Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
26. apríl 2010

Talandi vörumerkjalesarar, spennandi kostur.

Eins og kannski flestir vita eru nær allar vörur í verslunum merktar með sérstökum vörumerkjum eða UPC (Universal Product Code) eins og það kallast á ensku.

Merkin líta út eins og misþykk strik sem tæki getur lesið og breytt yfir í tölur og þannig áttað sig á um hvaða vöru er að ræða. Í verslunum er þetta notað til þess að afgreiðsla gangi hratt fyrir sig, ekki skiptir máli hvernig varan snýr þegar hún fer framhjá skanna sem les vörumerkið og birtir verð vörunar.

Þetta þýðir hins vegar að hægt er að nota slík tæki til þess að átta sig á um hvaða vöru er að ræða. Flestir geta nú líklega fundið mun á jarðaberjajógúrt og Ora baunum en lítill munur er á Ora baunum og dósasúpu t.d. eða milli mismunandi bragðtegunda sömu vöru. Nú eru komnir á markaðinn öflugir og litlir talandi skannar sem leysa þetta vandamál. Þeim fylgir stór og mikill gagnagrunnur með vöruupplýsingum og með því að halda þeim í um 10 cm fjarlægð frá hlut áttar tækið sig á um hvaða vöru er að ræða. Stundum þarf að snúa hlutnum svolítið til en yfirleitt er tiltölulega einfalt að finna vörumerkið. Þegar merkið er fundið les tækið um hvaða vöru er að ræða og upplýsingar um magn, næringargildi, uppskriftarhugmyndir o.s.frv. ef slíkar upplýsingar eru í gagnagrunni tækisins.

Einnig er hægt að nota tækið á föt t.d. til að átta sig á lit, þvottaleiðbeiningum o.s.frv. Nokkrir framleiðendur hafa gert tilraunir með svona tæki en I.D. Mate Summir frá En-Vision America virðist vera það vinsælasta í bransanum í dag.

Tækinu fylgir stór gagnagrunnur, það er tiltölulega lítið (á stærð við GSM-síma) og því fylgja einnig þrjár tegundir vörumerkja sem notandi getur sett sjálfur á hluti, miða sem hægt er að festa með teygju, límmiða og merki sem hægt er að strauja t.d. í föt. Bandarísku Blindrasamtökin gerðu tilraun með fatamerki og eftir fjórar umferðir í þvottavél og þurrkara var ekkert mál að lesa vörumerkið sem straujað hafði verið í skyrtu. Einnig er hægt að taka upp texta með upplýsingum um ákveðna vöru eða merki beint á tækið sjálft og virkar það þá eins og venjulegt segulbands eða .mp3 upptökutæki og spilar upptökuna þegar vörumerkið er skannað næst. Einnig er hægt að lesa inn heilan gagnagrunn af vörumerkjum ef þau eru sett upp í réttu formi í textaskrá. Okkur á Miðstöðinni langar að skoða þessa tækni því við teljum að hún gæti gagnast fólki sem hefur ekki sjáandi aðstoð t.d. í eldhúsinu eða við þvottinn. Sumir taka þessi tæki meira að segja með sér út í búð til þess að versla sjálfir, þó slíkt taki reyndar ansi langan tíma og mikla fyrirhöfn. Að sjálfsögðu eru hin frægu ljón mætt á veginn og leysa þarf nokkur mál til þess að tækin komi að góðum notum hérlendis. Skoða þarf hvort hægt sé að setja inn íslenskt tal, skoða þarf hvort tækið hafi upplýsingar um vörur sem seldar eru á Íslandi þar eð gagnagrunnurinn miðast að mestu við vörur seldar í Banaríkjunum og skoða þarf hvort hægt sé að fá lista yfir vörur í matvöruverslunum í textaskrá og setja hann beint inn á tækið sjálft.

Við erum að reyna að fá tæki lánað frá En-Vision America til prófana á Íslandi í sumar og vonandi gengur það eftir svo við getum farið að vinna í þessu.

Ég held að þessi tækni ásamt GPS geti verulega auðveldað okkur verr sjáandi að lifa sjálfstæðu lífi og við munum gera okkar besta til að koma tækninýungum sem þessum í ykkar hendur sem fyrst.

Hægt er að lesa gagnrýni bandarísku blindrasamtakana á eldri gerð Omni tækisins á slóðinni: http://www.afb.org/afbpress/pub.asp?DocID=aw060509 og að lesa sér til um I.D. Mate Summit á slóðinni: http://www.envisionamerica.com/products/idmate/

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Til baka