Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
5. apríl 2011

Ferðamál

Hvíti stafurinn er alþjóðlegt tákn blindra og sjónskertra. Þeir sem ekki nota hvíta stafinn að jafnaði geta fengið svokallaðan merkistaf að láni hjá Miðstöðinni. Merkistafurinn er stuttur, samanbrjótanlegur stafur sem auðvelt er að taka fram þegar þörf er á og gefur öðrum í umhverfinu upplýsingar um að viðkomandi sé sjónskertur. Við öryggisleit er tekið tillit til þess að stafurinn er hjálpartæki og er hann því leyfður um borð í flugvélum.

Barmmerki er annað auðkenni en á því er mynd af einstaklingi með hvítan staf. Barmmerkin eru fáanleg hjá Blindrafélaginu.

Sjónaukar eru hjálpartæki sem Miðstöðin úthlutar. Þeir geta gert sjónskertum einstaklingum kleift að sjá á ýmis skilti og skjái sem veita upplýsingar um komur og brottfarir.

Blindir og sjónskertir eiga rétt á þjónustu í flughöfnum samkvæmt Evrópureglugerð. Aðstoð er veitt samkvæmt óskum, svo sem við innritun, við öryggisleit og fylgd gegnum flugstöðina. Ekki er greitt sérstaklega fyrir þessa þjónustu. Best er að óska eftir aðstoð strax við bókun flugs til þess að forðast tafir þegar komið er á flugvöllinn.

Farþegar geta sótt um aðstoð hjá farmiðasölum og flugrekendum. Einnig er hægt að óska aðstoðar í þjónustusíma 425 6500, senda á netfangið prm@kefairport.is eða sækja um á netinu www.kefairport.is  Alltaf þarf að sækja um með minnst 48 klukkustunda fyrirvara.

Mikilvægt er að taka fram hvernig aðstoðar er þörf. Taka þarf fram upplýsingar um blindu eða sjónskerðingu, hvort farþegi getur gengið upp og niður stiga, getur gengið stuttar vegalengdir eða hvort farþegi notar eigin hjólastól (venjulegan eða rafknúinn). Einnig þarf að taka fram flugnúmer og dagsetningu flugs, og bókunarnúmer farseðils.

 

Til baka