna bestu leið á ákveðinn áfangastað, til að sjá lista yfir áhugaverða staði í nágrenninu eða til að finna næsta hótel, veitingastað, banka, bensínstöð o.s.frv.

Í fyrsta skipti sem undirritaður prófaði svona tryllitæki  var fjölskyldan stödd í Austin í Texas-fylki í Bandaríkjunum og við áttum pantaðan bílaleigubíl og hótel í miðborg San Antonio, sem er stórborg í um það bil 150 km fjarlægð frá Austin. Við létum verða af því að kaupa GPS tæki á um 8000 krónur. Við slógum inn heimilisfang hótelsins og tækið beindi okkur beint á staðinn með samblöndu af korti og talviðmóti svo við villtumst aldrei á leiðinni. Þetta er ótrúleg bylting fyrir langar bílferðir þar sem rifrildi um hver gleymdi að prenta út leiðbeiningarnar eða hvort beygja hefði átt til hægri í stað vinstri eru úr sögunni.

Annað sem er merkilegt við þessa tækni  er að viðmót GPS-tækjanna, þó svo kort sé birt á skjá, er aðallega hljóðræns eðlis, og því ansi svipað því viðmóti sem blindir nota til að komast milli staða.En þá er það spurningin hvort og hvernig er hægt að aðlaga þessa tækni að þörfum blindra göngugarpa.

Ákveðin tæknileg vandamál skapast í því samhengi. Oft er erfiðara að ná samskiptum við þrjú GPS gervitungl í stórborgum og þröngum götum milli háreistra bygginga, blindir göngugarpar þurfa öðruvísi upplýsingar en ökumenn, þó ekki muni miklu.

Þar sem fólk fer mun hægar gangandi vill það oft fá ítarlegri upplýsingar um hvað er í nágrenninu, notandi verður að geta sett inn sín eigin kennileiti á tækið, t.d. strætóstoppistöð sem oftast er notuð og einnig verður að vera hægt að stjórna GPS-tækinu með annarri hendinni, þar eð notandinn er jú oft með staf í hendi eða með hönd á beisli leiðsöguhunds. Einnig vaknar upp spurningin hvort hægt sé að bæta "blindvænni" GPS-virkni við tæki sem notandi hefur þegar undir höndum eins og t.d. GSM-síma, lófatölvu eða slíku eða hvort betra sé að hafa sértæki sem veitir eingöngu leiðbeiningar.

Fyrsta GPS-lausn sem var hönnuð sérstaklega með blinda notendur í huga byrjaði sem tilraunaverkefni hjá félögunum Mike May og Charles LaPierre árið 1994. Fyrsta talandi GPS kortið var gefið út árið 1995 en útbreiðslu þess hætt árið 2001, hugsanlega vegna þess að borðtölvur eru heldur til þungar til að taka með sér á röltið. En Mike May og félagar voru ekki af baki dottnir heldur stofnuðu Sendero fyrirtækið og árið 2001 kom fyrsta GPS lausnin fyrir BrailleNote tækin frá Humanware en þau eru jú það sem kalla má lófatölvur eða "PDA" á ensku. Reyndar eru þessi tæki ennþá allt of stór til að falla vel að hendi en hægt er að hengja þau um hálsinn án þess að bakverkur hljótist af, enda er þyngd slíkra tækja komin vel undir kílóið. Hefur BrailleNote verið einn helsti GPS valkostur notenda síðan. Freedom Scientific gaf út Street Talk árið 2009 fyrir PacMate tækin og GW Micro bjó til Sense-Nav forritið fyrir BrailleSense og VoiceSense lófatölvur sínar á svipuðum tíma. Báðar þessar lausnir nota bæði Sendero tæknina og kortin.

Hvað varðar GPS forrit á síma er um tvennt að velja: Mobile Geo forritið frá Sendero og CodeFactory, kom á markað árið 2008 en það keyrir á símum með Windows Mobile stýrikerfinu. Fyrir þá sem nota Symbian stýrikerfið (þ.e.a.s. Nokia E eða N símana) kom GPS- kerfi á markaðinn sem kallast WayFinder. Það er frábrugðið áðurnefndum kerfum að því leyti að GPS kortin sjálf eru geymd á vefþjóni og síminn þarf að hafa samband við vefþjóninn þegar notandinn vill nýta sér GPS-virknina og þarf notandi því að hafa áskrift að nettengingu fyrir símann. Þar að auki er framtíð WayFinder hugbúnaðarins í hættu vegna þess að Vodafone fyrirtækið keypti WayFinder og lagði niður WayFinder Access lausnina, þó undirskriftarlisti sé í gangi með yfir 2000 undirskriftum til að fá þessari ákvörðun breytt (þ.e.a.s. að fá Vodafone til að hætta við að hætta við) eða fá Vodafone til að selja fyrirtækið aftur til áhugasamra fjárfesta.

„Open Source" forrit sem kallast Loadstone er komið vel á veg, en byggir þó ekki á kortum, heldur eingöngu á svokölluðum GPS punktum (eða kennileitum) sem notendur setja inn á vefsíðu sjálfir og aðrir geta sótt sér. Hægt er t.d. að búa til GPS punkt (eða Point of Interest, eins og þetta kallast á ensku) við hverja strætóstoppistöð, búa til lýsingu fyrir punktinn, setja hann inn á heimasíðu og leyfa öðrum notendum að sækja sér þær upplýsingar inn á símana sína. Vegna þess að þessi tækni byggir ekki á GPS kortum er ekki hægt að biðja símann að finna bestu leið frá A til B og lýsa henni fyrir notandanum. Einnig er Sendero fyrirtækið að koma með fyrstu GPS lausnina fyrir iPhone símanna eftir u.þ.b. mánuð og verður spennandi að sjá hversu vel hún virkar.

Að lokum eru það tæki sem eru svo til eingöngu GPS lausnir: Humanware-fyrirtækið kom með tvö slík á markaðinn með lausnum frá Sendero Group. Annars vegar er það Trekker Classic og hins vegar Trekker Breeze sem er uppfærð útgáfa. Bæði eru á stærð við GSM síma og eru hugsuð sem GPS tæki að mestu leyti, þó svo hægt sé að breyta Trekker Breeze tækinu í nokkurskonar lófatölvu með því að kaupa hugbúnað af Humanware, s.s. tölvupóst, dagatal o.s.frv. Að lokum má minnast á Kaptein-tækið franska sem er að ryðja sér nokkuð til rúms í GPS-heiminum. Mikið virðist þó vanta upp á nákvæmni þess, a.m.k. vestanhafs þar eð tækið fann einungis einn veitingastað í San Diego borg, og það voru a.m.k. 6 veitingastaðir á hótelinu sjálfu þar sem ráðstefnan var haldin og þúsundir veitingastaða í nágrenninu. Þó getur vel verið að evrópsku kortin þeirra séu betri.

En hvað getur maður gert með einu af þessum tækjum?Hægt er að finna bestu leið milli tveggja staða (ef kort eru fyrir hendi) og fá leiðbeiningar um hana (hægt á flestum tækjum en t.d. ekki á Trekker Classic og ekki á Loadstone), leiðbeiningarnar koma í formi gatnamóta og göngufjarlægðar. Hægt er að vista kennileiti á GPS leiðum s.s. strætóstoppistöðvar o.s.frv. Verið er að vinna að því að notendur geti sett kennileiti sín á vefsíðu og aðrir geti notað þau einnig. Hægt er að setja tækið í skoðunarham "look around mode" og þá segir tækið þér frá því sem er í kring, helstu veitingastöðum, kennileitum, bönkum o.s.frv. Tækið áttar sig á hraða notandans og því er einnig hægt að nota þennan ham í bíl og tækið getur sagt þér helstu merkisstaði á leiðinni, þó með mun minni nákvæmni en ef farið er gangandi. Einnig er hægt að fara í "heitur eða kaldur" ham þar sem tækið segir þér hvort þú sért að nálgast kennileiti eða punkt sem þú vilt komast að.

Flest þessara tækja eru annaðhvort með punktaletursskjá (lófatölvurnar) eða hægt er að tengja þau við skjái í gegnum USB-tengi eða Bluetooth þráðlaus tengi svo hægt er að nota tækið án þess að hafa stöðugt snúru í eyrað, sem getur truflað notanda sem er í samræðum við aðra eða vill hlusta á umhverfið. Ég held að allir notendur okkar séu sammála um að heilmikið gagn mætti hafa af því að hafa svona tæki í förum sínum, og einnig gaman.

Mike May talaði mikið um "location illiteracy" í fyrirlestrum sínum, gróflega þýtt sem skortur á staðkunnáttu. Blindir notendur þekkja oft ekki hverfið sitt vel, vita ekki hvað er til staðar þar, hvernig göturnar liggja, hvernig komast eigi á ákveðinn stað, nema þeim hafi verið kennd leiðin. Með svona tæki getur fólk litið í kringum sig, uppgötvað nýjar leiðir, nýja staði, villst og haft gaman af því, og farið í göngutúra út í bláinn í stað þess að þurfa alltaf að halda sig við fyrirfram ákveðnar leiðir. Mottó Sendero  fyrirtækisins er einmitt: "It is better to travel hopefully than to arrive.", sem gæti útleggst sem "betra er að njóta ferðalagsins en að komast á áfangastað".

Val og vandamál, af hverju er þessi tækni ekki komin til íslenskra notenda?

Það er von að fólk spyrji þessa. Stærsta vandamálið hefur verið það að GPS kort af Íslandi eru fágæt og dýr. Hingað til hefur Garmin fyrirtækið verið þeir einu sem gert hafa GPS kort af Íslandi og ekki er hægt að nota kortin þeirra beint með neinum af þeim hugbúnaði sem til er fyrir blinda notendur. Eftir CSUN-ráðstefnuna hef ég verið í samskiptum við Mike May hjá Sendero og hann er að kanna málið, hvort hægt sé að gera ný kort og hversu mikið það myndi kosta. Hann er, enn sem komið er, svartsýnn á að lausn finnist.

Ég hafði samband við Wayfinder fyrirtækið fyrir um hálfu ári en þaðan komu skýr svör um að kort af Íslandi væru ekki til og enginn áhugi væri fyrir að breyta því.

Annað vandamál er að velja tækjabúnað sem nota á með kortunum og hugbúnaðinum. Lófatölvur fyrir blinda notendur eru rándýrar, nær 1,5 milljónum króna fyrir utan GPS-lausnina sem getur kostað allt að 300.000 kr. til viðbótar. Þetta eru einnig tæki sem hafa lítið að bjóða umfram venjulegar nettölvur sem kosta ekki nema tugi þúsunda og, í sumum tilvikum, byggja meira og minna eingöngu á hugbúnaði eins fyrirtækis (þetta er t.d. vandamál með BrailleNote tækin frá Humanware). Því höfum við ekki verið spennt fyrir að úthluta þessum tækjum eða hvetja notendur til að nota þau. Við teljum mun meira notagildi í fartölvu og punktaletursskjá.

Þá er spurning um símana. Fáir eru með Windows Mobile síma og Microsoft tilkynnti nýverið að meiriháttar uppfærsla á Windows Mobile stýrikerfinu væri í bígerð og forrit sem keyra nú á Windows Mobile 6.5 keyri ekki óbreytt á Windows Mobile 7 þegar það kemur út, þó má ætla að Mobile Geo menn bregðist skjótt við og komi með nýja útgáfu, auk þess sem Windows Mobile 6.5 verður til staðar á komandi árum, miðað við endingu á GSM-símum í dag ætti það ekki að ver mikið áhyggjuefni.

Miðað við markaðstök Nokia og mikla notkun Nokia síma meðal blindra og sjónskertra hér á landi ætti Wayfinder að vera eðlilegasti kosturinn en vegna neikvæðra viðbragða Vodafone og nú vegna þess að framtíð þess er í vafa virðist það ekki vera góð lausn í augnablikinu. Þar á ofan þurfa notendur að bæta gagnatengingu til þess að geta notað Wayfinder lausnina þar eð kortin eru geymd á vefþjóni og sími notandans þarf að hafa samband við vefþjóninn í hvert skipti sem þörf er á leiðbeiningum. Því mun þetta leiða til hærri símakostnaðar fyrir notendur.

Þá er röðin komin að iPhone símanum. Við teljum þetta raunhæfan möguleika. Hugsanlegt er að áhugi sé til staðar hjá Apple umboðinu að láta gera GPS kort af landinu fyrir iPhone notendur og myndi það gagnast okkur vel. Þó er þetta einungis ágiskun en við munnum kanna málið hjá Apple-mönnum. Sendero forritið fyrir iPhone mun kosta mun minna en aðrar hugbúnaðarlausnir, og síminn kemur með skjálesara, GPS tækni og áttavita innbyggðum. Þarna virðist því vera allt til staðar til að geta breytt síma í leiðsögutæki án þess að kaupa alls konar hugbúnað og jaðartæki.

Þriðja lausnin væri náttúrulega stök GPS tæki eins og t.d. Trekker Breeze og má alveg skoða þá lausn, tækið kostar reyndar milli 200 og 300.000 kr. erlendis og leiða mætti rök að því að verðið innanlands yrði rúmleg hálf milljón króna, sem er ansi mikið fyrir GPS-tæki með engum öðrum hugbúnaðarlausnum. En þrátt fyrir valkvíða og óvissu munum við halda ótrauð áfram og kanna hvort hægt sé að gera brúklegt GPS kort af landinu sem hægt er að nota með einhverjum þessara tækja, þá líklegast Windows Mobile símunum í bili, og einnig kanna hug Apple fyrirtækisins á notkun slíkra korta. Erfitt er að segja til hvort lausn finnist á náinni framtíð en við munum ganga vasklega fram og vonast eftir því besta. Ef brúklegt kort finnst munum við skoða hvaða tæknibúnað er hægt að nota við lausnina og þá á eftir að skoða kortin sjálf, nákvæmni og hvort ráðast þurfi í þýðingar á viðkomandi forriti. Ég er viss um að þessi tækni verði komin í hendur okkar notenda eftir nokkur ár, því GPS-tækni er að ryðja sér æ meir til rúms í heiminum og bara tímaspursmál hvenær betri kort af landinu koma á markaðinn, en ég vonast til þess að hæfilegur skammtur óþolinmæði geti leitt til þess að tæknin komist í hendur ykkar, lesendur góðir, mun fyrr en þetta, og munum við róa að því öllum árum.

Að lokum vil ég benda á nokkrar heimasíður sem tengjast þessum efnum, ef þið viljið kynna ykkur þau nánar:

http://www.AccessibleGPS.com er síða frá Sendero með yfirliti yfir þær lausnir sem til eru, bæði frá þeim og öðrum, með hlekkjum á viðkomandi vörur.

http://www.codefactory.es/en/products.asp?id=336 er síða með upplýsingum um Mobile Geo frá Codefactory. Þess ber að geta að þeir segja Mobile Geo forritið hafi stuðning fyrir daufblinda, sem gæti verið mjög áhugavert að reyna.

Til að skoða lista yfir síma sem Mobile Geo keyrir á getið þið smellt á "supported devices" hlekkinn.

http://www.dvlop.nl/saveWayfinder/main/home.php er hlekkur á undirskriftarlista notenda sem vilja mótmæla ákvörðun Vodafone um að leggja niður Wayfinder forritið, ef þið viljið skrifa undir er ykkur það velkomið.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Til baka