Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
28. október 2010

iPod Touch umfjöllun

Nú í sumar lét ég verða af því að kaupa mér Ipod touch, sem er ásamt iPhone, nýjasta æðið frá Apple-fyrirtækinu. Ipod touch hefur þá sérstöðu að sárafáir hnappar eru á honum en öll framhliðin er snertiskjár. Nóg er að snerta mismunandi skjámyndir til að virkja þær. Þetta hljómar náttúrulega fullkomlega óaðgengilegt fyrir blinda og sjónskerta en Apple hefur hannað skjálesara sem gerir blindum og sjónskertum kleift að nýta sér þessa eðalgræju. Og það besta af öllu er að skjálesarinn er innbyggður í alla Ipod touch 32og 64 gb og kostar ekki neitt aukalega. Hann virkar í stórum dráttum þannig að þegar hlutur á skjánum er snertur segir Ipodinn hvaða hlutur er valinn. Til að virkja hlutinn er tvísmellt með einum fingri hvar sem er á skjáinn. Þannig þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að virkja vitlausan hlut. Auk þess eru þónokkrar bendingar fyrir nytsamlegar aðgerðir í spilaranum svo sem að tvísmella með tveimur fingrum til að setja á pásu og spila og tvísmella með þremur fingrum til að slökkva og kveikja á talgervlinum.

Ipod Touch er ekki aðeins tónlistarspilari heldur er innbyggt í hann póstforrit, netvafri, einfalt ritvinnsluforrit, upptökutæki og margt fleira. Bæði er í honum þráðlaust netkort og bluetooth-tengi. Hægt er að nota bluetooth-tenginguna til að tengja við hann þráðlaus heyrnartól, hátalara,  lyklaborð og punktaletursskjái sem bjóða upp á bluetooth.

Þegar ég prófaði Ipodinn minn í fyrsta skipti virtist snertiskjárinn örlítið ruglingslegur og ég átti í erfiðleikum með að finna þá hluti sem ég vildi nota. Sá fasi stóð hins vegar ekki í nema svona kannski 2 mínútur. Eftir þann tíma gat ég stýrt spilaranum án allra meiri háttar vandræða. Ef ég lendi í vandræðum með að finna eitthvað á skjánum er skjálesaraaðgerð sem leysir það mál. Ef einum fingri er rennt hratt til hægri eða vinstri hoppar skjálesarinn yfir á næsta eða síðasta hlut á skjánum líkt og þegar við notum tab og shift+tab í tölvunni til að hoppa á milli hluta. 

Það besta við Ipod Touch finnst mér vera að geta loksins verið með aðgengilegan spilara fyrir tónlistina mína. Spilarinn er t.d. mun aðgengilegri en flest tónlistarforrit sem ég hef prófað með venjulegum tölvuskjálesara. Hvorki Itunes  né Windows Media Player eru til dæmis sérlega aðgengileg með Hal-skjálesaranum. Reyndar stendur NVDA-skjálesarinn sig mun betur í þeim efnum. En Itunes9 er fullkomlega aðgengilegt með honum.

Skemmtilegur möguleiki í Ipod touch er Itunes store sem er aðgengilegt í gegnum hann. Við Íslendingar þurfum að vísu að beita dálitlum bellibrögðum til að geta fengið aðgang að því. Áhugasamir geta farið inn á www.eplakort.com

Í Itunes store er ásamt gríðarlega miklu úrvali af tónlist og kvikmyndum hægt að ná í mikið magn af litlum forritum fyrir Ipod touch og Iphone. T.d. er hægt að nálgast samskiptaforritin Skype og Live Messenger, heilu uppskriftabækurnar, sjálfsdáleiðsluforrit, kennsluforrit í tungumálum, tölvuleiki, næringarreiknivélar og margt fleira.

Mörg þessara forrita eru ágætlega aðgengileg en önnur ekki. 

Einn  þeirra hluta sem ég varð hvað mest undrandi yfir er hversu auðvelt er að tileinka sér að skrifa á snertilyklaborðið sem Ipodinn notast við í ritvinnslu. Þá birtist neðst á skjánum smækkuð mynd af venjulegu tölvulyklaborði. Til að skrifa finnst mér gott að nota tvo fingur hvorn sínu megin á lyklaborðinu.Ég finn svo þann staf sem ég vil skrifa með því að renna fingrinum eftir skjánum og smelli svo á skjáinn með öðrum fingri. Þá skilur Ipodinn það sem tvísmellingu og skrifar stafinn inn. Þetta verður auðvitað seint jafn þægilegt og hefðbundin vélritun og gæti kannski reynst snúnara fyrir þá sem hafa ekki skýra mynd af lyklaborði í höfðinu en þó er hægt að ná ágætis hraða í að skrifa á þennan hátt.

Stór galli við Ipod Touch er sá að íslenska er ekki studd í honum, hvorki sem talgervill né tungumál kerfisins. Því miður lítur ekki út fyrir að Apple ætli að gera eitthvað í þessu alveg á næstunni en við vonum það besta. Auk þess eru Daisy-bækur ekki studdar vel þó hægt sé að spila þær.

Eins og áður kom fram kemur Itunes og Hal ekkert sérstaklega vel saman en Itunes er nauðsynlegt til að hlaða inn á Ipodinn. Þegar búið er að tengja Ipodinn í fyrsta skipti og stilla hann í Itunes er í rauninni nóg að tengja ipodinn við tölvuna. Þá opnar hann Itunes sjálfkrafa, hleður inn nýrri tónlist og uppfærir sig þannig að skjálesari er ekki nauðsynlegur nema í fyrsta skiptið.

Með góðum vilja er hægt að tengja Ipodinn við Itunes með því að nota Hal en persónulega mæli ég með því að hlaða niður NVDA þar sem það er fullkomlega aðgengilegt með Itunes.

Þegar á heildina er litið finnst mér Ipod Touch til fyrirmyndar að flestu leyti. Hann er flottur, einfaldur í notkun, aðgengilegur fyrir bæði blinda og sjónskerta auk þess sem hægt er að stýra honum með röddinni auk þess sem hann býður upp á marga sniðuga möguleika. Í mjög stuttu máli er þetta flott græja sem er „algert möst“ fyrir alla þá sem hafa gaman af flottri tækni.

Eyþór Þrastarson, ráðgjafi

Til baka