Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
16. maí 2010

Ubuntu Linux og aðgengi fyrir blinda og sjónskerta - annar hluti

Í síðustu viku fjallaði ég um Open Source hugbúnað og Ubuntu stýrikerfið, af hverju við hefðum ákveðið að skoða þá útgáfu af Linux betur, m.t.t. aðgengis. Núna höldum við áfram og skoðum í þessari viku Orca skjálesarann.

Nýjasta útgáfa af Gnome Desktop umhverfinu er númer 2.3. Frá því í útgáfu 2.16 af Gnome hefur Orca skjálesarinn verið innbyggður í stýrikerfið. Sem þýðir að sá sem setur upp Ubuntu Linux á tölvuna sína er ekki bara með í höndunum fullkomið stýrikerfi, sér að kostnaðarlausu, heldur líka fullkominn skjálesara sem einnig er frír. Það má benda á, í þessu samhengi, að í haust kemur út útgáfa 3.0 af Gnome gluggaumhverfinu, þar eru ýmsar breytingar fyrirhugaðar og hafa hönnuðir Orca sagt að hér sé um að ræða stóra breytingu, einnig hvað varðar aðgengismál.

Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að ég hef ekki hitt neinn ennþá, hér á landi, sem hefur að einhverju ráði prófað Orca skjálesarann. Ég er einnig mjög meðvitaður um að Orca skjálesarinn er ekki talinn jafn góður JAWS, miðað við það sem ég hef lesið. En hér skal tekið fram að JAWS skjálesarinn kom best út úr prófunum okkar hér á Miðstöðinni í október sl. Þessi umfjöllun má því ekki vera misskilin sem einhvers konar lofsöngur um Linux og Orca. Það sem hér er verið að benda á er að þetta er allt saman frír hugbúnaður! Enginn upphafskostnaður og enginn uppfærslukostnaður. Ég vildi bara taka þetta fram strax í upphafi því ég mun benda á marga þætti í Orca sem eru sambærilegir við þá skjálesara sem við nú þegar þekkjum.

Þegar Ubuntu er ræst í fyrsta skipti þá er Orca ekki virkur, sem slíkur. Hann er vissulega til staðar en það þarf að ræsa hann sérstaklega og svara nokkrum spurningum. Þetta er gert á eftirfarandi hátt, við köllum fram Linux "Run/Keyra" gluggann - sem flestir þekkja nú úr Windows umhverfinu. Þetta er gert með því að styðja á ALT og F2. Hér skrifum við: "Orca", og styðjum á enter. Þar með opnast Terminal gluggi, svona eins og gamaldags DOS gluggi, og talgervillinn fer í gang. Hann spyr okkur spurninga um hvernig við viljum að Orca vinni.

Sem dæmi um þetta mætti týna til: "Viltu að stafir og orð séu lesin eða bara orð, viltu fá lestur í log in/innskráningar gluganum o.s.frv.

Spurningunum er svarað með því að styðja á: "Y", fyrir já og: "N", fyrir nei. Um leið og stutt er á annanhvorn lykilinn þá les talgervillinn upp næstu spurningu. Þegar öllum spurningum hefur verið svarað þá endurræsir tölvan sig og þar með er Orca orðinn virkur. Ef við svörum því játandi að Orca eigi að ræsa sér með tölvunni þá mun hún framvegis ræsa Orca í hvert skipti sem vélin er ræst. Það eru tveir talgervlar sem fylgja með Orca uppsetningunni, annars vegar eSpeak sem ég notaði og hins vegar talgervill sem kallaður er dummy. eSpeak býður upp á yfir tuttugu tungumál en hér er um að ræða tölvurödd ekki ósvipaða Sturlu Þórðarsyni sem einhverjir lesendur kannast nú við. Îslenska er nú þegar komin inn í eSpeak, en hún er sem stendur ekki nothæf sökum þess hversu annkannalega hún hljómar. Einhver gekk svo langt að segja að hún hljómaði eins og drukkinn norskur sjómaður að reyna að tala íslensku, ekki skal ég leggja dóm á það. En i öllu falli þá er ekki hægt að mæla með henni í núverandi ástandi. Til að laga hana til þyrfti í raun bara aðgang að forritaranum sem hannar talgervilinn og smátíma. Það væri óskandi að við hefðum tækifæri til að ganga í að laga hana sem fyrst. Êg læt vera að fara út í tæknilega hlutann hvað varðar talgervlana og Speech Dispatcher hlutann í Orca, það yrði líklega hálf þurr lestur og ekki það sem þessi pistill gengur út á.

Í grunnatriðum þá vinnur Orca eins og hinir skjálesararnir sem við þekkjum. Allar valmyndir í stýrikerfinu eru lesnar, allur texti þegar hann er skrifaður o.s.frv. Stjórnborð Orca samanstendur af fjórum hnöppum, Preferences, Quit, About og Help. Við færum okkur milli þessara hnappa með því að styðja á TAB/Dálk lykilinn og styðjum á Enter til að virkja hnappana. Quit hnappurinn slekkur á Orca, About hnappurinn gefur upplýsingar um útgáfuna af Orca sem við erum að keyra og Help hnappurinn kallar fram glugga með leiðarvísi um Orca. Það er Preferences hnappurinn sem gefur notanda kost á að "fara undir húddið" á Orca og framkvæma ýmsar breytur á hegðun Orca. Êg ætla nú ekki að fara að týna allt til sem þar er, en það má í mjög stuttu máli segja að hér er um að ræða stillingar sem við þekkjum vel úr JAWS, HAL, NVDA, Window Eyes og Voice Over í Apple vélunum. Svo eitthvað sé týnt til þá er hægt að skipta milli 101 lyklaborðsstjórnunar og ferðatölvulyklaborðs, við getum valið um fjórar stillingar á Mælgi/Verbosity, við stillum til hraða skjálesarans og svona mætti lengi telja. Oftast nær er það nú þannig að þegar við höfum stillt skjálesarann til, eftir okkar þörfum, þá erum við ekki svo mikið að vasast í þessum stillingum. Auðvitað kemur það fyrir, en það er ekki svo algengt. Það sem er náttúrulega aðalatriðið er hvernig er að vinna með skjálesarann sjálfan? Hversu snöggur er hann að bregðast við? Les hann hlutina eins og JAWS eða HAL? Já, það má segja að hann lesi flest eins. Miðað við þennan stutta tíma sem ég hef verið að pŕófa Orca þá hef ég ekki rekist á neinn stórkostlegan mun. En búast má við að helst verði notandi var við muninn þegar lesnar eru vefsíður, það er nú jafnan þannig.

Sem dæmi um hegðun á vefsíðum, þá er Orca stilltur þannig að lestur vefsíðunnar hefst sjálfkrafa þegar hún hefur verið opnuð, líkt og í JAWS. Hægt er að færa sig milli fyrirsagna á vefsíðum með því að styðja á H lykilinn, líkt og í hinum skjálesurunum, við getum fært fókusinn beint í form á vefsíðu með flýtilyklum - dæmi um þetta væri leitarreiturinn á google.com. Semsagt, ef við ætlum að færa fókusinn beint í leitarreitinn á síðunni þá styðjum við á Orca lykilinn og TAB, en þessi flýtilykill færir okkur beint í næsta form. Orca lykillinn, sem er mikið notaður þegar skjálesaranum er stjórnað, er stilltur sem CAPSLOCK/hástafalás. Þannig að þegar við viljum færa okkur í formið á vefsíðunni þá styðjum við á hástafalás og TAB til að færa fókusinn á réttan stað. Þetta voru nú bara nokkur dæmi um týpíska virkni í Orca hvað varðar vefsíður og lestur þeirra.

Það sem skiptir náttúrulega höfuðmáli er að prófa skjálesarann til lengri tíma, það er eina leiðin til að fá góða tilfinningu fyrir honum. Þetta hef ég ekki gert ennþá, það er einfaldlega svo stutt síðan að ég fór að sýsla í Linux og aðgengismálum. En ég get þó sagt þetta, Orca skjálesarinn virðist bjóða upp á sömu valkosti og Windows keppinautar hans.

Stuðningur við punktaletursskjái er líka til staðar í Orca og er ég að skoða þau mál núna, vonandi get ég vikið meira að þeim málum í síðari pistli.

Êg gerðist áskrifandi að Orca póstlistanum, sem er svipaður og Blindlist í uppbyggingu. Êg komst fljótt að raun um að þar er mikið af virkum notendum sem eru fljótir að láta í sér heyra ef einhverjir þættir Orca eru ekki að virka eins og vera skildi. Það sem kom mér á óvart var að eftir að nokkrar spurningar höfðu verið lagðar fram sama daginn þá kom póstur frá forritara sem var að vinna við þróun Orca. Sá skellti inn upplýsingum um hvernig hann teldi vera best að leysa málið, hópurinn ræddi það sín í milli og þegar allir voru komnir á sömu skoðun um hvernig væri best að haga málum þá fór viðkomandi í að laga þessar stillingar í Orca. Við skulum hafa í huga að hér er það sem sagt notendasamfélagið sem tekur þátt í þróuninni, í raun og veru.

Það er mjög gaman að fylgjast með vinnubrögðum sem þessum, það verð ég að segja.

Êg ætla að láta staðar numið hér, þó hægt hefði verið að kafa talsvert dýpra í þessari umfjöllun. Markmiðið var að kynna lauslega hver munurinn á Orca og hinum skjálesurunum raunverulega er, og hvað varðar notkunina sjálfa - þá er bara ekki svo mikill munur. Jú, kannski eitt atriði, Orca er svo kurteis að hann kveður þegar slökkt er á honum. Þegar slökkt er á Orca segir skjálesarinn kurteislega: "Goodbye/Bless". Næst mun ég fara yfir hvað Ubuntu Linux og Orca bjóða upp á í skjástækkun.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka