Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
8. mars 2011

Symbian-stýrikerfið er að hverfa á brott, Nokia og Microsoft gera samkomulag um að nota Microsoft-stýrikerfi á Nokia-síma.

Symbian-stýrikerfið er að hverfa á brott, Nokia og Microsoft gera samkomulag um að nota Microsoft-stýrikerfi á Nokia-síma.

11. febrúar síðastliðinn tilkynntu Nokia og Microsoft um stóraukna samvinnu á sviði farsíma. Windows Phone 7 stýrikerfið verður notað á símum frá Nokia í framtíðinni og Microsoft Market Place verður gert að miðstöð fyrir öll forrit sem hægt er að kaupa fyrir þessa síma. Úr tilkynningunni má lesa að Symbian-stýrikerfið, sem Nokia hefur notað í flesta sína síma á síðustu árum, sé liðið undir lok og á leið út úr hugbúnaðarheiminum.

Þessi tilkynning kemur fáum sérfræðingum á óvart og búið var að spá þessari þróun strax á árinu 2009. Nokia hefur ekki tekist að gera símana sína spennandi og Apple og Google hafa tekið upp æ stærri hluta, bæði af símamarkaðnum og markaði fyrir forrit, leiki og annan hugbúnað, en stutt er síðan fjöldi forrita sem sótt voru í gegnum iTunes-vefsíðna náði 10 milljörðum.

Bæði Nokia og Microsoft hefur mistekist allhrapalega að ná athygli fjöldans og því er eðlilegt að þessi tvö fyrirtæki sameinist og samnýti þekkingu og krafta sína, þekkingu Nokia á símum og þekkingu Microsoft á auglýsingum, leit og hugbúnaði.

Eins og við fjölluðum um nýlega er frammistaða Microsoft hvað varðar aðgengi að Windows Phone 7 til háborinnar skammar og eru þetta því, a.m.k. í fljótu bragði, ekki góðar fréttir fyrir aðgengi blindra notenda að farsímum, en á móti kemur að CodeFactory, framleiðandi MobileSpeak, er þegar farið að gefa til kynna að áhersla verði lögð á Android-stýrikerfið og aðgengi að því og má búast við að annaðhvort komi góðar aðgengislausnir fyrir Android á markaðinn, eða Microsoft taki sig saman í andlitinu og standi sig í aðgengismálum eins og Apple hefur sýnt og sannað að hægt sé að gera.

Þeim sem njóta þess að halda tólum frá Nokia í hendi sér vottum við samúð okkar og bendum á að hugbúnaðarskipti geta tekið nokkra mánuði og jafnvel nokkur ár, svo óþarfi er að henda símunum í ruslið alveg strax.

En við vonumst til þess að aukin samkeppni milli færri framleiðenda leiði til betra aðgengis fyrir alla og að þessi frétt reynist jákvæð þegar til lengri tíma er litið þó vissulega valdi þetta ákveðnum áhyggjum.
 
Meira má lesa um tilkynningu Nokia og Microsoft hér:
http://www.intomobile.com/2011/02/11/nokia-and-microsoft-announce-partnership-to-bring-windows-phone-to-nokia-handsets/

Lesa má grein frá 2009 um vandræði Nokia hér: http://www.mobileindustryreview.com/2009/10/the-future-is-dire-for-nokia-symbian-applications-dead-by-2012.html

Birkir Gunnarsson ráðgjafi
 

Til baka