Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
23. apríl 2010

Skjástækkunarbúnaður á CSUN 2010

Skjástækkunarbúnaður – CSUN 2010

Á CSUN-sýningunni sýndu færri framleiðendur vörur sínar, miðað við fyrri ár. Þegar við fórum síðast á þessa sýningu voru talsvert margir framleiðendur að sýna stækkunartæki, sem og ýmsan annan samsvarandi tækjabúnað.

Miðstöðin úthlutar stækkunartækjum til notenda sinna og viljum við því gjarnan fylgjast með þróun þessa búnaðar.

Við höfum fengið fyrirspurn frá notendum okkar um stækkunartæki sem hægt væri að nýta þegar unnin er handavinna, til dæmis útsaumur, prjónaskapur og þess háttar. Þær lausnir sem hafa verið í boði hafa ekki verið nægjanlega spennandi. Það sem notendur þurfa er myndavél sem hægt er að hafa við borðbrún þannig að mögulegt sé að vinna í kjöltu sér, ef svo má að orði komast. Hin stækkaða mynd birtist síðan á tölvuskjá eða í sjónvarpsskjá. Hingað til hafa myndavélarnar ekki verið nægjanlega hagkvæmar hvað varðar hreyfanleika. Við vorum því að leita eftir áhugaverðri lausn í þessum efnum á CSUN í ár.

Eftir að hafa farið í gegnum alla þá bása sem innihéldu stækkunartæki var ég orðinn hálfvonlítill, en það rættist nú úr þessu á endanum. Sight Enhancement Systems (SES), er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á stækkunartækjum. Fyrirtækið er kanadískt og hefur um árabil unnið náið með the University of Waterloo Centre for Sight Enhancement til að tryggja að vörur þeirra séu í hæsta gæðaflokki. Tækið sem við höfum áhuga á að prófa heitir Scene Eye: http://sightenhancement.com/sceneeye.html. Við höfum nú þegar fengið vilyrði frá fyrirtækinu um að hægt sé að fá eintak lánað og vonumst við til að geta hafið prófanir á því sem fyrst. Það sem gerir það að verkum að þessi hönnun á skjástækkunartæki gæti hentað við áðurnefndar aðstæður er að framleiðandi setur ól, líkt og er á myndavélum, á tækið. Þetta þýðir að notandi hengir tækið um hálsinn og beinir myndavélinni niður á við til að mynda handavinnuna. Myndin birtist síðan á sjónvarpsskjánum eða tölvuskjánum.

Í Scene Eye tækinu er einnig rafhlaða þannig að ekki er nauðsynlegt að vera með það í sambandi við rafmagn á meðan á notkun stendur. Scene Eye býður upp á allt að x50 stækkun og okkur virðist sem svo að þetta gæti verið áhugaverður valkostur fyrir okkar notendur, ef prófanir koma vel út. 

Miðstöðin hefur um árabil keypt vörur frá Low Vision International: www.lvi.se með góðum árangri. Á CSUN lagði LVI talsverða áherslu á nýju vöru í sinni línu sem þeir kalla MagniLink Go!: http://www.lvi.se/CM.php?PageID=95366. MagniLink Go! er hugbúnaður fyrir Nokia GSM símana: N82, N86 og 6220 Classic. Hér er um að ræða hugbúnað sem settur er upp í símanum og breytir hann símanum þar með í „stækkunargler“ þannig að myndavélin í símanum er notuð til að bjóða upp á skýra skjástækkun. En það er ekki það eina, því í þessum hugbúnaði er líka OCR-textavinnsla. Það virkar einfaldlega þannig að notandi tekur mynd af svartletri og hugbúnaðurinn skimar textann inn í símann. Notandinn getur þá lesið textann á skjánum og ræður hversu stórt letrið er sem og litastillingum á bæði letri og bakgrunni. Þessu til viðbótar er hægt að láta talgervil lesa fyrir sig textann sem var skimaður inn í símann. Þeir LVI-menn virðast hafa hugsað fyrir öllu þegar þessi hugbúnaður var hannaður því ekki skiptir máli hvernig síminn snýr þegar myndin er tekin af textanum, MagniLink Go! hugbúnaðurinn sér um að rétta myndina af þannig að skimun heppnist inn í OCR-vinnsluna.

Við munum að sjálfsögðu leitast eftir að fá að prófa þennan hugbúnað hér á Miðstöðinni og munum senda frá okkur samantekt á þeim prófunum.

Við rákumst að öðru leyti ekki á margt nýtt í skjástækkunarbúnaði en þó er rétt að taka fram að framleiðendur virðast vera að leggja meiri áherslu á hreyfanleg stækkunartæki. Það er tæki sem notandi getur ferðast með í vasanum og eru þar af leiðandi ekki jafn umfangsmikil og við höfum átt að venjast hingað til.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka