Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
27. janúar 2011

Innlent, árið 2010 í hnotskurn

Í þessum pistli munum við fara yfir þau atriði sem okkur þótti standa upp úr á árinu hvað varðar starf okkar á Miðstöðinni og þau verkefni sem við höfum tekið okkur fyrir hendur. Við komum til með að birta topp 10 lista yfir merkilegustu viðburði í geiranum á heimsvísu í öðrum mola.

Almennt fannst okkur árið 2010 merkilegt og fullt af bæði spennandi nýungum, en einnig mikilli vanþekkingu á aðgengismálum meðal hugbúnaðarfyrirtækja. Bíðið spennt eftir alþjóðlega yfirlitinu okkar sem birtist á allra næstu dögum og ræðum við þetta frekar í þeim pistli.

Hvað höfum við félagarnir verið að gera á árinu?

Við ferðuðumst vissulega miklu mun meira en okkur hefði getað órað fyrir í byrjun árs.
Í mars fórum við á CSUN ráðstefnuna í San Diego í Kaliforníu, en meira má lesa um hana hér http://csunconference.org/index.cfm?EID=80000218

CSUN ráðstefnan er ein stærsta ráðstefnan í heiminum sem snýst um tækni og aðgengismál fyrir fatlaða. Þar kenndi ýmissa grasa, eins og kom fram í grein okkar um þá ferð, en segja má að Open Source pælingar og Applefyrirtækið hafi verið það sem stóð upp úr á þeirri ráðstefnu. Í kjölfarið af þessari ferð réðumst við í að skoða, og þýða, NVDA skjálesarann en hann kostar ekki neitt og hefur upp á margt að bjóða eins og við höfum predikað í fyrri molum.

Eftir að hafa keyrt þennan skjálesara í hinum ýmsu aðstæðum síðan, þá getum við hiklaust mælt með honum sem góðum valkosti við hina hefðbundnu skjálesara, JAWS og HAL. Það sem háir NVDA er skortur á punktaletursstuðningi, en við væntum þess að úr því verði bætt þegar fram líða stundir.

Við tókum eftir því á CSUN að annar hver maður, ef ekki fleiri, var með iPhone síma frá Apple og kviknaði þá fyrst hugmyndin um að skoða fyrir alvöru aðgengismál fatlaðra að Apple vörum, bæði hvað varðar tölvur og farsíma.

Þessi hugmynd vatt talsvert upp á sig og endaði svo með því að á sumarmánuðum réðumst við í ítarlegan samanburð á fimm skjálesurum á þremur stýrikerfum

Í samanburði þessum könnuðum við meðal annars hvað Apple tölvurnar hafa fram að færa auk þess sem Linux Gnome stýrikerfið og Orca skjálesarinn voru skoðaðir. Við urðum fyrir nokkrum vonbrigðum með hvoru tveggja, ef satt skal segja, og komum upplýsingum þar að lútandi á framfæri við þróunaraðila sem ættu að nýtast í umbótum og frekari þróun á hugbúnaðinum. Margt hæfileikafólk stendur á bak við bæði forritin og því engin sérstök ástæða til þess að ætla að hlutirnir breytist ekki til batnaðar. Ef við lítum á björtu hliðarnar kom NVDA mjög vel út og Dolphin Computer Access hefur staðið sig mjög vel í að laga það sem okkur fannst athugavert við Hal skjálesarann og er ánægjulegt að sjá framþróun á þeim bænum. Við vorum minna hrifnir af Freedom Scientific sem virðist halda fast í dýrar uppfærslur án þess að mikið nýtt komi í hlut notanda, þó vissulega sé Jaws enn á toppnum í sumum tilfellum og vonum við að þeir standi sig betur árið 2011.

Upplýsingar um þessa tilburði okkar bárust til nágrannalandanna og víðar, en ýmsir kollegar okkar erlendis vildu gjarnan fá að kynna sér hverjar okkar niðurstöður voru sem og hvernig prófanirnar á skjálesurunum fóru fram. Þetta gerði það að verkum að við ákváðum að þýða skýrsluna yfir á ensku og kynna hana betur á erlendri grund. Til að gera langa sögu stutta þá erum við félagarnir að fara aftur á CSUN 2011, núna ekki til að sitja fyrirlestra heldur í þetta skiptið til að halda fyrirlestur um skýrsluna okkar og prófanirnar, en þetta er í fyrsta skipti sem íslendingar halda fyrirlestur á þessari ráðstefnu – svo við vitum til. Við stefnum því á alheimsyfirráð á árinu 2011, án efa.

Í júlí fór Birkir á ICCHP ráðstefnuna í Austurríki. Ráðstefnan er alþjóðleg og mjög stór, með mikilli þátttöku evrópskra og asískra háskóla og fyrirtækja. Lítið var um sýningarbása á ICCHP en úrval og gæði fyrirlestra var þeim mun meira og mun betra en á CSUN ráðstefnunni. Hugmynda og verkefnaúrvalið var ansi víðtækt, sumt minna praktískt en annað, en við erum enn að vinna úr fyrirlestrum og fylgjast með því sem okkur þótti einna áhugaverðast.

Sem dæmi um nokkur áhugaverð verkefni er kynnt voru á ICCHP má nefna,hvernig hraða megi skjálestri án þess að skýrleiki og framburður glatist, hvernig gera megi Excel aðgengilegra með skjálesurum, hvernig leysa megi hin svokölluðu "CAPTIA" eða myndir með stöfum sem þarf að slá inn til að skrá sig inn á marga vefi og margt, margt fleira. Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti og við vonumst til þess að geta tekið þátt í henni árið 2012 í Linds í Austurríki.

Í sumar fengum við óvænt tilboð um að taka þátt í samnorrænu verkefni um aðgengi að samfélagsvefjum eins og FaceBook. Verkefnið fékk úthlutun úr norrænuráðherranefndinni (NordForsk) og er til þriggja ára. Hlynur og Kristinn, formaður Blindrafélagsins, sóttu skipulagsfund um verkefnið sem haldinn var í nóvember og leyst fólki þar vel á hugmyndir sem við höfðum skráð niður og lagt upp með um hvernig verkefnið gæti best nýst blindum og sjónskertum notendum til framtíðar. Við búumst fastlega við því að þið fáið ekki einungis að heyra margt fleira um þetta verkefni, heldur einnig að þið takið þátt í því með okkur, á árinu.


Ekki eru ferðalög vor öll upptalin enn  Enn og aftur lá leið okkar utan landsteina, því með styrk frá Grundvig Evrópusamstarfinu fórum við á Aegis ráðstefnuna á Spáni í október ásamt yfirmanni bókagerðarinnar, Benjamín Júlíussyni. Aegis er verkefni sem hefur fengið dágott fjármagn, um 12 milljónir evra eða nær einum og hálfum milljarði íslenskra króna, til að byggja aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga inn í tölvur, jaðartæki og hugbúnað. Heimasíðu Aegis má finna hér: http://www.aegis-project.eu/

Því miður stóð þessi ráðstefna ekki undir væntingum. Okkur þótti miður hvernig margir hópar forritara virðast vera uppteknari af að óska sjálfum sér til hamingju með snilld sína í stað þess að einbeita sér að því að hanna vönduð forrit fyrir notendur.

Auðvitað er það rétt að Linux stýrikerfið er með innbyggðan skjálesara sem kallast Gnome, og þetta þýðir að ekki þarf að kaupa skjálesarann sér. En staðreyndin er sú að oft fær fólk einungis það sem greitt er fyrir. Í þessu tilfelli kom greinilega í ljós, þrátt fyrir ítrustu tilraunir forritarana til að láta lítið á því bera í kynningum, að  skjálesari þessi er talsvert skemur á veg kominn í þróun en þeir sem við eigum að venjast úr Windows umhverfinu.

Okkur finnst harla ólíklegt að notendur myndu sætta sig við að fara aftur í JAWS 3.7 eða HAL 5.11 útgáfurnar og ekki bætir úr þegar Orca skjálesarinn fyrir Linux hrynur um leið og kveikt er á skjástækkuninni. Þessu til viðbótar þá er ekki alveg einfalt að fá skjálesarann til að virka eðlilega og punktaletrið fengum við aldrei í gang. Síðast en ekki síst þá eru leiðarvísar með þessum skjálesara af skornum skammti og ekki auðvelt að vinna úr þeim. Við fengum nú heldur kuldalegar móttökur af forritarahópnum þegar við sögðum skoðanir okkar á þeirra hugbúnaði, þó slíkt hafi verið gert afar kurteislega, og fauk nú í flest skjól þegar þau sýndu myndbönd um ráðstefnur sem hópurinn hélt í Grikklandi og, ef dæma má af myndböndunum, fór sú ráðstefna einna helst fram á ströndinni, allt á kostnað Evrópusambandsins.

Eftir þessa ráðstefnuferð og samanburðarverkefni okkar teljum viðað því að skjálestrarhugbúnaður á Linuxstýrikerfinu standist ekki gæðakröfur íslenskra notenda enn sem komið er og munum við ekki verja tíma í að skoða Linux lausnirnar aftur fyrr en eftir einhvern tíma. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir að þróunarvinna tekur sinn tíma og það eru 2 ár eftir af verkefninu, en það er alveg ljóst að það þarf viðhorfsbreytingu hjá þeim sem eru að þróa hugbúnaðinn og að sjónarmið notenda þurfa að fá sitt vægi í þróunarvinnunni.

En ekki snerist allt um Linux skjálestur á Aegis ráðstefnunni, sem betur fer. Við fengum tækifæri til að setjast niður með fulltrúa eSpeak talgervilsins og hjálpa til við að laga íslenskuframburðinn þar. Ýmislegt bendir til þess að  eSpeak talgervillinn verði innbyggður í marga ódýra síma og önnur jaðartæki sem kæmu þá aðgengileg á markað og nóg væri að kveikja á tali til þess að virkja aðgengi þeirra.

Við áttum áhugavert samtal við umboðsmann Baum framleiðandans um stöðlun á reklum fyrir punktaletursskjái sem verið er að vinna að og margir helstu framleiðendur eru hluti af, í raun allir framleiðendur nema Papenmeier og Freedom Scientific. Kallast staðallinn OpenBraille og meira má lesa um hann hér: http://www.openbraille.org.  Ef vel gengur verður staðallinn tekinn beint inn í næstu útgáfu Windows stýrikerfisins (Windows 8) eftir tvö til þrjú ár og þá veit Windows stýrikerfið hvað punktaletursskjár er og forrit geta haft samskipti við skjáina milliliðalaust ef þörf er á, auk þess sem skjálesarar geta stutt alla skjái með því að styðja staðalinn, frekar en að skrifa sér punktaletursstuðning fyrir hvern og einn framleiðanda eins og gert er í dag.

Þetta myndi gera það að verkum að punktaletursstuðningur væri innbyggður í stýrikerfið og gæti því orðið til þess að skjálesarar eins og NVDA kæmust mjög nálægt því að vera jafn öflugir og Jaws og Hal skjálesararnir eru í dag.

Í nóvember fengum við einn iPhone síma í hendur til prófanna og erum við að ljúka skýrslugerð um símann en fyrstu tveir hlutar greinargerðarinnar hafa þegar verið kynntir í tæknimolum. Síminn er byltingarkenndur að mörgu leyti hvað varðar aðgengi og tókst Applefyrirtækinu einstaklega vel til í þetta skiptið.  Við erum spenntir að fylgjast með og, vonandi, koma þessum síma til notenda með íslensku viðmóti og íslenskum talgervli á næstu árum, vonandi sem hluta af talgervilsverkefni Blindrafélagsins, en við höfum verið við það riðnir síðustu mánuði að skoða valkosti og framleiðendur með gæði og virkni í huga. Við getum ekki rætt það frekar að sinni, en vonumst til þess að geta fært ykkur stórar fréttir af verkefninu á árinu.

Við á Íslandi höfum oft ákveðna sérstöðu, Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin þjónar stórum hópi mjög ólíkra notenda og í gegnum slíkt starf safnast saman mikil þekking á þeim hugbúnaði sem verið er að nota hverju sinni við afar ólíkar aðstæður.

Af reynslu okkar, og starfsfélaga okkar að dæma, þá stöndum við okkur mun betur á Íslandi en við höfum gert okkur grein fyrir, a.m.k. í samanburði við álíka þjónustustofnanir erlendis, og var mjög ánægjulegt að uppgötva það á árinu.

Það þýðir alls ekki að ekki megi gott bæta, og að starfsemi okkar sé óaðfinnanleg, því fer fjarri, en hins vegar er jákvætt og gott að gera sér grein fyrir að við erum ekki langt á eftir öðrum löndum þegar magn og gæði þjónustu er skoðað.

Stærsta uppgötvun ársins, að okkar mati, er að við höfum ýmislegt fram að færa á alþjóðavettvangi, að fólk erlendis hefur á huga á því sem við höfum fram að færa ef við setjum það fram á skipulegan hátt, og að við getum haft áhrif, að einhverju leyti, á framþróun staðla og hugbúnaðar sem veitir notendum okkar betra aðgengi að upplýsingatækni til framtíðar.

Vissulega megum við ekki alveg gleyma okkur, og við þurfum að sinna okkar daglegu störfum af bestu getu, en áhugi okkar hefur kveiknað á framþróun, stöðlun, alþjóðlegri samvinnu, þekkingaröflun og þekkingarmiðlun á sviði alþjóðasamfélags aðgengilegrar upplýsingatækni. Við vonumst til þess að árið 2011 verði gott ár í því samhengi og að Ísland komist á kortið þegar menn ræða um nýtingu og framþróun hugbúnaðar fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga.

Hvort sem við höfum rétt fyrir okkur eður ei með áhuga útlendinga á því sem við höfum að segja, er alveg á hreinu að það borgar sig að fylgjast vel með nýustu tækni og þróun og það skilar bæði hagræðingu og betri reynslu okkar notendum til handa.

Við óskum öllum notendum vorum gleðilegs árs og vonumst til þess að samsvarandi pistill í lok 2011 verði lengri og viðameiri og fullur af spennandi tilkynningum um framþróun í aðgengistækni.

Hann verður það, ef við fáum einhverju um það ráðið.

Stöðlun hugbúnaðar, skilningur á þörfum blindra og sjónskertra notenda, og bætt samskipti milli aðila sem vinna að svipuðum verkefnum er lykillinn að bættri framtíð hvað varðar tölvuaðgengi, og okkur langar að vera í fremstu víglínu þegar að þessum hlutum kemur, ekki bara á þessu ári, heldur einnig í framtíðinni.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi
 

Til baka