Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
27. janúar 2011

Topp 10 listinn, yfir merkilega viðburði í aðgengistæknigeiranum á liðnu ári.

Hér birtum við, í lauslegri þýðingu ásamt athugasemdum, topp 10 listann yfir merkilegustu viðburði ársins 2010 í heimi aðgengistækninnar. Listinn er tekinn saman af Paul Ranger, en hann er sjálfstæður bloggari sem skrifar um aðgengistækni á Ranger's Station Blog,  Jamie Pauls sem er einn helsti sérfræðingur ACB (American Counsil for the Blind), ein þriggja helstu blindrasamtaka Bandaríkjanna, Rick Harmon frá BlindGeekZone, sem er tæknisíða fyrir blinda og sjónskerta áhugamenn auk J.J. Meddaugh, forsprakka ATGuys.com og BlindBargains.com, en hann bæði skrifar um, og selur, aðgengistækni af ýmsum toga:

10. Óvænt og ótímabær endalok WayFinder Access forritsins.

WayFinder Access, sem var GPS forrit fyrir Nokia síma, var um margt merkilegt. Það var eitt fyrsta forrit frá framleiðanda sem sérhæfði sig ekki í framleiðslu fyrir blinda, en vildi búa til nothæft forrit fyrir blinda vegfarendur. Forritið var mun ódýrara en sambærilegar lausnir og hafði einnig þann stóra kost að keyra á Nokia símum frekar en á stórum og rándýrum lófatölvum sérsmíðuðum fyrir blinda notendur.

Í janúar 2010, keypti Vodafone risinn WayFinder hugbúnaðarforritið og voru dagar þess þá taldir. Stuttu eftir kaupin var WayFinder notendum tilkynnt að vefþjóni WayFinder yrði lokað og þróun forritsins hætt.

Þetta undirstrikar að mörgu leyti hættu sem fylgir skýhugbúnaði "cloud computing" því um leið og vefþjóni er lokað verður forritið algjörlega gagnslaust notendum.

Það sem gerir þessa sögu enn fréttnæmari voru öflug og skipulögð mótmæli notenda þar sem vel yfir 2000 manns skrifuðu undir áskorun um að allir notendur fengju forritsið endurgreitt að fullu. Einn forsprakki þessarar undirskriftarsöfnunar var góðkunningi minn frá Hollandi, Tim T'Welt að nafni og ber ég mikla virðingu fyrir framgöngu hans í þessu máli.

Vissulega hefur CodeFactory gert sitt besta með því að gera Ovi kortin aðgengileg með Mobilespeak, en notendur sem vel þekkja til segja að forritið sé enn varla svipur hjá sjón miðað við hvernig WayFinder Access virkaði.

Því miður fengu engir notendur á Íslandi að kynnast WayFinder, svo þetta hefur lítil áhrif hérlendis.

9. DocuScan plús lausnin frá Serotek, fyrsta skannalausnin sem lifir og hrærist í skýinu.

Menn eru svo sannarlega í skýunum þessa daganna, a.m.k. þar sem snýr að hugbúnaði.
Sem dæmi um þetta má nefna nýja skannforritið frá Serotek. Það er um margt frábrugðið þeim hefðbundnu skannaforritum sem við eigum að venjast.

Það keyrir í skýinu þ.e.a.s. í tölvuveri og á vélbúnaði Serotek fyrirtækisins. Notandi tekur mynd af texta og hún er send til Serotek ásamt stillingum um í hvaða skjalsniði notandinn vill fá textann til baka. Einnig er hægt að geyma skjölin á vefþjóni Serotek og skoða þau með hvaða nettengingu sem er, þó þeim sem treysta ekki öryggi gagna á netinu bjóðist einnig sá kostur að fá geyma skjölin eingöngu í sínum tölvum eða símum.

Í raun er þetta ekki svo ósvipað því sem Robobraillemenn í Danmörku eru að gera, en tækni Serotek á að vera mun betri og jafnast á við dýrustu skannforritin frá Freedom Scientific og Kurzweil.

Helsti kostur þessarar lausnar kemur þó í raun ekki fullkomlega í ljós fyrr enn á þessu ári þegar útgáfur sem keyra á Nokia símum, iPhone símum og öðrum snjalltækjum eiga að líta dagsins ljós. Búist er við iPhone útgáfu í byrjun marsmánaðar.

Serotek hefur hafið samstarf við PathWay Innovations and Technologies, fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð myndavéla fyrir skjöl og kvittanir, þannig að búist er við að hægt sé að para saman hágæða skjalamyndavél og fyrsta flokks skannforrit.

Kostnaðurinn við DocuScan Plús forritið er um 300 dollarar, eða 40000 kr, sem er mun ódýrara en mörg önnur forrit af svipuðum toga, og einnig þarf ekki öfluga tölvu til þess að skanna inn texta, einungis nettengingu og skanna eða myndavél.

Vissulega virkar Omnipage fínt á borðtölvum með skanna og er ódýrara en Docuscan Plús svo við förum ekki að sjá kostina við Docuscan fyrr en lausnir koma á markað fyrir síma og myndavélar.

8. Aðgengishugbúnaður í áskrift.

Enn og aftur ríður Serotek á vaðið og eru nú farnir að bjóða forritspakka í áskrift. Í stað þess að kaupa System Access skjálesarann og kaupa svo uppfærslur þegar þær koma út, býður Serotek notendum upp á að gerast áskrifendur og leigja skjálesarann gegn mánaðargreiðslum sem samsvara um 1200 krónum. Innifalið í leigunni er öll þjónusta og uppfærslur. Einnig er hægt að pakka saman öðrum forritum Serotek og búa til forritapakka til leigu. Þetta gefur notendum tækifæri til þess að prófa ný forrit í skemmri tíma án þess að skuldbinda sig eða greiða formúgu fyrir og þannig geta notendur fundið það sem þeim hentar best á mun skemmri tíma en áður, þar sem fólk hefur skuldbundið sig með kaupum á hugbúnaði upp á fleiri hundruð þúsunda króna. Vissulega er System Access skjálesari fyrirtækisins ekkert spes, og okkur fannst NVDA skjálesarinn álíka góður eða betri. En hugmynd Serotek er snjöll og við vonumst til þess að hún breiðist út og að notendur gætu farið að sjá álíka kosti fyrir Jaws, Hal og aðra skjálesara í framtíðinni. Þannig væri hægt að leigja þann skjálesara sem hentar notanda best við það sem hann er að gera í vinnu og svo annan til heimabrúks Einnig gætu notendur prófað mismunandi skjálesara áður en þeir ákveða hver er í uppáhaldi.

Við sjáum þetta nú ekki fyrir okkur í náinni framtíð þar sem Hal, Jaws og fleiri forritum er dreift í gegnum net dreifingaraðila sem rukka mismunandi verð fyrir forritin eftir staðsetningu, en það er einmitt markaðsmódelið sem við vonumst til að breytist með tilkomu þessara kosta. Það er ekkert að því að selja forrit og veita stuðning, en okkur finnst mjög furðulegt að hægt sé að réttlæta mismunandi grunnverð á Jaws í Svíþjóð eða í Bandaríkjunum og okkur fyndist einnig eðlilegt að hvaða fyrirtæki sem er gæti farið að selja aðgengishubúnað frá hverjum sem er, svo lengi sem þau uppfylla skilyrði um sérþekkingu og geta veitt þann stuðning sem þarf til að þjónusta kaupendur.

7. Skin og skúrir í Android aðgengi.

Android stýrikerfið frá Google nýtur síaukinna vinsælda á almennum markaði, og er það farið að birtast á æ fleiri símtækjum frá hinum ýmsu framleiðendum.

Því miður er ekki hægt að fullyrða slíkt um aðgengi blindra og sjónskertra notenda að kerfinu, eins og við fjölluðum um nýlega.

Sumir símar eru tiltölulega aðgengilegir, þeir sem eru ekki með snertiskjái, einnig eru komin aðgengileg GPS forrit og tveir skjálesarar sem veita notendum sumra gerða af Android símum takmarkað aðgengi að símanum, en þó er óhætt að segja að Android eigi enn langt í land.

Jákvæð teikn eru þó á lofti strax í byrjun árs 2011. Code Factory, framleiðandi MobileSpeak, hefur auglýst eftir notendum til að prófa nýtt forrit fyrir Android. Þeir vilja ekkert um það segja hvort það sé skjálesari, GPS forrit, eða eitthvað annað, en eitt er víst að forritið verður aðgengilegt og vonandi byltingarkennt, við eigum góðu að venjast frá CodeFactory. Við vonum því enn hið besta.

6. Aðgengi og Apple.

Apple tók toppsæti aðgengislistans árið 2009 með VoiceOver á iPhone 3GS símum. Þeir hafa fylgt því eftir af kappi á þessu ári og VoiceOver hefur birst á iPod Nano mp3 spilurunum, Apple TV sjónvarpsjaðartækinu, iPad snjalltölvunni og nýjum útgáfum bæði iPhone símanna og iPod Touch snjalltækjanna.

Einnig hefur stuðningur við Bluetooth punktaletursskjái og lyklaborð, auk lyklaborðsstuðnings fyrir VoiceOver verið bætt við á árinu, og kunnum við að sjálfsögðu Apple þakkir fyrir það. Apple TV er lítið tæki sem tengist við sjónvarp og þráðlaust net, og í gegnum það er hægt að sækja sér efni frá YouTube, NetFlix og iTunes, svo sem myndir, sjónvarpsþætti og fleira. VoiceOver virkar bara furðuvel á þessu tæki, þó það sé nokkuð seinvirkt, en þetta er óneitanlega ákveðin bylting fyrir þá sem vilja horfa á ákveðna sjónvarpsþætti og eru ekki spentir fyrir dagskrá RÚV.

Apple hefur reyndar sína galla og ber þar helst að nefna tvennt sem veldur fólki áhyggjum:

1. Forrit og stýrikerfi Apple eru mjög lokuð og fyrirtækið hefur mikla stjórn á hvernig þeim er dreift. Einnig er mun meiri áhersla á skemmtanagildi forritana en notagildi þeirra þ.e.a.s. Apple styðja kvikmyndastreymi og FaceBook, miklu betur en reiknivélar, töflureikna og önnur vinnsluforrit sem gagnast við vinnu og nám. 

2. Apple hefur sótt um einkaleyfi fyrir öllu sem fyrirtækið gerir þ.á m. einkaleyfi á aðgengislausnum fyrir snertiskjái. Þetta gæti hamlað, og jafnvel alveg komið í veg fyrir, þróun svipaðra lausna frá öðrum fyrirtækjum ss Google eða CodeFactory, og veldur þetta notendum miklum áhyggjum.

5. Andlát Torsten Brands.

Það eru ekki nema tiltölulega fá ár síðan hugmyndir um talandi farsíma virtust meira í anda vísindaskáldskapar en raunveruleika. Þær stórkostlegu breytingar sem hafa orðið á þessu hófust með hugsjón Torstens Brands. Hann fór að fikta með Nokia 9290 Navigator símann og að búa til forrit til að setja upp tal á símann. Úr þessu varð til Talks skjálesarinn, sem síðar var keyptur af Nuance fyrirtækinu.

Brand sýndi fram á að hægt væri að veita svipað aðgengi að forritum á símum eins og gert hafði verið á tölvum, og við munum njóta uppfinningargleði og hugsjónar þessa manns um ókominn ár. Því miður dó Torsten óvænt eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð á vormánuðum 2010. Verður hans sárt saknað í aðgengistækniheiminum.

4. Amazon Kindle rafbókalesarinn og aðgengið, sem svo var ekki til staðar.

Rafbækur eru miðill framtíðarinnar. Þær geta veitt blindum notendum aðgengi að efni á sama tíma, og á sama miðli og sjáandi notendum.

Þar eð efni bókanna er geymt og sett fram rafrænt er engin ástæða til þess að þetta sé ekki tæknilega gerlegt.Til þess að þetta gangi upp þarf hins vegar að taka tillit til blindra notenda þegar þeir staðlar og þau tæki sem styðja rafbækur eru hönnuð.

Fyrsta tækið sem markaðssett hefur verið með miklum vinsældum er Kindle lestækið frá Amazon. Mikið var gert úr því þegar fréttist að við hönnun tækisins hafi verið tekið tillit til blindra notenda og tal hafi verið sett upp á tækinu, bæði í valmdynun og afspilun bóka.

Niðurstaðan var ekki alveg svo jákæð, þó vissulega séu jákvæð teikn á lofti. Sem dæmi má nefna að ekki er hægt að kveikja á tali Kindletækisins án sjáandi aðstoðar og einnig er mjög takmarkað úrval bóka sem hægt er að hlusta á. Stór hluti ástæðunar liggur í deilu um höfundarrétt, en höfundasamtök vestanhafs halda því fram að aukalega þurfi að greiða fyrir hljóðbók þar sem bók á hljóðrænu formi heyri undir annars konar höfundarétt en prentbækur.

Niðurstaðan var sú að höfundar og útgefendur stjórna því sjálfir hvort hægt sé að kveikja á hljóðlestri á Kindletækinu frá hverjum titli fyrir sig, og hefur um þriðjungur vinsælustu bóka á Amazon verið aðgengilegur.

Þessi deila leiddi þó til þess að yfirmaður menntamála í Bandaríkjunum ritaði bréf til allra háskóla landsins og bannaði þeim að nota Kindle tækið og bækur, nema þær hafi verið gerðar fullkomlega aðgengilegar á annan hátt, annað væri mismunun fyrir blinda nemendur.
Ef blindir notendur eru hafðir með í ráðum við næstu uppfærslu Kindletækisins og ef tekst að leysa höfundarréttardeilu við útgefendur, getur það þýtt risaskref fram á við í aðgengi blindra nemenda að rafbókum á þessum miðli.

Rafbókum og afspilunarmöguleikum verða gerð ítarleg skil í tæknimolum 2011.

3. Skilnaðurinn frægi!

Það þykir oft fréttnæmt þegar stórstjörnur skilja að borði og sæng og er aðgengistæknigeirinn þar engin undantekning.

Í þetta skiptið er þó ekki um eiginlegan skilnað að ræða, heldur aðskilnað GW Micro, framleiðanda Window Eyes skjálesarans, og Hims, fyrirtækisins sem hannar lófatölvur, Daisyspilara og fleiri aðgengisgræjur sem seldar hafa verið undir merkjum hins fyrrnefnda. Nægir þar að nefna Booksense Daisyspilarann, BrailleSense og VoiceSense lófatölvurnar.

Þessi skilnaður mun þó lítið koma við íslenska notendur þar sem búnaður GW Micro fyrirtækisins hefur ekki notið mikilla vinsælda á Íslandi og sjáum við ekki fram á að sérstakar breytingar verði þar á, þar eð við teljum að Window Eyes skjálesarinn hafi upp á lítið að bjóða umfram Jaws eða Hal fyrir svipað verð, og að iPad og aðrar aðgengilegar lófatölvur séu mun ódýrari og betri fjárfesting en lófatölvur hannaðar sérstaklega fyrir blinda notendur, nema ef um mjög sérstakar aðstæður sé að ræða. En BrailleNote frá Humanware, PacMate frá Freedom Scientific, Pronto frá Baum og álíka tæki frá Papenmeier og EuroBraille eru af svipiuðum toga og sum þeirra hafa verið notuð á Íslandi.

2. Blio klúðrið mikla.

Sjálfsagt vita margir að Kurzweil fyrirtækið var fyrsta fyrirtækið til að finna upp skanna sem gat breytt prentuðu efni yfir í rafrænan texta. Uppfinningin var hugsuð fyrir blinda notendur en fólk var fljótt að koma auga á aðra möguleika sem lausnin bauð upp á, svo sem að geyma kvittanir á rafrænu formi og losa sig við pappírsfargan ýmiskonar. Alveg síðan á áttunda áratugnum hefur Kurzweil hlotið mika virðingu meðal blindra notenda og fagmanna. Fyrir þremur árum kom skannforrit fyrir Nokia síma sem heitir K-NFB lesarinn, en með forritinu var hægt að taka myndir af matseðlum og öðru efni með myndavél Nokiasíma og fá textann lesinn eða vistaðan í rafræna skrá.

Því varð uppi fótur og fit þegar Kurzweil hugðist, ásamt NFB, bandarísku blindrasamtökunum, búa til græju fyrir rafbækur með aðgengi að augnamiði sem einnig yrði vinsæl meðal sjáandi notenda. Allar bækur Google-safnsins, auk tugþunda annarra titla, skyldu vera fáanlegar á aðgengilegan hátt og helsta bylting í aðgengi blindra að bókum var í uppsiglingu. Fullt var út úr dyrum á kynningu Kurzweil á ATIA sýningunni í janúar og var Blio þá lofað í febrúar. En febrúar kom og leið, og ekki bara febrúar heldur mars, apríl, maí og allt sumarið. Loks kom Blio lesarinn á markað í lok septembermánaðar. En, viti menn, aðgengi var ekki hluti af fyrstu útgáfi Blio-tækisins. Það er mikið rétt, fyrirtæki í samvinnu frumkvöðuls aðgengistækni og bandarísku blindrasamtakana lét aðgengi sitja á hakanum. Það eru engin ofmæli að heldur þótti þunnur þrettándinn meðal blindra notenda og spurðu menn sig hvernig það myndi leggjast í sjáandi notendur ef rafbókalesari kæmi á markað með engan skjá.

Kurzweil voru fljótir til og lofuðu því að aðgengi yrði komið í uppfærslu í lok október. En október leið, og nóvember, og desember, og nú hefur hálfur janúar 2011 liðið hjá, og ekkert bólar á Blio með aðgengistækninni.

Á meðan hafa iBooks frá Apple, Kindlebækur frá Amazon og OpenLibrary titlar litið dagsins ljós með allnokkur aðgengi, vissulega betra aðgengi en Blio býður upp á. Svo nú hrista menn hausinn þegar minnst er á Kurzweil og andvarpa og telja flestir að þó aðgengi kæmi í Blio lesarann strax í dag sé það einfaldlega orðið of seint og fólk er farið að leita annað.

Hvernig þetta stórverkefni klúðraðist er líklega leyndardómur sem aldrei fæst upplýstur að fullu, en vissulega eru þessi vonbrigði með stærstu viðburðum ársins 2010.

1. Microsoft og Windows Phone 7 stýrikerfið

Í raun var engin ein frétt sem bar höfuð og herðar yfir aðrar á árinu 2010, en flest atkvæði fékk sagan af Windows Phone 7 stýrikerfinu frá Microsoft og að þeir sögðu einfaldlega að þeir hefðu ekkert gert fyrir aðgengi þegar lagt var upp með það, og að ekkert gerist í því fyrr enn eftir eitt til tvö ár.

Sumir segja reyndar að þetta skipti líklega litlu máli þar sem stýrikerfið á undir högg að sækja almennt og hljómgrunnur meðal símaframleiðenda er afar lítill, áætlað að um 5% síma keyri Windows Mobile 6.5 eða Windows Phone 7 eins og er.

Það er svo sem ekki að Microsoft séu endilega mikið verri en mörg önnur fyrirtæki, heldur undirstrikar þetta í raun hversu langt er enn eftir þar til fyrirtæki taka aðgengi alvarlega.

Það gleymist oft að það tók tvö ár áður en Apple gerði eitthvað í aðgengismálum og rúmlega ár þangað til Google gerði slíkt hið sama (síðan þá hefur Apple staðið sig afar vel en við bíðum eftir útspili Google).

Hins vegar eru þetta samt ekki jákvæðar fréttir fyrir stærsta hugbúnaðarframleiðanda heims, með heila aðgengisdeild, sem virðist hafa afar lítil völd innan fyrirtækisins.

Ef aðgengi verður komið á Windows Phone 7 símanna eftir eitt til tvö ár er þegar búið að skrifa öll helstu forrit sem keyra á þeim, án tillits til aðgengis, svo hætt er við að aðgengi að þessum símum verði verulega ábótavant um allnokkurt skeið eftir það.

Í umræðum um efnið hafa menn reyndar bennt á að bandarísku blindrasamtökin geti sjálfum sér um kennt, þar sem þau beittu Microsoft miklum þrýstingi á sínum tíma að gera Narrator skjálesarann í Windows 2000 afar takmarkaðan svo hann myndi ekki taka markaðshlutdeild frá aðgengishugbúnaðarframleiðendum eins og Freedom Scientific og GW Micro. Segja sumir að þetta sé uppskeran af þeirri vinnu og Microsoft hafi gefið aðgengisvinnu upp á bátinn að beiðni samtakanna.

Við endum því þessa samantekt á þessum samsæriskenndu nótum.

Árið 2010 hefur ekki verið dans á rósum í aðgengismálum. Vissulega voru greinilegar framfarir á sumum sviðum, en annars staðar virðist sem aðgengi hafi farið aftur. Við vonumst til með að geta fært ykkur jákvæðari mola fyrir árið sem nú gengur í garð.

Birkir Rúnar Gunnarsson ráðgjafi

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka