Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
4. maí 2010

Hljóðtölvuleikir og aðrir leikir fyrir blinda og sjónskerta

Eins og við öll vitum snýst lífið ekki alltaf um réttindabaráttu og stórverkefni og stundum langar mann bara að setjast niður og leika sér í tölvunni, jafnvel þó svo maður sjái kannski ekki neitt sérstaklega vel, og jafnvel ekki neitt.

Hins vegar eru flestir tölvuleikir byggðir á sjónarspili ýmiskonar, þrívíddartækni og maður þarf að vera fingrafimur og miða gereyðingarvopnunum af mikilli nákvæmni, sem er erfitt að gera þegar maður sér þau ekki.

En ekki er öll nótt úti. Það eru nefnilega til hundruð aðgengilegra tölvuleikja fyrir blinda og sjónskerta, þó vissulega gangi margir þeirra út á orðaleiki og langflestir þeirra séu á ensku.

En fyrir þá sem langar að skoða þetta nánar er fínt að byrja á topp 25 aðgengilega leikjasíðnalistanum frá 7-128 fyrirtækinu.

Við fjöllum hér stuttlega um 5 vinsælustu síðurnar en allan listann má skoða hér: http://7128.com/top25/topsitesblind.html

 

1. PCS Games  (www.pcsgames.net)

Þarna má finna lista af yfir 300 aðgengilegum leikjum, bæði fyrir Windows og Makka. Meira að segja er hægt að finna lista yfir aðgengilega Twitter-leiki þarna.

Listinn inniheldur verð og hlekki á heimasíður þar sem hægt er að kaupa leikina.

Einnig má finna spjall og leikjagagnrýni á síðunni. Hún hefur verið við lífi í 10 ár og þykir afar góð og vinsæl.

2. Audyssey (www.audyssey.org)

Þessi síða er spjallsíða um leiki og hægt er að fá upplýsingar og hjálp við ýmsa tölvuleiki auk þess sem margir leikjahöfundar og forritarar sækja síðuna oft heim og hægt er að ná tali af þeim. Hægt er að gerast áskrifandi að Audyssey-veftímaritinu sem hefur að geyma ýmsar upplýsingar fyrir blinda tölvuleikjafíkla.

3. Audio Games (www.audiogames.net)

Þessi síða er einnig listi yfir aðgengilega tölvuleiki. Auk listans er hægt að sækja "script" sem gera blindum notendum kleift að spila leiki sem eru annars óaðgengilegir. Einnig er hægt að finna leiki á síðunni sem eru hannaðir af Audio Games sjálfum auk spjalls og skoplegra skrifa ýmis konar.

4. Kitchen´s Inc (www.kitchensinc.net)

Þessi síða hefur ekkert með eldhúsvaska að gera þótt svo mætti ætla í fljótu bragði af framburðinum. Þetta er heimasíða Jim Kitchen, sem er mikill frömuður í leikjagerð fyrir blinda. Þarna má finna yfir 30 leiki án endurgjalds af ýmsum toga. Ekki henta þeir allir börnum eða viðkvæmum sálum en þetta er gamalgróin og vinsæl síða og oft sú fyrsta sem mælt er með þegar leitað er að aðgengilegum tölvuleikjum.

5. the Zone BBS (www.zonebbs.com)

Hér er um að ræða almenna spjallsíða með yfir 6000 notendum þ.á m. mörgum áhugamönnum um tölvuleiki. Síðan er aðallega ætluð blindum og málefni sem snúa að blindu eru þarna skeggrædd af kappi. Auk nokkra tölvuleikja býður síðan einnig upp á rauntímaspjall auk vefpóstkerfis o.fl. Undirritaður hefur verið meðlimur þessa netsamfélags í rúmlega 5 ár og getur borið vitni um að þarna er auðvelt að eyða dag og kvöldstundum við spjall og leiki.

Að lokum má geta þess að 7-128 fyrirtækið sjálft býður upp á úrval aðgengilegra leikja í gegnum heimasíðu sína og kostar pakki af 5 leikjum t.d. 20 dollara eða um 2600 kr. á núverandi gengi.

Ef einhver hefur prófað þessa leiki eða vill mæla með einstökum leikjum, endilega hafið samband við okkur. Það er áhugi að koma fleiri upplýsingum um aðgengilega afþreyingu til notenda okkar og jafnvel setja upp okkar eigin síðu með hlekkjum og gagnrýni þegar fram í sækir.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Til baka