Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
27. janúar 2011

Fréttir af fyrsta degi ATIA.

Nú stendur yfir önnur helsta tæknisýning fyrir skjálestrar og hugbúnaðarframleiðendur í aðstoðartæknigeiranum. Sýningin er á vegum ATIA eða Assistive Technology Industry Association, og ber hún sama nafn. Fyrir tilstilli veraldarvefsins og Twitter getum við fært ykkur fréttir a sýningunni um leið og hlutirnir gerast þar. Það skal tekið fram að við erum ekki með fulltrúa á staðnum, enda myndi engan langa til að fara til Orlando þar sem sýningin fer fram.

Ef marka má tilkynningar um nýungar sem birtust á fyrsta degi sýningarinnar má segja að tvö þemu ráði þar ferðinni. Annars vegar hefur Acapela fyrirtækið sænska náð til sín góðum hluta af markaðnum fyrir talgervla og raddir, þar sem fyrirtækið á nú í samstarfi við Bookshare og Humanware, svo eitthvað sé nefnt, og hins vegar er alveg ljóst að fyrirtæki eins og AI Squared, Bookshare og fleiri eru að þreifa fyrir sér á iPhone og iPod markaðnum.

Sem dæmi má nefna skjástækkunarforrit fyrir iPhone síma og iPod Touch sem AI Squared, framleiðendur Zoomtext, eru að setja á markaðinn. Við vitum ekki endanlega um hvaða eiginleikar prýða ZoomReader forritið, en sögusagnir herma að bæði sé þar um skjástækkun og OCR skannalausn að ræða fyrir iPhone síma, svo hægt sé að taka myndir af texta og stækka hann á skjá símans. Forritið mun kosta um 60 dollara eða rétt um 8500 kr, sem verður að teljast ansi ódýrt miðað við aðrar vörur í þessum geira. Hin stóra tilkynningin, hingað til, er frá Benetech, sem rekur Bookshare fyrirtækið vestanhafs, en fyrirtæki það er með ógrynni námsbóka og afþreyingarefnis á boðstólnum fyrir bandaríska notendur m.a. á Daisy formi. Read2Go Daisy spilarinn fyrir iPhone og iPod Touch spilar Daisy 2.02 og Daisy 3 bækur, notast við raddir frá Acapela, er með innbyggðan lestur og skjástækkun og kemur til með að kosta heila 20 dollara eða um 2500 krónur þegar það kemur á markað, en forritið er væntanlegt í iTunes Store eða Epla búðina fyrir lok mars.

Humanware hefur skipt yfir í Acapela raddir fyrir Victor Reader Stream tækið og GPS lausnir sínar, ekki er ljóst hvort slíkt hið sama gildi um Braillenote lófatölvurnar eða hvort þessi breyting hafi áhrif á núverandi notendur.

Að lokum má geta þess að meiriháttar uppfærsla fyrir Braillenote lófatölvurnar frá Humanware býður notendum ennþá ekki upp á að vinna með Word skjöl sem búin eru til í Office 2007. Þar sem BrailleNote Apex tækið kostar litlar 900.000 krónur út úr búð í Bandaríkjunum hefðum við svo sannarlega haldið að þeir gætu boðið upp á Office 2007 stuðning nú þegar Office 2010 er komið út, en svo virðist ekki vera.

Vissulega eru þessi tæki hentug við vissar aðstæður, en við getum varla talið það viðunandi þjónustu að ekki sé boðið upp á stuðning við meiriháttar ritvinnsluforrit sem kom á markað fyrir hartnær fjórum árum síðan.

Verið stillt og fylgist með á morgun þegar fleiri fréttir gætu borist af sýningunni.

Birkir Gunnarsson ráðgjafi

 

Til baka