Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
2. nóvember 2010

iPhone: Besta græja í heimi, eða enn ein auglýsingabrellan frá Apple?

Mikið hefur verið látið af iPhone símanum frá Apple og hefur hann prýtt eyru þúsunda blindra einstaklinga víða um heim.

Ástæðurnar eru nokkrar:

Þetta er fyrsti síminn sem kemur með innbyggðan skjálesara: VoiceOver á iPhone 3gs og iPhone 4. Aðgengilegt snertiskjásviðmót, fyrsta sinnar tegundar sem nær einhverri útbreiðslu og þessi sími getur gert allt sem símar og tölvur og GPS tæki geta gert.

Á öllum venjulegum mörkuðum er iPhone sími ódýrari en Nokia sími + MobileSpeak leyfi: því miður er Ísland, enn sem komið er, ekki það sem kalla mætti venjulegur markaður.
Að endingu má benda á að síminn er jú frá Apple og þeir kunna að auglýsa sínar vörur. Stundum er hlutum þó hrósað meira en þeir eiga skilið og við vorum á þeirri skoðun eftir tilraunirnar með VoiceOver skjálesarann á Appletölvu í sumar. En við vildum að sjálfsögðu prófa græjuna og með aðstoð Blindrafélagsins og AT&T símafyrirtækisins, sem var tilbúið að bjóða mér hræódýran síma ef ég héldi áfram að vera í viðskiptum við þá, lét ég loks verða af því að fá mér 16 gígabæta iPhone 4 síma í síðustu viku.

Ætlunin er að skrifa þrjá tæknimola um símann. Þann fyrsta um útlit og helstu eiginleika, næsta mola um hvernig vinna megi með snertiskjá og að lokum um helstu samskiptaforrit, kosti og galla af því að nota iPhone frekar en símana sem við eigum að venjast. Hafið í huga að ég skrifa þetta algjörlega út frá minni reynslu þó ég reyni að vera eins hlutlaus og mögulegt er. Ég mun frekar reyna að vera gagnrýnin heldur en hitt.

iPhone síminn fæst á Íslandi en kostar, þegar þetta er skrifað, 180.000.kr hjá Nova, sem er  brjálæðislegt. Ef einhver vill kaupa sér síma að utan þarf hann að vita hvort síminn sé læstur við ákveðið símafyrirtæki (síminn minn er t.d. læstur þannig að ég get ekki notað hann nema hjá AT&T). Ólæstir símar í Kanada eru að fara á um það bil 100.000.kr en einnig getur fólk látið aflæsa símunum, þó það sé strangt tiltekið ekki endilega löglegt og Apple hættir að taka ábyrgð á símum sem hafa verið „opnaðir“ með þessum hætti.

Við ætlum alls ekki að hvetja til athafna sem sum stjórnvöld - og Apple vissulega - telja ólöglegar svo allar svona aðgerðir eru alveg á ábyrgð ykkar sem notenda, en það er mikilvægt að fólk átti sig á þessu áður en það fjárfestir í síma. Það þarf að vita hvort síminn sé læstur, ólæstur frá Apple (Factory Unlocked) eða hvort seljandi símans hafi aflæst hann sjálfur, slíkt kallast oft jailbreak/jailbroken phone á ensku.

Hvorki eru til íslenskir stafir í iPhone né íslensk rödd fyrir símann eins og staðan er í dag, en það er mögulegt að útbúa hugbúnaðarpakka fyrir íslenskan talgervil sem gæti gengið með símanum. Aðalástæðan fyrir því að iPhone símarnir eru svona vinsælir fyrir blinda notendur er hversu mörg forrit sem keyra á þeim eru aðgengileg. Ástæða þess er hins vegar sú að þeir sem búa til forrit fyrir símanna verða að nota forritunarumhverfi og kjarna sem Apple stjórnar, og þannig er um helmingur forrita sem búinn er til fyrir símanna aðgengilegur án breytinga. Fyrir Nokia símana (sem keyra á Symbian 60 stýrikerfinu) er hægt að nota amk. 4 mismunandi kjarna og sá sem þróar hugbúnaðinn þarf að leggja aukavinnu í að tryggja aðgengi hans, og slíkt er því miður yfirleitt ekki efst á gátlista framleiðenda símahugbúnaðar í dag. Fyrir notanda þýðir þetta að hann verður að hafa reikning á iTunes forritinu sem heyrir undir Applesíðuna þar sem hægt er að sækja sér hugbúnað (AppStore). Það þarf að setja hann upp á www.itunes.com heimasíðunni, og fyrir fólk sem er ekki vant iTunes er það svolítill hausverkur. Á móti kemur að þegar búið er að setja símann upp með notendanafni á iTunes þarf að smella á tvo takka til að sækja og setja upp nýtt forrit (fyrir utan að slá inn lykilorðið). 

iPhone 3G og eldri símar eru ekki aðgengilegir með VoiceOver, einungis iPhone 3GS (16gb og stærri, ekki 8gb) sem og einnig iPhone 4. Við mælum eindregið með iPhone 4 þar sem hann hefur fullan Bluetooth stuðning (svo hægt er að nota Bluetooth lyklaborð og punktaletursskjái) og 5 megapixla myndavél (forrit sem skanna og lesa texta eru að koma á markaðinn fyrir iPhone síma en það þarf að lágmarki 5 megapixla myndavél til að notfæra sér slíkan hugbúnað). Meira má lesa um muninn á iPhone 3gs og iPhone 4 á síðunni: http://www.apple.com/iphone/compare-iphones/ Allir aðgengilegir iPhone símar eru með GPS tækni, öflugan örgjafa, áttavita og fleira. 

Af gefinni reynslu myndi ég mæla með eftirfarandi fyrir þá sem eru að hugsa um að kaupa síma:

Kaupið hylki og skjáhulu (case and screen protector) með símanum til að vernda snertiskjáinn og símann sjálfan.
Setjið strax upp iTunes reikning (ef þið hafið ekki gert það nú þegar).
Notið vinsælt póstumhverfi, til dæmis GMail, þá er hægt að setja upp símann með póstinum ykkar á 10 sekúndum, þarf að velja "Mail, GMail," og skrifa inn notandanafn og lykilorð og staðfesta.
Kaupið Bluetooth lyklaborð svo þið getið skrifað lengri texta með símanum og notað hann með pósti, á netinu o.s.frv. Hægt er að nota lyklaborð frá t.d. Freedom Input og Menotek með iPhone símunum.

Eins og farið verður yfir í síðari pistlum er vel hægt að nota lyklaborðið á skjánum og venjast því en það tekur tíma og þolinmæði til að byrja með og verður aldrei jafnt hraðvirkt og að nota tölvulyklaborð til innsláttar.

Hvernig lítur iPhone síminn út:

iPhone 4 síminn er á stærð við VR Stream Daisy spilarann en töluvert þynnri. Stærðin er til þess að hægt sé að hafa sem stærstan skjá. Hann er ferhyrndur með rúnnuð horn.

Síminn fer vel, bæði í hendi og í vasa. Neðst framan á símanum er einn kringlóttur takki en fyrir ofan hann er flatur skjár. Þetta er snertiviðmót og skjár iPhone símans. Hringlaga hnappurinn er "Home" hnappurinn sem virkar eins og klukka, þ.e.a.s. segir notanda hvað klukkan er. Þegar símaskjárinn er læstur þá er hægt að nota hann til að fara til baka í heimaskjáinn. Þessi hnappur er notaður ef notandi vill fara út úr því sem hann er að gera. Hafa skal í huga að ekki er hægt að nota hann til að svara símtölum eða enda þau.

Við skulum kalla þennan hnapp „Heim“ héðan í frá. 

Ef þið leggið símann á borð þannig að  „Heim“ hnappurinn snýr að ykkur þá er Power/Sleep hnappurinn sem kveikir og slekkur á símanum á mjóu hliðinni sem snýr frá ykkur þ.e.a.s. á efri hlið símans (hægra megin).

Til að kveikja eða slökkva á símanum þarf að halda þessum hnappi niðri í tvær sekúndur. Þegar kveikt er á honum gerist ekkert í um það bil 15 sekúndur en svo fer síminn að tala ef búið er að kveikja á VoiceOver skjálesaranum einu sinni. Vinstra megin við Power hnappinn er pínulítil rauf fyrir SIM kortið en vinstra megin við það er tengi fyrir heyrnartól.

Á vinstri hlið símans er efst lítill rofi og fyrir neðan hann tveir hnappar.

Hægt er að færa rofann upp (í áttina að skjá símans) eða niður (í áttina að borðplötunni) og stjórnar það því hvort hringingar og önnur hljóð heyrist í símanum, athugið að þetta hefur ekki áhrif á talið í VoiceOver en hefur áhrif á hringingar og SMS hljóð.

Fyrir neðan rofann eru tveir litlir hnappar, sá efri til að hækka í símanum en sá neðri til að lækka í honum. Neðst á símanum (á mjóu hliðinni sem snýr að ykkur) er löng rauf í miðjunni sem notuð er fyrir USB tengingu og til þess að hlaða símann. Vinstra megin við raufina er lítil rauf fyrir hátalaratengi en hægra megin er önnur lítil rauf fyrir hljóðnema.

Á hægri hlið símans eru hvorki tengi né takkar. Hægt er að hlaða símann með USB tengi eða að tengja USB snúruna í kló sem fylgir með símanum, og svo klóna í vegginn.

Þetta er mjög hentugt og minnkar snúrufarganið sem oft fylgir svona tækjum.

Í fyrsta skiptið sem síminn er notaður þarf að kveikja á VoiceOver forritinu. Hægt er að gera það í gegnum iTunes forritið eða með því að sjáandi einstaklingur fari í "Settings, General, Accessibility" og velji "VoiceOver". Þetta þarf einungis að gera einu sinni og síminn vistar þessa stillingu.

Sögur herma að hægt sé að kveikja á skjálesaranum með því að þrísmella með þremur puttum á snertiskjáinn (meira um það í næsta pistli), en mér hefur ekki tekist að fá þetta til að virka fyrr enn kveikt hefur verið á VoiceOver á annan hátt áður.

Nú spyr fólk sig, skiljanlega "hvernig get ég unnið með síma með einum takka", og hér hefst gamanið fyrir alvöru, sem er einmitt ástæða þess að við látum hér staðar numið og útskýrum hvernig nota á aðgengilegan snertiskjá í næsta tæknimola að viku liðinni.

Fylgist spennt með!

Birkir Gunnarsson ráðgjafi

 

Til baka