Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
26. maí 2010

Ubuntu Linux og aðgengi fyrir blinda og sjónskerta - þriðji hluti

Í þessum pistli ætlum við að skoða hvað Linux býður upp á m.t.t. skjáviðmóts, þ.e. litasamsetningar skjáviðmótsins, stærð og gerð texta í valmyndum og skjástækkunarhugbúnaðar. Eins og flestir vita þá er hægt breyta bæði textastærð og textagerð í Windows-stýrikerfunum. Að sjálfsögðu finna Microsoft menn sig tilknúna til að færa til, svona annað kastið, staðsetninguna á því hvar þessar breytingar eru framkvæmdar en þetta er nú samt sem áður alltaf hægt.

Í Linux er boðið upp á svipaða valkosti. Til þess að framkvæma slíkar breytingar er farið í System valmyndina. Einfaldast er að færa fókusinn þangað með því að styðja á ALT og F1, og styðja svo á ör til vinstri til að fara í System.

Þegar þangað er komið finnum við Preferences og þar inni er að finna valkostinn: Appearance, sem myndi útleggjast á íslensku sem: útlit. Við styðjum á Enter til að opna Appearance og þá opnast gluggi með fjórum flipum. Við erum sjálfkrafa staðsett í flipa sem heitir: Theme, eða þema. 

Hægt er að velja um nokkur fyrirfram hönnuð þema. Sem dæmi um þetta má nefna þemað: High Contrast Large Print Inverse, en eins og nafnið gefur til kynna þá er hér um að ræða þema sem hannað er m.t.t. þarfir sjónskertra. En líka er hægt að sérsníða hvert þema að sínum þörfum með því að smella á: Customize-hnappinn. Þá er hægt að fara út í breytingar á römmum glugga, gerð og stærð íkona og útliti stjórnhnappa svo eitthvað sé nefnt. Í næsta flipa Appearance gluggans er hægt að aðlaga bakgrunnslit skjásins eða setja inn myndir sem bakgrunn. Í þriðja flipanum er síðan hægt að breyta um leturgerð og stærð í stýrikerfinu og í fjórða flipanum er hægt að kveikja eða slökkva á sjónrænum áhrifum í stýrikerfinu. En við slökkvum jafnan á slíkum áhrifum þegar unnið er með skjálesara.  

Það má því segja að Ubuntu Linux bjóði upp á svipaða valkosti og Windows hvað varðar þessa þætti.

Í Ubuntu Linux, líkt og í Windows, er hægt að breyta lit og stærð músarbendilsins. Þetta er framkvæmt með því að fara í System valmyndina og velja þar Appearance. Í Appearance glugganum þá erum við sjálfkrafa staðsett í Theme flipanum. Þar er að finna hnapp sem heitir Customize. Við smellum á hann og opnum þar með nýjan glugga sem heitir: Customize Theme. Í þessum glugga eru fimm flipar og heitir síðasti flipinn: Pointer. Það er hér sem hægt er að velja um mismunandi liti og stærðir af músarbendlum.

En nú víkur sögunni að skjástækkunar eiginleikanum í Orca-skjástækkunar/skjálestrarforritinu. Þar með fer nú að síga á seinni hlutann í þessari umfjöllun. Ég hef verið að prófa Ubuntu Linux á einni vél, lítilli netbook ferðavél sem ég er með. Á þessari vél hef ég einfaldlega ekki fengið skjástækkunina í Orca til að virka. Tölvan hálfpartinn frýs þegar ég virkja stækkunina og ef hún frýs ekki þá er greinilegt að vandamál eru til staðar. Sem dæmi um þetta má nefna að ef smellt er með músinni á íkon á skjánum, þá er eins og músin sé í raun staðsett örlítið til hliðar við íkonið. En sem sagt, skjástækkunin í Orca virkaði hreinlega ekki með tölvunni sem ég var að vinna á, sem voru talsverð vonbrigði.

Í næstu viku ætlum við að skoða stuðninginn við punktaletursskjái í Ubuntu Linux.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka