Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
20. apríl 2011

Áhugaverðar nýjungar í JAWS 12

Freedom Scientific var með kynningu á CSUN í ár um nokkrar af þeim nýjungum sem er að finna í útgáfu 12 af JAWS (Job Access With Speech). Ég ætla að fara yfir hvað mér þótti helst áhugavert af þessum þáttum.

Stærsta breytingin í útgáfu 12 er hið svokallaða Settings Center, sem kemur í staðinn fyrir Configuration Manager stjórnborðið. Í Settings Center er búið að taka saman öll stjórntæki JAWS og setja þau á einn stað – með einni, stórri, markverðri breytingu. Það er leitarreiturinn sem er innbyggður í Settings Center. Þegar Settings Center er opnað – JAWS lykillinn+F2 – þá er fókusinn sjálfkrafa í leitarreitnum, sem vinnur eins og leitarreiturinn sem er í Start/Ræsa-hnappinum í Windows 7 tölvum. Þetta þýðir að þú byrjar að skrifa nafnið á stjórntækinu sem þú ætlar að vinna með og niðurstöðurnar birtast strax í reit fyrir neðan sem farið er í með TAB/Dálklyklinum. Sem dæmi gæti ég byrjað að skrifa Verbosity, jafnvel bara fyrstu þrjá til fjóra stafina í orðinu, og þá birtist í reitnum fyrir neðan öll stjórntæki sem hafa með Verbosity að gera. Verbosity hefur verið þýtt sem mælgi á íslensku og segir til um hversu mikið af upplýsingum skjálesarinn gefur okkur. Það er nokkuð algengt að nýir notendur aðgengishugbúnaðar, eins og JAWS, lendi í vandræðum með að finna stjórntækin sem gera þeim kleift að aðlaga þær stillingar sem þeir eru að leita eftir. Núna er þetta vandamál í raun úr sögunni. Það er spurning hvort Dolphin Computer Access verði komnir með þennan eiginleika í næstu útgáfu af Supernova, það kæmi mér í sjálfu sér ekki á óvart því þeir eru að jafnaði einu ári á eftir í nýjungum sem þessum og kom það fram eina ferðina enn í ár á CSUN, en við víkjum að því síðar í þessum pistli.

Næsta atriði sem við skulum skoða eru Virtual Ribbons. Hvað er nú það, kynni einhver að spyrja sig? Einhvers staðar milli 2003 og 2007 fékk hugbúnaðarsérfræðingur hjá Microsoft þá frábæru hugmynd að bæta aðgengi músarnotenda að fellivalmyndunum í Office forritunum, t.d. Word, Powerpoint, Outlook o.s.frv. Markmiðið var að sýna í raun meira af innihaldi File, Edit, View og þeirra valmynda þannig að blessuðu músarnotendurnir þyrftu nú ekki að hafa fyrir því að leita eins mikið að þeim verkfærum sem þá vantaði. Þannig urðu til svokallaðir Ribbons, eða borðar. Í stað File, Edit og View, fengum við nú nokkra flipa hlið við hlið efst á skjánum sem liggja á borða sem fer lárétt, efst, yfir skjáinn. Inni í hverjum flipa fyrir sig eru síðan verkfærin sem áður voru geymd í fellivalmyndunum, sem var nú nokkuð þægilegt að nota. Í sjálfu sér væri þetta kannski í lagi ef ég gæti notað sömu lykla til að fara milli þessara flipa og innihalds þeirra – en það er ekki hægt að gera á rökréttan hátt.

Ef stutt er á ALT-lykilinn er ég kominn í flipann Home og ég get stutt á Enter/Færslulykilinn til að fara inn í þann flipa og farið yfir innihald hans. Vandamálið kemur hérna fram, því ég get ekki notað örvalykil niður til að lesa allt innihald flipans vegna þess að verkfærin eru sett upp bæði hlið við hlið sem og fyrir neðan hvert annað. Það er ekki hægt að nota bara örvalykil niður til að lesa allt innihaldið, því er afar auðvelt að fara framhjá því sem verið er að leita að, sem er mjög pirrandi! Það sem ætti að vera hægt, væri því að geta ferðast um þennan borða og alla flipana í honum á sama rökrétta hátt og hægt var að ferðast um fellivalmyndirnar, þ.e. með ALT-lyklinum og örvalyklum upp og niður. Það er nákvæmlega það sem Freedom Scientific hefur gert í JAWS 12, en það kalla þeir Virtual Ribbons sem gæti þá útlagst sem sýndarborðar. Með því að hafa virkjaðan Virtual Ribbons eiginleikann í JAWS 12 geturðu ferðast um borðann á nánast sama hátt og áður með fellivalmyndunum, með nokkrum jákvæðum viðbótum. Hver hefur ekki lent í því að vera að vinna í Word-skjali, ætlað sér að til dæmis miðjujafna textann í skjalinu og óvart valið hægri jöfnun, eða breytt leturgerðinni óvart í valkostinn fyrir neðan þann sem ætlað var að velja? Þetta er einfalt að laga í dag með Virtual Ribbons og ástæðan er þessi; ef þú studdir á ALT einu sinni í fellivalmyndunum í eldri útgáfum varstu alltaf fluttur í File/Skrá valmyndina og varðst síðan að vinna þig þaðan.
Þetta þýddi að ef þú ætlaðir svo að vinna þig þaðan að til dæmis miðjujöfnun á texta eiginleikanum í Word þá hefðirðu þurft að styðja þó nokkrum sinnum á örvalykla til að komast á réttan stað. En í Virtual Ribbons er þetta ekki svona því ef þú hefur, svo við höldum okkur nú við sama dæmið, breytt textajöfnun í Virtual Ribbons viðmótinu – ferð í skjalið sjálfkrafa með því að styðja á Enter/Færslulykil til að staðfesta, og kemst svo að raun um að þú gerðir mistök og vildir ekki jafna textann á þennan hátt, þá styðjum við aftur á ALT og erum flutt á sama stað og við vorum á! Já, fókusinn fer sjálfkrafa aftur á nákvæmlega sama stjórntæki, ef þú vilt ekki vera staðsettur þar þá styður þú á Escape/Lausnarlykilinn til að fara upp úr flipanum og fara aftur á upphafsreit í borðanum. JAWS notendur þurfa hreinlega að prófa þetta, ef þeir hafa aðstöðu til, því ég er á því að með þessari breytingu þá sé stjórnborðið í týpískum MS Office forritum einfaldlega orðið þægilegra í notkun en það var áður. Stór orð, en ég stend við þau. Virtual Ribbons er ansi sniðug aðgerð.

Textagreinir (e. Text analyser) gæti verið íslenska þýðingin, vinnur með textaskjölum. Í mjög stuttu máli virkjum við þennan eiginleika með flýtilykli, ALT+Windows+I, og JAWS finnur alla staði í skjalinu þar sem um mismunandi leturgerð er að ræða (s.s. mörgum leturgerðum blandað saman í einu skjali), ólokaðir svigar eru til staðar, mismunandi litir o.þ.h. Þetta þýðir að við erum nú komin með eiginleika sem les yfir textann fyrir okkur og lætur vita hvort uppsetningin sé ekki eins og við viljum hafa hana.

Dæmi um hvenær þetta gæti verið handhægt er ef við erum að afrita texta úr öðru skjali eða af vefsíðu og líma hann svo í okkar skjal. Hér er algengast að mismunandi leturgerðir komi inn í skjalið, því það er alveg eins líklegt að sá sem skrifaði skjalið sem afritað er úr hafi ekki notað sömu leturgerð og/eða liti og við, þar með er komið ósamræmi í textann sem fæstir myndu vilja senda frá sér. Handhægt verkfæri, ekki satt?

Það síðasta sem ég ætla benda á er JAWS verkfæri sem kom fyrst út í útgáfu 11, en það heitir Research it eða „Rannsakaðu það“. Freedom Scientific vildi sameina leit á vefnum og ýmsa aðra virkni í einn glugga til að spara notendum sporin, ef svo mætti að orði komast. Tökum dæmi, þú ert að velta fyrir þér hvernig veðrið er í Flórída. Þá notarðu Research It til að sækja þær upplýsingar án þess að opna vefsíðu. Í staðinn færðu upplýsingarnar birtar í lítinn textaglugga þar sem eingöngu textinn birtist á skjánum, engar myndir eða auglýsingar eða þess háttar. Research it fer á netið á bak við tjöldin, sækir upplýsingarnar og birtir þær fyrir þig í þessum textaglugga sem JAWS les. Internet Explorer var aldrei opnaður!

Tökum annað dæmi, þú ert að velta fyrir þér hvort að flugvélinni, sem þú átt bókað far með á eftir frá Chicago til New York, hafi nokkuð seinkað. Þú ferð því í Research it, slærð inn flugnúmerið þitt og segir Research it að leita eftir flugvélum, þar með færðu birtar upplýsingar um allar tímasetningar og fleira sem tengist þessu flugi. Með því að styðja á flýtilykil kallar þú fram glugga þar sem þú ert sjálfkrafa staðsettur í leitarreit. Svo við höldum okkur nú við flugnúmerið síðan áðan, þá sláum við inn flugnúmerið í leitarreitinn, styðjum einu sinni á TAB/Dálklykilinn, og veljum síðan Flight í lóðréttum lista sem er fyrir neðan reitinn. Þar með erum við búin að skilgreina hvaða leitarflokk við viljum að leitin einskorðist við. Það eru margir flokkar í boði, mjög margir, allt frá veforðabókum yfir í heilsufarsupplýsingar. Það er bara þitt að skoða hvernig þú telur að Research it geti nýst þér.

En ég talaði um það áðan að Dolphin Computer Acess væri yfirleitt ári á eftir með nýjungar, miðað við JAWS. Research it er ágætis dæmi um þetta, því í útgáfu 12 af Supernova Screen Reader er komið inn nýtt verkfæri sem heitir Dolphin Launch Pad, eða Dolphin-ræsispjaldið á íslensku, sem býður upp á svipaða möguleika og Research it, þó kannski svolítið takmarkaðri.

Það eru í sjálfu sér fleiri atriði sem eru ný í JAWS 12, en þessi þóttu mér hvað áhugaverðust.

Hlynur Már Hreinsson ráðgjafi

Til baka