Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
3. september 2010

Íslenskun á Zoomtext hugbúnaðinum – nýjar útgáfur af NVDA og Dolphin vörum

Ánægjulegar fréttir bárust okkur frá Örtækni, umboðsaðilum Zoomtext-hugbúnaðarins á Íslandi. Vinna er hafin við að þýða Zoomtext hugbúnaðinn á íslensku, bæði viðmótið á hugbúnaðinum sem og stóra handbók um forritið. Zoomtext hefur verið notað á Íslandi í þó nokkur ár, en forritið var með fyrstu skjástækkunarforritunum sem sjónskertir á Íslandi nýttu sér.

Elsta eintakið sem ég hef rekist á var útgáfa 6.x af ZT Magnifier, en í dag er forritið í útgáfu 9.1. Það sem aðskilur Zoomtext frá öðrum stækkunarforritum er skýrleiki stækkunarinnar. xFont kerfið sem AI Squared fyrirtækið nýtir í hugbúnaðinum gerir það að verkum að Zoomtext er með afar skýra mynd, jafnvel þó mikil stækkun sé notuð. Engar dagsetningar eru komnar varðandi þýðingarnar, en við munum fylgjast grannt með þróun mála. 

Samkvæmt nýjustu fréttum frá áströlsku stofnuninni NV Access, eru sjö vikur í útgáfu 2010.2  af NVDA skjálesaranum. En eins og áður hefur komið fram þá er það svokallaður Open Source skjálesari sem við hér á Miðstöðinni höfum verið að skoða undanfarið ár. Við erum þegar búin að þýða viðmótið á NVDA yfir á íslensku og erum núna að vinna í að koma á stuðningi við punktaletursskjái en töflur fyrir íslenska punktaletrið eru ekki komnar inn í forritið. Það eru nokkrir þættir í þessari nýju útgáfu sem verður áhugavert að prófa. Má þar sem dæmi nefna lestur á raðahausum  og dálkahausum þegar unnið er með töflur í Mozilla Firefox vafranum.

Frá því við prófuðum fyrst NVDA hefur mikið vatn runnið til sjávar, stuðningur við lestur vefsíðna hefur aukist verulega, stuðningur við lestur .pdf skráa hefur snarbatnað og fleiri punktaleturskjáir eru nú studdir en áður. Þegar við byrjuðum að vinna með NVDA var einungis stuðningur við þrjá punktaletursskjái, Alva, Brailliant og Handytech. Í dag eru þeir orðnir talsvert fleiri eins og hægt er að lesa hér: http://www.nvda-project.org/documentation/nvda_2010.1_userGuide.html#1.4

Annar handhægur kostur NVDA er sá möguleiki að geta keyrt NVDA af USB kubbi. Þetta þýðir að notandi getur verið með NVDA uppsett á USB kubbi og svo gengið á hvaða vél sem er og keyrt skjálesarann sinn þar. En auðvitað erum við þá ekki með íslenskan talgervil til staðar. Það er nokkuð ljóst að íslenskur talgervill sem væri gjaldfrjáls, myndi hafa í för með sér aukna möguleika fyrir notendur til að nýta sér fyrirkomulag sem þetta.

Dolphin Computer Access, fyrirtækið sem framleiðir meðal annars Supernova og HAL, er nú með útgáfu 12 af sínum hugbúnaði í beta prófunum. Ekki hefur mikið borist út um hvaða nýjungar verða í útgáfu 12 en við vitum þó að fyrirtækið hefur unnið að því hörðum höndum undanfarna mánuði að bæta stuðninginn við .pdf skráarsniðið. Það verður áhugavert að prófa hvernig þeim hefur tekist til.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka