Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
27. ágúst 2010

ICCHP ráðstefnan 2010

Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir ferð á ICCHP (Conference on Computers Helping People with Special Needs) ráðstefnuna sem haldin var í Vínarborg daganna 12. til 16. júlí. Heimasíða ráðstefnunnar er http://www.icchp.org þar sem lesa má um tilkomu hennar og hvað var á dagskrá.

150.000 kr. styrkur til ferðarinnar var veittur úr sjóði styrkja til fagfólks sem kostaðir eru af Blindrafélaginu og Blindravinafélaginu í sameiningu. Þessari skýrslu er ætlað að uppfylla skilyrði styrksins. Einnig munu margar greinar um einstaka hluta ráðstefnunnar birtast á ýmsum miðlum Blindrafélagsins og Miðstöðvarinnar, s.s. Blindlist og Tæknimolum.

ICCHP ráðstefnan hefur verið haldin annað hvert ár síðan 1985 (verður næst haldin árið 2012 í Linds í Austurríki) og er einn helsti vettvangur rannsókna um tölvu- og hugbúnað fyrir fatlaða einstaklinga í Evrópu, þó sérfræðingar komi hvaðanæva að úr heiminum. Í ár voru um 500 manns samankomnir úr öllum heimshornum.

Ráðstefnan þykir ein sú tæknilegasta í geiranum (enda er mikið af fulltrúum frá háskólum þar samankomnir) og voru gæði og fjölbreytni fyrirlestrana þar slík að undirritaður mælir eindregið með að a.m.k. einn fulltrúi Blindrafélagsins eða Miðstöðvarinnar fari ásamt fulltrúa TMF (Tölvumiðstöðvar fatlaðra), þar eð fjórðungur fyrirlestrana er tileinkaður heyrnarskerðingu, einhverfu og öðrum fötlunum og tækninýjungum þeim tengdum.

Ráðstefnunni var skipt þannig upp að fyrstu tvo daganna voru minni og sérhæfðari vinnuhópar settir upp um ákveðin mál. Undirritaður sótti vinnuhóp um aðgengi blindra og sjónskertra að stærðfræði þar sem helstu vandamál voru rædd og lausnir kynntar, bæði sérhæfðar lausnir hannaðar fyrir blinda notendur og leiðir sem blindir notendur hafa fundið til að nota almenn forrit til lausna stærðfræðivandamála.

Aðgengi að stærðfræði er brýnt verkefni, þar eð blindir nemendur forðast raungreinar á framhalds- og háskólastigi eins og heitan eldinn, að hluta til vegna þess hve erfitt og flókið er að fá námsefni og skila frá sér verkefnum. Helsta ástæða þess er hversu mörg tákn þarf að sýna í stærðfræði og hversu miklu máli skiptir hvernig dæmi eru sett upp, oft með mjög sjónrænum hætti.

Því er mjög erfitt að umskrifa stærðfræði yfir á punktaletur eða sýna hana með skýrum hætti og á það bæði við um bækur og á rafrænan hátt.

Hélt undirritaður fyrirlestur um helstu vandamálin en hann var í rauninni sami fyrirlestur og haldinn var á Nordic Braille Authority ráðstefnunni í Reykjavík í maí sl.

Þessa tvo daga lærði undirritaður ansi margt um tækni og tól sem hægt er að beita við úrlausn stærðfræðimála, bæði hvað varðar bókaundirbúning og fyrir nemandann sjálfan. Einnig sköpuðust umræður um að notendur taki sig saman og þrýsti á umbætur á aðgengi helstu stærðfræðiforrita, sérstaklega SPSS forritsins sem er nú í eigu IBM og R-forritsins sem er "Open Source" og öllum ókeypis. Þetta forrit er vel nothæft en þeir sem sjá um uppfærslu þess hafa þó beðið um leiðbeiningar til að gera gott betur en hefur vantað stýrihóp blindra notenda til að vinna með þeim og gefa leiðbeiningar. Vonir eru um að slíkur hópur spretti upp úr ráðstefnunni. 

Daganna 14. til 16. júlí var ráðstefnan sjálf svo haldin. Skiptist hún gróflega í fjóra flokka þar sem fyrirlestrar voru haldnir um ákveðin málefni og einbeitti undirritaður sér að vandamálum og lausnum í vefaðgengi, þó hann hafi einnig sótt nokkra fyrirlestra um nýungar í tækni fyrir blinda og sjónskerta.

Í vefaðgengishlutanum var ég að leita eftir lausnum hvað varðar kynningu á alþjóðlegum stöðlum, námsefni og forritum til að prófa aðgengi á einfaldan og árangursríkan hátt, og ráðstefnan olli engum vonbrigðum í þeim efnum.

Helstu þemu fyrirlestranna sem voru sóttir voru eftirfarandi:

1. Evrópusambandið hefur þróað námskeið sem ætluð eru nemendum í hugbúnaðarfræðum, eitt á BS-stigi og eitt á Masters-stigi. Námskeiðið er ekki nema nokkrir tímar og sýnir bæði helstu vandamál sem fatlaðir tölvunotendur eiga við að stríða og gerir nokkra grein fyrir þeim reglum og stöðlum sem til eru ásamt því sem bent er á lausnir og vinnubrögð við hönnun vefsíðna og forrita sem koma í veg fyrir að slík vandamál komi upp. Mun undirritaður nú sækja námskeiðið og staðfæra það á íslensku og svo biðja yfirmenn mennta- og háskóla að leyfa sér að halda námskeiðið fyrir nemendur í hugbúnaðarfræðum. Vonast ég til þess að þetta geti hafist í haust eða næsta vor og orðið að föstum lið í námsefni. Einnig hefur Web Access Project og fleiri þróað 15 eininga nám á háskólastigi í vefaðgengi. Ég veit ekki hvort það myndi nýtast að hluta til eða í heild en það má alveg skoða hvort hugsanlega ætti að bjóða upp á slíkt í tölvunarfræðinámi hérlendis.

2. Stuttar vefkynningar á stöðlum sem eru til og eru í vinnslu svo sem Mandate 376 reglugerðin um aðgengi að tækni eru til staðar og hægt er að nálgast þær. Undirritaður vill  staðfæra eða þýða þær og setja á vef samtaka vefiðnaðarins (www.svef.is) ásamt því að gera stjórnvöldum grein fyrir þessari tilskipun sem vonast er til að gangi í gildi eftir örfá ár. Hugmyndin með tilskipun 376 er aðallega sú að aðgengi hugbúnaðar og forrita verði notað sem mælistika fyrir Ríkiskaup og verði fastur hluti matsferlisins fyrir þá sem kaupa inn tölvu- og hugbúnað fyrir opinberar stofnanir. Einungis forrit og búnaður sem allir starfsmenn geta notað óháð fötlun, verður keyptur inn. Þetta hefur verið gert í Bandaríkjunum með góðum árangri (þar heitir þetta Section 508) og hefur þetta valdið byltingu í aðgengi forrita t.d. frá Adobe og aukið verulega vilja stórfyrirtækja eins og Apple og Microsoft til að gera ráð fyrir aðgengi að sínum vörum.

3. Auðveldar leiðir til þess að meta vefaðgengi síðu, Norðmenn hafa þróað "web accessibility checker" eða aðgengisskoðara sem hægt er að nota, þýða og bæta við/breyta eftir þörfum og einnig hafa þeir þróað ókeypis þjónustu þar sem allar síður ákveðins vefs eru skoðaðar með tilliti til aðgengis á nokkra mánaða fresti. Þeir nota þetta m.a. til þess að skoða síður borga og sveitafélaga í Noregi og sýna svo aðgengið með lituðu korti þar sem hvert og eitt sveitarfélag veit hversu vel það stendur sig miðað við önnur. Mætti vel hugsa sér að koma slíku kerfi upp á Íslandi milli opinberra stofnanna í framtíðinni og er ég í samskiptum við hönnuði þessa hugbúnaðar um hugsanleg afnot hans.

4. Miklar umræður áttu sér stað um hvernig auglýsa megi betur aðgengi að vefsíðum fyrirtækja og þjónustuaðila og hvort hægt sé að sýna fram á beinan fjárhagslegan ávinning af slíkum umbótum t.d. hvort betra aðgengi auki sölu, fjölda framsendinga frá Google eða hvort notandi eyði meiri tíma á vefsíðum eftir að aðgengi er bætt.

Könnun var gerð á einu tilfelli sem benti til tugprósenta söluaukningar, en úrtakið er of lítið til að vera marktækt. Því eru doktorsnemar í viðskiptafræði í Austurríki að fara í gang með viðamikla könnun á þessum hlutum og vonast til þess að geta gert gagnagrunn með upplýsingum um ein 20 mismunandi fyrirtæki í framtíðinni þar sem hægt er að sjá hvort, og þá hvernig, aðgengisumbætur á vefsíðum hafi áhrif á vinsældir og sölu þeirra. Um 10% íbúa Evrópusvæðisins teljast fatlaðir, önnur 20% eldri borgarar (og sá hópur fer stækkandi) auk þess sem bætt aðgengi gagnast vel þeim sem skoða vefsíður úr símunum sínum eða lófatölvum, en í Bretlandi eru 106 farsímaáskriftir á hverja 100 íbúa. Því er eðlilegt að ætla að vel hannaðar og aðgengilegar vefsíður séu ekki einungis uppfylling lagalegrar skyldu fyrirtækisins heldur sé einnig styrkleiki og þáttur í góðri afkomu þeirra.

Einnig virðist virka vel að búa til samkeppni milli samskonar stofnanna hvað varðar vefaðgengi. Í Noregi er þetta gert með korti af sveitarfélögunum með lit sem sýnir aðgengi hvers félags og í Bretlandi er þetta gert fyrir aðgengi fatlaðra að háskólanámi þar sem skólarnir geta borið sig saman við aðra skóla. Breska framtakið heitir Oases og hefur vakið mikla lukku þar í landi.

5. Tæknilegar umræður um verkefni eins og notkun Aria, (Accessible Rich Internet Application), tækni og mikil vöntun á stöðlun í þeim efnum.

Aria tækni er notuð til þess að búa til lyklaborðsaðgang að vefforritum eins og Google Reader, sem skrifuð eru á þann hátt að ekki er hægt að nota vafrann á venjulegan hátt, venjulega með tækni eins og Ajax. Það er hægt að breyta þessu með að beita Aria (Accessible Rich Internet Applications) og búa til flýtilykla á viðkomandi hluta síðu og aðgerðir, en vandinn er sá að stundum stangast lyklarnir á við skjálesaralykla (þó hægt eigi að vera að slökkva á skjálesaralyklum þegar kveikt er á Aria þó það virðist ekki alltaf virka sem skyldi) en stærra vandamál er að það er mikil vöntun á stöðlun og hjálp varðandi hvaða lykla skal nota og gerir það skjálesaranotendum afar erfitt fyrir að nota þessa tækni, þó hún sé afar nauðsynleg í framtíð netsins.

6. Mikið var rætt um aðgengi að eBooks eða rafbókum og hvort hún muni gagnast blindum notendum og valda byltingu í aðgengi að námsefni. Því miður eru útgefendur tregir til að veita leyfi til slíks, bæði vegna höfundarréttar og vegna þess að þeir telja að það þurfi sérleyfi til þess að gera hljóðbók úr rafrænni bók og þurfi að greiða aukalega fyrir slíka bók. Það eru nokkur mismunandi form af rafbókum á netinu og öll ansi óaðgengileg. Þó er Epub formatið að breyta þessu og verður líklega samhæft Daisy formatinu á allra næstu árum þar eð einn af forsprökkum Daisy er í stjórn stofnunarinnar sem sér um Epub þróun (hér má geta þess að nýjasta uppfærsla forrita fyrir VR Stream spilarann á að geta spilað Epub skrár). Daisy virðist enn vera talin besta lausnin fyrir aðgengi að námsefni fyrir alla fötlunarflokka og fleiri og fleiri lönd nota Daisy sem skráarsnið fyrir aðgengilegt námsefni. Í Bandaríkjunum kveður IDEA (Individuals with Disabilities Education Act) löggjöfin á um að Nimas, sem fellur undir Daisy, sé notað sem rafrænn miðill aðgengilegs efnis fyrir nemendur. Útgefendur námsbóka eru þegar farnir að nota Nimas formið þegar beðið er um aðgengilegt Daisy efni. Frakkar eru einnig að vinna að því að úthluta námsefni í Daisy formi til nemenda. Því telur undirritaður brýnt að Ísland fari að nota þessa tækni meira og vinna með hana t.d. við framleiðslu hljóðbóka og punktaleturs.

Ýmislegt hefur verið gert en við þurfum að halda áfram á sömu braut.

Bæði Robobraille og Aegis ODT kynntu lausnir sem miða að því að prenta punktaletursbækur beint úr Daisy skrám og Open Office Aegis kynnti það hvernig Daisy bækur með tali eru gerðar úr Word skjölum.

Að lokum má geta þess að yfirmaður menntamála í Bandaríkjunum sendi bréf til allra bandarískra háskóla þar sem áréttað var að skólinn geti ekki boðið upp á Kindle bækur (sem nota Kindle tækið frá Amazon) sem námsefni nema skólinn geri sérstakar ráðstafanir til að veita aðgengi að þeim fyrir fatlaða nemendur. Kindle er ekki talið aðgengilegt vegna tregðu Amazon og bandarískra höfundarréttarsamtaka til að bæta aðgengi að bókunum t.d. með rafrænum lestri. Upphaflega gat Kindle tækið lesið flestar bækur með tölvu eða TTS rödd en útgefendur kröfðust þess að slökkt yrði á þessum möguleika og hann helst tekinn úr tækinu.

Að lokum voru á boðstólum ýmsar, misgóðar, kynningar á verkefnum og hugmyndum sem gert verður grein fyrir á komandi vikum og mánuðum og mun undirritaður skoða allt slíkt og hvort það geti nýst hér á landi. Efni allra fyrirlestra var afhent þátttakendum á rafrænu formi og er því ætlunin að komast yfir þá fyrirlestra á næstu vikum sem ekki var hægt að sækja á ráðstefnunni sjálfri.

Heill hafsjór upplýsinga kom út úr þessari ferð ásamt samböndum við áhrifamenn innan aðgengistæknigeirans, og mun bæði nýtast vel í því uppbyggingarstarfi sem við erum að vinna að á Íslandi, þrátt fyrir erfiða tíma.

Birkir Gunnarsson ráðgjafi

Til baka