Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
8. maí 2010

Ubuntu Linux og aðgengi fyrir blinda og sjónskerta - fyrsti hluti

Á CSUN-sýningunni í ár hittum við nokkra einstaklinga sem vinna hörðum höndum að þróun Open Source hugbúnaðar, en þá er átt við Linux-stýrikerfið og Open Office hugbúnaðarpakkann, svo eitthvað sé nefnt. Samtöl okkar við þessa aðila voru síst til þess fallin að letja áhuga okkar á Open Source umhverfinu. Í þessum fyrsta pistli af fjórum mun ég stikla á stóru um möguleikana sem Linux-hugbúnaðurinn býður upp á, hvað varðar skjálestrarhugbúnað, skjástækkunarhugbúnað og stuðning við punktaletursskjái.

Þegar talað er um Open Source er átt við að hugbúnaðurinn sé frjáls öllum til notkunar án endurgreiðslu. Frumkóði hugbúnaðarins er öllum aðgengilegur og allir geta gert þær breytingar á honum sem þeir svo kjósa. En þá er að sjálfsögðu átt við hugbúnaðarsérfræðinga/forritara, því það er nú ekki á allra hendi að framkvæma slíkar aðgerðir. Linux-stýrikerfið er til í fjölmörgum útfærslum og ætla ég nú ekki að útlista þau öll í þessari grein, né næstu greinum. Nær lagi væri að benda til dæmis á: http://is.wikipedia.org/wiki/Linux  eða:  http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Linux_distributions  en þar er stutt samantekt á hinum ýmsu Linux útgáfum. Það eru til nokkrar útgáfur af Linux og í raun þá gæti hver sem er útbúið sér sína eigin Linux útgáfu, með því að niðurhala frumkóðanum. Eftir að hafa rætt hina mismunandi möguleika Linux-útgáfna og velt fyrir okkur hver þeirra myndi bjóða upp á bestu aðgengiskostina þá vorum við vissulega forvitnir, hvað skildi nú velja til prófunar af öllum þessum valkostum? 

Við vorum svo lánsamir að sitja fyrirlestur hjá Peter Korn á CSUN í ár, en Peter þessi var potturinn og pannan í þróun JAVA-hugbúnaðarins: http://www.java.com/en/ og svo einnig í þróun JAVA Access Bridge hugbúnaðarins: http://java.sun.com/javase/technologies/accessibility/accessbridge/index.jsp  en það er einmitt þessi JAVA Access Bridge sem gerir skjálesurum í Windows umhverfinu kleift að vinna með hugbúnaði sem skrifaður er í JAVA-forritunarmálinu. Við komum að máli við Peter eftir fyrirlesturinn hans, lýstum yfir áhuga okkar á Open Source hugbúnaði og spurðum jafnframt hvaða Linux-útgáfu hann myndi mæla með, m.t.t. aðgengiskosta. Það var engin spurning sagði hann, þið viljið keyra útgáfu sem vinnur með Gnome gluggaviðmótinu: http://www.gnome.org/about/ En það eru nefnilega til fleiri en eitt gluggaviðmót sem keyra ofan á Linux stýrikerfinu. Já, enn flækist málið, en þessari löngu upptalningu á nýjum frumlegum nöfnum fer nú að ljúka hjá mér.

Við fórum því næst með Peter inn á sýningarsvæðið og hann leiddi okkur að Gnome-básnum, en öfugt við marga af hinum básunum þá var þar ekki um neinn íburð að ræða, engin stór skilti eða sælgæti í skálum, heldur bara fólk með gríðarlegan áhuga á tölvum. Við áttum gott spjall við fólkið þar og áttum eftir þann fund mun auðveldar með að velja okkur Linux útgáfu til prófunar. Niðurstaðan varð sú að prófa Ubuntu Linux útgáfuna: http://www.ubuntu.com/  

Ástæðan fyrir því að við völdum Ubuntu var sem sagt vegna þess að sú útgáfa keyrir á Gnome gluggaviðmótinu, en hönnuðir Gnome hafa lagt mikið upp úr að allir eigi að geta haft aðgengi að Gnome gluggaviðmótinu, sem sagt að það sé meðal annars skjálesaravænt. Í öðru lagi þá er innbyggt í Ubuntu stýrikerfið skjálesari, skjástækkunarforrit og stuðningur við fjölmarga punktaletursskjái. Í þriðja lagi er innbyggt í Ubuntu Linux, sem og reyndar fleiri útgáfur af Linux, Open Office hugbúnaðurinn. En Open Office er Open Source lausnin við Microsoft Office pakkanum. En þá er átt við Word, Excel, Powerpoint o.s.frv. Open Office hefur ekki verið sérlega aðgengilegur skjálesurum í Windows vélum, þó það sé nú að breytast. En aftur á móti þá virkar hann fullkomlega í Ubuntu Linux með Orca skjálesaranum. Þannig að þegar Ubuntu stýrikerfið er sett upp, þá færðu í kaupbæti Office pakka þér að kostnaðarlausu, sem er ekki svo slæmt, eða hvað?

Í þriðja lagi þá hefur Ubuntu útgáfan komið vel út úr prófunum og er farin að njóta þó nokkurra vinsælda, bæði hérlendis og erlendis. Af þessum sökum fannst okkur eðlilegast að fara út í prófanir á Ubuntu Linux. Það er rétt að benda á að þrátt fyrir að við Íslendingar séum kannski ekki komnir langt á veg með okkar Open Source innleiðingu þá eru aðrar þjóðir farnar að líta á Linux sem góðan valkost. Hvað varðar notendur skjálestrar og skjástækkunarhugbúnaðar þá eru lönd eins og Bandaríkin, Bretland, Indland og Ástralía fyrir löngu farin að benda á Linux stýrikerfið sem ágætan valkost fyrir blinda og sjónskerta. Sem dæmi má benda á Elcot, Electronics Corporation of Tamil Nadu Limited, á Indlandi. Elcot er fyrirtæki sem vinnur með Tamil Nadu stjórninni þar. En árið 2007 sagði félagsmálaráðherra Indlands að vinna Elcot í kynningum og útbreiðslu á aðgengiskostum Linux hefðu skipt sköpum fyrir notendur í þeirra landsvæði. Möguleikinn fyrir notendur að geta sótt sér skjálesara og skjástækkunarforrit, sér að kostnaðarlausu, hefur mikið vægi í þessum hluta heimsins og það ánægjulega er að Linux aðgengiskostirnir virðast ekki vera neinar eftirbátar keyptu lausnanna í Windows. Allt þetta, og fleira til, gefur tilefni til að skoða í fullri alvöru Linux sem raunverulegan valkost við Windows stýrikerfin. Við á Miðstöðinni teljum það vera mikilvægt að valkostir sem þessir séu skoðaðir alvarlega og munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar.

Í næsta pistli mun ég  fjalla um skjálesarann sem innbyggður er í Ubuntu, en hann nefnist Orca.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

 

Til baka