Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
22. nóvember 2010

iPhone síminn - annar hluti - hvernig notar maður svona tæki?

Það sem er einna byltingakenndast við VoiceOver skjálesarann frá Apple er að hann virkar vel án þess að styðjast við hefðbundið lyklaborð. Það sem hann gerir einnig á nýjan hátt er að gefa notanda tilfinningu fyrir hvernig skjárinn lítur út. Hægt er að skoða staðsetningu hluta og tengsl þeirra á milli. Hefðbundnir skjálesarar eins og Jaws, Hal og MobileSpeak notast við lista og lesa texta, hnappa og aðra hluti í fyrirframskilgreindri röð. Reyndar er hægt að nota VoiceOver á þennan hátt, en við komum að því eftir örstutta stund.

Nú skal áfram haldið þar sem frá var horfið. Við ímyndum okkur að iPhone 4 sími sé kominn glóðvolgur í hús, að símakort sé í honum og að kveikt hafi verið á VoiceOver skjálesaranum (eins og áður kom fram er hægt að gera það annaðhvort í gegnum iTunes forritið eða með aðstoð sjáandi aðila).

Síminn liggur á borði og "Heim" hnappurinn snýr að þér.

Fyrst þarf að tryggja að skjárinn sé ekki læstur.

Það er gert með því að styðja á "Heim" hnappinn og renna fingrinum svo eftir skjánum hvar sem er. Síminn ætti að segja "slide or double tap to open".

Nú er slegið létt með einum fingri tvisvar á skjáinn (með stuttu millibili).

Þá ætti að heyrast hljóðmerki og nú er síminn aflæstur og tilbúinn til notkunar.

Styðjið nú aftur á "Heim" hnappinn svo síminn sé örugglega í Heimaskjánum (Home screen). VoiceOver segir "Home". Þennan hnapp er alltaf hægt að nota til að fara út úr forriti og aftur í Heimaskjáinn, svo hann virkar eins og nokkurs konar Start/Ræsa hnappur.

Gott er að byrja einfaldlega með því að renna einum fingri (ég nota vísifingur vinstri handar persónulega) yfir skjáflötin. Ef byrjað er efst vinstra megin (fyrir neðan hátalarann) og fingrinum er rennt til hægri, þá les síminn upplýsingar um styrk símatengingar, nettengingu (ef síminn er tengdur við þráðlaust net), klukku og prósentur af rafhlöðuhleðslu. Þetta er svokölluð stöðurein (Status Bar) og í raun ekkert hægt að vinna með hana utan þess að fá lesnar þessar upplýsingar. Ef fingri er rennt frá vinstri til hægri neðst á skjánum hins vegar (rétt fyrir ofan Heim hnappinn), þá les síminn "Phone", "Mail", "Safari" og "iPod". Ef búið er að setja upp póstinn, þá tilkynnir síminn hversu margir ólesnir póstar séu í innhólfi o.s.frv. Safari er vafrinn frá Apple og iPod breytir símanum í iPod spilara sem spilar tónlist, hljóðbækur, kvikmyndaskrár o.s.frv

Ef fingurinn er færður aðeins ofar á skjáinn má þar finna helling af forritum: Messaging, Contacts, Weather, Calendar og ýmislegt fleira. Þessi hluti skjásins, milli stöðureinarinnar efst, og íkonanna neðst, kallast síða (Page) og hefur að geyma forrit sem fylgja með símanum auk forrita sem notandi getur sótt sér sjálfur t.d. í gegnum "App Store" forritið.

Þegar síðan fyllist bætast nýju forritin á síðu 2, 3 o.s.frv. Hægt er að fara milli þessara síðna með því að renna þremur fingrum yfir skjáinn til vinstri (til að fara á næstu síðu) eða hægri (fyrri síðu). Þegar farið er út úr forriti endar síminn á þeirri síðu sem það forrit er á hverju sinni. Stöðureinin efst og íkon fyrir grunnforritin neðst, breytast ekki og eru alltaf á skjánum.

Í stað þess að renna fingrinum yfir skjáinn er hægt að fara í gegnum forritin á honum eins og lista. Þetta er gert með því að snerta skjáinn og renna fingrinum svo snöggt til hægri eða vinstri (kallast "flicking" á ensku). Þá les síminn næsta forrit á eftir (hægri) eða undan (vinstri). Þegar komið er að byrjun eða enda listans heyrist hljóðmerki. Til þess að stafa heiti forritsins er fingrinum rennt snöggt niður og les síminn þá stafina frá vinstri til hægri.

Nú ættuð þið að getað skoðað forritin og skjáinn á símanum ykkar nokkurn veginn.

Ekki hafa áhyggjur þó þetta virðist skrýtið í fyrstu, það venst ótrúlega vel.

Hér fyrir neðan er listi yfir hvaða hreyfingar og fingramynstur er hægt að nota.

Listann er einnig hægt að finna á síðunni: http://help.apple.com/iphone/4/voiceover/en/iph3e2e2281.html

Eins fingurs smellur (single tap): Les þann hlut sem er valinn á skjánum.

Strjúka fingri snöggt til hægri: Velja næsta hlut.

Strjúka fingri snöggt til vinstri: Velja fyrri hlut.

Strjúka fingri upp eða niður: Les næsta staf eða næsta orð, eftir því hvernig síminn er stilltur (hægt er að stilla símann með því að setja þumal og vísifingur á skjáinn og snúa þeim eins og verið sé að trekkja upp úr, þá birtist valmynd sem hægt er að velja hvernig síminn les).

Smella með tveimur fingrum: Síminn hættir að masa.

Strjúka tveimur fingrum upp: Síminn les allt frá byrjun skjámyndar.

Strjúka með tveimur fingrum niður: Síminn les allt frá núverandi staðsetningu og að enda skámyndar.

Strjúka tveimur fingrum þrisvar fram og aftur: Hætta við, fara út úr aðvörun, svipað og Escape hnappurinn (eða lausnarhnappurinn) í Windows.

Strjúka með þremur fingrum upp: Fer á næstu síðu eða skjámynd

Strjúka með þremur fingrum niður: Fer á fyrri síðu eða skjámynd

Þriggja fingra stroka til hægri eða vinstri: fara fram eða til baka um eina síðu.

Þriggja fingra smellur: Sími les á hvaða síðu og hvar á síðunni notandi er staddur.

Stroka upp með fjórum fingrum: Fara efst í skjámynd (velja fyrsta hlut á skjánum).

Stroka niður með fjórum fingrum: Fara neðst í skjámynd (velja síðasta hlut á skjánum).

Tvísmella með einum fingri: Virkja valinn hlut (t.d. opna forrit, smella á hnapp o.s.frv.). Einnig er hægt að gera þetta með því að renna fingri þar til hlutur er valinn, halda fingrinum á hlutnum og smella einu sinni með öðrum fingri hvar sem er á skjáinn án þess að lyfta þeim fyrri.

Tvísmella með tveimur fingrum: Kveikja og slökkva á tónlistarspilun, hringja eða leggja á ef síminn er virkur, taka mynd ef myndavélin er virk o.s.frv.

Tvísmella með þremur fingrum: Kveikja og slökkva á tali.

Þrísmella með þremur fingrum: Kveikt og slökkt á skjá símans (þegar slökkt er á skjánum er hann ennþá virkur en enginn getur séð á hann).

En hvernig kemst maður svo inn í forritin?
Jú, það er, sem betur fer, mjög einfalt.

Farið nú með fingurinn neðst í vinstra horn skjásins og hreyfið hann til hægri þar til síminn segir "phone". Nú er fingrinum lyft og svo tvísmellt með einhverjum fingri einhvers staðar á skjáinn (skiptir engu máli hvar). Þá opnast símavalmyndin. Þið heyrið hljóðmerki þegar forritið opnast.

Hér er nú komið hið klassíska símalyklaborð. Efst á skjánum, fyrir neðan stöðurein, er reitur sem innslegið númer birtist í. Fyrir neðan reitin er hið klassíska símalyklaborð með fjórum röðum, (frá vinstri til hægri) 1, 2, 3. 4, 5, 6. 7, 8, 9. Stjarna, 0 og ferhyrningur.

Fyrir neðan símalyklaborðið (og rétt fyrir ofan neðri brún skjásins) eru aðgerðarhnapparnir, Delete, Call, Save to Contacts o.s.frv. Íkonin sem áður var lýst ("Phone", "Mail" o.s.frv.) taka ekki upp skjápláss meðan kveikt er á forriti.

Ef símalyklaborðið birtist ekki sjálfkrafa er farið neðst á skjáinn og rennið fingrinum til hægri þar til síminn segir "Key pad" en það ætti að vera annað íkonið frá hægri, neðst á skjánum, lyftið fingrinum og tvísmellið einhvers staðar á skjáinn og myndin sem áður var lýst birtist.

Hvernig hringir maður svo?

Það er gott að finna fyrst reitinn sem inniheldur símanúmerið og tvísmella með fingrinum þegar maður er inni í honum. Þetta þarf ekki að gera en ef maður er í innsláttarham og þarf að eyða einhverju út segir síminn manni sjálfkrafa hverju er verið að eyða. Ef ekki er tvísmellt á reitinn gerir síminn það ekki.

Hægt er að fara tvær leiðir við að setja inn númerið:

Með því að renna fingrinum niður vinstri hlið skjásins þar til síminn segir "one" og lyfta þar fingrinum, snerta svo skjáinn og renna fingrinum snöggt til hægri til að fara í 2, 3, 4, o.s.frv. Þegar rétt tala er fundin er fingri lyft og svo tvísmellt einhvers staðar á skjáinn.

Ef sama númerið kemur tvisvar í röð t.d. "5 5" þarf að tvísmella einhvers staðar á skjáinn tvisvar, valið á fimmunni helst. Þegar búið er að slá inn númerið er hægt að halda áfram að fara til hægri, framhjá stjörnu, núlli og númeramerki og þá kemur maður loks að "call" hnappnum sem maður tvísmellir á og þar með er hringt. Þetta er einföld en nokkuð hægvirk leið.

Það er líka til fljótlegri leið, sem kallast "split tapping" á ensku. Þá er einum fingri rennt yfir skjáinn í leit að réttum hnapp. Þegar réttur hnappur er lesinn upp er smellt einu sinni, einhvers staðar, á skjáinn með öðrum fingri án þess að lyfta þeim fyrri, og þá er númerið slegið inn. Með smá æfingu er tiltölulega einfalt að vita nokkurn veginn hvar hver hnappur er svo einfalt er að slá fingri niður nálægt þeim stað, renna honum þar til gildi hnapps sem leitað er að (t.d. 5), er lesið og þá er smellt með öðrum fingri einhvers staðar á skjáinn án þess að lyfta þeim fyrri, þá er númerið slegið inn í reitinn og hægt er að renna fingrinum áfram í leit að næstu tölu. Þetta virkar ótrúlega vel eftir smá æfingu og er jafnvel fljótlegra en að nota síma með venjulegu talnalyklaborði.

Ef búið er að vista upplýsingar um tengilið í tengiliðaskrá (Contacts) er einfaldlega hægt að smella á nafn tengiliðs eða halda "Heim" hnappnum niðri í þrjár sekúndur og segja svo nafn tengiliðsins og þá er hringt. Hægt er að setja inn tengiliði beint í símann eða flytja þá úr tölvupósti eða GMail viðmóti, en nánar verður farið í það síðar, ef þess er óskað.

Að loknu símtali þarf að ýta á Heim hnappinn og tvísmella einhvers staðar á skjáinn til þess að aflæsa honum og renna svo fingrinum yfir skjáinn neðst til að finna "End" hnappinn sem leggur á. Það er ekki hægt að leggja á með einum einföldum hnapp, þó það eigi að vera hægt með því að tvísmella á skjáinn með tveimur fingrum. Það er auglýst en ég hef aldrei fengið það til að virka. Vonandi stendur þetta til bóta í útgáfu 4.2 af iOS stýrikerfinu, sem kemur á markað í næstu viku (í kringum 20. nóvember 2010).

Ef þú vilt nú hætta þessu símatauti og skoða póstinn þinn eða fara á netið styður þú einfaldlega á "Heim" hnappinn og ert þá kominn út úr símaforritinu.

Kosturinn við iPhone símann er að forritin virka öll á mjög svipaðan hátt svo ef þið kunnið á símann þarf ekki mikið að læra til að vinna með öðrum aðgengilegum forritum.

Þegar um tölvupóst eða ritil er að ræða, eða önnur forrit sem byggja á texta frekar en tali, birtist heilt lyklaborð á skjánum í stað símalyklaborðs, með þeirri breytingu þó að númeraröðin birtist ekki nema smellt sé á "Numbers" hnappinn neðst í vinstra horninu.

Staðfesta hnappurinn heitir "Return" á ensku, sem getur verið nokkuð villandi.

Einnig virkar síminn vel með Bluetooth lyklaborði sem hægt er að versla sér (ég er með leiðbeiningar um hvernig stjórna eigi iPhone síma með svoleiðis lyklaborði og kemur hann á vefinn seinna eða eftir pöntun). Slík lyklaborð eru oft úr gúmmíi og hægt er að rúlla þeim upp þannig að þau taka tiltölulega lítið pláss. Hægt er að bæta punktaletursskjá með Bluetooth viðmóti við og nota heyrnartól (headphones) annaðhvort með snúru eða þráðlaus, og þá er komin ansi öflug tölva sem tekur nær ekkert pláss og er alltaf á netinu þar sem er net- eða símasamband. Síminn er stilltur þannig að hann leitar eftir nettengingu áður en hann sendir gögn í gegnum símtengingu og er notanda bent á þetta þegar senda skal tölvupósta eða annað. Þið getið því ímyndað ykkur að hafa nettan skjá og þráðlaust lyklaborð fyrir framan ykkur, símann í vasanum og heyrnartól í eyra að vinna á netinu með skjálesara sem virkar nokkuð vel. Það er ekkert skrýtið að blindir notendur eru hrifnir af þessum búnaði, og bæði fer minna fyrir honum, og hann hefur upp á miklu fleiri möguleika að bjóða en svokölluð "Notetaker" tæki eins og BrailleNote, Pronto frá Baum o.s.frv.

Í næsta mola verður farið út í þau forrit sem þykja hvað sniðugust á iPhone símanum og hvað þau gera, en að lokum fer ég yfir helstu kosti og galla símans (ekkert er fullkomið, og það er iPhone síminn ekki heldur, sama hvað ykkur er sagt).

Birkir Gunnarsson ráðgjafi

Til baka