Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
15. september 2010

Er þetta of gott til að vera satt?

Í þessari viku verða tæknimolarnir léttmeti og meira á fréttnæmu nótunum. Við erum að leggja lokahönd á stóra skýrslu um samanburð skjálesara og skýrsla um pdf og Daisy eru annaðhvort í vinnslu eða í farvegi.

Það sem einna helst vekur athygli okkar þessa daganna er aukin samkeppni á markaði með örtölvur fyrir blinda (Braille PDA´s eins og það kallast á ensku). Þetta eru tæki með punktaletursskjá, venjulega 12, 18, 20 eða 40 stafa og með punktaletursinnsláttarlyklaborð og tali. Tækin keyra oft einungis hugbúnað frá framleiðanda tækisins sjálfs eins og Humanware tækin, og eru bæði fokdýr og bjóða upp á mun minni möguleika en nettölva með punktaletursskjá. Sem dæmi má nefna að smásöluverð BrailleNote Apex tækisins frá Humanware er um 6300 dollarar vestanhafs eða nær 700.000 kr. íslenskum, en hægt er að fá nettölvu og 40 stafa punktaletursskjá eins og Focus Blue eða Seika á innan við helming þess verðs. Vissulega henta þessi tæki sumum notendum vel sem kjósa einfaldleika og smæð, en tækin eru vissulega smærri en nettölvur, svo dæmi sé tekið. 

Tæki frá Baum, Humanware, GW Micro og Freedom Scientific eru á markaðnum ásamt nokkrum minni framleiðendum en við hér á Miðstöðinni höfum ekki notað þau mikið, þó þau séu notuð við vissar aðstæður annars staðar.

Í dag var tilkynnt um nýtt tæki sem er í vinnslu og gæti gjörbreytt markaðnum. Tækið kallast Braille Wizard og er hannað af National Braille Press í Bandaríkjunum með sérlegri aðstoð sérfræðingsins Dean Blazie sem stofnaði Blazie Engineering, en það varð síðar hluti af Freedom Scientific.

Hvað er svona spennandi við enn eina örtölvuna spyrja menn?

Sem betur fer er ýmislegt á döfinni með þetta tæki, sem á að koma á markaðinn seinnihluta næsta árs. Tækið kemur til með að bjóða upp á 20 stafa punktaletursskjá og tal og það keyrir á Android stýrikerfinu frá Google. Þannig getur hver sem er skrifað ný forrit fyrir það og það á að geta keyrt almenn forrit sem hönnuð eru fyrir Android stýrikerfið.

Innsláttur er í gegnum 8-stafa punktaleturslyklaborð. 32 gígabita minni kemur með en hægt er að nota svokölluð SD-kort ef meira þarf til. Bæði Bluetooth og þráðlaus netkort eru innbyggð ásamt tveimur USB raufum. Í tækinu verður kubbur sem skynjar hreyfingu svo hægt verður að nota snertiskjátækni og hristing til að framkvæma vissar aðgerðir. Einnig er innbyggð talgreining svo hægt er að gefa tækinu skipanir í gegnum míkrófón. Símatenging verður í tækinu og ekki má gleyma GPS staðsetningarbúnaði og innbyggðum áttavita svo þessi búnaður er eins og GPS tæki. Ef þetta er ekki nóg þá er einnig stefnt að því að hafa innbyggða myndavél svo hægt sé að nota tækið til að lesa prentað efni með skönnun.

Menn hafa ekki komið sér saman um hvað herlegheitin koma til með að kosta en eru harðir á því að 5000 dollarar fyrir tæki sé allt of hátt verð svo draga má af því ályktanir og giska á milli 2000 og 3500 dollara í smásölu vestanhafs, eða um helming þess sem samsvarandi tæki kosta í dag.

Vissulega hljómar þetta eiginlega of vel til að verða að veruleika. Oft byrja menn með látum og vilja bjóða upp á allt en þegar á hólminn er komið verða framleiðendur vélbúnaðar að minnka aðeins við sig. Hins vegar er Dean Blazie frægt nafn í þróun tækni fyrir blinda notendur og hann stendur við það sem hann lofar, svo væntingar manna vestanhafs veru þær að tækið verði byltingakennt þegar það kemur á markaðinn.

Heimasíðu tækisins má finna hér: http://braillewizard.org/ en til samanburðar má lesa um Braille Sense frá GW Micro (sem kom á markað vestanhafs í dag og kostar 5000 dollara) hér: http://www.gwmicro.com/Braille_Sense/OnHand/ og um Humanware BraileNote Apex hér: http://www.humanware.com/en-usa/products/blindness/braillenotes/_details/id_161/braillenote_apex_qt_32.html

Að lokum má lesa sér til um Pronto frá Baum hér:

http://www.baum.de/en/products/organizer/index.php

en þetta tæki hefur verið talsvert notað í Danmörku.

Við höldum áfram að fylgjast spennt með og vonumst svo sannarlega til að geta kynnt notendum þetta eftir 2 ár eða minna.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Til baka