Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
28. september 2010

Samanburður á fimm skjálesurum - 2010

Í fyrra réðumst við í að prófa fimm algengustu tegundirnar af skjálesurum sem eru á markaðnum, Samanburður á fimm skjálesurum. Okkur fannst þessar prófanir lukkast nokkuð vel og vorum því strax farnir að skipuleggja næstu prófanir eftir að þeim fyrri lauk. Það voru nokkur atriði sem mikilvægt var að leggja áherslu á í næstu prófunum. Fyrst af öllu var það að tveir af skjálesurunum sem við prófuðum komu frekar illa út í þessum samanburði, System Access frá Serotek og WindowEyes frá GW Micro. Við teljum ekki nauðsynlegt að tíunda hér af hverju okkur fannst þessar tvær lausnir ekki vera nógu spennandi kostur, en við bendum áhugasömum á að lesa greinina um síðustu prófanir okkar. Í öðru lagi fannst okkur nauðsynlegt að í næstu prófunum myndum við prófa skjálesarana með Windows 7 stýrikerfinu, en við notuðumst við Windows XP síðast. Í þriðja lagi langaði okkur til að prófa hvernig Apple og Linux lausnir kæmu út í samanburði við þær tegundir af Windows skjálesurum sem við höfum unnið með hingað til. Eftir að hafa drukkið reiðinnar býsn af kaffi og skeggrætt málin fram og tilbaka þá var kominn tími til að hefjast handa. Við lögðum því undir okkur eina skrifstofu á fimmtu hæðinni í Hamrahlíðinni og létum gamminn geysa. Ef einungis er tekinn sá tími sem fór í beinar prófanir, en ekki undirbúningsferlið, þá tók það okkur um það bil eina viku að framkvæma og skrá allar prófanirnar. Við tók síðan hörku pappírsvinna.

Það sem hér á eftir kemur er samantekt á þessum prófunum, hvað kom okkur mest á óvart, hvað olli mestum vonbrigðum og útlistun á tölfræðinni á bak við prófanirnar.

Tilgangur

Fólk gæti spurt sig af hverju við réðumst í þetta verkefni og eyddum heilli viku af tíma okkar í það? Vissulega höfum við yfirdrifið nóg að gera, sem betur fer, en við töldum mikilvægt að gera þennan samanburð af mörgum ástæðum og nefnum við hér fáeinar:

1. Til að geta brugðist við breytingum á tölvuumhverfi stofnanna og vinnustaða. Dæmi eru þess á Spáni að heilu héruðin hafi flutt alla sína kennslu og tölvuvinnslu á Linux stýrikerfið og margar stofnanir telja það spara og hagræða mikið í rekstri. Ef stofnun eða opinber aðili á Íslandi gerir slíkt hið sama þurfum við að geta svarað spurningum um, og lagt mat á, hvernig slíkar breytingar myndu hafa áhrif á blinda notendur eða starfsmenn þeirrar stofnunar og til þess þurfum við að þekkja lausnirnar sem Linux hefur upp á að bjóða þegar kemur að skjálestri. Orca er ein helsta lausnin í Linux umhverfinu en við þurfum að kanna lausnir eins og Vinux og Sue betur. Við munum útskýra þessi mál betur í Tæknimolum eða sérskýrslu síðar á árinu en við erum einmitt á leið á stóra Linuxráðstefnu í október (með styrk frá Evrópusambandinu).                                               

2. Við vonumst til að blindir einstaklingar láti drauma sína rætast og rati sem víðast í mennta- og atvinnugeiranum. Slíkt mun aldrei ganga nema þeir hafi aðgang að samskonar hugbúnaði og tækifærum og starfsfélagar þeirra, enda er það forsenda þess að umræddir einstaklingar geti skilað sama vinnuframlagi og aðrir. Slíkt getum við ekki tryggt með því að einblína aðeins á fáar tegundir af aðgengishugbúnaði. Því sértækari og sérhannaðri sem hugbúnaður er fyrir blindan einstakling (eða hvaða einstakling sem er ef út í það er farið), þeim mun erfiðara verður fyrir hann að stunda vinnu og eiga í samskiptum í almennu vinnu- eða menntaumhverfi. Því þar er gert ráð fyrir að fólk vinni með algengar/almennar tegundir hugbúnaðar og hinar sérhæfðu lausnir eiga ekki alltaf samleið með þeim hugbúnaði. Sem dæmi um nytsama tækninýjung sem gæti átt vel í aðstæðum sem þessum má benda á NVDA skjálesarann en hann er hægt að keyra beint af USB kubbi í hvaða Windows vél sem er og þar með er nú kominn möguleiki á að vinna með kennara eða samstarfsmanni á þeirra tölvu í stað þess að blindi einstaklingurinn þurfi að gera allt á sinni eigin vél og burðast með hana út um allt. Þetta er t.d. ekki hægt með Jaws eða Dolphin hugbúnaði því setja þarf upp rekla á Windows vél áður en hægt er að nota USB kubba útgáfur forritana og auk þess þarf að setja upp leyfi fyrir búnaðinum sem getur reynst þó nokkuð flókið, og í sumum tilfellum, ekki leyfilegt.

3. Með tilkomu hágæða skjálestrarforrita sem annaðhvort fylgja með stýrikerfi eða hægt er að sækja á vefinn án endurgjalds opnast nýir möguleikar fyrir notendur sem við þurfum að geta frætt þá um. Ef einstaklingur notar tölvuna eingöngu til að fara á netið, lesa tölvupóst og hlusta á Daisy bækur getur sá hinn sami sótt sér NVDA forritið og byrjað strax að nota tölvuna, að því gefnu að hann sé með uppsettan íslenskan talgervil. Hann þarf ekki að fara í gegnum umsóknar- og úthlutunarferli til að fá skjálesarann, líkt og nauðsynlegt er með Jaws eða Hal, en þau forrit gagnast honum ekkert betur við þá hluti sem hann er að gera í tölvunni. Að sjálfsögðu horfir málið öðruvísi við ef hefðbundnu skjálesararnir henta notanda betur til dæmis þeir sem nota punktaletursskjá eða þurfa að nota forrit sem ókeypis skjálestrarforritin styðja ekki.                                                           

4. Við leggjum áherslu á að úthluta hágæðahugbúnaði og því sendum við niðurstöður okkar og vandamál til allra þeirra aðila sem þróa eða framleiða hugbúnaðinn sem við prófuðum. Með þessu vonumst við til að geta stuðlað að umbótum í þróun aðgengishugbúnaðar sem nýtast þá notendum okkar í framtíðinni. Okkur hefur nú þegar verið tjáð að lagfæringar verði gerðar á .pdf aðgengi Hal-hugbúnaðarins svo að einhverju virðast ábendingar okkar vera að skila. Til að fylgja þessum málum enn betur eftir þá tökum við líka þátt í svokölluðum beta prófunum á skjálestrarhugbúnaði.                                                                                  

5. Við erum ekki bara þjónustu, heldur líka þekkingarmiðstöð og án slíkra rannsókna værum við ekki að sinna þekkingarhlutverki okkar. Því teljum við eina til tvær vikur af starfstíma okkar á ári hverju vel varið í að safna saman þekkingu og vitneskju um þau mál sem við vinnum við dags daglega og við vonum að notendur kunni vel að meta þetta og að við getum stuðlað að jákvæðari reynslu þeirra í notkun tölvubúnaðar.

Nánar um tilurð og tilgang rannsóknarinnar

Áður en við dembum okkur í umfjöllun um tilraunirnar sjálfar finnst okkur vert að bæta við nokkrum orðum um tilurð skýrslunnar. Hugmyndin kviknaði í rauninni vegna þess að við vorum að leita að samanburði á skjálesurum. Við leituðum á veraldarvefnum án árangurs. Það er merkilega lítið til af upplýsingum um hvernig skjálesarar standa sig nema frá framleiðendunum sjálfum. Vissulega eru slíkar síður afar hjálplegar en þær sýna eingöngu notkun eins forrits og minnast einungis á hvernig það forrit stendur sig í samanburði við önnur, ef það kemur vel út úr samanburðinum. Við vorum ekki sáttir við þetta því okkur finnst erfitt að velja og hafna forritum ef við getum ekki rökstutt skoðanir okkar og ákváðum því að ráðast í verkefnið.

Fyrir áhugasama komum við til með að birta öll gögnin sem við notuðum við að mæla frammistöðuna síðar en gerum grein fyrir öllu því helsta í þessari skýrslu. Hér er vert að geta þess að öll grunngögnin eru á ensku, en við töldum rétt að vinna á því tungumáli sem framleiðendur hugbúnaðarins nota. Einnig auðveldaði þetta alþjóðlegt samstarf og við vonumst til að samanburðurinn gagnist einnig notendum og stofnunum erlendis.

Val og aðferðafræði

Með tilkomu VoiceOver í Apple stýrikerfinu var skyndilega kominn valkostur í Apple vélum sem okkur þótti áhugavert að prófa. Settum við okkur því í samband við Apple umboðið á Íslandi og óskuðum eftir að fá vél lánaða hjá þeim til að framkvæma prófanir. Starfsmenn Apple tóku okkur vel og fengum við vél lánaða um leið, kunnum við þeim bestu þakkir fyrir!

Linux er frítt stýrikerfi og getur því hver sem er niðurhalað hugbúnaðinum, okkur vantaði því bara venjulega PC tölvu til að prófa Orca skjálesarann sem fylgir með GNOME útgáfunni af Linux. Við skelltum því Ubuntu Linux stýrikerfinu á ferðavél sem við lumuðum á og notuðum hana við prófanirnar. 

Við prófuðum skjálestrarforritin í sjö aðalflokkum sem okkur fannst hvað best lýsa því sem almennur tölvunotandi myndi taka sér fyrir hendur við leik og störf. Hverjum flokki verður lýst betur í sínum eigin kafla.

Uppsetningin er einföld. Fyrst er lögð fram spurning: „Getur skjálesarinn framkvæmt eftirfarandi aðgerð?“. Fyrir hverja spurningu er hægt að fá X mörg stig, við metum síðan hversu vel skjálesarinn leysti aðgerðina og gefum stig eftir því. Við settum verkefnið upp á þennan hátt til þess að forðast að gefa því forriti sem við þekkjum hvað best flest stig og reyndum þannig að gera tilraunirnar eins hlutlausar og kostur er. Við skrifuðum niður nákvæmlega hvernig farið er að því að framkvæma hverja aðgerð í hverjum skjálesara fyrir sig til að þetta efni nýtist til að framleiða einfalda leiðarvísa fyrir skjálesarana í framtíðinni ef þess verði þörf. Einnig gerir þessi skrásetning það að verkum að prófanir af þessu tagi verða sífellt fljótlegri í framkvæmd eftir því sem við gerum þær oftar.

Flokkarnir sem prófanirnar féllu í voru eftirfarandi:

1. Skjálesaravirkni:
Kannaður punktaletursstuðningur, stuðningur við mismunandi raddir og tungumál, lestrarstillingar og aðra möguleika sem skjálesarinn sjálfur býður upp á í því samhengi.

2. Hvernig skjálesarinn vinnur með stýrikerfinu:
Framkvæmd á algengum aðgerðum með skjálesara, svo sem að bæta við og eyða út forritum, skoða hvaða möppur og skrár er að finna á vélinni og hvort hægt sé að opna aðgerðavalmyndir í stýrikerfinu. Auk þess skoðuðum við hvort hægt sé að lesa og skoða upplýsingar sem stýrikerfið sýnir á skjánum t.d. dagsetningu, tíma og rafhlöðuhleðslu svo fátt eitt sé nefnt.

3. Virkni skjálestrarforrits með almennum skrifstofuforritum:
Hér er átt við töflureikni, ritil, póstforrit o.s.frv. Þetta eru þá forrit eins og er að finna í Office pakkanum frá Microsoft.

4. Vefskoðun:
Hversu vel gengur að vinna á vefsíðum með skjálesaranum, þ.e. færa fókusinn á kennileiti, fylla út gátreiti, er hægt að nýta sér Flash og aðra nýlega tækni, er hægt að fylla út eyðublöð á netinu o.s.frv.

5. Skjálestrarforrit með spjallforritum:
Kannaður stuðningur við MSN og önnur slík "Instant Messenger" forrit.

6. Skjálestrarforrit með Skype spjall- og símaforritinu:
Er hægt að bæta við tengilið á Skype, er hægt að finna hvort tengiliðurinn sé við sem og hvort hægt sé að hringja í hann eða svara Skype símtali frá honum.

7. Stuðningur við .pdf skrár:
Er hægt að lesa .pdf skrá, fara milli blaðsíðna, fyrirsagna o.s.frv. sem og hvort hægt sé að fylla út aðgengilegt .pdf eyðublað.

Nánar um aðferðafræðina

Þar sem við vorum núna í fyrsta skipti að vinna með þrjú ólík stýrikerfi (Windows 7, Mac OS X 10 og Ubuntu Linux 10.04, þá gátum við ekki alltaf notast við nákvæmlega sömu forritin þar sem Office er Windows pakki og virkar ekki nákvæmlega eins á öðrum stýrikerfum. Við notuðum Open Office pakkann á Linux en hann samsvarar Microsoft Office mjög vel og við notuðum iWork 09 á Apple vélinni þar sem við höfðum ekki aðgang að Microsoft Office fyrir Apple tölvur þegar prófanirnar voru gerðar. Við áttum okkur á að þetta getur flækt samanburðinn en við teljum samt að við höfum skilgreint vel þau verkefni sem almennur notandi ætti að geta leyst í sinni daglegu tölvunotkun. Út frá þeim skilgreiningum leituðum við að aðgengilegustu forritunum fyrir hvert umhverfi fyrir sig til að leysa verkefnin og bárum þau svo saman. Ef forrit voru álíka aðgengileg reyndum við að velja það forrit sem var ódýrara eða „Open Source“. Ef okkur verður bent á hugbúnað sem getur leyst verkefnin betur af hendi en þau forrit sem við notuðum í okkar prófunum í ár þá tökum við að sjálfsögðu slíkum ábendingum fagnandi, sama gildir um einfaldari leiðir til að framkvæma aðgerðir eða þætti hugbúnaðarins sem við ættum að skoða nánar í framtíðinni.

Hugmyndin er ekki bara að skoða hvort forrit X sé betra en forrit Y heldur einnig að safna saman vitneskju um bestu og einföldustu leiðir til að framkvæma aðgerðir, með þeim búnaði sem notandi hefur uppsettan hjá sér. Við eyddum hlutfallslega miklum tíma í skjálesara og forrit sem við höfðum minni reynslu af að nota og fengum ráðleggingar frá bæði framleiðendum og vönum notendum þeirra. Hér ber að þakka sérstaklega Malthe Jepsen frá Danmörku, en hann er Apple og VoiceOver notandi með meiru og vann hann Apple hluta þessara prófanna með okkur af miklum dugnaði. Einnig þökkum við Dave Hunt en hann aðstoðaði okkur við að prófa Orca skjálesarann og svaraði spurningum honum tengdum. Allt var þetta gert til að tryggja hlutleysi skýrslunnar, sem og til að sjá til þess að öllum forritum væri gert álíka hátt undir höfði og vonum við að það hafi heppnast. Þar sem við skrifuðum samviskusamlega niður hvernig fara skuli að því að leysa þær þrautir sem við settum fram fyrir skjálestarforritin, þá lærðum við heilan helling á þessum tilraunum sjálfir og höfðum einnig næstum óeðlilega mikið gaman af. Það er jú bæði skylda okkar og ánægja að vera fróðir um þær lausnir sem til eru og styðja þá einstaklinga sem vilja fara óhefðbundnari og sjálfstæðari leiðir í tölvunotkun sinni.

Eftir þessa viku í sumar teljum við okkur nú geta kennt notendum grundvallaratiðin í þremur nýjum skjálestrarforritum á tveimur nýjum stýrikerfum. Geri aðrir betur!

Prófanirnar

Hér verður fjallað um hvern flokk fyrir sig. Við veltum fyrir okkur skýrustu og einföldustu aðferðinni til að setja svona skýrslu upp og niðurstaða þeirra hugleiðinga varð sem hér segir:

Fyrir hvern flokk er fyrst birtur stuttur listi yfir þau atriði sem við vildum prófa, því næst listi yfir hvernig forritin stóðu sig og hversu mörg stig voru í boði. Ef t.d. Hal fékk 20 stig af 30 mögulegum er færslan birt á þennan hátt: Hal 20/30. Uppröðun skjálesarana í hverjum lista er alltaf sú sama: Hal, Jaws, NVDA, VoiceOver, Orca. Hal, Jaws og NVDA keyra á Windows 7, VoiceOver á Snow Leopard stýrikerfinu fyrir Apple tölvur og Orca á Ubuntu Linux kerfinu. Ef við erum að kanna virkni með mismunandi forritum setjum við lista yfir þau efst, í sömu röð og skjálesararnir eru þ.e.a.s. Windows 7 (Hal, Jaws og NVDA), Apple (þ.e.a.s. með VoiceOver) og Linux (þ.e.a.s. Orca). Að lokum eru birtar athugasemdir og skýringar á því hvar hvert forrit missti stig eða stóð sig sérdeilis vel. Ef fólk hefur ekki áhuga á ákveðnum flokki getur það stokkið yfir hann eða farið í seinni hluta skýrslunnar þar sem við tökum helstu niðurstöður prófananna saman.

1. Skjálesaravirkni:

Hér athuguðum við eftirfarandi þætti hjá hverjum skjálesara fyrir sig:

• Er hægt að setja inn nýja talgervla

• Er hægt að stilla skjálesarann þannig að hann ræsi sér með stýrikerfinu

• Er einfalt að ræsa skjálesarann

• Er hægt að lesa og stafa texta í skjölum

• Er hægt að skoða skjáinn án þess að hreyfa bendilinn

• Hvernig er punktaletursstuðningi háttað

Stigagjöf fyrir flokk 1:

Hal 15/15

Jaws 14.5/15

NVDA 8/15

VoiceOver 12/15

Orca 8/15

Hægt var að fá samtals 15 stig í þessum hluta.

Það kemur kannski fáum á óvart að Hal og Jaws stóðu sig hvað best í þessum flokki. Hal fékk 15 stig en Jaws 14.5 stig. Við töldum Jaws missa hálft stig vegna þess að hann setur ekki sjálfkrafa inn lyklasamsetningu sem hægt er að nýta til að ræsa hugbúnaðinn. Vissulega er hægt að gera þetta í gegnum Windows stýrikerfið en okkur finnst eðlilegra að þetta komi sem innbyggður eiginleiki í skjálestrarforritinu.

NVDA fær hér 8 stig. Aðallega vegna þess að punktaletursstuðningur NVDA er enn mjög takmarkaður. NVDA styður einungis nokkrar tegundir punktaletursskjáa, leyfir notanda ekki að fara um tölvuskjáinn með punktaletursskjánum og tekur ekki við músa smelliaðgerðum frá punktaletursskjánum heldur. Þetta skýrist að hluta til af því að NVDA á ekki samskipti við skjáreklana í Windows stýrikerfinu eins og Jaws og Hal gera en það hefur einnig ákveðna kosti í för með sér. Minni líkur eru á að NVDA hrynji eða valdi usla í kerfinu og hægt er að keyra NVDA án þess að vera með kerfisstjóraréttindi á stýrikerfinu. Hér er þá átt við að kerfisstjóraréttindi eru nauðsynleg til að setja upp HAL og JAWS. En óneitanlega veldur þetta þó því að erfiðara er að skoða tölvuskjáinn í heild sinni sem notandi. Við höfum bent þróunaraðilum NVDA á að veita punktaletursstuðningi meiri athygli. Því miður eru punktaletursskjáir mikill lúxus og flestir blindir notendur utan Evrópu hafa ekki aðgang að slíkum tækjum. Því er meiri pressa á hönnuði NVDA að þróa aðra hluti hugbúnaðarins fyrst, fremur en að bæta punktaletursstuðning. Einnig hafa framleiðendur punktaletursskjáa ekki komið sér saman um staðlaðar samskiptaleiðir milli tækjanna og tölvunnar og því þarf í raun að skrifa heilt forrit fyrir hverja tegund skjáa fyrir sig. Sumir framleiðendur halda slíkum upplýsingum meira að segja leyndum og veita þær aðeins gegn gjaldi, sem gengur ekki þegar um ókeypis forrit er að ræða.

Með meiri stöðlun vonumst við til að stuðningur við punktaletursskjái eigi eftir að aukast og erum reyndar nokkuð bjartsýnir hvað það varðar. OpenBraille er verkefni nokkurra stærstu framleiðanda punktaletursskjáa og vonast þeir til þess að geta komið sér saman um stöðlun á samskiptum tölvu og punktaletursskjás sem hægt er að setja beint inn í næstu útgáfu af Windows. Með því þyrftu framleiðendur skjálestrarhugbúnaðar ekki að skrifa mörg forrit til að birta gögn á punktaletri og skjárinn ætti því að virka um leið og hann er settur í samband. Því losnar notandi við uppsetninguna sem fylgir þessum tækjum í dag og við höfum talsvert minna að gera fyrir vikið.

Við vorum spenntir að prófa VoiceOver forritið frá Apple. Við erum vanir Windows stýrikerfinu og því er talsverð hugarfarsbreyting að fara yfir í þetta forrit og kannski erfitt að venjast því. Þó náði VoiceOver sér í 12 stig af 15 hjá okkur. Það tapar hér stigum vegna þess að ekki er hægt að nota músahnappa á punktaletursskjá og einnig er erfitt að ferðast um skjáinn með því að nota punktaletursskjáinn, sem er í raun bein afleiðing af því hvernig Appletölvurnar eru settar upp. Við munum skrifa sér grein um reynslu okkar af Apple og birta á Tæknimolum. Annar séríslenskur ókostur sem benda verður á í þessu samhengi er að ekki er til íslensk rödd sem styður Apple stýrikerfin eftir að þau fóru úr 32 bita í 64 bita útgáfur. Of dýrt er að uppfæra Snorra í 64 bita útgáfu og við verðum í raun að binda vonir við íslenska talþjónaverkefni Blindrafélagsins áður en við getum vonast eftir stuðningi við íslenskan talgervil fyrir Apple tölvur. Við settum stuðning við 64 bita Applestýrikerfi sem æskilegan kost slíks skjálesara í verkefnalýsingunni.

Að lokum fékk Orca skjálesarinn fyrir Linux einungis 8 stig. Ástæðan var í raun sú sama og hjá VoiceOver og NVDA þ.e.a.s. lítill sem enginn punktaletursstuðningur, við fengum hann ekki einu sinni til að virka í þessum prófunum. Hægt er að nota íslenska eSpeak talgervilinn en gæði hans eru ekki enn upp á marga fiska (þetta er ekki vandamál með NVDA því þar getum við notað Windowsraddirnar „Snorra“ eða „Röggu“, en þær keyra ekki á Linux stýrikerfinu). Við höfum lagt mikla áherslu á að gæði þessa talgervils verði bætt sem hluta af talþjónaverkefninu og mun það kosta samvinnu og þolinmæði en einungis brotabrot af þeim peningum sem þarf til að smíða Windows talgervil í háum gæðaflokki.

2. Virkni skjálesara með stýrikerfi:

Helstu atriði sem skoðuð voru:

• Er hægt að ferðast um vélina og skoða allar möppur og skrár

• Er hægt að bæta við og eyða út forritum

• Les skjálesari allar helstu valmyndir í stýrikerfinu

• Er hægt að lesa upplýsingar sem stýrikerfið birtir, sem dæmi hleðslu rafhlöðu, dagsetningu og tíma

• Les skjálesari „tool tips“ (blöðru skilaboð) og villuboð stýrikerfisins

• Er hægt að nota terminal glugga (skipanaglugga). Þetta er hentugt og stundum nauðsynlegt fyrir viss forrit.

Stigagjöf fyrir flokk 2:

Hal 13/13

Jaws 13/13

NVDA 12/13

VoiceOver 10.5/13

Orca 10.5/13

13 stig voru í boði. Hér fá Hal og Jaws fullt hús stiga en NVDA missir eitt stig vegna þess að hann les ekki skjáinn í DOS glugganum með örvalyklunum eins og Hal og Jaws gera. Því les NVDA eingöngu það sem maður slær inn en les ekki það sem birtist á skjánum í terminal glugganum. Sem dæmi um þetta: Ef slegin er inn skipunin „dir“ og slegið á staðfestingarhnappinn í DOS glugga, þá birtist listi yfir allar möppur og skrár í DOS glugganum. Í Jaws og Hal er hægt að nota örvalykil upp til að lesa sig í gegnum listann afturábak, en ef ör upp er notuð í NVDA fer hún beint á skipunina „dir“ sem við gáfum en sýnir ekki listann sem hún bjó til. Því er NVDA harla gagnslaust í DOS umhverfi. VoiceOver fyrir Apple fær hér 10,5 af 13 stigum. Þegar farið er í gegnum skrár og drif poppar stundum upp auglýsingagluggi fyrir forritið sem notandi er staddur á og notandi þarf að loka þessum glugga og byrja upp á nýtt. Okkur finnst þetta afar pirrandi og fundum við enga leið til að slökkva á þessu. Einnig missti VoiceOver hálft stig vegna þess að kveikja þarf á dagsetningu og tíma sérstaklega áður en hægt er að fá það lesið með einni lyklasamsetningu. Kannski ættum við ekki að draga hálft stig af þeim fyrir þetta en hins vegar hefðum við líklega átt að taka meira af þeim fyrir auglýsingagluggana svo okkur finnst þetta jafnast út. Að lokum fær Orca skjálesarinn 10 og hálft stig af 13. Ekki tókst að lesa "tool tips/blöðru skilaboð" almennilega og hann átti í vandræðum með að afrita texta úr textaboxum og vann ekki vel í skipanaglugganum. Eins og við bjuggumst við er hægt að framkvæma allar helstu stýrikerfisaðgerðir með öllum skjálesurunum, enda lágmarkskrafa að slíkt sé hægt án mikilla vandræða.

3. Office forrit

Það sem við skoðuðum:

• Virkni með ritvinnsluforriti (að setja inn tengil, finna stafsetningarvillu með aðstoð orðabókar og leiðrétta hana, lestur á töflum)

• Virkni með töflureikni (lesa formúlur, finna hnappa og myndir, lesa raðir og dálka o.s.frv.)

• Virkni með tölvupósti (hvort auðvelt sé að fara í gegnum innhólf og finna efni, sendanda, viðhengislista og mikilvægi skilaboða, hvort hægt sé að fara í tengiliðalista og hvort hægt sé að senda tölvupóst)

• Kynningarforrit (eins og Powerpoint, hvort hægt sé að lesa titil og efni glæra).

Forrit sem notast var við: Office 2007 með Hal, Jaws og NVDA. iWorks 09 með VoiceOver og Open Office 3.2.1 með Orca.

Stigagjöf fyrir flokk 3:

Hal 27,5/30

Jaws 28/30

NVDA 21/30

VoiceOver 14,5/30

Orca 14/30

Hér prófuðum við Word, Excel, Powerpoint og Outlook (þ.e.a.s. hinn hefðbundna Office pakka) í Windows með Hal og Jaws. Með NVDA notuðum við Mozilla Thunderbird tölvupóstforritið frekar en Outlook þó bæði forritin hafi virkað álíka vel. Í Linux notuðum við Open Office og Mozilla Thunderbird tölvupóstforritið og á Apple vélinni notuðum við iWorks 09 pakkann og Apple Mail póstforritið. Við hefðum viljað prófa Office pakkann frá Microsoft á Applevélum en fengum ekki forrit til prófana í þetta skipti. Af óformlegu samtali okkar við nokkra VoiceOver notendur að dæma, er aðgengi að Office á Appletölvum ekki umtalsvert mikið betra en aðgengi að iWorks. Í þessum flokki sést greinilega að HAL og JAWS skjálesararnir hafa forskot hvað varðar hefðbundna gagnavinnslu með Office forritunum frá Microsoft en bæði eru svipuð forrit ekki eins útbreidd á hinum stýrikerfunum og ekki hefur farið mikill forgangur í að gera þau aðgengileg þar, enn sem komið er. Nú förum við í saumana á því hvernig hvert forrit stóð sig í hverjum undirflokki þ.e.a.s. ritvinnslu, töflureikni, póstforriti og kynningarforritum.

Ritvinnsluforrit

Við notuðum Word fyrir Windows, Pages á Apple og Open Office Writer á Linux. Skilyrðin fyrir því að forritið taldist nothæft voru að það yrði að innihalda orðabók og að forritið yrði að vera útbreitt meðal notenda.

Stigagjöf fyrir ritvinnsluforrit:

Hal 8/8

Jaws 7/8

NVDA 6/8

VoiceOver 5/8

Orca 5/8

Það sem við skoðuðum:

• Gefur skjálesari til kynna þegar texti í skjali er tengill.

• Er hægt að lesa sig í gegnum töflur

• Er hægt að stilla skjálesara þannig að hann gæfi til kynna þegar texti er undirritaður, skáletraður eða feitletraður

• Gefur skjálesari til kynna þegar orð er vitlaust stafað og er hægt að nota innbyggða orðabók til að leiðrétta stafsetninguna

Hér stóðu Hal og Jaws sig einna best þó Jaws hafi reyndar misst eitt stig því það er mjög flókið að kveikja á tilkynningum um feitletrun og skáletrun í Word og þurftum við upplýsingar frá fulltrúa Freedom Scientific varðandi þetta atriði. En það tók heilan dag fyrir þann sérhæfða starfsmann að finna út hvernig þetta er gert.

Hal stóð sig ekki vel í töflulestri síðast þegar þessar tilraunir voru gerðar svo við vorum ánægðir að sjá úrbætur í þeim málum hjá Dolphin mönnum. NVDA missti hálft stig fyrir að tilkynna ekki alltaf tengla og 1.5 stig vegna þess að lesarinn les ekki töflur sem gerðar eru í MS Word rétt. NVDA les þær rétt í fyrstu umferð, en ruglast svo þegar farið er yfir sömu rúður aftur og eftir nokkrar tilfæringar er hann farinn að lesa tóma vitleysu. Þetta kom þannig út að í fyrstu umferð, þegar TAB lykillinn var notaður til að ferðast milli rúða í töflunni, þá las NVDA heiti rúðanna hárrétt. En ef notaðir voru lyklarnir Shift og TAB/dálklykill til að fara til baka og á fyrri rúðu, þá tilkynnti NVDA að notandi væri staddur á allt annarri rúðu. Þess má geta að við prófuðum NVDA einnig með Open Office Writer og Wordpad. Sum atriði las hann rétt þar, til dæmis töflur, en annað las hann alls ekki. Má þar sem dæmi nefna orðabókina í Open Office Writer. Það skýtur skökku við að forrit eins og Open Office, sem nú býður upp á hluti eins og að prenta beint á punktaletri, er ekki aðgengilegra en þetta. En mikil vinna er að fara í úrbætur á því og er skýringanna að leita í mismunandi stöðlum hjá Java og Microsoft. Það er a.m.k. einfalda skýringin, sú flóknari bíður betri tíma.

Við notuðum Pages ritvinnsluforritið í iWorks 09 með VoiceOver skjálesaranum. Skemmst er frá því að segja að VoiceOver tilkynnti ekki tengla og las ekki töflur og missti þar með tvö og hálft stig.Orca með Open Office Writer ritvinnsluforritinu les ekki tengla og ekki er hægt að nota orðabókina. Því missir Orca tvö og hálft stig.

Töflureiknar:

Stigagjöf fyrir töflureikna.

Hal 7.5/10

Jaws 9/10

NVDA 4/10

VoiceOver 1/10

Orca 1.5/10

Forrit: Excel 2007 fyrir Windows, Numbers fyrir iWorks og Calc fyrir Open Office.

Það sem við skoðuðum:

• Les skjálesari staðsetningu og innihald sellu

• Gefur skjálesari til kynna hvort formúla sé í sellunni eða athugasemd. Ef svo er, er hægt að lesa formúluna eða athugasemdina

• Er hægt að fylgjast með vissum sellum og fá tilkynningu þegar talan í þeim breytist (kallast monitor cells á ensku)

• Er hægt að finna fyrstu sellu í röð eða dálki og fá hana lesna án þess að færa sjálfan bendilinn (slíkar sellur geyma oft upplýsingar svosem titil dálks og því mikilvægt að hægt sé að fá slíkt lesið sjálfkrafa eða með sér hnappasamsetningu)

• Getur skjálesari fundið myndir og hnappa í töflureiknisskjali (slíkt er mjög algengt í vinnuskjölum töflureikna, hnappur sem slá þarf á til þess að uppfæra skjal með nýjum gögnum.)

Þegar kemur að notkun töflureiknis er einungis um tvo kosti að ræða. Jaws með Excel stendur sig best. Hal með Excel stendur sig næstum jafnvel og Jaws og hafa framleiðendur Dolphin hugbúnaðarins bætt sig verulega síðan á síðasta ári. NVDA getur lesið einföldustu hluti í Excel en því miður ekki nógu vel og nær vonlaust er að nota töflureiknisforrit með VoiceOver eða Orca eins og staðan er í dag. Nánari skýringar og útlistanir á þessum atriðum og hvernig þau voru prófuð er í gögnunum og birtum við þau síðar, en einnig er alltaf hægt að senda okkur póst og spyrja ef eitthvað er óljóst.

Í stuttu máli verðum við að segja að miðað við þessar tilraunir verður notandi sem ætlar sér að vinna með töflureikni að hafa annaðhvort Hal eða Jaws, annað dugar ekki.

Tölvupóstur

Stigagjöf fyrir skjálesara með tölvupósti:

Hal 10/10

Jaws 10/10

NVDA 10/10

VoiceOver 6.5/10

Orca 6/10

Forrit: Outlook 2007 og Mozilla Thunderbird á Windows, Apple Mail fyrir Apple og Thunderbird á Linux með Orca.

Það sem við skoðuðum (ath. að orðin skeyti og póstur eru notuð jöfnum höndum hér á eftir):

• Er hægt að fara milli skeyta í pósthólfi (t.d. Innhólfinu)

• Les skjálesari hver er sendandi pósts, efni, mikilvægi pósts (priority), hvort póstur sé lesin eða ólesin og hvort pósturinn hafi að geyma viðhengi

• Þegar póstur er opnaður, er hægt að fara í gegnum alla reiti innan póstsins (eins og hægt er að gera með TAB/dálklyklinum í Outlook)

• Er hægt að skrifa póst, nota orðabók til að finna stafsetningarvillur, hengja skrá við póstinn og senda

• Er hægt að nota Addressbook/Nafnaskrálistann í skjálesaranum þegar póstur er sendur

• Er hægt að nota dagatal og setja inn stefnumót eða fundarboð,

Flest forritin réðu ágætlega við þetta verkefni en mismunurinn lá í hversu einfalt er að fara í gegnum Innhólfið og skoða skilaboðin. Hal, Jaws og NVDA tilkynna allt fullkomlega ef notað er Outlook 2007. Einnig virkar þetta ágætlega með Thunderbird forritinu. Jaws átti að vísu í vandræðum með að lesa viðhengi í Thunderbird en Hal og NVDA lásu þau fullkomlega. Í Thunderbird er ekki hægt að lesa mikilvægi (priority) meldingu sem búin er til í Outlook en ástæðan er líklega sú að Outlook hefur sitt eigið kerfi hvað þetta varðar. Ef mikilvægið er skilgreint í pósti sem fer úr Thunderbird póstforritinu í aðra tölvu sem einnig er að keyra Thunderbird póstforritið, þá er mikilvægi skeytisins tilkynnt.

VoiceOver á í vandræðum vegna þess að um leið og farið er yfir skeyti með bendlinum í innhólfinu eru þau merkt sem lesin, þó svo skeytin hafi ekki verið opnuð. Einnig er heilmikið föndur að fá þetta lesið svo við drógum 1.5 stig af þremur frá. Það má þó taka það fram að þar sem við erum að vinna með VoiceOver í fyrsta skipti þá virkaði það kannski ekki eins þjált í höndum okkar og það ætti að gera. Við fundum ekki forrit á Apple sem hægt er að nota til að búa til fundarboð svo við þurfum að skoða þann hluta nánar.

Orca stendur sig alls ekki í þessum hluta og gátum við ekki gefið þeim nein stig fyrir innhólfslesturinn. Sendandi, efni, dagsetning, priority eða viðhengis tilkynning voru alls ekki lesin. Einnig fær Orca hér mínus vegna þess að þegar fundarboð er búið til festist Orca í lokin og ekki er hægt að senda fundarboðið út.

Skjálesarar með kynningarforritum

Stigagjöf:

Hal 2/2

Jaws 2/2

NVDA 1.5/2

VoiceOver 1.5/2

Orca 2/2

Forrit: MS Powerpoint 2007, Open Office Impress og KeyNote.

Það sem við skoðuðum:

• Er hægt að fara milli glæra í kynningu og lesa titil glæru?

• Er hægt að lesa texta á glæru?

Við athuguðum hvort titill glæru og texti glæru séu lesin í hverju tilfelli fyrir sig.

Þarna koma Hal og Jaws vel út, NVDA missir hálft stig í hvorum lið því það er einungis hægt að gera þetta í Open Office Impress forritinu og það gekk ekki nógu vel. Það er ekki einfalt að fá textann lesinn og í raun ekki á færi reynslulítilla notenda. VoiceOver er einnig snúið í notkun og stundum les það ekki fyrstu setningu á hverri glæru svo það missir hálft stig. Orca skjálesarinn vinnur ágætlega með Open Office Impress og fær fullt hús stiga í þessum hluta prófananna.

4. Skjálesarar og vefskoðun

Stigagjöf fyrir vefskoðun

Hal 16/17

Jaws 17/17

NVDA 15.5/17

VoiceOver 12.5/17

Orca 9/17

Forrit: Internet Explorer 8, Safari og Firefox 3,5

Það sem við skoðuðum:

• Er hægt að hoppa milli fyrirsagna, reita, hnappa, ramma, kennileita og gátreita á einfaldan hátt (helst með einum hnappi)

• Er hægt að nota Flash sem hannað er með aðgengi í huga

• Er hægt að velja úr vallista á síðu, bæði venjulegum og einnig lista þar sem nóg er að færa bendil á hlut svo hann veljist sjálfkrafa

• Er hægt að hoppa yfir lista af tenglum

• Er hægt að fá alla tengla á síðu upp í listaboxi

• Er hægt að velja útvarpshnapp og lesa hvaða gildi er valið

• Er hægt að fylla út einfalt eyðublað á vefsíðu

Þennan hluta töldum við afar mikilvægan þar sem netið er í sívaxandi mæli ástæða þess að fólk kaupir sér tölvu eða annað samskiptatæki. Netið er einnig samansafn margra forrita og viðmóta og nær ómögulegt væri að komast yfir alla þá möguleika sem til eru í svona samanburði. Við reyndum því að prófa alla grunneiginleika vefskoðunar og treysta svo á þá sem smíða heimasíður til að vinna heimavinnuna sína og að þeir hanni síðurnar þannig að þær uppfylli þau skilyrði sem sett eru um aðgengi og vefviðmót. Við völdum að skoða 13 atriði en sum þeirra töldum við það mikilvæg að þau giltu á við tvö önnur, svo 17 stig voru í boði. Fyrir þá sem vita ekki hvað kennileiti (landmarks) eru, þá er það nýleg viðbót við vefsíður og er þeim ætlað að gera flókna hluti á borð viðhnappa og valmyndir sem hannaðir eru með Ajax tækninni, aðgengilega skjálesurum. Svona tækni er æ vinsælli á ýmis konar samskipta- og verslunarvefjum og því mikilvægt að aðgengi að þeim sé tryggt. Internet Explorer 8 og nýrri útgáfur styðja kennileyti og Firefox 3.5 og nýrri útgáfur einnig. Skjálesarar styðja þessa tækni misvel en framleiðendur og þróunaraðilar skjálestrar hugbúnaðar hafa þó sýnt viðleitni í þá veru að styðja þennan eiginleika.

Einnig þarf að útskýra hvað átt er við með vallista þar sem atriði velst sjálfkrafa. Þessa lista mætti kalla hopplista, en svo skemmtilega vill til að þeir kallast „jump menu´s“ á ensku. Þegar bendill er færður yfir hlut í listanum heldur tölvan að notandi hafi valið hlutinn og hoppar þá bendillinn í næsta reit eða ný síða kemur upp eins og notandi hafi valið viðkomandi atriði. Því velst alltaf efsti hlutur í lista nema skjálesari bjóði upp á aðferð til að komast fram hjá þessu, þ.e.a.s. með því að velja úr lista í sýndarfókus og nota svo dálklykilinn til að fara úr því þegar réttur hlutur hefur verið valinn.

Dæmi um svona lista er t.d. að finna á síðunni: http://webaim.org/techniques/javascript/eventhandlers#onchange(liður #5)

Alls voru 17 stig í pottinum í þessum hluta. Hal fékk 16 stig (útgáfan sem við prófuðum af Hal kannast ekki við kennileitin), Jaws fékk fullt hús stiga og NVDA fékk 14 og hálft stig. Ástæðan er sú að NVDA styður ekki ramma og átti einnig í nokkrum vandræðum með Flash tæknina, en reyndar er Internet Explorer stuðningur í NVDA tiltölulega nýkominn en hefur samt sem áður tekið miklum framförum frá prófunum okkar í fyrra. VoiceOver fékk 12.5 stig því þar vantar allan stuðning við Flash tæknina, kennileiti ganga ekki með VoiceOver og Safari og okkur tókst ekki almennilega að hoppa milli "gátreita" á síðu, en slíkt getur verið afar þægilegt t.d. í GMail viðmótinu. Okkur fannst almennt mjög óþægilegt og langdregið að vinna með VoiceOver á netinu meðal annars vegna þess að ekki er hægt að nota lyklaborðið til að styðja á einn hnapp og finna næstu fyrirsögn eða hnapp á síðunni. Alltaf þarf að virkja aðgengisskífuna svokölluðu (kallað „rotor“ á ensku), finna viðeigandi hlut og velja hann. Eftir þá aðgerð dettur síðan fókusinn aftur inn á vefsíðuna. Ef við hefðum gefið refsistig fyrir hvernig okkur fannst almennt að vafra á netinu með VoiceOver þá hefði forritið líklega fengið um fimm stigum minna. En okkur hefur líka verið sagt að þetta sé eiginleiki sem notendur þurfi að venjast og þjálfa sig í og við höfðum einungis nokkra daga til prófananna. Að lokum fékk Orca skjálesarinn á Linux með Firefox vafranum ekki nema níu stig. Flash virkaði ekki, rammar virkuðu ekki, ekki var hægt að fá lista yfir alla tengla á síðu í listboxi, ekki var hægt að hoppa milli innsláttarreita eða hnappa á síðunni heldur. Í raun má segja að hægt sé að fara á netið með þessum forritum og skoða flestallt sem þar er boðið upp á. Með Jaws, Hal og NVDA er hægt að hoppa milli hluta og með smá þjálfun er hægt að skoða vefsíður mjög fljótt og örugglega. Apple hefur sína nálgun á þetta sem við þurfum að venjast en gæti orðið mjög góð, sérstaklega núna þar sem Apple er farið að bjóða upp á snertiviðmótsmöguleika á öllum sínum ferðatölvum, en það er eitthvað sem við prófuðum ekki í sumar. Linux og Orca tæknin er ennþá brúkleg en okkur finnst hún talsvert síðri en hinir kostirnir enn sem komið er, þó vissulega sé mikil vinna í gangi við að bæta forritið.

5. Skjálesarar og spjallforrit

Stig fyrir skjálesara með spjallforritum:

Hal 6/6

Jaws 6/6

NVDA 4/6

VoiceOver 3.5/6

Orca 6/6

Forrit: MSN Messenger, Adium og Pigeon.

Það sem við skoðuðum:

• Lætur skjálesari vita þegar skilaboð berast og frá hverjum þau eru (miðað er við að notandi sé ekki í spjallglugga)

• Er hægt að lesa, og afrita, samtal í spjallglugga frá upphafi án þess að vista það og opna í textaskrá

Fjöldi þeirra sem nota spjallforrit á netinu er alltaf að aukast og því fannst okkur tilvalið að skoða helstu spjallforritin sem verið er að nota. Þau eru MSN Messenger í Windows, Pidgin Messenger á Linux og Adium Messenger á Apple vélinni. Við athuguðum hvort skjálesari láti notanda vita þegar honum eru send skilaboð, hvort hann geti lesið samtalsglugga, hvort hann geti afritað texta úr spjallglugga og hvort hann geti sent, og tekið við, skrám í gegnum spjallglugga. Hér vill svo til að Hal, Jaws og Orca skjálesararnir fá allir fullt hús stiga, Hal og Jaws með MSN Messenger en Orca með Pidgin. Okkur var sagt að Miranda Messenger virkaði einnig vel á Windows stýrikerfinu en okkur hefur ekki gengið vel að fá hann til að framkvæma þær aðgerðir sem skildi prófa. NVDA tilkynnir ekki, þegar unnið er með Miranda Messenger, þegar fólk fer inn og út af tengiliðalistanum og tilkynnir ekki heldur um ný skilaboð nema notandi sé í spjallglugganum. Slíkt gerir það nær ómögulegt að spjalla á netinu meðan notandi er að gera eitthvað annað. Það er kannski gott fyrir afköstin í vinnunni hjá umræddum notanda en það gerir jafnframt spjallforrit harla gagnslaus. Þess vegna verður NVDA hér af tveimur stigum. VoiceOver stendur sig heldur ekkert sérstaklega vel. Það lætur notanda vita ef einhver sendir skilaboð, en segir ekki frá hverjum þau eru. Það er heilmikið ferli að fara í gegnum allt samtalið til að sjá nýjustu skilaboðin og ef ný skilaboð birtast á meðan notandi er að fara í gegnum samtalið þá þarf hann að byrja upp á nýtt efst í spjallglugganum. Sama gildir þegar notandi vill taka við skrá í gegnum spjallið og VoiceOver les ekki heldur þegar fólk er að skrá sig inn og út af tengiliðalista. Okkur fannst þetta svo óþjált og langt ferli að í rauninni finnst okkur ekki hægt að nota VoiceOver til að spjalla á netinu miðað við þessar tilraunir. Við töluðum við Apple notanda í Danmörku og hann sagðist eiginlega hafa gefist upp á netspjallinu, svo þetta eru ekki bara einhverjar dylgjur í okkur. VoiceOver fékk semsagt þrjú og hálft stig af sex, en á í raun mun minna skilið.

6. Spjallforritið Skype

Stigagjöf fyrir Skype

Hal 6/6

Jaws 5/6

NVDA 4/6

VoiceOver 3/6

Orca 6/6

Það sem við prófuðum með Skype:

• Hvort hægt sé að sjá lista yfir tengiliði (contacts) og hvort viðkomandi sé skráður inn á Skype.

• Hvort hægt sé að sjá hver er að hringja áður en símtali er svarað

• Hvort hægt sé að nota spjallgluggann í Skype

• Hvort hægt sé að bæta við nýjum tengilið.

Skype nýtur sívaxandi vinsælda sem samskipta- og fundaforrit fyrir fólk sem vill losna við símreikningana sína, til að tala við vini og vandamenn víða um heim og er að okkar mati  nógu vinsælt til að fá sinn eigin flokk í þessum prófunum. Við notuðum Skype 4.2.0.169 fyrir Windows en settum Linux vélina upp með Skype og Pidgin (sem er hefðbundna leiðin til að gera Skype aðgengilegt á Linux) og keyrðum svo Skype fyrir Apple á Applevélinni.

Það voru heil 6 stig í pottinum. Orca og Hal stóðu sig best og fá fullt hús stiga. Orca og Hal lesa nafn þess sem er að hringja, en ekkert hinna forritana gerir það. Jaws fékk 5 stig því við fundum enga leið til að fá Jaws til að tilkynna nafn þess sem er að hringja án þess að svara. NVDA getur ekki lesið spjallgluggann og fær því fjögur stig og VoiceOver getur hvorki lesið spjallgluggann né hvort notandi sé á netinu eða ekki í notendalista Skype og fær einungis þrjú stig fyrir vikið.

7. Lestur .pdf skjala

Stigagjöf fyrir lestur .pdf skjala:

Hal 2/5

Jaws 5/5

NVDA 5/5

VoiceOver 2/5

Orca 0/5

Það sem við skoðuðum með .pdf:

• Er hægt að lesa aðgengilegt .pdf skjal

• Er hægt að finna tengla í aðgengilegu .pdf skjali

• Er hægt að fylla inn reiti í .pdf eyðublaði sem hannað er á aðgengilegan hátt

Þetta var síðasta prófun okkar í þetta skiptið. Við tókum eitt stórt en aðgengilegt .pdf skjal og annað .pdf eyðublað sem var búið til með aðgengi í huga. Við athuguðum einfaldlega hvort hægt sé að lesa texta í aðgengilegu .pdf skjali, hvort hægt sé að fylla út reiti í aðgengilegu eyðublaði, þ.e. gefur skjálesarinn til kynna að hér sé reitur og les hann upplýsingar um reitinn. Að lokum prófuðum við hvort hægt væri að finna og smella á texta sem inniheldur tengil í .pdf skrá. Fimm stig voru í pottinum og fengu Jaws og NVDA fullt hús stiga. Dolphin og VoiceOver gátu lesið innihald .pdf skjals en gátu ekki fundið tengla og ekki lesið upplýsingar til að fylla inn í eyðublað. Orca gat hreinlega ekkert gert með pdf skjöl. Hér má geta þess að síðar athuguðum við hvort skjálesarar geti farið milli fyrirsagna og fundið lista í .pdf skjölum. Jaws og NVDA gerðu þetta fullkomlega en Hal gat þetta ekki. Slök frammistaða Hal kom okkur talsvert á óvart og við tilkynntum vandamálin til Dolphin. Talsmenn þeirra hafa lofað úrbótum í útgáfu 12 sem kemur síðar í haust, eins og fram kemur í þessum tæknimola.

Hver er svo heildareinkunn skjálesaranna okkar í þessum prófunum:

Við reiknuðum einkunnina út frá stigagjöfinni og uppfærðum hana yfir í skala frá einum og upp í tíu. Jaws og Hal fá báðir einkunnina 9.3 þó Jaws hafi reyndar fengið einu stigi meira.

Í þriðja sæti er NVDA með 7.5. VoiceOver er í fjórða sæti með 6.3 og Orca rekur hugbúnaðarlestina með 5.9. Við sjáum hér að NVDA gæti komist vel yfir 8 ef punktaletursstuðningur hugbúnaðarins yrði bættur. Hönnuðir NVDA bjuggu til verkáætlun um hversu mikinn tíma það myndi taka og var það áætlað sem um þrír mánuðir fyrir forritara í fullu starfi, eða milli einnar og einnar og hálfrar milljónar króna. Það jafngildir verði á fjórum til fimm leyfum fyrir Hal svo dæmi sé tekið og væri því óskandi að einhverjum tækist að fjármagna þessa þróun notendum til góðs. Rétt er að taka fram að þó Hal og Jaws fái sömu einkunn og NVDA sé ekki langt undan er þetta ekki merki þess að heildargæði skjálesarana séu svipuð, einungis að það munar ekki miklu við þau verkefni sem við völdum og eru tiltölulega einföld. Jaws er, án efa, öflugasti skjálesarinn í dag vegna þess hversu mörg forrit það styður og vegna þess að hægt er að búa til stýriskrár til að virkja það í öðrum forritum. En taka skal fram að þetta getur HAL líka. Hjálpin í Jaws og kennsluefni um hvernig eigi að nota forritið er mun viðameiri en fyrir hina skjálesarana. Hal hefur vissulega margt af þessu en vantar þó aðeins upp á, sérstaklega hvað varðar kennsluefni um notkun. Þessi tvö forrit skera sig verulega úr hópnum varðandi upplýsingargjöf og hæfileika til að sníða forritin að nýjum aðstæðum. Þó VoiceOver hafi kannski ekki komið eins vel út og við vonuðumst til þá vitum við að Apple er enn í sókn. Það sem okkur fannst raunar óþægilegast við VoiceOver er hversu lítið það styður flýtilykla af lyklaborði. Það þarf alltaf að fara í gegnum sama ferlið til að framkvæma aðgerð hvort sem hún er einföld eða flókin. Vissulega er þetta hluti af hönnuninni og Apple telur þetta nauðsynlegt svo notendur viti alltaf hvað gera skuli, en þetta veldur talsverðum seinagangi, sem og því að vanir notendur geta ekki sparað sér tíma við að framkvæma hluti sem þeir þekkja vel á fljótlegan hátt. Apple fyrirtækið er nú að ráða til sín blinda og sjónskerta forritara í stríðum straumum svo fastlega má búast við stórbættri frammistöðu VoiceOver á næsta ári. Að lokum vitum við að það er mikið að gerast í kringum Orca, en þá er átt við þróun Gnome 3 útgáfunnar sem á meðal annars að hafa í för með sér talsverðrar þróun á þeim skjálesara.

Hvað kom okkur mest á óvart?

Fyrst ber að nefna að við urðum fyrir vonbrigðum með frammistöðu VoiceOver forritsins. Við höfðum heyrt að það væri bylting í aðgengi blindra tölvunotenda að Appletölvum og að VoiceOver skjálesarinn væri fyrsta alvöru skjálestrarforritið sem væri innbyggt í stýrikerfið sjálft. Vissulega ber það höfuð og herðar yfir t.d. Narrator forritið í Windows en ekki er hægt að reiða sig á VoiceOver sem stendur til tölvunotkunar í atvinnuskyni. VoiceOver er fremur seinvirkt og það tekur tíma að venjast því í vinnslu með öðrum forritum. En taka skal fram að þá erum við að ganga út frá að notandi hafi reynslu af Windows skjálestrarforritum. NVDA heldur áfram að bæta sig og með betri stuðningi við Word og betri punktaletursstuðningi getum við ímyndað okkur að það gæti vel hentað mörgum notendum. NVDA hefur tekið miklum framförum síðan 2009 og styður nú Internet Explorer með prýði, sem var ekki raunin fyrir ári, svo dæmi sé nefnt.

Vissulega er töflureiknisstuðningur NVDA ekki upp á marga fiska, en það eru margir notendur sem koma ekki nær töflureiknum en þeir þurfa og þess vegna hefur töflureiknisstuðningur kannski ekki verið efst á forgangslista þróunaraðila. Við erum því mjög sáttir við NVDA og framfarirnar sem hugbúnaðurinn hefur tekið og okkur finnst alls ekki fjarstæðukennt að NVDA standi sig álíka vel og Hal og Jaws eftir eitt til tvö ár, þrátt fyrir að kosta ekki neitt. Okkur finnst Hal hafa bætt sig á ýmsum sviðum og fyrir utan afspyrnuslakan stuðning við .pdf skjöl, þá hefur bilið milli Jaws og Hal minnkað á árinu. Þetta kom nokkuð á óvart og er það jávætt að Dolphin menn leggi metnað í að bæta sínar vörur, en því miður hefur Freedom Scientific fyrirtækið sem framleiðir Jaws, einblínt meira á lagaferli þeirra og einkaleyfisdeilur en framþróun hugbúnaðarins sjálfs. Við vonum svo sannarlega að þetta breytist, en miðað við þróunina í okkar prófunum gæti Jaws hreinlega dottið af toppnum á næsta ári.

Eitt er rétt að benda á þegar fjallað er um framleiðendur aðgengishugbúnaðar, en það er að viðhorf þeirra gagnvart kröfum notendahópsins um aðgengi að fleiri tegundum af sértækum forritum sem notuð eru á atvinnumarkaðnum er afar mismunandi. Dolphin Computer Access hefur markað sér ákveðna sérstöðu hvað varðar stuðning HAL hugbúnaðarins við önnur forrit, en það er viðleitni framleiðandans í að gera önnur forrit aðgengileg með Dolphin vörum. Þetta er gert með því að nýta sér svokallaðar map skrár. Ef notandi er að vinna í hugbúnaði sem hefur hnappa eða stikur, svo eitthvað sé nefnt, sem ekki eru lesnar af Dolphin skjálesaranum – þá hefur framleiðandinn um árabil boðið sínum notendum upp á að útbúa sérsniðnar map skrár fyrir þau forrit, notanda að kostnaðarlausu, í því felst sérstaðan. Þessi viðleitni þekkist nefnilega  ekki hjá samkeppnisaðilum Dolphin og tökum við því ofan fyrir þeim. Það mættu fleiri taka sér þetta til fyrirmyndar.

En svo við höldum áfram með okkar samantekt þá urðum við fyrir nokkrum vonbrigðum með Orca skjálesarann. Mikið hefur verið gert úr því hversu einfaldur hann er og að Linux stýrikerfið sé ókeypis og öflugur kostur fyrir blinda notendur jafnt sem aðra. Það er nokkuð til í því en okkur fannst Orca og Linux þjást af sama vandamáli og hefur oft háð Open Source forrit. Það eru ekki nægjanlega „notendavænar“ leiðbeiningar sem fylgja með þeim og margt í fari skjálesarans verður að gera og stilla handvirkt. Okkur sýnist vera ákveðin tækni og nördasnobb í gangi og að enn sé ekki verið að hugsa um hinn venjulega Jón Jónsson sem finnst ekki gaman að skrifa stilliskrár og eyða mörgum dögum í að setja upp tölvuna hjá sér. Orca lofar góðu og það þarf tiltölulega lítið til að einfalda þetta ferli til muna svo við munum fylgjast vel með á næstunni, sem og endranær. Við munum koma þeim skilaboðum á framfæri við póstlista Orca að leggja þurfi meiri áherslu á þróun notendaviðmóts ef Orca á að keppa við hinar lausnirnar sem við skoðuðum. Þar að auki munum við eyða meiri tíma í að skoða Orca sem hluta af Vinux stýrikerfinu og Sue skjálesaranum, en þessi kerfi eiga öll að geta unnið saman og veitt notanda meiri stuðning en Orca eitt og sér.

Í heildina getum við sagt að flestir skjálesararnir geti gert það sem búast megi við og að hægt sé að nota þá til að skoða sig um á stjórnborði tölvunar, bæta við og eyða út forritum og skoða möppur og skrár. En notandi þarf að reiða sig á talgervilinn að langmestu leyti ef hann er ekki með Hal eða Jaws á Windows-vél sökum vandræðna með punktaletursstuðning eins og áður hefur komið fram.

Hvað gerist næst?

Við sáum þessar tilraunir fyrir okkur sem árlegt ferli þar sem við gætum borið saman, á sem hlutlægastan hátt, helstu valkosti sem blindum tölvunotendum er boðið upp á.

Heimspeki okkar er sú að í hinum fullkomna heimi eigi notendur að geta valið nákvæmlega þann hugbúnað sem hentar þeim og þeirra aðstæðum best. Með því að gera tilraunir sem þessar erum við vel í stakk búnir til að ræða þessa kosti við þá sem hafa áhuga eða mæla með lausnum á ákveðnum hugbúnaðarvandamálum sem eru að hamla fólki við tölvuvinnu sína. Raunveruleikinn er sá að stofnanir þurfa að velja og hafna forritum og setja sér starfsreglur um hvaða búnaði er úthlutað. Á því sviði getum við notað þá reynslu sem fékkst í tilraununum til að mæla með því sem við teljum bestu og hagkvæmustu lausn fyrir þann notenda sem um er að ræða hverju sinni. Ef notandi fær sér Linux- eða Apple vél getum við núna boðið upp á einfalda leiðarvísa og ættum að geta svarað helstu spurningum um hvað er í boði í slíkum vélum. Almennt virðist tölvubúnaður vera mikið að breytast ásamt því sem nýjar hugsjónir og möguleikar í aðgengismálum spretta upp eins og gorkúlur. Í rauninni er valið að verða æ flóknara og því mikilvægt að við höfum puttann á púlsinum í þessum efnum.

Hvað er hægt að segja um þróun aðgengishugbúnaðar almennt?

Eins og áður hefur komið fram í skrifum okkar, t.d. um ferðina á CSUN 2010, þá finnst okkur ánægjulegt að sjá að notendur eru farnir að gera ákveðnar kröfur um aðgengi að vél- og hugbúnaði sem þeir kaupa sér. Einnig er ákveðin bylting í því hversu hreyfanlegir skjálesarar eru orðnir. Ekki nóg með að Jón Jónsson geti sótt sér NVDA ókeypis á netið og sett upp á Windows vélinni sinni, heldur getur hann líka skellt forritinu á USB lykil og notað tölvu vinar síns, foreldris eða kennara einfaldlega með því að setja USB lykilinn í tölvuna. Þetta auðveldar til muna allan aðgang Jóns Jónssonar að tölvum og upplýsingum og gerir honum mun auðveldara fyrir að vinna með sjáandi félögum sínum að verkefnum, hvar sem er og hvenær sem er. Það er ekki þar með sagt að við viljum sjá endalok og hrun íburðarmeiri, öflugri og dýrari skjálesaranna sem við erum vanir. Frekar sjáum við fyrir okkur að hlutverk hinna hefðbundnu skjálesara verði að styðja flóknari og sérhæfðari forrit og tækni sem blindir notendur þurfa á að halda við vinnu og störf. Erum við þá að hugsa um tónlistarforrit, töflureikna, forritunarumhverfi, bókhaldsforrit o.s.frv. Það var upphaflega hugsjónin sem lá að baki þessara forrita og nægir þar að benda á að Jaws stendur fyrir „Job Access with Speech“ eða aðgengi að vinnu með talgervli.

Sumir í aðgengisheiminum halda því fram að það sé orðið hlutverk stýrikerfisins að sjá um allt aðgengi notanda og telja Apple-leiðina liggja til bjartrar framtíðar. Eftir reynslu okkar í sumar teljum við þetta ekki endilega bestu lausnina þar sem VoiceOver lausnin studdi eingöngu vinsælustu forritin á tölvunni en var nær almáttlaus þegar kom að því að keyra flóknari og sérhæfðari forrit. Það gagnast blindum forritara lítið að hafa fullan aðgang að iTunes, geta útbúið lagalista og farið á netið ef hann getur ekki unnið í forritunarumhverfi.

Sem áður sagði er tölvunotkun almennt að gjörbreytast og færast meira yfir á örtölvur og síma og ný stýrikerfi eins og Android eru að ryðja sér til rúms. Því sjáum við í raun fyrir okkur að við þurfum að breyta áherslum við prófanir strax á næsta ári og skoða möguleika sem Android símar og iPhone síminn bjóða upp á, hvort sem það yrði sérsamanburðarverkefni eða að við bærum þessi tæki saman við hefðbundnari tölvur og skjálestrarforrit. Vissulega er þessi nýja þróun spennandi og við erum farin að sjá skjálesara fyrir Blackberry síma og fleiri tæki, en hættan er óneitanlega sú að framleiðendur þessara tækja hanni forrit sem dugar 90% blindra notenda í 90% tilfella og telji sig þar með hafa unnið það vel að ekki þurfi að gera betur. Þeir geta svo bent hver á annan og enginn einn þarf að leysa notendaviðmót sitt 100%. Staðan í dag er sú að það er á ábyrgð tveggja til þriggja fyrirtækja að leysa öll aðgengisvandamál notenda og því alveg ljóst hvert skal leita með vandamál. Það verður því enn mikilvægara þegar þar að kemur að óháður aðili geti bent á kosti og galla lausnarinnar miðað við aðrar lausnir og tryggt að framleiðendur stýrikerfa fái ekki ákvörðunarvald um hvað blindir notendur geta og geta ekki gert. Við sjáum því í raun síaukna þörf á tilraunastarfi sem þessu og vonumst svo sannarlega til þess að fá tíma og tækifæri til að halda þessum tilraunum áfram og að lærdómurinn sem út úr þeim kemur gagnist okkur, notendum okkar og blindu fólki innanlands sem utan.

Birkir Rúnar Gunnarsson og Hlynur Már Hreinsson ráðgjafar

Til baka