Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
3. janúar 2011

Smá frí frá iPhone, hvað með Android og Windows Mobile?

Smá frí frá iPhone, hvað með Android og Windows Mobile?

Áður en síðasti og stærsti iPhone molinn fer á netið (þetta er í rauninni að verða að hlunk frekar en mola), ákváðum við að gefa lesendum smá frí frá Apple umræðunni og skoða nokkra aðra hluti, gera upp árið og fleira. iPhone hlunkurinn er í vinnslu og kemur á netið í síðasta lagi um miðjan janúar, en ég er að skoða nokkur mismunandi forrit sem eru sniðug og aðgengileg og ætla að taka saman lista yfir þau sem mér lýst best á. En mig langaði núna aðeins að minnast á hitt stóra símastýrikerfið. Það er frá Google og heitir Android.

Eins og við vitum geta Google menn næstum allt. Fyrirtækið hóf starfsemi í bílskúr fyrir rétt um 10 árum síðan en hefur gjörbreytt internetinu og stefnir nú á farsíma- og fartölvumarkaðinn. Að sjálfsögðu er búist við að þeir gjörbreyti aðgengi blindra og sjónskertra að tækni svona í leiðinni, en því miður hafa slíkar spár fjarri því ræst hingað til.

Android er stýrikerfi sem Google hannaði fyrir farsíma og er nú notað á ýmsum símum frá helstu farsímaframleiðendum heims. Kerfinu er ætlað að keppa við iOS stýrikerfið frá Apple og býður upp á markað fyrir forrit, snertiskjásviðmót og í raun allt það sem iPhone síminn býður upp á. Kerfið er þó töluvert öðruvísi útfært. Hluti af því er "Open Source" þ.e.a.s. fólk getur búið til sína útgáfu af stýrikerfinu og hafa flestir framleiðendur og símafyrirtæki gert smávægilegar (og stundum stórvægilegar) breytingar á kerfinu sérstaklega fyrir sig og sínar vörur. Google hefur mun minni stjórn á hvernig kerfið er notað og hvernig hugbúnaður fyrir það er þróaður. Apple er með nefið ofan í öllum forritum sem seld eru fyrir iPhone og verður að votta þau áður en sala á þeim er leyfð, Google gerir mun minna af slíku.

En hvað með aðgengi?

Það eru komnir tveir skjálesarar sem virka með Android. Heita þeir Talkback og Spiel. Þó eru ýmsir annmarkar á báðum skjálesurum og segir Nolan Darilek, sem er maðurinn á bak við Spiel, að þar sé Google um að kenna. WebKit hugbúnaðurinn sem Google smíðaði og notar til þess að birta allar vefsíður er alls óaðgengilegur skjálesarahönnuðum. Þess vegna er nær ómögulegt að skoða netið með skjálesara í gegnum Android síma og í raun er hið sama að segja um Chrome vafrann sem Google hannaði fyrir PC tölvur. Vissulega segir Darilek að með margra mánaða vinnu gæti hann endurskrifað hluta kóðans á bak við WebKit og gert hann aðgengilegan, en ef Google tæki nýja kóðann ekki inn í stýrikerfið sjálft myndi sú vinna vera algjörlega tilgangslaus. Reyndar bjó IdealGroup hópurinn til vafra sem virkar nokkurn veginn á sumum Android símum en í honum eru ýmsar villur og vandamál sem ekkert hefur verið unnið með í hartnær hálft ár, þrátt fyrir margar ábendingar þar um. Sem dæmi má nefna að forritarar fyrir aðgengishugbúnað hafa nær engar leiðir til þess að gera snertiskjá símanna aðgengilegan (t.d. með því að fá upplýsingar um staðsetningu hluta á snertiskjánum í gegnum stýrikerfið) og er því mjög takmarkað hverju þeir geta skilað til notenda.

Og ekki lagast það þegar Market forritið, eða vefverslun Google, var gert algjörlega óaðgengilegt með uppfærslu í ágúst og það er ekki fyrr enn nú sem verið er að laga aðgengið. Hnappar verslunarinnar voru ekki einu sinni merktir rétt, sem er lágmarksaðgengiskrafa fyrir öll forrit og vefsíður, og tekur það framleiðanda nokkrar mínútur að setja merkingar á hnappa og er því alveg óljóst hvers vegna það tók allt að fjóra mánuði að laga þennan galla.
Sama gerðist með helsta Twitter samskiptaforrit símans, nema hvað ekki er búið að laga það ennþá. Að auki breytti Google nýlega verslun sinni. Áður gátu notendur sótt sér forrit og keyrt í einn dag áður en þeir tóku ákvörðun um hvort þeir vildu fjárfesta í því eður ei. Þetta hentaði blindum notendum afar vel, svo þeir gætu prófað hugbúnaðinn með skjálesara. Hins vegar hefur Google stytt þennan tíma úr 24 klukkustundum í 15 mínútur og verður kaupandi þannig að ákveða á 15 mínútum hvort hann vilji leggja út fyrir forritinu sem hann sækir sér. Slíkt er hvergi nærri nógur tími til að skoða hvort forrit sé aðgengilegt með skjálesara og verður notandi því annað hvort að vita upp á hár hversu aðgengilegur búnaðurinn er, eða einfaldlega kaupa forritið og reyna svo að fá endurgreiðslu eftir á með því að hafa samband við framleiðandann og kvarta, en slíkt getur verið tímafrekt og, í sumum tilfellum, alveg ógerlegt.

Að lokum veldur það miklum vandræðum hversu margar mismunandi útgáfur af Android kerfinu eru til staðar. Sumar eru aðgengilegri en aðrar, sum fyrirtæki hafa bætt aðgengi að snertiskjám á sínum tækjum, önnur ekki, eða hafa notað aðrar aðferðir. Einnig eru a.m.k. tvær, ef ekki þrjár, mismunandi tilraunir í gangi með að þróa skjálesara fyrir símana og samvinnan ekki mikil þar á milli (við félagarnir höfum nú séð þetta annars staðar, nefnilega í Linux skjálesarageiranum). Open Source heimspekin virkar í raun bara í praxís ef sterkur miðlægur aðili sér um, og skipuleggur, helstu atriði og áherslur í sambandi við þróun hugbúnaðarins, og er í aðstöðu til þess að tryggja að þróunin skili sér alls staðar til þeirra sem nota hugbúnaðinn. Þetta gengur afar vel með Mozilla stofnunina og Firefox og Thunderbird forritin, eða með NV Access stofnunina og NVDA skjálesarann fyrir Windows, en gengur ekki vel í Linux heiminum og ekki heldur með Android.

Það er því þungt hljóð í blindum Android notendum og forriturum nú um stundir, og spjótin standa á Google að gera eitthvað í málinu. Mismunandi símar eru misaðgengilegir og virka misvel og því er alls ekki nóg að sími keyri Android, heldur þarf hann að keyra rétta útgáfu af Android og notandi þarf að vera með það alveg á hreinu hvaða útgáfa það er og hvort henni hafi verið breytt af framleiðanda áður en hann getur ákveðið hvort síminn sé aðgengilegur eður ei. Nýjasta útgáfa Android er útgáfa 2.3 sem gengur undir nafninu Gingerbread, eða sætabrauð eins og ég myndi kalla það. Donut útgáfan, eða kleinuhringurinn, einnig þekkt sem útgáfa 2.1 er nokkuð aðgengileg. Enn binda menn þó vonir við að Google taki sig saman í andlitinu og geri miklar úrbætur á aðgengi að Android kerfinu. Bæði hafa þeir til þess alla burði, fyrirtækið hefur á að skipa mörgum af snjöllustu forriturum heims, og einnig er nokkuð víst að þeir vilji fara að selja hugbúnað sinn til stofnanna og stjórnvalda og verður hann þá að mæta ákveðnum aðgengiskröfum.

Chrome stýrikerfið frá Google lítur dagsins ljós á árinu en það verður notað í fartölvum og er, enn sem komið er, algjörlega óaðgengilegt, en sömu aðgengiskröfur gilda ef Google vill selja hugbúnað og vélbúnað sinn til hins opinbera. Android er flott kerfi með mörgum nýungum, er mun ódýrara en Apple stýrikerfið og hefur því upp á margt að bjóða.

Það tók nokkur ár áður en iPhone símarnir voru gerðir aðgengilegir og aðgengið að þeim kom í raun fólki alveg í opna skjöldu, sérstaklega hversu vel úthugsað og vandað það var frá upphafi. Svo það er engan veginn tími til þess að gefa upp von um ódýra og aðgengilega snjallsíma frá Google, en blanda af frekju og þolinmæði af hendi blindra notenda og fulltrúa þeirra þarf til að ná því fram.

Hægt er að nálgast viðtalið við Nolan Darilek og fleiri Android spekúlanta á síðunni:
http://www.serotalk.com/2010/12/24/serotalk-tech-chat-82-Android-accessibility-one-step-forward-two-steps-back-2/ og lesa meira um TalkBack og Spiel á síðunum
http://google-opensource.blogspot.com/2009/10/talkback-open-source-screenreader-for.html og http://www.appbrain.com/app/spiel/info.spielproject.spiel

Microsoft biðst afsökunar

En það eru ekki bara Googlemenn sem eru með buxurnar niður um sig þegar kemur að aðgengismálum. Microsoft biðst einfaldlega velvirðingar á því að Windows Phone 7 stýrikerfið er alls ekki aðgengilegt skjálesaranotendum, og þeir búast ekki við breytingum á því næstu eitt til tvö árin. Þetta kom fram á fundi sem Microsoft hélt með fulltrúum helstu blindrasamtaka Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu í nóvember sl.

Andy Lees, yfirmaður deildarinnar sem sá um þróun WP7 sagði einfaldlega "við klúðruðum þessu og biðjumst velvirðingar á því." Windows Phone 7 stýrikerfið er splunkunýtt stýrikerfi, svo skjálestrarforrit eins og MobileSpeak, sem virka með Windows Mobile 6.5 virka ekki með WP7 nema með verulega stórfelldum breytingum og auk þess hafa forritarar lítinn aðgang að stýrikerfinu til að gera það sem gera þarf til að þróa skjálestrarforrit, eins og fulltrúi CodeFactory, sem býr til MobileSpeak, sagði á Aegis ráðstefnunni sem við fórum á í október.

Microsoft fyrirtækið segist ætla að skoða málið en að það taki í minnsta lagi vel yfir ár áður en eitthvað kemur út úr því. Þeir lofuðu að halda fund með helstu blindrasamtökum heims eftir ár og ræða þá hvernig gengur með aðgengisvinnuna.

Síðast en ekki síst tóku þeir vel í að skoða þróun skjálesara með gæði og virkni á borð við þau sem fólk á að venjast á iPhone símunum. Þrátt fyrir loforð Microsoft eru fulltrúar bandarísku blindrasamtakana furðu lostnir yfir hversu illa Microsoft hefur staðið sig en segja þó bót í máli að Windows Mobile stýrikerfið keyri á innan við 5 prósentum allra síma í umferð, svo þetta sé ekki reiðarslag fyrir marga notendur. Vonast þeir til að Microsoft skammist sín og geri því vel í næstu útgáfu.

Hægt er að lesa grein um þetta úr AccessWorld tímaritinu:
http://www.afb.org/afbpress/pub.asp?DocID=aw110802

Því er kannski rétt að ljúka árinu með hæfilegri bjartsýni um að aðgengi að símum og öðrum kerfum sé vissulega á leið í rétta átt, þó án þrýstings frá notendum vorum muni það oft taka tvö skref afturábak fyrir hvert skref sem tekið er fram á leið. Það mun enginn sjá um okkur ef við sjáum ekki um okkur sjálf, en við fáum líka ýmsu áorkað ef við stöndum saman. Að sjálfsögðu munum við Tæknimolamenn gera okkar besta, ekki bara í að fræða ykkur um gang mála, heldur líka að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu og þrýstingi þar sem við á og reyna að bæta aðgengi ykkar allra að tækni og tólum nútímans og framtíðar.

Megið þið eiga gott og gæfuríkt 2011!

Birkir Gunnarsson ráðgjafi

 

Til baka