Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
2. september 2010

Ubuntu Linux og aðgengi fyrir blinda og sjónskerta - fjórði hluti

Við félagarnir höfum ekki verið nógu duglegir að skrifa tæknimola undanfarið og berum við að sjálfsögðu fyrir okkur sumarfríum, önnum í starfi og því sem til fellur. Við munum nú gera bragabót á þessu því við vitum að ykkur þyrstir í meiri fréttir!

Í síðustu viku var Birkir að fjalla um ICCHP ráðstefnuna og gerum við ráð fyrir að það verði fleiri ráðstefnufréttir í haust, enda reynum við jafnan að vera á faraldsfæti.

Í byrjun sumars fórum við að af stað með Linux-umfjöllun sem var ekki alveg búin, ég ætla að setja punktinn við þessar greinar núna með smá umfjöllun um hvernig gekk að vinna með punktaletursskjá í Ubuntu Linux með Orca-skjálesaranum.

Vinna með punktaletursskjái í Linux stýrikerfinu er gerð möguleg með BRLTTY sem sett er upp sem bakgrunnsþjónusta í Linux. BRLTTY er þá ræst sjálfkrafa með stýrikerfinu og þar af leiðandi alltaf virkt, líkt og í Windows vélum.

BRLTTY er sem sagt hugbúnaður, þróaður af nokkrum áhugasömum tölvupúkum sem á að bjóða upp á flest af því sem Windows-skjálesarar (JAWS, HAL, WindowEyes etc.) gera – hvað varðar stuðning við punktaletur. En þar með verður þessi frásögn um hina ýmsu kosti BRLTTY ekki lengri, því við fengum þetta ekki til að virka – þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Við erum svo sem ekki búnir að gefa upp alla von með þetta ennþá, munum reyna aftur, en það var nokkuð svekkelsi að geta ekki notað punktaletursskjá með Orca skjálesaranum. 

Í sumar framkvæmdum við aftur prófanir á skjálesurum, líkt og í fyrra. Við erum að leggja lokahönd á skýrslu um herlegheitin og þar munum við fara meira inn á hvernig upplifun okkar var af Orca skjálesaranum í Linux umhverfinu.

En ég verð að játa að það var nokkuð svekkelsi að þetta skildi ekki virka. Við erum að sjálfsögðu byrjaðir að vinna í því að leysa þetta vandamál, meira um það síðar.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka